laugardagur, 14. nóvember 2015

Hryðjuverk og óhugnaður

Það er óhugnaður í okkur sem búum í Vestur-Evrópu. 
Enn ein hryðjuverkaárásins, gerð til að skapa ótta og örvæntingu. 
Sem virðist takast ágætlega.Stór hópur fólks liggur í valnum.  Myndir af grátandi fólki í öllum fjölmiðlum sem skreið um gólf til að bjarga lífi sínu.  Minniseldar og blóm.

Það hlakkar í rasistum, nazistum og fazistum, víða um heim.  Hvað sögðum við ykkur, básúna þeir á netsíðum. Það eru þeir óvinirnir, sem eru frá öðrum menningarsvæðum sem eiga að vera heima hjá sér. Hvernig svo sem það er hægt.  Þegar vopnin frá vopnaframleiðendum í löndum vina okkar valda þessum hörmungum sem eru rót vandans.  Bush Blair styrjaldirnar sem skiluðu milljónum flóttamanna, höfðu í för með sér uppgang ISIS með bandarískum vopnum.  Hugleysi Obamas að takast á við vandann og efna loforðin sín í upphafi ferils síns.  

Svo hvað getur Vestur-Evrópa gert?  Á að loka álfunni með veggjum eins og Ísraelsmenn gera gagnvart Palestínumönnum.    Á að sökkva skipum og drekkja flóttafólki, á að skjóta alla sem vilja nálgast okkur?  Það er til nóg af vopnum?  Spurningarnar eru fleir en svörin. Hvernig á að ljúka Sýrlandsstyrjöldinni.  Hvenær verður Írak aftur íbúavænt land?  Afghanistan?  Hvernær verðum við samkvæm okkur sjálfum, fyrirlítum harðstjóra hvar sem þeir eru, hættum að dæla vopnum um allan heim.  

Ég var á Þýsklandi og á Spáni í seinasta mánuði.  Alls staðar hefur fjölmenningin tekið yfir.  Með sína kosti og galla.  Kostirnir eru fleiri.  Á meðan óréttlæti og fordómar eru til staðar getum við alltaf átt von á atburðum sem þessum.  Það er engin ofurlausn til.  Þó held ég að manngæskan skili mestu til frambúðar.  Við erum ekkert æðri öðrum. Mál þarf að leysa með samræðum og samningum.  Það er engin betri lausn til.  

föstudagur, 30. október 2015

Regnskógar og græðgi mannanna

Oftast eru það fréttir sem skipta engu máli sem við lepjum í okkur.
Cameron á Íslandi,
Kínaforseti í heimsókn hjá Elísabetu drottningu,
Skoðanir Vigdísar Hauksdóttur á fjármálum og Ríkisútvarpi.

En það eru ýmis mál sem skipta meiri máli. Eins og þetta.

Suður í heimi nógu langt frá okkur, í Indónesíu er regnskógum eytt, lífi milljóna ógnað, svæði þar sem allir ganga með grímur, samt kafna börn af reyk, ótal dýrum og jurtum útrýmt.

Okkur varðar ekki um eiturtegundir í öðrum heimsálfum, koldíoxíð, methanský, og ótal gastegundir í vitum íbúanna, það er þeirra mál.

Í desember ræða forystumenn heimsins umhverfismálin, hve margt verður það sem ekki verður rætt?

Lesið greinar Georges Monbiot í Guardian.


laugardagur, 24. október 2015

Sjálfstæðisflokkurinn og kirkjan

Líklega samþykkir Sjálfstæðisflokkurinn ekki trúfrelsi, aðskilnað ríkis og svokallaðrar þjóðkirkju. á neinum landsfundi, hugmyndagrunnur  flokksins býður ekki upp á slíkt.  Alltaf hefur hann byggst á valdi hinna innvígðu þar sem peningar og  völd fara saman. Fals og fláræði mega þar ríkja, eins og fyrrum innanríkisráðherra sýndi. Trú og siðleysi fara þar saman. Kirkjan styrkir ramma ofurvaldsins sem er allt of mikið miðað við álit fólksins í landinu.

