laugardagur, 30. janúar 2016

Kvikmyndir: Tveir meistarar kveðja Scola og Rivette

Tveir meistarar kvöddu heiminn seinustu vikuna:  Ítalski leikstjórinn Ettore Scola og Jacques Rivette sá franski, báðir á níræðisaldri.
Pictures & Photos from C'eravamo tanto amati (1974) PosterScola var nokkurs konar arftaki neórealismans ítalska, hann lærði hjá Vittorio de Sica, og blandaði allan sinn feril saman þróuninni í ítölsku þjóðfélagi við kaldhæðni og drama.  Margar af myndum hans urðu mjög vinsælar á Ítalíu en nokkrar náðu útbreiðslu um heiminn.  Sérstaklega Við sem elskuðum hvert annað svo mikið, þar sem fjallað er um þróun landsins frá seinni heimsstyrjöldinni  og fram til áttunda áratugs seinustu aldar með því að segja frá þremur vinum og örlögum þeirra í í blíðu og stríðu.  Mig minnir að hún hafi verið sýnd hér heima á sínum tíma. Ég sá hana í Svíþjóð á námsárum mínum, hún er klassíker, húmanístisk og kaldhæðin.   Önnur mynd sem náði heimsútbreiðslu var Einstakur dagur með Marcello Mastrioanni  og Sophia Loren, gífurlega góð mynd, þar sem lýst er einum einstökum degi í lífi húsmóður og samkynhneigðs manns sem eru heima í háhýsi meðan allir eru farnir til að taka á móti Hitler sem var í heimsókn hjá Mussolini 1938, ef ég man rétt.  Nóttin í Varennes var sýnd sem mánudagsmynd í Háskólabío, gerð í Frakklandi um flótta Lúðvíks XVI í frönsku stjórnarbyltingunni. Scola var hættur fyrir nokkkrum árum í kvikmyndum en sneri til baka í hitteðfyrra og grði heimildarmynd um Federico Fellini kollega sinn.  





Rivette var alltaf fyrir elítukvikmyndahópinn, hann var einn af hugmyndahöfundum Nýbylgjunnar frönsku og var í gegnum kvikmyndatímaritið Cahier de Cinema gífurlegur áhrifavaldur að endurmeta Hollywoodleikstjóra sem höfðu ekki vakið verkðskuldaða athygli og fékk vini sína François Truffaut, Jean-Luc Godard, Éric Rohmer, Claude Chabrol til að fara sjálfir að gera og stjórna myndum. Fyrstu myndir hans voru sýndar hérna heima í kvikmyndaklúbbum og sjónvarpi: Paris nous appartient, París tilheyrir okkur,  L'amour fou, La religieuse og Céline et Julie vont en bateau. Eina mynd hans sem náði mikilli útbreiðslu var La religieuse , Nunnan, sem var bönnuð í Frakklandi og varð skandall ársins. En það var sem ritstjóri Cahiers og hugmyndafræðingur sem hans verður minnst.  Við minnumst þeirra með hlýju.

La nuit de Varennes Poster     

föstudagur, 29. janúar 2016

Frábærir tónleikar og listamannalíf.....

Það var spennai Hörpu í gærkvöldi. Sinfonían á Myrkum músíkdögum, 4 verk 2 endurflutt, 2 frumflutt. Öll góð sum frábær. Flautukonsert Áskels Mássonar, flottur og ljóðrænn. Svo var Píanókonsert Þórðar Magnússonar í flutningi Víkings Heiðars. Við sem höfum fylgst með tónlistar og tónsköpunarferli í 30 ár vorum með smá fiðring. En .... verkið í 3 köflum var einfaldlega frábært, píánóleikarinn fékk að njóta sín, hljómsveitin líka undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Allt var byggt upp af einföldu þjóðlagsstefi íslensku. Til hamingju öll. Þetta var æðislegt !!!

Það er mikil gróska í tónlistarlífi á Íslandi um þessar mundir.  Þeir sem vilja eyða þessu lífi lista og menningar(meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðismanna) er þeir sem vilja sjá þetta hverfa, fækka tónleikum í Hörpu gera lífið hjá okkur fábreyttara.  Sjá æ fleiri flytja í burtu vegna fátæklegs lífs hér á Hjara veraldar.  Allt vilja þeir gera til að auðmenn fái fleiri krónur í vasann.  Útgerðarmenn, hlutabréfseigendur, hálaunafólk.  Slíkt fólk getur auðvitað þrammað til útlanda til að njóta listar ef það hefur áhuga á því.  Ég er í hópi venjulegra ellilífeyrisþega.  Ef menning og listir eiga ekki að verða styrkt af ríkinu (niðurgreidd segja sumir) þá hækka miðar  um meira en helming.  Listafólk fær sér búsetu í öðrum löndum, þúsundir missa vinnu í hliðaratvinnugreinum.  Gamalt fólk veslast upp og deyr fyrr.  Listir skaffa ansi mörgum vinnu.  Þeir sem halda að allt gangi út á að lifa á því að koma og fara í og úr vinnu og hlamma sér fyrir framan sjónvarpið (með útlenskri dagskrá að sjálfsögðu) þeir vita ekki hvað þeir eru að hugsa.  Ef þeir halda að listamenn séu á móti þeim í pólitík og þetta sé til að hefna sín á þeim þá ættu þeir að hugsa sinn gang.  Byggja upp líf sem hentar öllum þá kjósa listamennirnir kannski flokkana þeirra með tímanum!  

AÐ njóta lista er að njóta lífsins.  Hvort sem það er klassísk músík, Bubbi, Björk og alþýðutónlistarmanna og jassara (flestir hámenntaðir á sínu sviði), að lesa góðar bækur, horfa á myndlist, taka þátt í námskeiðum og sköpun.  Allt þetta gefur lífinu fyllingu.  Geri okkur að betri manneskjum.   

þriðjudagur, 26. janúar 2016

Kári og Sigmundur Davíð í hestaati

Það er merkilegt að æðstu kosnu ráðamenn þjóðarinnar fari alltaf í skæting og þras ef einhver þegna þeirra sýni frumkvæði og sjálfstæða hugsun. Gott dæmi er leiðinleg umræða og svör Forsætiráðherra við undirskriftasöfnun sem Kári Stefánsson stendur fyrir um þessar mundir. Þetta skrifaði SDG á Fésbókina sína:


Ég er sammála þeim sem telja mikilvægt að auka framlög til heilbrigðismála. Það höfum við gert á undanförnum árum og það þurfum við, og eigum, að gera áfram. 
Að mæla heilbrigðisþjónustu aðeins út frá ákveðnu hlutfalli af landsframleiðslu er hins vegar vafasöm leið. Landið sem er með hæst hlutfall landsframleiðslu til heilbrigðismála er Túvalú (19,7%) og í öðru sæti eru
Bandaríkin (17,1%) [World Bank, 2013]. 14 lönd ná 11% þ.m.t. Síerra Leóne, Moldóva, Leshótó og Rúanda. Ekkert Norðurlandanna nær 11%. Noregur er 0,5% fyrir ofan Ísland. Fyrir neðan Ísland eru meðal annars ,,mesta velmegnuarland Evrópu", Lúxemborg, með 7,1%. 
Þetta er í raun einfalt. Við þurfum að halda áfram að auka verðmætasköpun í landinu og setja meira í heilbrigðismál og almannatryggingar. Þannig þurfum við að forgangsraða hvort sem hlutfall af VLF verður hærra eða lægra en í Síerra Leóne?

Kári svarar að vanda hressilega fyrir sig að vanda:

