miðvikudagur, 12. febrúar 2014

Ráðherrar í vanda

Kristján Þór starir á skrifborðið; Hvað á ég að gera, það er erfitt að taka ákvarðanir, það er erfitt að taka af skarið.  Það er ekki svo auðvelt að vera ráðherra.  Allir reyna að að bögga mann. Ég á
engan pening. Bjarni talar ekki við mig. Ætli Steingrímur Ari gefi skít í samninganefnd sína?   Æ, ég set reglugerð í nokkra mánuði.  Ætli ég megi ekki það?  

Ragnheiður Elín klæðir sig í skrautbúninginn sinn, fjaðrirnar standa í allar áttir, hún blæs hárið og spreyar yfir sig, hún er glæsileg í dag.  Móttaka hjá nýja Framkvæmdastjóra flokksins.  Hún hefur ekki treyst sér austur á Geysi að tala við þessa frekjudalla.  Svo ætla þeir bara að byrja í næsta mánuði. O, þetta veldur mér svo miklum vonbrigðum.  Og ég ekki búin að hugsa.  Það er aldrei tími, ég er alltaf skipta um föt.  

Hanna Birna vaknaði með hnút í maganum.  Í dag voru óundirbúnar fyrirspurnir.  Hann Mörður lætur mig aldrei í friði.  Hvað get ég gert?  Á þetta pakk að komast upp með hvað sem er?   Eignast meira að segja börn til að halda sér hérna.  Ohhhhh, og
glottið á Merði. Ég hélt að þegar maður væri ráðherra mætti allt. Má ekki tala við blaðamenn einu sinni?   Það er best ég læðist til Ísafjarðar.  Ég hleyp blaðamennina bara af mér, ég hef alltaf talað hratt og hlaupið hratt.  Ég er best. Sigmundur og Bjarni gerðu þetta bara verra,   Ætli Davíð hjálpi mér ekki, læt hringja í hann. Ef hann getur ekki hjálpað ..........   


Úr reglugerð sett í morgun:
„Reglugerðin fjallar um þjónustu sjúkraþjálfara sem reka eigin starfsstofur utan sjúkrahúss við einstaklinga sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum. Forsenda fyrir endurgreiðslu sjúkratrygginga vegna þjálfunar er að fyrir liggi skrifleg beiðni frá lækni þar sem sjúkdómsgreining kemur fram. Þó er heimilt að víkja frá kröfu um skriflega beiðni læknis vegna bráðameðferðar sem nemur allt að sex skiptum á einu ári,“ segir í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu.

„Sjúkratryggður sem þarf á þjálfun að halda samkvæmt mati á rétt á allt að 20 skiptum í meðferð á ári en í reglugerðinni er kveðið á um heimildir til að fjölga þeim að tilteknum skilyrðum uppfylltum.“

Sigmundur sagði: 


 „Þá gætu menn bara stundað það, að viðhafa stöðugar rannsóknir og ráðherrar gætu aldrei mætt í vinnuna. Ég minni nú á það að á síðasta kjörtímabili voru ráðherrar dæmdir, oftar en einu sinni, án þess að víkja tímabundið eða varanlega. Þannig að að láta sér detta í hug að innanríkisráðherra eigi að víkja út af þessu er alveg fráleitt.“
Bjarni sagði:   „Ég bendi á það að ef það færi svo að í hvert skipti sem ráðherra dómsmála þyrfti að víkja vegna kæru myndi það kalla á mikla upplausn yfir starfsemi ráðuneytisins,“ sagði Bjarni í samtali við fréttastofu RÚV á föstudaginn
Hjálpræði Davíðs: 


Davíð vill að upplýsingar um hælisleitendur liggi fyrir og að almenningur geti nálgast þær. „Ef umsækjendur eru vafasamir pappírar, á ekki almenningur í landinu rétt að upplýst sé um það? Ef ráðherra veitir slíkum aðila dvalarleyfi eða hæli þrátt fyrir æpandi annmarka, er honum ekki skylt að upplýsa um það og rökstyðja slíka ákvörðun, þótt slíkt gæti verið umsækjandanum örðugt?“ spyr ritstjórinn góðkunni enn fremur. Þess má geta að Tony var vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og því tengdust ávirðingarnar sem birtust í minnisblaðinu ekki brottvísun hans með neinum hætti.


þriðjudagur, 11. febrúar 2014

Matvörur: Viljinn að svindla og græða

Það er merkilegt hversu viljinn til að svindla er útbreiddur í framleiðslulífinu. Hversu það tengist viljanum að græða.  Það skrimti í mér þegar ég las grein í Observer um matvörur  í
einu héraði í Englandi, Jórvíkurskíri.  Af sýnum sem voru tekin voru 38% ekki eins og gefið var upp á umbúðum og það kenndi ýmissa grasa hvað lenti í framleiðslunni!!!! Á sama tíma er verið að skera niður eftirlit alls staðar í samfélaginu okkar við eigum að treysta framleiðendum!!!!  Og það sýnir sig að þeir eru ekki traustsins verðir. 

En, lesendur góðir, nokkur dæmi: 


mozzarellaostur þar sem ostur er helmingu hitt einhvers konar ostlíki 

skinka sem er einhvers konar blanda af aukaefnum  og kjöttætlum sem   myndast þegar kjöt er skrapað frá beini 

skinka er ekki skinka á pizzum annað hvort fuglameti eða kjötskrap 

rækjur með 50% vatnsinnihald 

jurtamegrunarte þar sem ekket te var í eða jurtir, bara glúkósaduft með megrunarlyfi sem var komið langt yfir notkunartíma, skammturinn þrettán sinnum sá boðaði 

ávaxtasafi með ótrúlegustu efnum meðal annars  jurtaolía notuð í sambandi við að draga úr eldhættu einnig  notað á rottur í tilraunum

vodki með ekkert sem skilgreina má sem vodka 




Forstöðumaður rannsóknarstofunarinn sagði að þetta væri örugglega hægt að túlka sem ríkjandi  ástand um allt Bretland.  Ætli vinnubrögðin  séu eins hjá okkur? Brotaviljinn jafn einbeittur????   Niðurskurður ríkjandi hjá eftirlitsstofnunum, allt er leyfilegt, við þurfum ekki að fara eftir reglum.  Við erum Íslendingar. Eða hvað?   


sunnudagur, 9. febrúar 2014

Ísland: Spilling eins og vera ber

Forsætisráðherra neitar að afhenda gögn um fund við Barroso í júlí í fyrra, sem Árni Páll hefur beðið um. 


Innanríkisráðherra hefur óhreint í snyrtiveskinu og harðneitar að segja af sér.  Þótt hún sé æðsti yfirmaður lögregunnar og geti per se haft áhrif á rannsókn á sjálfri sér.  

Forseti landsins heimsækir vin sinn Pútín í Rússlandi.  Vinir hans virðast vera spillingargossar  og harðstjórar víða um heim.  

Allt eins og vera ber í spillingarlýðveldinu Ísland. 

Fiskileitarskipum landsins er lagt og áhöfn sagt upp, það þarf víst ekki lengur að leita fiskjarins í höfunum.  Hann fer bara inn í Kolgrafafjörð og bíður þar skipanna.  Ætli Sigmundur Davíð komi ekki og blessi hann með Frú Agnesi. 

 Útgerðarmenn selja togara sína í gríð og erg, kenna veiðigjöldum og sköttum um, fréttamenn gleyma að spyrja hvers vegna að það sé þá mesti gróði nokkurn tíma í greininni.  Svo á að hverfa aftur til smáskipa í staðinn fyrir tæknisvæddustu skip í heimi.  Já, Guðjón minn, þetta eru asnar.  Þeir eiga það þeir mega það. 

Hvar er endurskoðun þingsins á vðræðuumræðum?   Þetta sagði Barroso eftir að hafa rætt við SDG.  

Let me be clear: The Commission respects the decision of the government regarding the accession process. We look forward to clarity on the validity of Iceland's membership application after the parliamentary assessment on European Union accession, which will take place this autumn. 16/07/2013



Fundir og viðræður í Sochi



Forseti á fund með forseta Finnlands, Sauli Niinistö, í tengslum við Vetrarólympíuleikana í Sochi. Rætt var um vaxandi samvinnu Íslands og Finnlands í málefnum Norðurslóða, mikilvægi þeirra í þróun norrænnar samvinnu, góðan árangur af Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið var í Reykjavík 2013 og undirbúning að þingi Arctic Circle 2014. Þá átti forseti einnig fund með Albert II, fursta í Mónakó, sem á sæti í heiðursráði Hringborðs Norðurslóða. Rætt var um vaxandi alþjóðlegan áhuga á málefnum Norðurslóða sem m.a. birtist í þátttöku um 40 þjóða í þingi Arctic Circle í Reykjavík. Rætt var um þróun Hringborðsins á næstu árum og málefni sem yrðu á dagskrá þess í Reykjavík í haust. Þá átti forseti viðræður við forseta Tékklands, Miloš Zeman, um góða samvinnu ríkjanna í tíð tveggja fyrirrennara hans, Václav Havel og Václav Klaus, og árangur af opinberri heimsókn forseta til Tékklands 2012. Í viðræðum forseta við Xi Jinping, forseta Kína, þakkaði forsetinn Íslendingum fyrir framlag þeirra til þróunar hitaveitna í kínverskum borgum en slíkar framkvæmdir drægju mjög úr loftmengun. Þá lýsti forseti Kína ánægju með fríverslunarsamning landanna og vaxandi samstarf í málefnum Norðurslóða en vísindaferð rannsóknarskipsins Snædrekans um Norðurslóðir og til Íslands hefði skilað miklum árangri. Í viðræðum forstea við Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, kom fram mikil ánægja hans með árangurinn af heimsókn til Íslands nýlega og ósk um að Íslendingar tækju öflugan þátt í loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður árið 2015. Í viðræðum forseta við Friðrik krónprins Danmerkur og erkihertogann af Lúxembúrg, sem báðir sitja í stjórnarnefnd Alþjóðaólympíusambandsins, var og fjallað um hve víðtækur undirbúningurinn að Vetrarólympíuleikunum hefur verið á undanförnum árum. Myndir.

fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Sæmd og Andköf: Ólíkar bækur

Lokið við tvær bækur í vikunni:  Sæmd Guðmundar Andra Thorsson og Andköf Ragnars Jónassonar. 

Sæmd:  Þessi litla bók er svo hlýleg, húmanístisk og hjartahreinsandi (flott orð !). Rithöfundar þurfa ekki að skrifa langar bækur til að skrifa góð verk. Til þess að skapa yl innra með okkur lesendum.  Svo er um Sæmd.  Hugmyndin, sögufrægir einstaklingar berjast um
grundvallarsjónarmið.  Meirihlutinn hefur að sjálfsögðu rangt fyrir sér, og margir eru þrælar síns umhverfis og tíma.  Draumsýn um fullkominn skóla og umhverfi, eina og hún speglast í höfði Björns M. Olsen, hlýtur alltaf að steita á skeri. Sá breiskasti rís upp og hefur sigur.  Fórnarlambið, þjófurinn, lifir áfram lífi sínu, en er hann skaðaður ævilangt?  Er það þessi atburður sem skapar með honum fangavist einsemdarinnar?  Og Harðstjórinn (var hann harðstjóri í raunlífinu?) lifir áfram í skugga þess sem samtímamenn hans töluðu ekki um, vinurinn inn á gafli, presturinn öðru hverju í heimsókn, hin góðborgaralega slikja hvílir yfir öllu. En Harðstjórinn getur kastað steinum í aðra.  

Sumum finnst erfitt að lesa sögulegan róman þar sem tíminn og persónurnar farast á mis. Tíminn vill ei tengja sig við mig. Eflaust passar ekki allt í samskiptum þeirra starfsfélaga.  En það gerir ekki til, finnst, mér, þetta verður nokkurs konar allegoría.  Einfalt brot fær okkur til að hugleiða réttlæti og ranglæti, glæp og refsingu. Allt þetta yrði vafalaust ómerkilegt ef það væri ekki stíll Guðmundar Andra sem lyftir öllu á hærra plan. Fær okkur lesendur til að dilla sér í rúminu.  Þannig var um mig.  Kaflinn um ferð Benedikts Gröndal suður á Álftanes fékk mig til að taka andköf.  Ísþokan fólkið hugleiðingar uppreisnarmannsins, allt varð þetta að töfrum í stílnum.  Stuttar og hnitmiðaðar mannlýsingarnar,lýsingin á Reykjavík,  myndin af kennurunum á kennarastofunni, fólk og umhverfi Fórnarlambsins í sveitinni. Hús Benedikts. Dapurleg örlög og líf Íslendinga á þessum harðindatímum 19. aldar.   Þessi bók snart mig.  

Ég lauk líka við reyfara Ragnars Jónassonar.  Ég hef lesið allar bækur hans, þetta er góð afþreying eins og maður myndi segja um glæpakvikmynd í meðallagi.  Spennandi en vantar meira hold á beinin, staðarvaldið skemmtilegt, þegar ég bjó í Húnavatnssýslu fór ég nokkur skipti norður í Kálfshamarsvík, það er merkilegt að koma þangað sem hundruðir manna sóttu vertíð forðum.  Vitinn er þar og stuðlabergið, ekki eins stórbrotið og lýst er í bókinni.  En fléttan var ágæt og ýmislegt gekk á í vetrarveðri.  En það hefðu getað verið meiri lýsingar á umhverfinu og fólkinu sem gerðu sakamálasöguna stórbrotnari.  En þá er ég líklega að biðja um annars konar bók.  Og þó sumum höfundum tekst að hefja glæpasöguna á hærra plan, Arnaldi tekst það í nýju bókinni sinni.  Hið harmræna verður svo sárt hjá honum.  Hann nær þessum tóni.  Ragnar nær honum ekki.  En bækur hans og persónur bjóða upp á afþreyingu á síðkvöldum, meðan maður sofnar.   Ég les hann áfram örugglega. Hvort það séu meðmæli, ég veit það ekki. 

miðvikudagur, 5. febrúar 2014

Woody Allen: Glæpir og refsingar

Í seinustu viku horfði ég á nýjustu mynd Woody Allens, Blue Jasmine, myndin fjallar um konu í taugaáfalli, ekki á barmi, heldur í.  Fjölskylda hennar hefur gengið í gegnum miklar hörmungar, maður hennar sem var fjármálamaður setti allt á hausinn, var fjárglæframaður, það tætir fjölskylduna í sundur og hún Jasmine heitir hún leitar á náðir systur sinnar sem
tilheyrir annarri stétt, hún er ekki rík, er á öðru menningarsviði ef maður segir svo, býr í fátækrahverfi að mati systurinnar.  Svo heldur harmleikurinn áfram í nýrri borg á nýjum stað, meira vil ég ekki segja.  Nema að þessi mynd var afargóð og leikur Cate Blanchett, áströlsku leikkonunnar víðfrægu, var þvílíkur að annað eins hef ég ekki séð lengi. Það er merkilegt að Woody Allen geti gert mynd sem hefur svo mikla stéttarlega og samfélagslega tilvísun.  

Svo komu nýju fréttirnar um samskipti Woodys og fyrrverandi uppeldisdóttur hans.  Einu sinni enn.   Við Íslendingar erum svosum orðin hagvön fréttum af kynferðisglæpum gegn börnum og unglingum. Það er meira að segja dæmt í þessum málum núorðið.  Lýsingarnar á framferði barnaníðinga eru ekki óþekkt fyrirbrigði en málið er ennþá hvort hægt sé að sanna á þá glæpinn. Oft koma glæpirnir upp úr sálartetrinu eftir mörg ár. Við viljum ekki að saklaust fólk lendi í fangelsi.  Ekki einu sinni þótt sumt geti bent til sektar.  Þannig er með Woody Allen.  Það er kjarngott að hafa hann á milli tannanna, selur vel í fjölmiðlum, þótt hann hafi ekki verið ákærður eða dæmdur.  Við höfðum nýlega dæmi í okkar litla þjóðfélagi í okkar litlu yfirstétt. Þar sem svipað gerðist, ákæra löngu eftir að atburðir gerðust, safamiklar lýsingar í slúðurblöðum, fjölskyldur í sárum.

 Og hvað eigum við að gera, fólkið úti í bæ?   Við sem höfum verið aðdáendur listamannsins eða stjórnmálamannsins?  Ég verð að viðurkenna að þetta hefur áhrif á mann þessar lýsingar, ég man að ég horfði öðrum augum á Íslendinginn sem fékk á sig árásirnar á eftir.  En ég var ekki tilbúinn að dæma hann samt endanlega.  Sama er um Woody ég hef verið aðdáandi kvikmyndalistar hans og orðsnilldar. Hann er einn af þessum snillingum af guðs náð, stundum pirrandi úr hófi, oftar gleðigjafi á erfiðum stundum í lífinu. En getum við dæmt hann, svona einn tveir og þrír án ákæru án dóms?   Gatan er búin að dæma hann, hvernig getur hann varið sig?  Það hafa ekki fleiri stigið fram og bent á hann. Á hann sér uppreisnar von? Eigum við að trúa því að heilt heilbrigðis og dómskerfi taki mál hans silkihöndum þar sem um er að ræða alkunnan einstakling  og er það sama hjá okkur?  

Ég veit það ekki, ég hef ekki spádómsgáfu.  Það er gott að hafa í huga glerhúsið og steinana. 

sunnudagur, 2. febrúar 2014

Hanna Birna: Í umboði hverra????

Sorglegt, að sjá hvernig, við, við, stór hópur Íslendinga halda að flestir þeir sem leita hælis hér séu glæpamenn og hyski.  Enn sorglegra að starfsmenn ráðherra skuli brjóta lög til að viðhalda
hugmyndum um þetta viðhorf.  Sem virðist vera orðið óyggjandi.  Það setur að manni hroll.  Að tilgangurinn helgi meðalið hjá þessu fólki. Svo talaði ráðherrann um það væri svo mikill ágreiningur um stefnu. 
 , það snúist um að koma í veg fyrir það að ráðuneytið geti með trúverðugum hætti unnið að þessum mikilvægu málefnum og að það snúist um það að koma í veg fyrir að sá ráðherra sem hér stendur geti innleitt breytingar sem sannarlega er ágreiningur um. 

Það væri gaman að vita um ágreining þennan. Er það að engir útlendingar eigi að saurga land okkar og mið? Er það að við eigum að láta starfsmenn vafasamra stofnana í friði þeir séu að starfa í samræmi við þjóðarsálina sem þeir eru í beinu sambandi við?  

Svo sér maður þetta aumingja fólk á skjánum sem margt hefur flækst á milli landa hefur ekki komið til heimalands síns í áratugi.  Það er látið bíða sem lengst að fá kennitölu og atvinnuleyfi, það er brotið niður í aðgerðarleysi.  Svo á bara að senda það heim, af því að það er friður og ró í Afganistan!!! 

Mikið þakkar maður fagfólki sem tekur máli þessa fólks þegar á við að hetja heilt embættismannakerfi sem sýnir allar verstu hliðar embættismanna, maður veit ekki í umboði hverra???? Það virðist ekki skipta máli hver sé í stjórn. 

Aðalatriði að ekkert á að koma upp á yfirborðið, fólk flutt út á flugvelli í skjóli nætur, fólk flutt að geðdeildir þegjandi og hljóðalaust. OG við eigum auðvitað að þegja. 


laugardagur, 1. febrúar 2014

Misgóður Hamlet: Ólafur Darri meistari

Sá Hamlet í gærkvöldi í Borgarleikhúsinu.  Misgóð sýning, eins og stjórnendur leikstjóri, dramatúrg hafi aldrei getað ákveðið hvort þeir ætluðu að fylgja hefðinni eða feta inn á
póstmódernistiskar brautir.  Texti WS með nútímabröndurum tölvumáls ekki svo skemmtilegt til lengdar.  Herbúr úr Íraksstríðinu ekki heldur.  Af hverju ekki að fara þá alla leið?  Nútímalíf og stríð?   Kirkjugarðssenan var vandræðaleg, jarðaför Ófelíu gerð að einhverjum kjánaskap.Vantar einhverja heildarsýn stjórnenda, sýningin mun lakari eftir hlé. 

  En það var ýmislegt gott. 

Ólafur Darri, það er ekki amalegt að hafa leikara sem getur fyllt út í stórt og djúpt sviðið og salinn.  Bráðskemmtilegur í brjálsemi sinni. Tragískur í sorg sinni.  Ég gæti hugsað mér að fara aftur til að fylgjast með honum.  Horfa á listir hans og fimleika. Stórleikari, einu orði sagt. 

Aðrir leikarar bara góðir þótt ekki stórbrotnir, mér þótti Ófelía leikkonan ágæt, Hildur Berglind Arndal, Jóhann Sigurðarson,  jú þau skiluðu öll sínu.  

Tónlist Úlfs Eldjárn stjórbrotin ansi góð.  Sviðið stórt og djúpt og skilað sínu, þessar járngrindur eru samt orðnar þreytandi.  

Mér virtust áhorfendur skemmta sér, sýningin oft spennandi, oft fyndin, oft sorgleg, stundum vandræðaleg. 

Svo farið og skoðið sjálf, það er gaman að fara í leikhús.  Þetta er þriðja Hamlet sýningin sem ég sé, Gunnar Eyjólfsson, Þröstur Leó og Ólafur Darri.  Í hugarminningunni er Þröstur bestur.  Sú sýning, var það ekki Kjartan Ragnarsson?, var skemmtileg í spillingarsvip sínum, En það var ansi langt síðan. Ég hugsa að ég hafi breyst síðan.  

Svo sá ég tvær kvikmyndaútgáfur, rússneska myndin í leikstjórn Kozintsev með Innokenty Smoktunovsky í hlutverki Hamlets hafði mikil áhrif á mig á sjöunda áratugnum.