Þjóðin vill fullan aðskilnað kannanir sýna það. Og stuðningurinn verður alltaf meiri og meiri. Svo segir frú biskup að aðskilnaðurinn sé í reynd! 
Merkilegt. 

Mynd með færslu

sunnudagur, 18. október 2015

Flokkar: 80 milljónir á villigötum

Flokkur eða ekki flokkur. Hreyfing eða ekki hreyfing. Nútímastjórnmál kosta peninga. Og fé er deilt út til flokka og hreyfinga.  Líka til þeirra sem ekki náðu inn á þing.  Þar eru Flokkur heimilanna og Dögun sem náðu 2,5% atkvæða.  Og fá 9 milljónir á ári í 4 ár.  Hinir hefðbundnu flokkar frá meira eftir atkvæðamagni og Píratar sem ekki telja sig verða hefðbundna, ekki Fjórflokkar. Ef svo fer fram sem horfir þá fá þeir 80-100 milljónir eftir næstu kosningar.  Ég sagði EF.  

  • Björt framtíð: 25.002.659 kr.
  • Framsóknarflokkur: 74.079041 kr.
  • Sjálfstæðisflokkur: 80.948.996 kr.
  • Flokkur heimilanna: 9.156.197 kr.
  • Samfylkingin: 38.976.809 kr.
  • Dögun: 9.393.645 kr.
  • Vinstrihreyfingin – grænt framboð: 32.963.593 kr.
  • Píratar: 15.479.059 kr.


Hinir þingmannalausu flokkar hafa átt erfiða daga eftir kosningar. Dögun er í sárum meðan allt gengur fyrrum félögum þeirra í Pírötum í haginn.  Fundargerðir flokksins sýna það, fámenn klíka situr þar og heldur fulltrúaráðsfundi, lítið að gerast, einhver vandræði með Grasrótina, lítið minnst á peningana sem renna inn, aðalfundur samt verið boðaður í nóvember.  Flokkur heimilanna virðist vera í hershöndum, allt í háaloft, kemur mér ekki á óvart þegar alræmdir Útvarp Sögumenn eru á ferð.  Ráðuneyti búið að kveða upp úrskurð í vetur sem leið ég veit ekki hvað meira.  Svo það er spurning um 40 milljónirnar!   

Svo lesendur góðir, þá sá ég að aðalfundur Heimssýnar, uppáhaldssamtakanna minna, er í vikunni.  Ég dáist að því hversu vinir mínir, þeir róttækustu af öllum, geta setið í hægðum sínum með höfuðíhaldi landsins.  Það er margt furðulegt í pólitíkinni, engin tík fer eins furðulegar krókaleiðir í lífinu.  Ég tala nú ekki um þegar maður hefur sérstöðu í bakteríum.

Formaður Flokks heimilanna stefnir Pétri Gunnlaugs hjá Útvarpi Sögu fyrir meiðyrði


Stjórnarmenn Flokks heimilanna takast á um 40 milljóna króna ríkisstyrk


Hér má sjá þá stjórn Flokks heimilanna sem Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið telur vera ólöglega. Pétur Gunnlaugsson er annar frá vinstri og Kristján er lengst til hægri. Þriðji frá hægri er svo séra Halldór Gunnarsson sem er einn af stofnendum flokksins.



    laugardagur, 17. október 2015

    Forsetinn: Ríki í Ríkinu

    Nú er kátt í höllinni. Ólafur forseti heldur veislur.  Nú líður honum vel. 
    Stórvirki hans Hringborð norðurskautsland í fullum gangi. 1800 manna hirð. 
    Ólafur hefur fundið sér samastað meðal hinna stóru.  Fræðimenn, stjórnmálajöfrar, fjármálajöfrar, umhverfissinnar og áhugafólk um líf á jörðu hittast og ræða um Norðurhluta jarðarinnar.   Þarna er fólk meða ýmsar skoðanir um ástand Norðurslóða, það er líka komið víðar við.  Enda 185 fyrirlesarar.