Forsætisráðherra tjáði sig um undirskriftarsöfnunina á fésbókarsíðu sinni í gærmorgun og greip til þess ráðs að reyna að vera skemmtilegur á hennar kostnað. Ekki er sú aðferð mér framandleg og hef ég fallið fyrir henni einu sinni eða tvisvar á ævi minni. Og hvernig tókst svo forsætisráðherra til? Það er með mælikvarða á skemmtilegheit eins og á hundraðshluta af vergri landsframleiðslu að hann er afstæður og svo markast hann af því hversu skemmtilegir menn eru almennt. Upp á síðkastið er forsætisráðherra búinn að vera svo fýldur út í allt og alla og þá sérstaklega þjóðina sem hann á að stjórna, að það væri dónaskapur við roðið að segja að hann sé búinn að vera eins og það, snúið í hundskjapti. Það var því ekki við miklu að búast og það fengum við, dapurlegan pistil sem var þeim mun dapurlegri sem hann átti að vera fyndinn.
Forsætisráðherra heldur því fram að það sé vafasamt að við eyrnamerkjum ákveðinn hundraðshluta af landsframleiðslu til heilbrigðismála. Ég og í það minnsta aðrir 47500 Íslendingar eru honum ósammála. Okkur finnst eðlilegt að nota ákveðinn hundraðshluta þess sem aflast til þess að sinna þeim sem eru meiddir og sjúkir í okkar samfélagi og til þess að hlúa að heilsu þeirra sem enn eru hraustir. Það hefur gefist illa að skilja það eftir í höndum kjörinna fulltrúa á hverjum tíma fyrir sig að ákveða hversu mikið heilbrigðiskerfið fær af kökunni. Máli sínu til stuðnings nefnir forsætisráðherra Sierra Leone og önnur fátæk ríki sem leggja stærri hluta af sinni landsframleiðslu til heilbrigðismála en Ísland gerir, og so what? Það sýnir einfaldlega að sú fátæka þjóð sem býr í því stríðshrjáða landi sem við köllum Sierra Leone er reiðubúin til þess að fórna hlutfallslega meiru en við til þess að hlúa að þeim sem minna mega sín. Sigmundur Davíð, við eigum að taka þetta fólk okkur til fyrirmyndar hvað þetta snertir í stað þess að tala um þau af lítilsvirðingu.

Það væri ekki úr vegi í þessu sambandi að vitna í orð landlæknis frá því í seinasta mánuði. Þar sem hann fjallaði ímynd skýrslu OECD Health at Glance, um heilbrigðiskerfi ríkjanna í OECD. Það er furðulegt að orða hans skuli ekki hafa vakið meiri athygli. Þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að við stöndum okkur alls ekki vel í samanburði við aðra sem við viljum mæla okkur saman við.  Allt of mikið fari i samninga Sjúkratryggina og Sérgreinalækna, allt of lítið fé í burðarása kerfisins, svo sem heilsugæslu, sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni og uppbyggingar nýs háskólasjúkrahúss. Svo má ekki hækka tekjuskatt á athafnamenn þeir verða að hafa nóg að bíta og brenna.  Þangað til þeir lenda bak við rimlana.

Þetta sagði landlæknir:

Niðurstöður skýrslunnar eru athyglisverðar, sérstaklega þegar þær eru túlkaðir með tilliti til þess hvaða þættir hafa mest áhrif á ævilengd og lífsgæði. Samkvæmt niðurstöðum nýlegra rannsókna er ævilengd þjóða talin ráðast af eftirfarandi áhrifaþáttum:
  1. Lífsstíl 40%
  2. Félags- og efnahagslegum þáttum 30%
  3. Heilbrigðiskerfi 20%
  4. Öðrum þáttum, svo sem húsnæði, öryggismálum o.s.fv. 10%
Skýrslu OECD má því túlka svo að Ísland standi vel að vígi í áhrifaþáttum 1, 2 og hugsanlega 4 en sé ekki eins vel á vegi statt í þáttum sem stýrast af 3, nefnilega heilbrigðiskerfinu. Þrátt fyrir að við séum með góðan mannafla, fjölda sjúkrarúma í meðallagi og vel tækjum búin virðist heilbrigðiskerfið ekki skila þeim árangri sem við getum vænst.
Þetta eru bæði slæm og góð tíðindi, slæm vegna þess að heilbrigðiskerfi okkar er ekki jafn skilvirkt og við viljum oft vera láta, góð vegna þess að við höfum möguleika á því að bæta okkur stórlega með því að huga betur að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og jafnframt taka alvarlega þau aðvörunarmerki sem við fáum um lífsstíl (mataræði og hreyfingu), forvarnir (bólusetningar barna) og lyfjanotkun.
Í því sambandi má benda á að þótt unnið sé ötullega að ýmsum þörfum verkefnum í heilbrigðiskerfinu hefur fjármagn til heilbrigðisþjónustu haldið áfram að færast til þjónustu sem stýrist af samningum Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna, fjármagn sem, rétt notað, hefði getað farið til forgangsverkefna,
Embætti landlæknis hefur af því áhyggjur að þetta geti leitt til þess að gæði og öryggi íslenskrar heilbrigðisþjónustu muni versna enn frekar og að við munum eiga í erfiðleikum með að fá hingað hæft starfsfólk sem nú er við störf í öðrum löndum. 
Nánar er fjallað um skýrsluna Health at a Glance í nýjasta tölublaði Talnabrunns, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar.

Birgir Jakobsson

landlæknir
 

Takið eftir lokaorðunum ég skrifa þau með stóru letri:  Embætti landlæknis hefur af því áhyggjur að þetta geti leitt til þess að gæði og öryggi íslenskrar heilbrigðisþjónustu muni versna enn frekar og að við munum eiga í erfiðleikum með að fá hingað hæft starfsfólk sem nú er við störf í öðrum löndum. 

Mynd Berit Wallenber á Þingvöllum 1930.

Mynd að ofan:  Hvalveiðiskip í höfn.  Greinarhöfundur tók.





sunnudagur, 24. janúar 2016

Ólafur Ólafsson á Suðurlandsbraut 18

Athafna menn bak við rimla gera það gott fyrir framan rimlana.  Auðvitað má maður ekki segja neitt þá er maður vondur við menn sem eiga bágt, auðvitað eiga allir bágt sem eru í fangelsi, en sumir eru betri að athafna sig en aðrir, enda sannir athafnamenn og bankamenn.  Ekki bankastjórar ekki forstjórar. 

Það er gott að stunda viðskipti líklega ekki undir eigin nafni innan rimlanna, sérstaklega þegar nýjast fréttin tengist Suðurlandsbraut  18 í því húsi sem framsóknarmenn og fylgisfiskar þeirra
áttu hundruðir skúffufyrirtæka og eignarhaldsfélaga ´i þá góðu og gömlu daga.  Það er skrítið að geta skilið eftir sig slóða og eiga góða að í bönkum sbr. þetta: 


Í byrjun október (2011) yfirtók Arion banki eignarhlut Ólafs í útgerðarfélaginu HB Granda í skuldauppgjöri Kjalar, félagi Ólafs við bankann. Skuld félagsins við bankann nam 77 milljörðum króna. Við yfirtökuna var skuldin strikuð út og málaferli Kjalar og bankans felld niður.

 Já lesendur góðir saga Hrunsins er ekki á enda þar eru margir athafnamenn svokallaðir sem hafa komið milljörðum undan í skjóli fáránlegrar löggjafar sem gerir þetta kleift.
Kjarninn segir frá þessum nýju framkvæmdum athafnamannsins saklausa (að eigin sögn) 

Félag í eigu Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Samskipa, hefur hafið ferli við að byggja hótel á lóð við Suðurlandsbraut 18. Um er að ræða breytingu á byggingu sem fyrir er og viðbyggingu. Eftir stækkun gæti byggingin rúmað vel á annað hundrað hótelherbergi. Frá þessu er grein í Morgunblaðinu í dag.
Ólafur er umsvifamikill athafnamaður. Hann situr sem stendur í fangelsinu á Kvíabryggju þar sem hann afplánar fjögurra og hálfs árs dóm sem hann hlaut í Al Thani-málinu svokallaða í fyrra.

Sama félag og eignaðist Samskip

Í Morgunblaðinu er greint frá því að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi auglýst nýtt deiliskipulag lóðarinnar á Suðurlandsbraut 18 þar sem ofangreind breyting kemur fram. 
Auglýsing
Eigandi hússsins er félag sem heitir Festir. Það félag er í 100 prósent eigu hollenska félagsins SMT Partners B.V. Þegar endurskipulagning á fjárhag Samskipa lauk fyrir sex árum, í janúar 2010, var greint frá því í Viðskiptablaðinu að félagið SMT Partners B.V. væri félag í eigu Ólafs Ólafssonar og stjórnenda Samskipa. Þetta félag eignaðist 90 prósent hlut í Samskipum, öðru af tveimur skipafélögu sem eru ráðandi í inn- og útflutningi um sjó frá Íslandi, við endurskipulagninguna.Félagið Festir á fleiri fasteignir. Má þar nefna Krókháls 11 þar sem Bílaumboðið Askja er til húsa. Þá kemur fram í Morgunblaðinu að Festir eigi um sjö þúsund fermetra fasteign í Kjalarvogi 10 við Sundahöfn. Fjárhagsstaðan ágætt
Ólafur hefur haldið því fram að hann hafi verið dæmdur í fangelsi á grundvelli misskilnings og hefur auk þess dregið í efa hæfi tveggja dómara Hæstaréttar sem felldu hinn þunga dóm yfir honum. Því hefur hann óskað eftir endurupptöku málsins fyrir endurupptökunefnd og kært það til Mannréttindadómstóls Evrópu. Í viðtali við Viðskiptablaðið í október sagði hann það ömurlegt hlutskipti að sitja í fangelsi. Fjárhagsstaða hans væri hins vegar ágæt og óttist ekki að missa þau fyrirtæki sem hann á, meðal annars Samskip.
Í viðtali við Ísland í dag fyrr í þessum mánuði sagði Ólafur að hann geti stundað sína vinnu frá Kvíabryggju. Hann hafi aðgengi að tölvupóstum, síma og interneti sem geri honum kleift að sinna sínum eignum.

laugardagur, 23. janúar 2016

Rísum upp með Kára: Endurreisum Heilbrigðiskerfið

Kári Stefánsson er merkur maður, hann fer ekki troðnar slóðir, stundum er hann eins og gamall húðarjálkur sem enginn getur ráðið við, dómskerfið skelfur undan þessum furðufugli. Stundum er hann eins og sá sem þekkinguna, góðsemina  og valdið hefur. Þá stöndum við mörg með honum.  Þá erum við blind fyrir veikleikum hans.  Nú er hann minn maður.  Undirskriftasöfnunin sem hann hefur hafið til eflingar Heilbrigðiskerfinu á Íslandi.  Ég hef

kynnst biðlistunum og margir kunningjar mínir, ég beið í 9 mánuði eftir að komast í hnéskiptaaðgerð á hægra hné.  Nú hef ég beðið í 15 mánuði eftir að vinstra hnéð mitt verði tekið fyrir.  Ætli ég sé ekki búinn að missa á þriðja ár af lífi mínu vegna biðlista af mínum 68 árum. Þegar maður er kominn á þennan aldur er hvert ár dýrmætt.  

Mínir dýrðardagar eru að ganga skógarslóða eða stíga á fjöll.  Það hef ég ekki getað í 4 ár.  Ég er ekki einn um það.  Tæp 6000 manns eru á biðlistum og margir hafa beðið ansi lengi.  Með margs kyns kröm, frá hjörtum í hné.  Því styð ég og skrifa undir í Endurreisn heilbrigðiskerfisins.  Það er kominn tími til að rísa upp gegn blindum stjórnmálaforkólfum.  Sem meta úrelta hugmyndafræði meira en líf samborgara sinna.  Skrifið þið líka undir.  

ENDURREISUM HEILBRIGÐISKERFIÐ

Heilbrigðiskerfi er einn af hornsteinum nútímasamfélags og sýnir vilja þess til þess að hlúa að þeim sem eru sjúkir og meiddir. Gott heilbrigðiskerfi endurspeglar sjálfsagða samhygð en lélegt heilbrigðiskerfi  óásættanlegan kulda gagnvart þeim sem eru hjálpar þurfi. Það er okkar mat að á síðasta aldarfjórðungi hafi stjórnvöld vannært íslenskt heilbrigðiskerfi, að  því marki að það sé ekki lengur þess megnugt að sinna hlutverki sínu sem skyldi.
Það hefur ekki fylgt framþróun í læknisfræði, hvorki hvað snertir notkun á tækjabúnaði né bestu lyfjum og helstu stofnanir þess eru hýstar á þann veg að það kemur í veg fyrir að hægt sé að veita nægilega mikla og góða þjónustu. Hnignun heilbrigðiskerfisins hefur að mestu leyti verið óháð því hvaða stjórnmálaflokkar hafa verið  við völd vegna þess að hún hefur verið stöðug og samfelld.
Íslendingar eyða því sem nemur 8.7% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál og er það langt undir meðaltali á Norðurlöndum. Það er mat þeirra sem gerst þekkja til að við þurfum að eyða allt að 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál vegna þess að við erum fá og dreifð sem gerir þjónustuna dýrari en meðal stærri og þéttbýlli þjóða. Þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar um aldarfjórðungsskeið hafa ekki haft að því frumkvæði að fjármagna heilbrigðiskerfið eins og skyldi, ætlum við undirrituð að taka frumkvæðið með eftirfarandi kröfu.
Kári Stefánsson

VIÐ UNDIRRITUÐ KREFJUMST ÞESS AÐ ALÞINGI VERJI ÁRLEGA 11% AF VERGRI LANDSFRAMLEIÐSLU TIL REKSTURS HEILBRIGÐISKERFISINS.