Merkileg var vegferð Kastljóssins yfir þróun MS og sölu mjólkurafurða á seinustu áratugum. Eiginlega svo yfirgengileg að margir þurfa að hugsa sinn gang og endurskoða hugmyndir sínar um ýmislegt sem varðar framleiðslu og dreifingu matvara.
Rúsínan í pylsuendanum var svo Konungurinn í kerfinu, Ólafur Friðriksson, með Framsóknarputtana sína alls staðar. Ég sé í netheimi að óhug hefur sett að mörgum. Við vissum af alræði Kaupfélags Skagfirðinga undir valdi Þórólfs kaupfélagsstjóra sem lét margar krónur detta í ehf. félögin sín. En þessi óheflaða spilling eins og kom fram í gærkvöldi þar sem hægt er að breyta um afstöðu á mínútunni, þar sem engar reglur eða lög eru svo heilög að ekki megi snúa út úr þeim til að beygja andstæðinginn í duftið, alltaf að því er virðist, smáframleiðendur með draum um frelsi sem urðu að martröð þegar krumla MS náði þeim.
Ég er eflaust eins og flestir Íslendingar hliðhollur blönduðu hagkerfi þar sem bæði er frjáls samkeppni og annar rekstur þegar á við vegna smæðar markaðarins hjá okkur. En það er sorglegt að eftirlitsstofnunum okkur skuli aldrei takast að koma í veg fyrir glæpsamlega stýringu á þessum kerfum. Þar er auðvitað efst í huga Hrunhagfræðin öll, og þessi vinnubrögð hjá hinum ýmsu atvinnuvegum okkar.
Það er því skrítið að nú eigi að skera niður fjárveitingar til eftirlitsaðila dæmi Sérstaks, sarga tennurnar úr þeim sem eiga að koma í veg fyrir glæpi og glundroða.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli