föstudagur, 2. október 2015

Askhenazy og Þóra æða fram á brún snilldar.

Sinfoníuhljómsveit Íslands spilaði í gærkvöldi.  Einleikari var hunangsblóm okkar allra, Þóra Einarsdóttir, rödd hennar er gull, silfur og brons. Stjórnandinn var engnn annar en Askhenazy sjálfur, snillingurinn ljúfi, sem veitti ómetanlega hjálp við að koma dásamlegu tónlistarhúsi okkar upp úr holunni.  Atburður sem hefur gjörbreytt tónlistarlífi okkar.  Sem aldrei hefði gerst ef hin óvinsæla vinstri stjórn hefði ekki komist til valda.  Þar voru ráðherrar og menntafólk sem sýndu djörfung á erfiðum tímum.  Sem ekki eru í dag við stjórnvöl, þar sem gryfja íslenskrar tungu og menningar mun halda áfram að blasa við augum um endalausa framtíð.  Ríkisstjór til eilífrar skammar.

Dagurinn var sannkallaður menntadagur í gær, eflaust má maður ekki segja það upphátt, þar sem allt á að meta í krónum og aurum.  En við fórum á fyrirlestur í Öskju þar sem 300 manns mættu til að hlusta á Guðna Th. Jóhannesson  flytja fyrsta fyrirlestur í röð sem verður í allan vetur.  Þar sem hann ræddi á skemmtilegan hátt um notkun stjórnmálamanna á efni og orðfæri Sturlungualdar.

 Síðan lá leið okkar í Hörpu á þessa glæsilegu en svólítið misjöfnu tónleika að mínu mati.  Lesendur eru beðnir að taka orð mín með fyrirvara, ég er nú bara amatör á þessu sviði, en leyfi mér samt að hafa skoðanir.  Þar sem við hlustuðum á verk snillinganna Brahms og Síbelíusar.  Askhenazy brunaði léttur á fæti inn í salinn og ýtti úr vör Sinfoníu númer 2 eftir Brahms.  Það eru falleg stef í þessari sinfoníu en einhvern veginn þótti mér hljómsveitin ekki ná hennni nógu vel í gang.  Svo ég var ekkert sérstaklega hrifinn þegar ég gekk út úr salnum í hléi.  Það var eitthvað sem ekki gekk upp. Eins og mér finnst gaman að verkum Brahms.

Í hléinu hittir maður vini og kunningja þar er oft glatt að hjalla.   Engum leiðist þar.

Eftir hléið byrjaði svo alvaran.  Og snilldin.  Allt í einu hófst allt í himinhæðir.   Þóra blómstraði í undurfögru söngverki Síbelíusar við Kalevala, einu af mörgu sem hann samdi, Luonnotar, heitir þetta, fjallar um sköðunarsögun. Ég get ímyndað mér að þetta sé erfitt að syngja þetta, en Þóra lék sér að því, eins og þetta væri Óli skans.  Áhorfendur kunnu svo sannarlega að meta það.  Dásamlegt einu orði.  Mikið er gaman að við skulum eiga svona framúrskarandi listamenn, eins og Þóru, og Kristin. Sem hafa lagt á sig mikla og erfiða menntun til að ná þessu valdi á Sönglistinni!

En svo kom rúsínan í pylusendanum, Sinfonía númer 5, enn var Síbelíus á ferðinni.  Og nú hófu Askhenazy og Hljómsveitin sig í hæstu hæðir.  Þetta magnaða verk varð að tónasnilld í mínum eyrum.   Allt ummyndaðist í fegurð, hljóðfæraleikararnir sýndu hvað í þeim býr. Askhenazy ýtti þeim áfram fram á brúnina þar sem snilldin ein ríkir.  Í mínum eyrum, ég fór glaður og syngjandi  heim. Stefin hljóma enn í eyrum mínum.




miðvikudagur, 30. september 2015

Gyðingar: Rosenstrasse, þá og nú


Í fyrra gisti ég á hóteli í Berlín, Hotel Alexander Plaza.  Ágætu hóteli, alveg miðsvæðis í Berlín. Þessari miklu höfuðborg Þýskalands. 


Í nágrenni við hótelið var minnismerki um einn atburð tengdan sögu Gyðinga í þessari borg. Á hótelinu sjálfu var myndasýning sem sýndi þróun byggðar og sögu umhverfis hótelið.  Fróðleg og merkileg smásýning.  Þarna hafði Gyðingum sem voru giftir „ þýskum" mökum, verið
smalað og undirbúinn brottflutningur á þeim eitthvað í Austur eins og þeir sögðu sjálfir. Þessi söfnun átti eftir að verða harla óvenjuleg í sögu Nazismans. 

Í gær fór ég á viðtal og kynningu í Norræna húsinu á ævi og starfi þýska kvikmyndaleikstjórans Margarethe Von Trotta.  Við höfðum ekki ætlað að fara en sonur okkar Gísli fékk okkur að koma með sér.  Þetta var einstaklega skemmtileg kynning stjórnað af list af einum af okkar kvikmyndagerðarmönum Elísabetu Rónaldsdóttur.  Sem hefur getið sér gott orð sem snilldar klippari (editor) í kvikmyndaheiminum.  

Ég hef séð nokkrar myndir eftir Von Trotta.  Sú áhrifamesta var Die Bleiernde Zeit, sem fjallar um örlög terroristanna þýsku á 8. áratug seinustu aldar.  Svo hafði ég seinna séð í sjónvarpinu Rosenstrasse, sem ég tengdi ekki við þessa litlu götu í Berlín fyrr en núna.  Von Trotta kom inn á þessa mynd í spjallinu í gær, hún er sérfræðingur að stinga á viðkvæmum kýlum þýsku þjóðarinnar, terroristum, nazistum, kommúnistum og konum!  Svo við drifum okkur í Bío Paradís í gærkvöldi þar sem sýnd var einmitt þessi mynd, Rosenstrasse.  Það var merkilegt að sjá hana aftur í kvikmyndahúsi, það er allt annað en að sitja heima í stofu.  Að sjá örlög þessa fólks á stað sem maður hefur dvalið á.  Eftir að hafa komið á söfn og merkisstaði í borginni sem tengjast sögu Gyðinga. Sagan verður svo nær manni, nútíminn býður líka upp á svo fjölbreytilegar hugsanir, á tímum flóttamannabylgju og baráttu Palestínumanna fyrir frelsi undan áþján Ísraelsríkis.  Svo höfum við fengið smjörþefinn af þessum deilum, vegna viðskiptabanns Reykjavíkurborg.  

Svo lesendur góðir, ég hvet ykkur til að sjá þessa mynd og hugleiða þessa atburði sem enn eiga svo djúpan aðgang að hjörtum okkar.  Það er oft svo hættulegt að við tökum svo ógrundaðar skoðanir hér uppi á kalda klakanum í allsnægtunum.  

Ég hef alltaf lesið mikið af bókmenntum Gyðinga, ég rakst á Chaim Potok á unglingsaldri sem höfðaði mikið til mín.  Síðan eru ótal höfundar sem ég hef lesið, Bellow, Auster, Malmud, Roth, Heller, Doctorow og Spiegelman, svo ég nefni nokkra.  Merkastur er nú, Singer, Isak Basevus Singer.  Þegar við bjuggum í Uppsölum fyrir nær 40 árum.  Hittum við Singer í bókabúð þar í borg en hann áritaði bækur þar.  Það var merkilegt að sjá þennan háaldraða mann sem hafði augnaráð sem nam allt í kringum sig.  Hann sá að kona mín var ólétt svo hann óskaði henni heilla í fæðingunni.  Enda gekk allt vel. 

Það er gaman að hitta stór leikstjóra augliti til auglitis, í ár Von Trotta, í fyrra Mike Leigh.  Svo er Cronenberg einhvers staðar út í bæ um þessar mundir.  RIFF hátíðin kemur ýmsu góðu til leiðar.  Takk fyrir mig. 











mánudagur, 28. september 2015

Sjálfstæðiskýrin baular: Einkavæðing, Einkavæðing

Það er margt furðulegt í Sjálfstæðiskúnni.  Það eru trúarbrögð sem læðast framhjá Jesús og Guði.  Trúarbrögð þar sem bara eitt er rétt, kórrétt.  Slík trú heitir Einkavæðing.  

Það var sorglegt að lesa og hlusta á Áslaugu Friðriksdóttur í vikunni sem leið.  Þessi trú á mátt einstaklingsins til að gera allt betra er hjákátleg.  Sérstaklega þegar maður upplifir um leið græðgi og gírugheit vinkvenna hennar í heilbrigðiskerfinu.  Sér hvar er dýrasta heilbrigðis- kerfi í heimi, einkavæðingarkerfið í Bandaríkjunum.  Upplifir baráttuna gegn breytingum í því kerfi. 

