mánudagur, 6. október 2014

Óhugur: Ebóla og Vanhæfni ráðamanna


Það er margt ógnvænlegt í loftinu um þessar mundir. Eins og svo oft áður stingum við hausunum í sandinn, raðir af höfðum ofaní sandinum.  Ég er ekki að tala um eldgos og hamfarir þó þær séu líka inn í myndinni.  Ytri ógnir tala ég um.
 
Hvaða hagsmunir ráða því hvenær stórveldi grípa til vopna eða skipta sér af umhveiminum? Bandaríkin, Rússland og Kína. 
   
Það er svo margt sem kraumar undir.  Svo margt sem við fáum ekki svör við.  Svo margir vanhæfir stjórnmálamenn, valdamenn og auðjöfrar. Fréttirnar ansi oft vafasamar sem við fáum af atburðum heimsins. 

Svo margt sem við spyrjum ekki um, við erum svo oft hlýðin. Ebólan færist nær okkur og nær. 
Hvað ætli sé búið að eyða meiru í hernaðarútbúnaðar en Ebóluhjálpargögn seinasta mánuðinn.  Hvað ætli ráði meiru um að gripið var til loftárása, olíusvæði Mið-Austurlanda eða velferð fólksins á þessu svæði? 

Allt þetta ráðaleysi speglast svo vel hjá okkur Íslendingum í minni skala.
Við kjósum vitavonlausa menn til valda, við látum lýðskrumara vaða yfir okkur.  Daglega spyr maður sjálfan sig:  Hvaðan kemur þetta fólk?  Sem kann engin vinnubrögð, gerir axarsköft á hverjum degi, heldur að það sé komið í stjórnmál til að sópa að sér gulli. Hefur ekki lágmarks þekkingu á listum og menningu.   Sem betur fer höfum við ekki her maður veit ekki hvað hefði þá gerst. 

Já lesandi góður það er óhugur í mér, í morgun hlustaði ég á fréttirnar um að líklega færi drepsóttin að komast til Evrópu.  Mér varð hugsað til orða sóttvarnalæknisins um daginn að við myndum svo vel ráða við þetta.  Er það nú alveg víst? 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli