mánudagur, 27. október 2014

Verjum velferð: Nú er lag

Nú er hafið læknaverkfall.  Skæruverkfall til að minna á að þjónusta og tæki okkar eru á niðurleið. Til að minna á að við getum misst stóran hluta af okkar góða sérfræðingaliði svona einn tveir og þrír úr landi.  Og hvað ætlum við að gera?  Fólkið í landinu sem þarf að nota þessa þjónustu?

Þeir sem stjórna landinu um þessar mundir virðist vera fyrirmunað að skilja aðstöðu venjulegs fólks. Flestir ráðherrarnir eru silfurskeiðabörn sem hafa aldrei komið að störfum.  Sumir verið í pólitík alla ævi.  Hafa aldrei litið í eigin barm.  Samanber innanríkisráðherra á Kirkjuþingi.  Bjálkinn og flísin.  

Já, er ekki kominn tími til góðra verka?  Verjum velferð.  Er ekki liðinn tími að horfa á kjánana göslast í drullupollunum og segja fúla brandara?   Verðum við ekki að verja; grunnþjónustu alla, tryggingakerfið, heilbrigðiskerfið, skólakerfið.  Höfum við ekki horft á einum of lengi? 



Er ekki kominn tími til að tengjast?  Er ekki komið nóg?  



sunnudagur, 26. október 2014

Jack Bruce: Meistari horfinn

Þær hverfa yfir móðuna miklu, hetjurnar frá forðum, þær sem lituðu upp myrkrið og skammdegið í Reykjavík forðum daga. 
 Á sjöunda áratugnum.   Nú er Jack Bruce horfinn, bassaleikarinn knái og lagasmiðurinn, sem gerði marga smellina með ljóðskáldinu Pete Brown. Lék með Alexis Korner, John Mayall, Graham Bond Band.  Hann var í tríóinu sem breytti tónlistarsögunni, notuðu impróvíseraða tónlist í bland við flottar laglínur.  In the white room, Sunshine of your love, Badge , I feel frée og svo framvegis. Með Eric Clapton og Ginger Baker.  Enginn spilaði bassa eins og hann. Fáir glöddu mig meira. Eftir að leiðir þeirra félaga skildu, þá gerði hann nokkrar flottar sólóskífur, Songs for a Taylor, Harmony Row, Out of the Storm.  Tók þátt í ýmis konar tilrauna og jazz tónlist.  En svo skilst mér að Bakkus og Dópa hafa stjórnað ferðinni í nokkur ár. Og heilsan fór með því, lifrin gaf sig, henni var skipt út, en entist ekki.  En hann var alltaf að.  Cream kom saman fyrir nokkrum árum.  En ekki til langframa. Svo er hann horfinn, eins og við öllum gerum.  Út á ólgusjó moldar eða elds.   Við minnumst hans, með fögrum línum, sjáum fyrir okkur, hrukkótt og lífsreynt andlit hans, það verða margir sem fagna honum og vilja byrja strax að spila og djamma, eða hvað?


Fréttin.
 

Ný skífa kom í byrjun ársins, góður diskur en engin meistarasmíð. 
 

Frábært lag:  A Theme for an Imagninary Western

laugardagur, 25. október 2014

Landspítalinn: Nóg komið

Frétt vikunnar er eflaust Umræðan um Landspítalann. Skelegg frammistaða starfsfólks í fjölmiðlum. Fjöldi fólks sem vinnur við óviðunandi aðstæður. Er orðið örmagna að búa við úrelt tæki og lyf.

Yfir þessu kerfi voma stjórnmálamenn og ráðherrar sem telja sitt hlutverk vera að gæta hagsmuna auðmanna landsins. Stöðugt er hamrað á úreltum kenningum um lága skatta fjármálaelítunnar, því er það bannorð að nefna byggingu nýs Landspítala eða gera nokkuð róttækt til að bæta aðstöðu sjúklinga og starfsfólks.  Sem hefði í för með sér kröfur um eðlilegar og sanngjarnar álögur.

Dapurlegt var að horfa á Heilbrigðisráðherrann  á sjónvarpsskjá um, einhvern veginn úr öllum tengslum við veruleikann. Hann ræðir við lykilstarfsmenn heinbrigðiskerfisins án þess að hlusta. Kemur ofan af fjöllum þegar talað er um uppsagnir. Hjá honum er mikilvægast að sitja uppi í turninum í hægðum sínum og stjórna varðsetu um úrelt hjóm auðvaldsins og tryggja hag flokksins.

miðvikudagur, 22. október 2014

Vélbyssugleðir og vígasveitir

Húmoristar hafa gaman að vélbyssum, stjórnmálagleðipinnar á Îslandi ef marka má fréttir seinustu dægrin.  Svo eru þeir einstaklegar smekklausir.

Þetta fôlk veður áfram, heldur að að lífið allt sé eitthvað  til að skrumskæla, skilur ekki kjör fólks af öðrum trúarbrögðum sem hefur þurft að flýja yfir hálfan hnöttinn til að halda lífi, vopn er í þeirra skynjun leikföng til að vinna fjölmiðlapunkta. Fátækt annarra verður talnaruna króna og aura sem hefur enga aðra merkingu nema til að snúa út úr fyrir pólitískum andstæðingum.

Samt eru þau eitthvað feimin að bruna fram í sviðsljósið klædd í herskrúða veifandi alvæpni. En sagan er ekki öll.






mánudagur, 20. október 2014

Hverjum þjónar ríkisstjórnin?

Það er margt skrítið í henni Stjórnarbungu. Ráðherrar, ráðamenn sem vita allt best, hlusta ekki, tala ekki við þá sem eru ekki alveg sammála. Halda að þeir geti haldið niðri andstöðu með reiði ofstopa, hraunað yfir aðra.
 Mörg stórmál í algeru uppnámi: 

 

Leiðrétting á verðtryggingu og skuldastöðu lána heimilanna. 

 

Virðisaukaskatturinn.  

 

Staða heilbrigðiskerfisins. 

 

Skólakerfið. 


Engir smámálaflokkar.  En ... þeir vita allt best, er það ekki????? Eitt er sameiginlegt í öllum þeirra gjörðum.  Að vera fulltrúar hinna ríku, auðugu, landeigenda Íslands.  Að hylma yfir spillingu, það kunna þeir, Að sjá ekki hvaða mál eru þýðingarmest fyrir fólkið í landinu.  Er það mikilvægast að úthluta beinum?

Svo fólkið í landinu vonar að þeir geri ekkert.  Þá gera þeir ekkert af sér. Eða hvað?

  







sunnudagur, 12. október 2014

Jón Steinar gefur út bók og aðrar furðusögur



Ég hlustaði á skemmtilegt viðtal á föstudagsmorgun við Helgu Völu Helgadóttur, lögfræðing og báráttukonu.  Það var ansi lífgandi, viðtölin hjá Sigurlaugu Jónasdóttur er misgóð, svo virðist hún svo oft ræða við fólk sem ég hef lítinn áhuga á að heyra, stundum eitthvað sem tilheyrir einhverjum nýaldarhugmyndum, ekki beint mitt svið.  Oft eitthvað sem ég átta mig varla á hvers vegna sumir eru komnir í viðtal í RUV1.

En þetta spjall við Helgu Völu, vakti mann upp á föstudagsmorgni.  Hún virðist koma til dyranna eins og hún er klædd.  Talaði óvægilega um agaleysi okkar Íslendinga.  Þótti skrítið, þegar hún byrjaði lögfræðinám á fertugsaldri, hve samnemendur voru oft tillitslausir, mættu seint í tíma.  Sama virðist vera að gerast í starfi hennar sem lögfræðingur.  Margir mæta seint, gleyma jafnvel að girða upp um sig.  Það er viða agaleysið.

Svo má ekki gleyma að Helga Vala hefur vakið athygli fyrir starf sitt fyrir lítilmagnann, flóttamenn sem koma hingað og fá óblíðar móttökur af stirðu og þvermóðskulegu kerfi sem lítur oft á sig hafa þann eina tilgang að koma í veg fyrir að fólk fái landvistarleyfi hjá okkur.   Það eru ekki margir lögfræðingar sem vilja vera þekktir sem talsmenn þessa hóps.  Því kunnum vi mörg að meta það starf.  Sem betur fer. 

Annar lögfræðingur kom sér fyrir í Kastljósinu í seinustu viku:  Jón Steinar Gunnlaugsson, nýútkomin bók þar sem hann á að vera með óvæga gagnrýni á Hæstarétt fyrrum vinnustað sinn í 10 ár. Ég get ekki sagt það að lögfræðiferill Jóns valdi mér svo sem einhverri hrifningu.  Hann var fylginn sér sem verjandi fólks fyrir dómi, vann þar marga sigra.  Ekki hef ég neina vitneskju um hvaða fólk leitaði til hans.  En seinni árin hefur hann haldið uppi skoðunum og hugmyndum sem eru fjarri mínum hugmyndaheimi.  Ég gef ekki mikið fyrir mann sem skrifar nafnlaust bréf til að rægja og gagnrýna samstarfsfólk sitt í Hæstarétti, þeirri stofnun sem maður gerir kröfu til að sé vammlaus að öllu leyti.   Starfsvettvanguf þar sem siðfesta og virðing á að vera allsráðandi.

Nú er það svo að óprúttnir stjórnmálamenn hafa viljað hafa tök inn í Hæstarétt þar sem tekið er á ýmsum grundvallarmálum samfélags okkar í dómum hans.  Samanber val á Dómurum um hríð.  Þar sem vinavæðing og ætterni skipti máli. 
Ég verð að viðurkenna það ég hugsa alltaf um Jón Steinar í þeim anda. Þótt það blandist saman við að hafa kynnst honum í fótbolta í fram á unga aldri þar sem hann er oft á tíðum afskaplega viðfelldinn maður. En hann virðist ekki geta gert greinarmun á vináttu sinni við einstaklinga og starfssviði sínu sem Hæstaréttardómari.   Ef maður stendur frammi fyrir slíku, þetta gildir um fjölmörg störf þá á maður að vikja til hliðar ef starf   manns snertir  kunningja. Þarna virðist baráttuandi, keppnisskap hans leiða hann á ranga braut.  Þegar þetta blandast saman við hæfilegan skammt af íhaldssemi þá er útkoman ekki góð. 

En lesandi góður,  í mörgum störfum er það þannig að grundvallarhugmyndir manns um mannlífið leiði mann til að velja sér starfsvettvang  þar sem maður tekur afstöðu.  Þá speglast hvort manngildi eða þröng eiginhagsmunahyggja og sérhagmunir ráða ferðinni.  Það speglast í því sem maður skrifar og talar um.

Þess vegna held ég að bók Jóns Steinars verði ekki eina af jólabókum mínum í ár.

þriðjudagur, 7. október 2014

Kastljósið: Ólafur Friðriksson kemur fram í sviðsljósið

Merkileg var vegferð Kastljóssins yfir þróun MS og sölu mjólkurafurða á seinustu áratugum.  Eiginlega svo yfirgengileg að margir þurfa að hugsa sinn gang og endurskoða hugmyndir sínar um ýmislegt sem varðar framleiðslu og dreifingu matvara. 

Rúsínan í pylsuendanum var svo Konungurinn í kerfinu, Ólafur Friðriksson, með Framsóknarputtana sína alls staðar.  Ég sé í netheimi að óhug hefur sett að mörgum.  Við vissum af alræði Kaupfélags Skagfirðinga undir valdi Þórólfs kaupfélagsstjóra sem lét margar krónur detta í ehf. félögin sín.  En þessi óheflaða spilling eins og kom fram í gærkvöldi þar sem hægt er að breyta um afstöðu á mínútunni, þar sem engar reglur eða lög eru svo heilög að ekki megi snúa út úr þeim til að beygja andstæðinginn í duftið, alltaf að því er virðist, smáframleiðendur með draum um frelsi sem urðu að martröð þegar krumla MS náði þeim.  

Ég er eflaust eins og flestir Íslendingar hliðhollur blönduðu hagkerfi þar sem bæði er frjáls samkeppni og annar rekstur þegar á við vegna smæðar markaðarins hjá okkur.  En það er sorglegt að eftirlitsstofnunum okkur skuli aldrei takast að koma í veg fyrir glæpsamlega stýringu á þessum kerfum.  Þar er auðvitað efst í huga Hrunhagfræðin öll, og þessi vinnubrögð hjá hinum ýmsu atvinnuvegum okkar.  

Það er því skrítið að nú eigi að skera niður fjárveitingar til eftirlitsaðila dæmi Sérstaks, sarga tennurnar úr þeim sem eiga að koma í veg fyrir glæpi og glundroða.