Öll vitum við að við hvert skref, nú eru það heilsugæslustöðvar sem eiga að vera svo góðar, einkavæddar heilsugæslustöðvar að sjálfsögðu.  En auðvitað er það bara fyrsta skrefið, þau verða fleiri. Auðvitað eiga þeir sem eru auðugir að sitja fyrir með því að veifa seðlum það er grunn- hugmyndin með einkavæðingu.  Biðlistar eru ekki eðlileg vandamál segir hún, það er

alveg satt, er þeir eru komnir út frá sparnaði í kerfinu, ekki má hækka skatta á hátekjufólk, ríkisstjórnin sem básúnar sig af auknum fjárveitingum er bara að þykjast. Þar sem fagfólk er orðið þreytt á því að vinna vinnuna sína vell frekar fara þar sem metnaður ríkir.  Svo ræðir hún auðvitað um Ferðaþjónustu fatlaðra, sem er dæmi um léleg vinnubrögð.  Þegar vanhæfni ræður ríkjum.  Það hefur ekkert að gera með einkavæðingu eða borgarvæðingu.  

Ég er einn af þeim sem bíða eftir aðgerð, það er ekki skemmtilegt að hugsa á hverjum degi um verk, vakna upp á hverri nóttu með sársauka. Ég á ekki fjármuni til að skreppa til útlanda til að fara í einkareknar aðgerðastöðvar.  Ég hef líka hitt ansi margt gott og skyldurækið starfsfólk á stofnunum.  Margt er þar vel gert.   En maður sér slitin húsakynni , skort og bilanir á tækjum.  Vöntun á rúmum og húsbúnaði.  Endalausa bið á viðgerðum innan og utanhúss. 

En Sjálfstæðiskýrin staulast áfram með hugmyndafræðina á bakinu.  Baul hennar berst um borgina og landið.  Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman ræddi um daginn um frambjóðendur Repúblikana sem allir tístu Einkavæðing Einkavæðing og skattalækkanir, hann benti á hvenær hefðu verið góðæristímar seinustu áratuga í Bandaríkjunum, það var þegar skattahækkanir voru til staðar með stöðugum og góðumrekstri ríkis.  Skuldir ríkis og sveitafélaga eru heldur ekki af hinu illa ef fjármunirnir eru nýttir á vitrænan hátt.  

Svo áfram held ég og ótal margir áfram að bíða og það er meira um að kenna úreltum fræðum Áslaugar og kó en störfum meirihlutans í Reykjavík.  Einkavæðingarkerfið og útboð eru stundum af hinu góða en það á ekki við þegar líf, heilsa og félagsþjónusta á í hlut. Hvað þá að dreifa verkefnum til vina og vandamanna.  Þá er það banabiti margra.  Og þar mun spillingin ein ríkja. 

 

miðvikudagur, 23. september 2015

Sniðganga: Skaði, Afleiðingar

Dagurinn þegar Kapítalistarnir Krúnurökuðu Kratana.  Skaðinn er orð dagsins. Skaðinn.  Hvaða Skaði, Skaði hverra????Hvaða afleiðingar, afleiðingar hverra?  

Er það skaði fjölskyldnanna sem misstu maka, börn, ættingja í seinustu gjöreyðingaárás Ísraelsmanna? Hafa yfirvöld Ísraelsríkis beðist afsökunar á því.  Er það skaði allra þeirra sem hafa horft á húsin sín jöfnuð við jörðu. Skaði barna sem setið hafa í fangelsum í Ísrael?
Eru það afleiðingar þess að Gyðingar koma ekki í heimsókn í borgina litlu norður á hjara
Veraldar?
Það eru til trúaðir Gyðingar, ofsatrúaðir Gyðingar, Gyðingar sem stunda ekki trú sína, Gyðingar sem fyrirlíta yfirgang Ísraelsríkis.  Gleymum ekki að þessi stjórn þessa ríkis hefur brotið ótal reglur hins alþjóðlega samfélags.  Oftast í skjóli heimsveldisins í vestri, en nú er það þannig að Forseti Bandaríkjanna er meira að segja búinn að fá nóg, Obama. 

já líkið af jónasi er sannarlega sjórekið
sjórekið uppá fjörur gullstrandlengjunnar.
sjáðu mamma manninn honum er illt
hann muldrar eitthvað um hrun og grípur um pyngjuna.

Sjaldan hefur maður orðið vitni að málefnahroka og skeytingarleysi stjórnmálamanna gagnvart kjósendum sínum  hér í Reykjavík eins og í gær. 
Meirihlutinn hefur brugðist mörgum kjósendum sínum, maður leggur ekki fram tillögu í jafn alvörumiklu máli til að draga hana fram nokkrum dögum seinna. Maður  lætur ekki peningavaldið kremja allan vind úr manni svo ekkert er eftir nema Afsökunarbeiðnir. Þá er betra að skilja holuna eftir við hliðina á Hörpu, það væri hægt að nota hana í sjávarlaug, þar sem menn geta þvegið af sér syndir sínar.  
Minnihlutinn getur enn komið manni á óvart með groddaskap.  Áslaug þó mest í gær.     

„Við erum í alþjóðlegu samhengi rasistar. Ykkur er sama um það,“ sagði Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í ræðu sinni rétt í þessu, nefndi að íslenskar vörur hefðu verið teknar úr búðum og vitnaði til yfirlýsingar Simon Wiesentahl-stofnunarinnar þar sem gyðingar eru hvattir til að fara ekki til Íslands. „Það skiptir ekki máli þótt ykkur finnist þið vera ofboðslegir mannréttindafrömuðir,“ sagði hún og fullyrti að samþykkt borgarstjórnarmeirihlutans hefði verið andstæð lögum og haft slæmar afleiðingar. „Ykkur er í raun og veru alveg nákvæmlega sama, þið takið þetta ekki alvarlega og þið eruð meira að segja farin að fabúlera um það að skaðinn sé nánast enginn. Algjörlega óskiljanlegt og mér finnst þetta bara ekki siðað.“
„Segjum að nasistar kæmust hér við völd og ákvæðu að setja einhvers konar bann á hluti, fara í gegnum innkaupastefnuna og segja: 'þetta hérna, þetta er einhvern veginn þannig að við teljum að hér sé verið að brjóta á fólki og lalala'... þið eruð í rauninni að gera þetta nema að þið teljið að þið séuð ekki nasistar af því þið eruð góða fólkið“.

Sveinbjörg kemur manni ekki á óvart, þó að neita að tjá sig um afstöðu sína til sjálfstæðis Palestínu er ansi sérstakt, þegar maður lítur til baka til frumkvæðis Framsóknarflokksins á sínum tíma undir stjórn Steingríms Hermannssonar í þeim málum. En þetta er annar flokkur í dag.  Sem tekur alltaf á sig sterkari myndi öfgahægriflokks.  
 

Magnús Már Guðmundsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, spurði Sveinbjörg Birnu hvort hún styddi að mannréttindasjónarmiðum væri fylgt í innkaupastefnu borgarinnar og hvort hún styddi Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Sveinbjörg svaraði fyrri spurningunni játandi en vildi ekki svara þeirri síðari. „Ég ætla aftur á móti ekki að fara út í það að láta stilla mér hérna upp við vegg að láta mig svara einhverjum spurningum sem mér finnst ekki eiga heima í borgarstjórnarsal,“ sagði hún.
Píratar og Vinstri grænir koma ansi veiklundaðir út úr þessari umræðu. Þeir ganga ansi mikið fram af flestum kjósendum sínum og eru veikari fyrir bragðið.  Svo er að sjá hvort að
aframhald þessa máls sé bara hjóm eitt í augum meirihlutans.  Það hlakkar í mörgum íhaldsjálkinum.   

Að þekkja og virða sín valdamörk eru eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnmálanna,“ segir Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í borgarstjórn. „Við hugsuðum ekki nógu vel um afleiðingarnar.“ Halldór segir drög að tillögu Bjarkar hafa legið fyrir í borginni í nokkurn tíma en tillagan þó verið lögð fram með of skömmum fyrirvara. „Þannig að ég tel fulla ástæðu til að biðjast afsökunar á því að hafa farið fram úr sjálfum mér og beitt valdi mínu á óábyrgan hátt. Ég geri það hér með,“ sagði Halldór og bætti við: „Vegurinn til heljar er því miður oft varðaður góðum áformum. Áformin voru nefnilega ekki vond - þau snerust um að vekja athygli á hernámi Ísraelsmanna á landsvæðum Palestínumanna og þrýsta á um að látið yrði af því. Mér finnst þessi málstaður hafa dálítið gleymst í umræðunni um tillöguna og afleiðingar hennar og vonandi gefast færi á að ræða áfram hvernig halda má honum og öðrum góðum og mikilvægum málstöðum á lofti.

jón er dauður en sjálfstæðisbaráttan blívur.
við berjumst til þrautar fyrir tungu & frelsi.
&gefum af bókum út eitthvert firnafár 
&förgum stundarhagsmunum fyrir nýtt helsi.

mánudagur, 21. september 2015

Ísrael: Umræða á hvolfi

Ég þekki land þar sem aðaltriði verða alltaf aukaatriði í umræðu. 
Við sjáum það vel núna í umræðunni um Ísrael tillögu Borgarstjórnar Reykjavíkur. 
Allt í einu er samþykkt borgarstjórnar liður í hatursáróðri gegn Gyðingum um allan heim.  Fjöldamorð Ísraelsríkis í fyrra eru gleymd og grafin.  
Viðbrögð Gyðinga sem styðja Ísraelsríki um allan heim hafa verið harðari en nokkur bjóst við. 
Það er kannski auðveldara að ráðast á smáborg norður á klaka en stórborg í Evrópu. BDS hreyfingin er farin að
vekja óróa, meira að segja í Bandaríkjunum eru fjölmargir einstaklingar, stofnanir og jafnvel trúarsöfnuðir sem sniðganga ísraelskar vörur, sérstaklega frá herteknu svæðunum.  Soda Stream  hrökklaðist í burtu. Þó það hafi haft grátlegar hliðarverkanir, hundruðir Palestínumann missa vinnuna.  Fjöldi listamanna sniðgengur Ísrael.  Fjárfesting hefur minnkað.  Svo viðbrögðin verða harkaleg og Ísland er ágætt skotmark, ég tala nú ekki um umræðuhefðina  hjá okkur. 
Að lesa í fjölmiðlum yfirlýsingar valdamanna íslenskra er grátbroslegt, mér skilst að trúðurinn í Hásegismóum hafi bæst við í hópinn.  Þeir eiga vel heima við hirð Netanyahus. 


Svona túlkar frjálslyndur Ísraelsmaður atburðarásina: 

Iceland's Capital Did Right to Drop the Israel Boycott, for the Wrong Reasons

By blinking and retracting its boycott against Israel, Reykjavik handed the Israeli right wing a rare propaganda coup.
read more: http://www.haaretz.com/news/features/.premium-1.677006



Þessi lesning um það sem hefur gerst frá Oslóarsamkomulaginu eru ekki falleg en útskýrir andúð manna víða um heim á Ísraelsríki sem verður æ íhaldssamara og ofbeldisfyllra. 

 https://www.oxfam.org/en/pressroom/pressreleases/2013-09-13/20-years-missed-opportunity-has-undermined-progress-israel


 hér er kort af yfirtökusvæðum Gyðinga (15% eru Bandaríkjamenn) frá þýska Spiegel.

https://www.google.com/maps/d/viewer?mid=zwrYTTPY1vyU.kRbACfxgCVKU&hl=en_US

 Hér er smáyfirlit yfir BDS hreyfinguna:

http://www.aljazeera.com/indepth/opinion/2015/07/game-changer-10-years-bds-israel-palestine-zionist-150708074801627.html

föstudagur, 18. september 2015

Ísrael: Takk borgarstjórn

Skrítið, allir búnir að gleyma viðbjóðinum frá því í fyrra. Það er grátlega lítið sem við getum gert til að aðstoða Palestínumenn, en þessi samþykkt er nú aðallega til að minna á endalaust mál. Takk borgarstjórn.

Áróðursmaskína Ísraelsríkis komin í gang, sem betur fer er þeim ekki sama, andúð almennings víða um heim hefur aukist gegn mannfyrirlitningu Ísraelsmanna. Þing Evrópusambandsins hefur samþykkt með mæli með því að kaupa ekki vörur frá  frá yfirtöku svæðum Gyðinga. 


In the decision, which was approved with by a crushing majority, the EU parliament called for a renewed approach to the Israel-Palestinian conflict. "The parliament urges the EU to become a real political player in the Middle East peace process, which would benefit the troubled region as a whole." The statement also calls on the union to, "impose a ban on arms exports from the EU to Israel, to prohibit all arms imports from Israel into the EU, and lift the blockade on Gaza."

