fimmtudagur, 30. apríl 2015

Landnám: Hvaðan komum við, hvert ætlum við?

Áhugamenn um landnám hafa átt skemmtillegan vetur, þrátt fyrir veður og ófærð. Þeir hafa streymt upp í Háskóla til að hlusta á fyrirlestra um hin ýmsu svið landnáms, sögur, hugmyndir og rannsóknir, á hálfs mánaða fresti.  Flest fræðasvið hafa komið þar við sögu og kippt hefur verið fótum undan mörgum hefðbundnum hugmyndum Íslendinga. Við höfum verið of
trúgjörn á bækur og ritað mál.  Hvernig datt nokkrum manni í hug að stíga upp í smábáta og sigla af stað út á ólgandi hafið?  Það gerðu menn þó, hér myndaðist byggð þar sem menn skrimtu fram á okkar daga. Síðdegis í dag er einmitt rætt í Odda, þar eru Ármann Jakobsson og Helga Kress, þar verður örugglega andríkt og ögrandi. 

Enn eru Íslendingar á ferð um heiminn í hinu nýja landnámi.  Enn er ástandið í heimalandi voru þannig að ótal margir hugsa sér hreyfings.  Treysta sér ekki lengur til að draga fram lífið á skerinu. Vita að þeir geta haft það betra annars staðar.  Það er eins og ýmsum ráðamönnum sé alveg sama.  Þótt að ungt fólk með góða menntun þurfi að skrimta hér, íbúðakaup eru ekki fyrir neinn nema þá sem eiga peningafólk að bakhjarli.  Svo upplifir það skólafélaga og vini sem hafa lagt á hafið og eru eftir örfá ár komin á græna grein.  Þeir sem eftir eru eru gömul hró eins og ég komin á ellilífeyri, þeir sem eiga góða að og þeir sem komast hvorki lönd né strönd.  Og Ráðamenn taka alltaf málstað þeirra sem eiga að greiða laun og treysta sér aldrei að bjóða mannsæmandi kjör.  

Þannig að enn blasir spurningin við, hvaðan komum við, hvert ætlum við?  Er ekki kominn tími lesandi góður að við komum okkur saman um hið lífvænlega, ekki hið vonlausa?

Allar myndir með bloggi undirritaðs eru teknar af höfundi.  Þessi er úr Bessastaðakirkju.

miðvikudagur, 29. apríl 2015

Haukur Harðarson, Jón Steinsson og Úthlutunaraðallinn

Samkvæmt þjóðskrá er Haukur búsettur í Víetnam.
Þessi stutta málsgrein á RUV vakti athygli mína, karl sem íslenskum ráðherra  finnst ástæða að hampa fyrir valdhöfum stærsta ríkis heimsins.  Hann á ekki heima á Íslandi, ætli
einkahlutafélög hans með hlutum hans í fyrirtækjum séu líka skráð í útlöndum?  Hví eigum við að styðja við bakið á honum? Greiðir hann skatta á Íslandi?

Jón Steinsson gerir að umtalsefni í dag í Fréttablaðinu makrílfrumvarpið alræmda.  Einn liðurinn enn hjá ríkisstjórninni að festa í sessi séreinkaeign kvóta og físks í sjónum umhverfis landið.  Ef það er þjóðin sem á að fá auðlegðararðinn af útgerðinni þá getum við byggt einn Landspítala á ári!  Ef ekki þá aukum við endalaust mismunun í samfélagi okkar.  Hinir ríku verða ríkari, fátæku fátækari.  Það virðist vera hugmynd Sigmundar Davíðs og Bjarna.

Allt mun lamast næstu vikurnar í gegndarlausum verkföllum. Samtök Atvinnulífsins sem vill hafa samningaréttinn í sínum höndum og Fjármálaráðherra hafa sofið af sér allar tilraunir að undirbúa kjarabætur sem þurfti að vinna að og koma með hugmyndir til langs tíma. Þjóðarsátt er í þeirra huga sátt um það að þeir geri það sem þeim sýnist. Því er það þeirra ábyrgð þegar kerfið okkar lamast á öllum sviðum.  Þeir vinna ekki vinnu sína fyrr en allt er komið í óefni.  

Það er eins og það sé aðaltilgangur stjórnarinnar að útdeila þjóðarauðnum til vina og vandamanna meðan tími er til. Formenn stjórnarflokkanna eru óvinsælustu menn þjóðarinnar, þeim er sama um það, það eru 2 ár eftir af kjörtímabilinu.  Aðalatriðið er að úthluta, eignum þjóðarinnar. Spillingin blómstrar sem aldrei fyrr.  Úthlutunaraðallinn ræður. Meðan landið sekkur.  

mánudagur, 27. apríl 2015

Guðmundi Andra varpað á dyr

Enn sortnar yfir fjölmiðlaflórunni og ólguskýin  hlaðast upp. Eigendur pappírsfjölmiðlanna sífellt ósvífnari, ritstjórar eiga að vera þvottatuskur sem hægt er að nota í hvað sem er.  Það
hlýtur að vera erfitt að vera í vinnu hjá þessum lýð. Það er ömurlegt að vera blaðamaður í dag. Ég á það, ég má það enn allsráðandi. Einn vinsælasti pistlahöfundur landsins á ekki að þvælast fyrir eigendum.  Er verið að segja honum að hans tími sé kominn?


„Í gær skilaði ég af mér mánudagsgrein samkvæmt venju. Í blaði dagsins reyndist hins vegar köttur í bóli bjarnar.“ Þetta skrifar Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur sem skrifað hefur fasta pistla í Fréttablaðið á mánudögum um margra ára skeið, á Facebook-síðu sína í morgun. Á þeim stað sem pistill Guðmundar Andra birtast vanalega er þess í stað grein eftir Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmann stærsta eiganda Fréttablaðsins, með fyrirsögninni „Að ljúga með blessun Hæstaréttar“.

sunnudagur, 26. apríl 2015

Það sem fjármálaráðherra skilur ekki

Skrítin rökfærsla fjármálaráðherra á Sprengisandi, sem virðast vera ástæður hans fyrir viðvarandi  fátækt og eymd á Íslandi , sem er til staðar og á að vera: 

„Við meg­um ekki ganga svo langt í jöfnuðinum að það verði eng­inn hvati eft­ir,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son, efna­hags- og fjár­málaráðherra í Sprengisandi á Bylgj­unni í morg­un.
Sagði hann ekki hafa komið til tals að setja lög á þær verk­fallsaðgerðir sem standa yfir. Þá seg­ist hann
hafa heyrt kröf­ur um að lág­marks­laun verði að lág­marki 400 og 600 þúsund krón­ur og kröf­ur um allt að 100% hækk­un grunn­launa.

Ráðherra hefur heyrt kröfur um há lágmárkslaun, hann hefur heyrt, ég hef heyrt um milljón, en það gildir ekki í samningaviðræðum  hjá ríkissáttasemjara hvað hann hefur heyrt.  

Á meðan er menntamálaráðherra í bullandi vandræðum um spillingarásakanir og Pétur Blöndal tekur eina syrpu um alfrjálshyggju í Mogganum.  Þar sem atvinnurekendur eiga starfsmenn sína, eiga, þeir sem véfengja það eiga yfir höfði sér málsókn.  
 
Spurningin í þessari samningalotu er ekki kjaftasögur og lögsóknir a la   Pétur Blöndal. Hún er um að semja, um mannsæmandi laun, og skapa sátt í samfélaginu okkar. Það skilur Bjarni Ben ekki. Vill ekki.  Það er ekki í samræmi við hagsmuni landsgreifanna sem stjórna honum.

fimmtudagur, 23. apríl 2015

Trúðar í þjónustu þjóðar og flokks

Kona mín sem les úrvalsbókmenntir, benti mér á það við morgunverðarborðið, að í Stríð og friði, sem hún les núna, væru menn ennþá með trúða á öllum betri heimilum.  Ég hélt að þetta væri eitthvað sem hefði liðið undir lok töluvert fyrr.  En ........ svo fór ég að hugleiða........ 

Erum við Íslendingar ekki búnir að taka upp þetta ágæta kerfi,  og höfum jafnvel gengið lengra, gert Trúða að okkar æðstu valdamönnum og hugmyndasmiðum?  Þetta held ég að sé
algjörlega kýrskýrt, jafnvel grafalvarlegt, svo maður noti vinsælasta orð seinustu vikurnar.  

Forsætisráðherrann okkar kemst langt að vera Trúður þjóðarinnar, nú stundar hann að hleypa upp Þingfundum á þann hátt sem sæmir góðum og vellaunuðum trúði. Það gerði hann svo sannarlega í gær á Alþingi. 

Forsætisráðherra kvartar undan leka úr samráðshópi

  

Þingheimur umbreyttist í pilsasviptingar og bakendahlaup úr þingsölum,  ekki í fyrsta sinn. Og æðstistrumpur horfði sigri hrósandi yfir hjörð sína eins og góðum Yfirtrúði sæmir. Má segja að hann hafi algjörlega skákað öðrum sem hafa barist um þennan titil, þar kemur auðvitað fyrst upp í hugann kyntröllið Vigdís Hauksdóttir svo og reisupassaskrímslið Ragnheiður Elín. Þótt nokkrir karlar gefi þeim lítið eftir svo sem Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson, Guðlaugur Þór sem upplýsti okkur um fjármálavisku Hannesar Hólmsteins í vikunni, þar sem Hannes
hefði fundið tugi ef ekki hundruðir milljarða sem misvitrir embættis- og stjórnmálamenn hefðu misst úr höndum sér.  Að sjálfsögðu allt fólk sem ekki er hægt að tengja við Sjálfstæðisflokkinn,fjármálaævintýri tengjast sjaldan þeim flokki í hugmyndaheimi Hannesar. 
En líklega er Hannes Hólmsteinn Gizzurarson Yfirtrúður allra tíma, enda var hann valinn í stjórn Seðlabankans án nokkurra verðleika, lætt inn á Háskólakennarastöðu án auglýsingar, og yfirleitt er hann sendur nú úr landi ef einhverjar kosningar eru framundan.  

Trúðslæti eru ekki í hávegum höfð nokkrar vikur fyrir kosningar, þá stunda menn alvöru og yfirlýsingar sem þeir ætla ekki að standa við eftir kosningar.  




þriðjudagur, 21. apríl 2015

Rektorskjör: Skrítin yfirlýsing Stúdentaráðs

Athygli vekur yfirlýsing Stúdentaráðs Háskóla Íslands (ætli það sé ekki stjórn SHÍ?)vegna úrslita í Rektorskjöri HÍ. Sem mbl.is gerir góð skil í dag. Ætli Stúdentaráð hafi verið kallað saman í gærkvöldi til að gefa út yfirlýsingu? Það er einhver pólítískur fnykur af þessu, ætli kosningamaskína Vöku hafi verið
settt af stað til að tryggja sigur Jóns Atla?  Ég veit svo sem ekkert um pólitískar skoðanir Jóns Atla og heldur ekki Guðrúnar Nordal, enda er ekki verið að kjósa um þær, ég veit svo sem um stjórnmálaskoðanir konu Jóns Atla, en það er annað mál.  En svona yfirlýsing er fallin að velta upp ýmsum spurningum.  Samþykkti Stúdentaráð svona yfirlýsingu? Eða var það stjórn Stúdentaráðs?  Eða setti formaður þetta saman yfir ölglasi á síðkvöldi og hringdi í stjórnina????

Þetta segir í yfirlýsingu SHÍ að sögn mbl.is:

Stúd­entaráð Há­skóla Íslands ósk­ar nýj­um rektor, Jóni Atla Bene­dikts­syni, inni­lega til ham­ingju með sig­ur­inn í rektors­kosn­ing­un­um sem fóru fram í gær. Stúd­entaráðsliða hlakk­ar (sic)  til að starfa með hon­um í framtíðinni og vinna sam­an að bætt­um hag stúd­enta.
......

Stúd­entaráð seg­ir það sjást einna helst á stefnu­mál­um hans, en hann mun koma til með að standa með stúd­ent­um í hags­muna­vörslu út á við og tryggja gæði náms við há­skól­ann, ásamt nú­tíma­væðingu kennslu­hátta. Stúd­entaráð tel­ur að að víðtæk reynsla Jóns Atla, bæði inn­an há­skól­ans og við ný­sköp­un­ar­störf, eigi eft­ir að nýt­ast há­skóla­sam­fé­lag­inu vel.

mánudagur, 20. apríl 2015

Listasafn Íslands: Something is rotten...

Kíkti inn á Listasafn Íslands í gær á sunnudegi.  Þar var ekki mikið um að vera. 4 gestir auk okkar þriggja. 
2 sýningar í gangi.  Yfirlitssýning yfir konur fæddar 1940 og fyrr.  Ágætis sýning sem slík.  Það er ekki oft sem maður fær að sjá konur saman á sýningu í tveimur sölum.  Gott að rifja upp gamla klassíkera.  Kristínu Jónsdóttur, Nínurnar, Guðmundu Andrésdóttur, Barböru,  veflistakonur okkar, gaman að kíkja yfir á 19. öldina þótt fátæklegt sé.  Gaman að uppgötva eitthvað sem hefur farið fram hjá manni. Gunnfríði Jónsdóttur höggmyndara og Eyborgu Guðmundsdóttur abstraktmeistara. En einhvern veginn vantaði meira bit, fleiri myndir eftir suma.  Og af hverju 1940 sem aldursmið? Af því að safnið treystir sér ekki að leggja allt húsið undir konur?

Á neðri hætðinn nýjasta útgáfan af Carnegie Art Award kannski sú seinasta?  Þar sem svokallaður A Kassen hópur er allsráðandi.  Og áhorfendum gert eins erfitt fyrir að fá einhverja hugmynd hverjir eru þarna á ferðinni, allt gert tilgerðarlegt og líflaust.  Á mig virkuðu Carnegie sýningarnar langtum skemmtilegri í Gerðarsafni.  Svo er rætt um á kynningu listasafnsins :  Sýningin er heildartjáning hugtaka, sem undirstrikar ekki aðeins eina heldur margar merkingar: frumleika og framleiðslu listar; valdastöður í listaheiminum; hugmyndir um verðmæti og eignarrétt; höfundarréttarsamninga og hnattrænar stefnuskrár. Eitthvað bara fyrir innvígða?  

Enda var lítið um að vera í þessu húsi.  Engir erlendir ferðamenn á þessum degi.  Engin kynning í ferðþjónustunni á íslenskri list?  Er starfsfólkið ekki að vinna sína vinnu. Tóm kaffistofa, þar sem eru ágætis veitingar og ódýrara en á kaffihúsum miðbæjarins.  Allt tómt, ekkert um að vera.  Eitthvað er rotið í þessari stofnun.