Gamall samherji minn í pólitík hefur séð að sér. Það er kominn tími til.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur í tvígang í vikunni rætt um ógnina af afskiptum Saudiaraba af trúmálum Islamtrúarmanna á Vesturlöndum og víða um heim. Seinast á Rás 2 í morgun.
Hann bendir á að Sádi-Arabía hafi meðal annars fjármagnað innrætingu
öfgafullra íslamista. „Sádi-Arabía hefur styrkt moskur, skóla, þar sem
ræktað hefur verið og kennd og ungir karlmenn aldir upp í hinni
öfgafullu útgáfu af íslam.“ Ennfremur segir Ólafur Ragnar að skjöl
sendiráðs Sádi-Arabíu, sem birt voru á vefsíðu Wikileaks, gefi ekki
rétta mynd af fundi hans með sendiherranum. „Svo birti
sendiráðið
einhverja furðufrásögn, sem kom svo á Wikileaks, um þessar samræður
mínar, sem eru meira og minna uppspuni og ýkjur,“ segir Ólafur. Hann
hafi sjálfur vakið athygli á boði sendiherrans um fjárhagslegan stuðning
við trúfélög á Íslandi, og segir mikilvægt að velta fyrir sér hver
tilgangur Sádi-Arabíu sé með því að skipta sér af trúmálum hérlendis.
Það er skrítið að hann skuli ekki nefna aðra valdhafa á Arabíuskaga sem hann hefur sjálfur haft náin samskipti við. Allt að því flaðrað upp um. Þrátt fyrir það að margir hafi varað við þeim samskiptum. Þetta eru harðstjórar, einræðisherrar og glæpamenn í okkar skilningi þar við völd. Auðvitað þurfum við að hafa opinber samskipti við þessar þjóðir eins og margar aðrar einræðisþjóðir eins og hefðbundin utanríkissamskipti bjóða upp á.
En þetta eru þjóðir sem við eigum ekki að binda trúss við. Sama á við um stjórþjóðirnar í austri Rússland og Kína. En hvað um Bandaríkin, Bretland og Frakkland segja sumir eru þetta ekki líka þjóðir sem maður verður að vara sig á? Á vissan hátt. Það voru þessar þjóðir sem fóru alranga leið eftir 11. september forðum. Við létum meira að segja draga okkur inn í þessi stríð illu heilli. En við getum samt ekki borið saman stjórnskipan þessara landa við fyrrgreind ríki.
Ýmsir hafa látið ýmislegt hafa eftir sér um aukinn vopnabúnað lögreglu. Ég er friðarsinni svo ég get tekið undir margt sem þar er sagt. En ......... hvert ríki verður að sjá um sitt innra og ytra eftirlit, þar hugsa ég að við Ólafur Ragnar séum sammála. Hvað valkosti eru þar í boði? Við erum í NATO, við getum beðið um varnarlið eða sveit hérlendis. Annað er að hafa aukinn vopnabúnað tiltækan ef við fengjum árás ISIS hér á landi, þó án þess að sjá vopnaða lögreglu daglega. Getum við útilokað það með öllu. Þegar við höfum upplifað það seinustu árin að það er komin hreyfing í heiminum þar sem meðlimir hennar eru tilbúnir að fórna lífi sínu til að drepa saklaust fólk sem hefur ekki sömu viðhorf og þau í trúmálum. Það þriðja er að gera ekki neitt, láta eins og ekkert hafi gerst.
„Eðli þeirra og umfang að aðferðirnar voru þannig að nú áttuðu menn sig
á því að nú var þetta, kannski ekki nýr tími, en það dugðu ekki lengur
þær aðferðir og þær umræðuáherslur sem áður höfðu verið ríkjandi,“ segir
Ólafur Ragnar. „Og hvort sem að frjálslyndum öflum svokölluðum líkar
það betur eða verr, þá er það núna orðið viðfangsefni kjörinna fulltrúa
víða í Evrópu, að koma í veg fyrir að venjulegt fólk sé drepið,“ segir
hann.
Ekki sé ég ástæðu til að blanda því saman við móttöku flóttafólks, sá hópur sem við tökum á móti verður aldrei það stór að við getum ekki haft eftirlit í okkar litla samfélagi. Fólk sem er á móti öllu sem útlenskt er er í mínum augum oftast með kynþáttafordóma. Það er mál allt annars eðlis en hryðuverkastarfsemi.
Ég vona að umskipti Forsetans hafi ekkert að gera með það að hann ætli aftur í framboð. Því mér finnst nóg komið. Ólafur er að vísu hamhleypa til verka eins og heimasíða forsetaembættisins sýnir: forseti.is. Ég held að það sé kominn tími að við fáum sjálfsævisöguna sem fær marga til að snúa sér við bæði í rúmum og gröfum. Það er margt til í lífinu utan valdastóla. Margir aðrir góðir stólar.