    Athygli vekur stór hlutur Kínverja, kveðjur frá stórveldum, heimsókn Francoise Hollande til landsins. En yfir öllur svífur andi Forsetans.  Sigmundur Davíð fær viðtal við Hollande, nokkrir alþingismenn eru með ræður.  Þetta hlýtur að vera óhemju dýr ráðstefna og undirbúningur. Forsetinn fékk í upphafi með sér áhrifamikla fjárjöfra frá Alaska enda fær ráðstefna mikla athygli þar, og styrki víða.  Forsetanum hefur tekist að gera þessa ráðstefnu að einni þeirri viðamestu hérlendis.  Æ fleiri viðurkenna það með þátttöku sinni.

    En um leið sýnir hún vinnubrögð Forsetans, hann er ríki í ríkinu,  Ríkisstjórnin er sett til hliðar, við höfum fengið valdakerfi sem ekki er í anda þeirra sem settu upphaflega stjórnarskrá.  Enda hefur Forsetinn skoðanir á því hvernig eigi að þróa hana.  Hann vill sitja áfram til að halda í sín völd og áhrif hér og erlendis.  Hann er enginn boðberi ríkisstjórnarinnar út á við. Ríkisstjórnin er boðberi hans. 










    þriðjudagur, 13. október 2015

    Spilling: Dúkkuheimilið okkar allra

    Spilling er orð dagsins og vikunnar. 

    Ekki líður dagur án þess að ríkisstjórnin dansi um völl, uppáhaldsdansinn er Spillingartangó. Ein og einn svífur í Heimskuvalsi.  Allt svo saklaust allt svo tandurhreint.  Það glitrar á gullislegið dansgólfið. 

    Ég fór í leikhús í gærkvöldi. Þar var líka allt svo siðhreint, á yfirborðinu.  En undir niðri var margt óhreint mjöl í pokahorninu, eða á ég að segja sandkassanum.  Því leikritið var Dúkkuheimilið, eins og það heitir núna, þegar ég var ungur hét það Brúðuheimilið. Það þykir ekki fínt að láta ylhýra málið njóta sín.  Dúkka er langtum fegurra en Brúða.  Þetta var
    smáútúrdúr.  Ibsen var sjáandi síns tíma, leikrit hans eiga enn við í dag, og með smákryddi leikstjóra og samstarfsmanna hennar þá verður þetta 140 ára leikrit ansi beitt.  Peningar skipta miklu máli, þeir flögra um í stofum heldriborgaranna. Jólagjafirnar eru gulli slegnar.  Allt er gert til að að halda öllu sléttu og felldu, ýmislegt skríður undir yfirborðinu en kemur öðru hverju upp á yfirborðið.  Hláturinn og skrækirnir breytast í þunga sorgaröldu. Leiksviðið er sandur og lýsing.

    Eins og núna.  Það verður með hverjum degi ljósara að allt of margir ráðherrar ráða ekki við starf sitt það er svo ótalmargt gert til að hanga utan í ráðherrastólunum, haldið dauðahaldi um fætur og arma. En allt kemur fyrir ekki það eru langflestir búnir að sjá að leiknum er lokið.  Við verðum eflaust að bíða næstu kosningar.  Trúðaleikurinn heldur áfram, í nafni lýðræðis og meirihluta og fjárgræðgi.  Meðan við veltumst um af hlátri í leikhúsinu en grátum af sorg yfir skuggaleiknum þegar við komum heim. Rákir myndast í andlitsfarðann, allt klístrast og afmyndast. 

    En lesendur góðir.  Hvað sem gerist þá vitum við hvernig þetta mun enda.  Nýju fötin keisarans eru í tætlum. Þá er það eina eftir. Spillingin blasir við okkur áhorfendunum í allri sinni eymd.  Tjaldið fellur.