Það er merkilegt að æðstu kosnu ráðamenn þjóðarinnar fari alltaf í skæting og þras ef einhver þegna þeirra sýni frumkvæði og sjálfstæða hugsun. Gott dæmi er leiðinleg umræða og svör Forsætiráðherra við undirskriftasöfnun sem Kári Stefánsson stendur fyrir um þessar mundir. Þetta skrifaði SDG á Fésbókina sína:
Ég er sammála þeim sem telja mikilvægt að auka framlög til heilbrigðismála. Það höfum við gert á undanförnum árum og það þurfum við, og eigum, að gera áfram.
Að mæla heilbrigðisþjónustu aðeins út frá ákveðnu hlutfalli af landsframleiðslu er hins vegar vafasöm leið. Landið sem er með hæst hlutfall landsframleiðslu til heilbrigðismála er Túvalú (19,7%) og í öðru sæti eru
Bandaríkin (17,1%) [World Bank, 2013]. 14 lönd ná 11% þ.m.t. Síerra Leóne, Moldóva, Leshótó og Rúanda. Ekkert Norðurlandanna nær 11%. Noregur er 0,5% fyrir ofan Ísland. Fyrir neðan Ísland eru meðal annars ,,mesta velmegnuarland Evrópu", Lúxemborg, með 7,1%.
Þetta er í raun einfalt. Við þurfum að halda áfram að auka verðmætasköpun í landinu og setja meira í heilbrigðismál og almannatryggingar. Þannig þurfum við að forgangsraða hvort sem hlutfall af VLF verður hærra eða lægra en í Síerra Leóne?
Kári svarar að vanda hressilega fyrir sig að vanda:
Forsætisráðherra tjáði sig um undirskriftarsöfnunina á fésbókarsíðu sinni í gærmorgun og greip til þess ráðs að reyna að vera skemmtilegur á hennar kostnað. Ekki er sú aðferð mér framandleg og hef ég fallið fyrir henni einu sinni eða tvisvar á ævi minni. Og hvernig tókst svo forsætisráðherra til? Það er með mælikvarða á skemmtilegheit eins og á hundraðshluta af vergri landsframleiðslu að hann er afstæður og svo markast hann af því hversu skemmtilegir menn eru almennt. Upp á síðkastið er forsætisráðherra búinn að vera svo fýldur út í allt og alla og þá sérstaklega þjóðina sem hann á að stjórna, að það væri dónaskapur við roðið að segja að hann sé búinn að vera eins og það, snúið í hundskjapti. Það var því ekki við miklu að búast og það fengum við, dapurlegan pistil sem var þeim mun dapurlegri sem hann átti að vera fyndinn.
Forsætisráðherra heldur því fram að það sé vafasamt að við eyrnamerkjum ákveðinn hundraðshluta af landsframleiðslu til heilbrigðismála. Ég og í það minnsta aðrir 47500 Íslendingar eru honum ósammála. Okkur finnst eðlilegt að nota ákveðinn hundraðshluta þess sem aflast til þess að sinna þeim sem eru meiddir og sjúkir í okkar samfélagi og til þess að hlúa að heilsu þeirra sem enn eru hraustir. Það hefur gefist illa að skilja það eftir í höndum kjörinna fulltrúa á hverjum tíma fyrir sig að ákveða hversu mikið heilbrigðiskerfið fær af kökunni. Máli sínu til stuðnings nefnir forsætisráðherra Sierra Leone og önnur fátæk ríki sem leggja stærri hluta af sinni landsframleiðslu til heilbrigðismála en Ísland gerir, og so what? Það sýnir einfaldlega að sú fátæka þjóð sem býr í því stríðshrjáða landi sem við köllum Sierra Leone er reiðubúin til þess að fórna hlutfallslega meiru en við til þess að hlúa að þeim sem minna mega sín. Sigmundur Davíð, við eigum að taka þetta fólk okkur til fyrirmyndar hvað þetta snertir í stað þess að tala um þau af lítilsvirðingu.
Það væri ekki úr vegi í þessu sambandi að vitna í orð landlæknis frá því í seinasta mánuði. Þar sem hann fjallaði ímynd skýrslu OECD Health at Glance, um heilbrigðiskerfi ríkjanna í OECD. Það er furðulegt að orða hans skuli ekki hafa vakið meiri athygli. Þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að við stöndum okkur alls ekki vel í samanburði við aðra sem við viljum mæla okkur saman við. Allt of mikið fari i samninga Sjúkratryggina og Sérgreinalækna, allt of lítið fé í burðarása kerfisins, svo sem heilsugæslu, sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni og uppbyggingar nýs háskólasjúkrahúss. Svo má ekki hækka tekjuskatt á athafnamenn þeir verða að hafa nóg að bíta og brenna. Þangað til þeir lenda bak við rimlana.
Þetta sagði landlæknir:
Niðurstöður skýrslunnar eru athyglisverðar, sérstaklega þegar þær eru túlkaðir með tilliti til þess hvaða þættir hafa mest áhrif á ævilengd og lífsgæði. Samkvæmt niðurstöðum nýlegra rannsókna er ævilengd þjóða talin ráðast af eftirfarandi áhrifaþáttum:
- Lífsstíl 40%
- Félags- og efnahagslegum þáttum 30%
- Heilbrigðiskerfi 20%
- Öðrum þáttum, svo sem húsnæði, öryggismálum o.s.fv. 10%
Skýrslu OECD má því túlka svo að Ísland standi vel að vígi í áhrifaþáttum 1, 2 og hugsanlega 4 en sé ekki eins vel á vegi statt í þáttum sem stýrast af 3, nefnilega heilbrigðiskerfinu. Þrátt fyrir að við séum með góðan mannafla, fjölda sjúkrarúma í meðallagi og vel tækjum búin virðist heilbrigðiskerfið ekki skila þeim árangri sem við getum vænst.
Þetta eru bæði slæm og góð tíðindi, slæm vegna þess að heilbrigðiskerfi okkar er ekki jafn skilvirkt og við viljum oft vera láta, góð vegna þess að við höfum möguleika á því að bæta okkur stórlega með því að huga betur að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og jafnframt taka alvarlega þau aðvörunarmerki sem við fáum um lífsstíl (mataræði og hreyfingu), forvarnir (bólusetningar barna) og lyfjanotkun.
Í því sambandi má benda á að þótt unnið sé ötullega að ýmsum þörfum verkefnum í heilbrigðiskerfinu hefur fjármagn til heilbrigðisþjónustu haldið áfram að færast til þjónustu sem stýrist af samningum Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna, fjármagn sem, rétt notað, hefði getað farið til forgangsverkefna,
Embætti landlæknis hefur af því áhyggjur að þetta geti leitt til þess að gæði og öryggi íslenskrar heilbrigðisþjónustu muni versna enn frekar og að við munum eiga í erfiðleikum með að fá hingað hæft starfsfólk sem nú er við störf í öðrum löndum.
Birgir Jakobsson
landlæknir
Takið eftir lokaorðunum ég skrifa þau með stóru letri: Embætti landlæknis hefur af því áhyggjur að þetta geti leitt til þess að
gæði og öryggi íslenskrar heilbrigðisþjónustu muni versna enn frekar og
að við munum eiga í erfiðleikum með að fá hingað hæft starfsfólk sem nú
er við störf í öðrum löndum.
Mynd Berit Wallenber á Þingvöllum 1930.
Mynd að ofan: Hvalveiðiskip í höfn. Greinarhöfundur tók.