Þær eru furðulegar fréttirnar  frá vesturbakkanum: Smádæmi : Palestínumenn reknir úr sundlaug svo gyðingar geti baðað sig í friði, á svæði sem Gyðingar hafa tekið yfir frá löglegum eigendum!


Soldiers expel Palestinians from pool in Area A to enable settlers to bathe undisturbed


Svo ég er ánægður með samþykkt borgarstjórnar, þar fer hún í fótspor nokkurra borga, embættismenn Ísraelsríkis láta okkur eflaust ekki í friði, sömuleiðis vinir Ísraels hérlendis sem eru í flestum tilfellum þeir sömu sem vilja ekkert hafa að gera með flóttamenn, skrítið, enda vill Ísraelsríki ekkert með flóttamenn að gera. 

Gleymum ekki viðtalinu við Mads Gilbert norska lækninum sem starfað hefur á Gaza svæðinu ....
http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/vidtalid/20150914
http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/vidtalid/20150914

miðvikudagur, 16. september 2015

Corbyn og Jaðarskoðanir

Það gleður okkur öfgavinstrimenn og kommúnista (eins og Hannes Hólmsteinn segir) að Jeremy Corbyn vann glæsilegan sigur til formanns breska Verkamannaflokksins.  

Það vantar ekki að andstæðingar hans utan og innan flokksins hafi hamast á honum og lýst honum sem einhverju fornaldarskrímsli  en svo kom merkileg útspil fjölda hagfræðinga í Bretlandi sem bentu á að stefna hans eigi mikið fylgi hjá vísindamönnum í efnahagsmálum!
Í ágætri úttekt í Stundinni er þetta rætt:

Andstæðingar Corbyns hafa lýst honum sem öfgafullum vinstrimanni sem tali fyrir óábyrgri stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum. Það vakti talsverða athygli þegar fjöldi hagfræðinga sendi út yfirlýsingu á dögunum þar sem því er hafnað að andstaða Corbyns við aðhalds- og niðurskurðarstefnu sé jaðarskoðun og fullyrt að um sé að ræða viðurkennda meginstraumshagfræði.

Corbyn segir sjálfur:

„Vonin um breytingar og að hrinda háleitum hugmyndum í framkvæmd er loksins kominn aftur á dagskrá stjórnmálanna; að ráða niðurlögum aðhaldsstefnunnar, draga úr ójöfnuði og vinna í þágu friðar og félagslegs réttlætis bæði erlendis og heima fyrir. Það er einmitt þetta sem bjó að baki þegar Verkamannaflokkurinn var stofnaður fyrir meira en 100 árum,“ skrifar Corbyn sjálfur í The Guardian.

 Efnahagshrunið og afleiðingar þess hafa haft í för með sér viðamiklar breytingar víða í Evrópu.  Fyrst í stað voru það hægriöfgaflokkar sem áttu spilið en núna eru víða róttækir flokkar og fylkingar að hasla sér völl.  Við sjáum það hjá okkur, hinn ótrúlegi uppgangur
Pírata.  Í Noregi voru sveitastjórnarkosningar þar sem máttarstoðir ríkisstjórnarinna Hægri og Framfaraflokkurinn töpuðu.  Og Grænir (MDG) eru að koma þar sterkir inn.  Fimmfölduðu fylgi sitt í Osló og eru í oddaaðstöðu, þar sem hægrimenn hafa haft völdin í áratugi.  Þar er meira að segja fyrrum Íslendingur á lista, pönkarinn sem gladdi okkur í gamla daga í Dýrið gengur laust og Sogblettir, Jón Júlíus Sandal.  

Það er skrítið að horfa á vinstri sinnaða hagfræðinga hérlendis ræða ríkisfjármálin alltaf á forsendum nýfrjálshyggju.  Í uppgangi eins og virðist hér á ferð núna , þá er það ríkið sem á að draga saman seglin.  Hinn frjálsi markaður á að fá að gera það sem honum sýnist, og bankarnir moka fé í fáránlegar hugmyndir.  Bygging spítala á þá auðvitað að bíða meðan verktakar leika sér víða um völl þar til allt hrynur.  Þá verður að bíða með opinberar framkvæmdir vegna fjarskorts.  Þetta er skrítin hringrás.  Enn skrítnara að við hlustum á þetta án þess að glotta!

Svona er staðan yfir allt landið: 

http://www.nrk.no/valg2015/1.12499895 

Svona er staðan í Osló: