föstudagur, 15. janúar 2016

Kennitöluflakk.: Gætum Meðalhófs segir SA!!!


Kona mín hló svo mikið yfir tölvunni sinni í gærmorgun.  Ég var auðvitað forvitinn hvað gat verið svona skemmtilegt? Jú það var svo skemmtileg frétt frá Samtökum atvinnulífsins í Fréttablaðinu með þessari flottu fyrirsögn:

Varlega sé farið í baráttu gegn kennitöluflakki

Já þetta var eitthvað til að fara sérstaklega varlega gegn:  

 Samtök atvinnulífsins vilja að stjórnvöld gæti meðalhófs í baráttu sinni við kennitöluflakk. Í frétt á
vef samtakanna kemur fram að þetta sé afar mikilvægt og þó svo að „um sé að ræða mikinn löst í atvinnulífinu sem nauðsynlegt er að sporna við af festu, verður að hafa í huga að
um er að ræða fámennan hóp rekstraraðila sem vísvitandi brjóta gegn lögum og reglum.“
Þar segir jafnframt að það að herða á regluverkinu í baráttunni við aðila sem sýna af sér einbeittan brotavilja sé ekki til árangurs fallið og „mun aðeins bitna á þeim yfirgnæfandi meirihluta atvinnurekenda sem standa heiðarlega að sínum rekstri.“

Svo mörg orð voru það.  Meðalhóf er fallegt orð, á þá að loka augunum að einhverju leyti? Á að láta þá vera sem sýna einbeittan brotavilja?   Er það hlutverk yfirvalda?  Það er ýmislegt skrítið hugsað innan veggja SA!   

 Þar segir að stjórnvöld verði að beita öðrum aðferðum við að ná til þeirra sem brjóta lög og standa ekki skil á sköttum og gjöldum en takmarka möguleika fólks til að stofna til eigin reksturs, til dæmis herða á refsiákvæðum þegar rekstraraðilar verða uppvísir að skipulögðum undanskotum líkt og með kennitölu­flakki. Það sé grundvallarréttur einstaklinga að sjá sér og sínum farborða, leita sér atvinnu og stofna til reksturs í því skyni. Þessi réttur sé staðfestur í stjórnarskrá Íslands.

Nú á ég varla orð .......  er ekki sjálfsagt að takmarka möguleika þeirra að fara í eigin rekstur sem hafa brotið lög, skila ekki lögbundnum sköttum og gjöldum?  Er það hlutverk Samtaka atvinnulífsins að halda hlífiskildi yfir glæpamönnum? 

Alþýðusamband Íslands gerði gangskör fyrir nokkrum árum að rannsaka kennitöluflakk.  Þar kom í ljós að: 

Árið 2012 voru á Íslandi skráð 31 þúsund fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð og fer þeim fjölgandi. Takmörkuð ábyrgð vísar til þess að sá/þeir sem að félaginu standa taka ekki á sig aðra skuldbindingu en þá að greiða tiltekna fjárhæð við stofnun félagsins. Að öðru leyti eru þær skuldbindingar sem gerðar eru í nafni félagsins á ábyrgð þess, ekki eigendanna. Dæmi eru um að einn og sami einstaklingurinn hafi farið með 29 félög í gjaldþrot á sjö ára tímabili.
Samkvæmt gögnum Creditinfo skiluðu einungis 22% félaga ársreikningi á réttum tíma árið 2011. Mikil fylgni er á milli þess að skila ekki ársreikningi og að vera í vanskilum því 72% þeirra fyrirtækja, sem ekki hafa skilað ársreikningi 2011, eru á vanskilaskrá.

 Það er eflaust hægt að segja að þessi gögn séu of gömul sem vitnað er til.  En við höfum ótal dæmi um notkun þessa flakks en það er skilgreint: 

Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð einstaklinga þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi (hf./ehf.) og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari. Fullyrða má að þetta athæfi kosti íslenskt samfélag tugi  milljarða króna á ári. 

ASÍ kom með tillögur í 16 liðum sem gætu hjálpað í sambandi við kennitöluflakk. Þarna tapar samfélagið tugum milljarða króna og ekki veitir af í samneysluna.  Er það hlutverk SA að vera varðhundur fyrir þá sem leika sér að illa skipulögðu kerfi?   Væri ekki nær að Samtök Atvinnuvega berðust gegna glæpsamlegri starfsemi í fyrirtækjarekstri?  Kveddu Alþingi að setja eðlilegan lagaramma um þennan málaflokk.  Spyr einfaldur bloggari í öngum sínum.  

Hér er skýrsla ASÍ :

http://www.asi.is/media/2702/Kennitoeluflakk-01102013.pdf

  

 

 

 

 

 

 

 

 
 

miðvikudagur, 13. janúar 2016

Tvær fréttir: 3 fangar og Veikindi ráðherra

Ekkert kveikti meira í netmiðlum en furðuleg fréttamennska á Stöð 2 í gærkvöldi. 
Viðtal við 3 fanga á Kvíabryggju.  Sem líta á sjálfa sig sem fórnarlömb dómskerfis þar sem allt virðist vera gert rangt.  Þeir eru lagðir í einelti, Bankamenn sem eru ofsóttir, ja, af hverjum?  Þetta tekur fréttamaður góða og gilda rökfærslu hjá þeim.  Virðist vera líta á það sem sannleika ekki örlar á gagnrýnni fréttamennsku hjá honum.  Hann verður allri stétt sinni til skammar. 

Þarna koma fram allir helstu ókostir „frjálsra fjölmiðla" í eigu auðmanna.  Skuggi Jóns Ásgeirs og Ingibjargar konu hans svífur yfir þessari fréttastofu sem hefur fyrirgert rétti sínum að tekið sé mark á henni.  Að fréttastofa taki þátt í því að setja svona leikrit á svið er fáránlegt. 3 fangar sem eru með her sérfræðinga á bak við sig á góðum launum, lögfræðingar sem hafa gert það að lífsstarfi sínu að dansa umhverfis þessa menn og þjóna þeim.  Fjölskyldumeðlimir sem eru þvílíkt meðvirkir, virðast hafa algjörlega misst siðferðiskenndina innan um gull og glingur.Stór hópur annarra bankamanna sem hafa aldrei gert neitt rangt.  Engin brú sem tengir þá við líf venjulegs fólks.


Svo ég segi bara:  Svei!!!




_______________________________

Önnur frétt sem fór í dag um netheima, bréf Ólafar Nordal sem sagði frá því að hún þyrfti framhaldsmeðferð þar sem hækkun hafi orði í æxlisvísum í blóði hennar en eins og flestum er kunnugt um barðist hún við krabbamein fyrir skömmu.  Ég hef stundum gagnrýnt pólitískar ákvarðanair hennar eins og maður gerir í hita leiks.  En þegar svona bjátar á óska ég henni alls góðs í meðferðinni.  Ég vona að allt fari á besta veg hjá henni og fjölskyldu hennar. 
 
Kæru vinir.
Við reglubundið eftirlit í lok síðasta árs kom í ljós að hækkun hafði orðið á svokölluðum æxlisvísum í blóði sem mæla framgang og stöðu krabbameins. Við nánari skoðun komu í ljós smávægilegar breytingar í kviðarholi sem nauðsynlegt er að bregðast strax við.
Vegna þessa var ákveðið að ég skyldi hefja lyfjameðferð í upphafi þessa árs, í sex skipti, sem ég hef þegar hafið. Það eru vissulega vonbrigði að til þessa hafi þurft að koma en allt fram á þennan dag benti allt til þess að ég hefði komist yfir þennan hjalla.
Ég brenn enn fyrir að vinna fyrir almenning og hugsjónir mínar. Þessi þröskuldur sem ég þarf að yfirstíga á næstu vikum breytir engu þar um. Núna stend ég frammi fyrir þessu verkefni og þarf að klára það. Það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýn.
Ég mun halda áfram að sinna mínum störfum eins og ég hef gert.
Bestu kveðjur
Ólöf

mánudagur, 11. janúar 2016

Bowie: Hetja í einn dag?

Það er skrítið að velta fyrir sér tónlist út alla ævina.  Þegar við vorum unglingar og Bítlarnir komu fram var okkur sagt að þessi dægurlaga tónlist yrði öllum gleymd eftir nokkur ár. Það hefur ekki orðið. Enn eru margir sam hlusta á þessa tónlist, ég nefni engin nöfn þau yrðu svo mörg.  Hver kynslóð finnur sér nýja snillinga, sumir gleymast og hverfa, eins og á dögum Bachs og Beethoven. Ég og margir við hlustum á klassík, rokk, jazz og ótal aðrar hljómlistartegundir.  Sumir hlusta aldrei á tónlist nema í útvarpi, aðrir hlusta núna á nútímamiðla Spotify og fleira. 

Aðrir eru meiri dellukallar og kon ur. Þannig er ég, það snjóaði í morgun þegr ég las fréttirnar um andlát Davids Bowie, úr krabba þessi vágestur sem hrifsar til sín svo marga.  Það kingir niður snjó núna og þegar ég sit við tölvuna.  Það er margt ógeðfellt umhverfis mann, ég er hættur að vinna, en ég leita í tónlist og bækur til að gleyma, valdamönnum sem koma manni alltaf á óvart með flónsku og kunnáttuleysi um verksvið sitt og framkomu við landsmenn sem hafa kosið þát til æðstu starfa.  Ég skrifaði á fésið í morgun þetta hér að neðan, fátækleg orð en einlæg. Ég hefði getað minnst á kvikmyndaferil hans, frægafólksferil, það er ekki mitt áhugasvið.  En eitt stendur eftir hann verður dreginn fram, vínyl, diskar, kvikmyndir á þessu heimili. Ég veit ekki hvort ég hefði kunnað við hann sem persónu.  Hann var hálgert kameljón en ......  Hann á verðugan stað í lífi mínu. Eins og aðrir góðir listamenn, bókmennta, myndlistar og tónlistar.  We can beat them, just for one day.  Þetta kemur upp í hugann, ætli þetta sé það sem við getum.  Sigrað þá einn dag bara einn dag.  Ég er bjartsýnismaður.  Ég held þeir verði fleiri.

Ég keypti The Man who sold the world í Hljóðfærahúsinu forðum daga, síðan var hann Leigjandi hjá mér út ævi sína lét sig hverfa öðru hverju en birtist alltaf á ný, alltaf með eitthvað nýtt í farteskinu, popp lag allra tíma hjá mér er China Girl, hvað ég spilaði það. Og Ziggy Stardust, Heroes, Low. Station to Station, Heathen, fleiri og fleiri. Hans verður saknað á þessu heimili eins og heimiliskattanna sem hverfa. Munurinn er að maður getur áfram hlustað á þennan! Blessuð séminning hans.

laugardagur, 9. janúar 2016

Verulega vond blaðamennska eða ekki

Það þykja nú tíðindi þegar sendiherra Bandaríkjanna vill koma athugsemd að vegna skrifa í Morgunblaðinu þar sem rætt er um viðskiptabann Vesturvelda við Rússland. En sjá það dregst að greinin birtist.  Töluverð skrif verða um það að sendiherrann birti greinina á Facebook síðu sinni. Eyjan, Hringbraut og ýmsir skríbentar á neti.  Herðubreið notar tækifærið að hella sér yfir einn keppinaut sinn Hringbraut.  En .......... ekki virðist Karli Th. frekar en Hringbraut eða Eyjunni
detta það í hug að tala við ritstjórn Morgunblaðsins.  Nú veit ég ekki hvort MBL. hafi þótt ástæða að svar fyrir þessi skrif ekki finnst slík grein á netsíðu Morgunblaðsins en ég les prentaða blaðið sjaldan. En á bloggsíðu sem rekin ef af mbl.is þar fjallar Björn Bjarnason fyrrum ritstjóri blaðsins, fyrrum ráðherra um þetta og virðist ekki vera sammála málflutningi blaðsins: 

Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, birti grein á Facebook-síðu sendiráðsins og leiðrétti rangfærslur vegna skrifa hér á landi um framkvæmd á viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi eftir yfirgang Rússa og ólögmæta innlimun á Krímskaga í Rússland. Þetta var tímabær áminning um nauðsyn þess að farið skuli með rétt mál í umræðum um utanríkis- og öryggismál.
Rússar hafa komið á fót sérstakri rangfærsludeild til að blekkja Vesturlandabúa og stofna til illinda innan einstakra ríkja. Stundum dettur manni helst í hug að deildin standi að baki ýmsu sem hér er sagt um ástandið í Úkraínu og hlut Rússa. Má þar nefna aðsendar greinar sem birst hafa í Morgunblaðinu til stuðnings málstað Rússa.
Íslensk stjórnvöld hafa réttilega tekið afstöðu með bandamönnum sínum innan NATO gegn yfirgangi Rússa. Fyrirlitning á alþjóðalögum er hættuleg ögrun ekki síst fyrir smáríki. Varðstaða um virðinguna fyrir þeim er grunnþáttur í utanríkisstefnu Íslands.

RUV fjallaði um þetta í gær og birti það grein sendiherrans í heild þar sem segir m.a.: 

Bandaríkin, líkt og aðrar þjóðir, hafi fundið fyrir afleiðingum refsiaðgerðanna og gagnaðgerða Rússa.
Þá segir sendiherrann að Bandaríkjamenn sýni því skilning að aðgerðirnar hafi áhrif á sjávarútveg Íslands og leggist þungt á sum byggðarlög á landsbyggðinni. Engu að síður sé mikilvægt að „standa vörð um nauðsynlegar grundvallarreglur sem eru í húfi ef við ætlum að draga úr árásargirni og viðleitni til að breyta landamærum með vopnavaldi.“ Segir í greininni.
Grein sendiherrans var birt á Facebook-síðu bandaríska sendiráðsins í dag. Þar kemur fram að greinin hafi verið send Morgunblaðinu til birtingar. Sendiráðið hafi vonast til að greinin birtist í blaði dagsins í dag. Það hafi ekki gerst og því sé greinin birt á Facebook-síðu sendiráðsins.


Ég veit ekki hvort þessi skrif hér lýsi blaðamennsku eða fjölmiðlamennsku á Íslandi. Eftir því sem ég sé hefur enginn hringt í ritstjórn Morgunblaðsins, kannski eru allir hræddir að Davíð svari í símann. Svo það er enginn sem ríður feitum hesti í þessari fréttahríð.  Alls staðar vantar eitt símtal.  Það er gaman að notta samsærishugmyndir í þessu sambandi Davíð versus USA (Golíat).  En mér til furðu er ég sammála Birni Bjarnasyni í þetta sinn.  Þar sem hann segir:

Fyrirlitning á alþjóðalögum er hættuleg ögrun ekki síst fyrir smáríki. Varðstaða um virðinguna fyrir þeim er grunnþáttur í utanríkisstefnu Íslands.

Það tek ég heils hugar undir. 

Hér er grein Herðubreiðar: 

Verulega vond blaðamennska

Ein af fréttum föstudagsins var áreiðanlega grein bandaríska sendiherrans á Íslandi, sem hann hafði sent Morgunblaðinu til birtingar en þótti birtingin ganga seint og ákvað því að nota facebook til að koma skoðun sinni á framfæri.Robert Cushman Barber
Hér verður ekki tekin afstaða til efnis málsins, aðeins vinnubragða og umfjöllunar fjölmiðla.
Eyjan greindi fyrst frá málinu og þar kemur skýrt fram að sendiherrann vildi bregðast við frétt sem birtist í Morgunblaðinu 4. janúar. Ekki er ljóst hvenær sendiráðið kom viðbrögðum sínum á framfæri við Morgunblaðið, en fram kemur að það vonaðist til þess að greinin birtist í föstudagsblaðinu 8. janúar.
Þegar það gerðist ekki vildi sendiráðið ekki bíða lengur og ákvað að nota facebook.
Þetta eru einu staðreyndirnar sem liggja fyrir þegar þetta er skrifað seint á föstudagskvöldi. Allt að einu kaus Eyjan að fullyrða: „[Greinin] fékkst ekki birt þar.“ Í Morgunblaðinu semsagt. Fyrir þessu liggja engar upplýsingar. Svo getur farið að grein sendiherrans birtist í fyrramálið (laugardag) eða jafnvel á mánudag.
Enginn annar fjölmiðill gekk svo langt að fullyrða að Morgunblaðið hefði neitað að birta grein sendiherrans. Þeir greindu skilmerkilega frá óskum og vonum sendiráðsins um tiltekna dagsetningu, og meðfylgjandi vonbrigðum.
Nema einn. Einn fjölmiðill gekk miklu lengra. Sjónvarpsstöðin/vefmiðillinn Hringbraut fullyrti í fyrirsögn: „MOGGINN: ÞAGGAR NIÐUR Í SENDIHERRA“.
Látum nú vera hvernig Morgunblaðið getur þaggað niður í sendiherra, en hitt er verra að fyrirsögnin stenst enga skoðun, ekki efnislega, hvað þá faglega. Þegar blaðamaður/vefritstjóri Hringbrautar kynnti „fréttina“ á facebook bætti hann um betur og sagði að Morgunblaðið „neitaði“ að birta grein sendiherrans.
Engin þessara fullyrðinga á sér stoð í staðreyndum. Jafnvel þótt þær séu settar fram í hástöfum.
Það er verulega vond blaðamennska.

Mynd: Vetrarmynd úr Breiðdalnum tekin af höfundi. 

föstudagur, 8. janúar 2016

Balthasar: feministi af lífi og sál?

Karlremba er víða, oft finnur maður þessa áráttu hjá sjálfum manni, uppeldi og annar heimur fyrir nokkrum áratugum, margt hefur þó áunnist, karlar taka meiri þátt í uppeldi barna sinna en áður, ganga í mörg heimilisstörf, en langt er í land með launajafnrétti.  En betur má ef duga
 skal. Því er gott að fá þetta innlegg frá Balthazar. Fyrirmyndir eru nauðsynlegar og það er gott að hafa sjálfsgagnrýni eins og hann hefur í þessu viðtali. En hann er úr atvinnugeira þar sem oft virðist vera mest lausung í fjölskyldum.  Frægð og stjörnulíf eru ekki alltaf holl. 




Hann á sjálfur tvær dætur, 19 ára og 22 ára. „Ég get ekki séð það í hjartanu að þær eigi að sitja við lægri skör en drengirnir mínir. Þetta eru mannréttindi. Ég ætla ekki að vera eins og þeir sem voru mótfallnir kosningarrétti kvenna á sínum tíma,“ segir hann og bætir við að þetta viðhorf hans til feminisma ætti rætur í því að hann ætti börn af báðum kynjum. Hann vilji standa vörð um dætur sínar. „Það er bjánalegt að finnast þær eiga minna skilið heldur en þeir. Það er bjánalegt að vera með bert kvenfólk upp á vegg þegar þú átt dætur á sama aldri. Það eru ákveðnir hlutir sem ganga ekki upp í því umhverfi og þú lærir og þroskast og breytist.“
Hann segist sjálfur hafa alist upp á heimili þar sem móðir hans réð ríkjum og fyrir honum hafi til að mynda ekki verið óeðlilegt að þurfa að sinna heimilisverkum. „Samt liggur þetta karlrembuviðhorf svo víða grafið í manni. Maður þarf alltaf að vera að skoða sjálfan sig: Er einhver feðraveldis risaeðla sem býr djúpt í mínum iðrum?“
Lesa má viðtalið við Baltasar í heild sinni hér

fimmtudagur, 7. janúar 2016

Ríkisstjórn:Og sjá blindir fá sýn!!!

Nei, ætli það sé ekki rétt hjá Forsætisráðherranum, lykilorðið blindandi, ríkisstjórn á ekki að gera neitt blindandi, ekki að gera neitt með bundið fyrir augun.  En það gerir hún skipti eftir skipti.  Alla samninga á maður að skoða fyrst, íhuga, rannsaka, liggja yfir. Það gera SDG og kó ekki.  Þess vegna lenda þau í ógöngum dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð.  

Gott er að vita hvers vegna viðskiptabann var sett á Rússland, hvaða ástæður voru að baki, hvað gerðist í Úkraínu og á Krímskaga.  Hvers konar stjórnarfar er í Rússlandi, hvað hættur fylgja því að vera háð slíku spillingarþjóðfélagi.  Það er ekki bara verið að elta ESB, við erum líka í NATO og það hefur ýmislegt með þetta mál að gera.  Kannski eigum við heldur ekki að vera þar.  Það er gott að ræða það líka.  Það er ekki nóg að hafa tugi ráðgjafa ef þeir geta ekki sett upp plön A, B og C hvað geti gerst. Líklega er heil blindradeild í Stjórnarráðinu.  Það er eitt sem kemur í veg fyrir það, hinir raunverulega blindu sjá betur en ríkisstjórn hin íslenska lýðveldis. Aldrei hefur verið jafn stór hópur amlóða saman kominn í ríkisstjórn, eins og Jónas myndi segja. Teljum upp heimskupörin ........  


Sigmundur Davíð: Getum ekki bara elt ESB og tekið þátt í viðskiptaþvingunum blindandi