fimmtudagur, 8. október 2015

Belgingur: Ráðherrar og bákn

Mikið belgja þeir sig ráðherrarnir okkar um þessar mundir.  Belgingur hinn meiri hljómar um víðan völl.  

Utanríkisráðherrann vill vera í flokki þeirra sem gefa út yfirlýsingar í allar áttir, þetta finnst sumum merkilegt og sýnir hvað hann hefur vaxið sem ráðherra. Ekki er ég nú viss um það, margt er skrýtið í stjórnsýslu hans.  Læti hans í kringum Þróunarsamvinnustofnu ber ekki vott um mikla stjórnvisku. Svo kom hann í Morgunvaktina og þar vill hann gefa út yfirlýsingar um ískyggilega atburði í Tyrklandi og Sýrlandi.  Mér hefur alltaf fundist að ráðherrar 
utanríkismála hjá okkur eigi að fara sér hægt í sambandi við stríð og stríðsyfirlýsingar.  ÉG veit ekki annað en við höfum gengið í NATO á sínum tíma með þá yfirlýsingu um sérstöðu okkar sem herlaus þjóð, því eigum við að láta stríðsþursana um að gefa út hótanayfirlýsingar.  Hófsemi er oft gott vegarnesti.  Og ekki er það margt sem Tyrkir geta hrósað sér af ef við horfum á þau grunngildi sem NATO hefur viljað kenna sig við: 

Stofnsáttmáli bandalagsins, sem var undirritaður 4. apríl 1949, kveður á um að NATO-ríkin skuldbinda sig til að "standa vörð um frelsi, sameiginlega arfleifð og borgaraleg gildi þjóða sinna, sem byggð eru á lögmálum lýðræðis, einstaklingsfrelsis og réttarríkisins." Með aðild að NATO heita bandalagsríkin því fyrst og fremst að aðstoða hvert annað ef á þau er ráðist.


Gunnar Bragi var gestur Óðins Jónssonar í Morgunvaktinni á rás 1 í morgun:
„Auðvitað er hætta á því ef Rússar halda áfram að rjúfa lofthelgi Tyrkja eða annarra Nató-ríkja þá er það að sjálfsögðu mikil hætta á að það verði einhvers konar árekstrar. Við vildum náttúrulega ekki sjá það að Nató og Rússar lentu í einhvers konar árekstrum eða átökum jafnvel þó það sé nú yfir í Sýrlandi eða Tyrklandi.

 En það er alveg ljóst að samkvæmt þeim samningum sem Nató-ríkin hafa þá munu þau verja Tyrkland ef að til þess kemur. Og þar af leiðandi munu Nató-þotur væntanlega styggja við, eða svona ýta þeim rússnesku burtu ef þess er þörf. En það er hætta á að þetta stigmagnist vissulega. En sem betur fer eru menn að tala saman og reyna að finna ástæðu fyrir því að þetta gerist og reyna að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. En af þetta heldur áfram að Rússar muni ekki hlusta á og ekki virða þessa lofthelgi þá er mikil hætta á ferðum, það er alveg ljóst.“

Varla var Gunnar Bragi búinn að belgja sig þegar enn meiri Belgingur drundi við. Þar var mættur vanhæfasti ráðherra ríkisstjórnarinnar og þá er mikið sagt.  Sem stóð upp í sviði með einum pótintáta ferðamála sem hefur fengið endalaust að sleppa við að greiða skatta af atvinnurekstri sínum.  Hún stóð þarna og geislaði og glitraði af gleði.  Búin að stofna enn eitt báknið,  Stjórnstöð ferðamála. Það nægir ekki að hafa Ferðamálastofu og Ferðamálaráð.  Nú þarf líka stjórnstöð, þar sem blandað er saman ríki og ferðaþjónustu, með forstjóra sem féll af himnum ofan, Jesús eða Pétur.  Tvöfalt bákn í sama ranni.  Sem virðast um margt eiga að gera það sama.  Helst að þessi nýja stofnun eigi að hleypa greiðslu út um allt í ferðaiðnaðinum.  Allir staðir verða með hlið og gaddavír.  Kannski með aðstoð frá Ungverjalandi.  

Ríkisstjórnin sem ætlaði að beita sér fyrir skilvirkri stjórnsýslu, bætir alltaf í gírinn, gagnsæið er ekki hugtak sem þekkist, báknin hylja sjóndeildarhringinn, fleiri nefndir og ráð gleðja okkur, öll viljum við í nefndir og ráð.  Eða hvað?



mánudagur, 5. október 2015

Henning Mankell: Ég mun sakna hans

Ég lauk við síðustu bók Hennings Mankell fyrir rúmri viku, Svenska gummistövlar hét hún, Sænsk gúmmistígvél.  Þessi skáldsaga er laustengt framhald af Italienska skor, Ítalskir skór, sem kom út fyrir níu árum.  Enn er það læknirinn Friðrik sem er höfuðpersónan, sem hefur ekki átt vandræðalausa ævi, býr úti í skerjagarðinum á eyju.  Hann vaknar eina nótt við það að húsið brennur ofan af honum.  Kveikt hefur verið í því.  Var það hann sjálfur sem gerði það, tæplega sjötugur maðurinn eða er einhver brennuvargur sem læðist um þetta friðsæla umhverfi.  Út frá þessari byrjun fléttar Mankell sögu um lífið, dauðann, samskipti fólks í
umhverfi þar sem veðurfar ræður miklu um samveruna, það er erfitt að finna dauðann nálgast, gera upp við líf sitt og finna út hvað skiptir mestu máli í lífinu.   
Þetta gerir Mankel á ljúfsáran hátt, Friðrik er erfiður maður, hann hefur brennt margar brýr að baki sér. Þetta skrifar rithöfundur sem hefur þurft að hugsa um dauðann og uppgjör sitt við lífið.  Ég vissi að hann hafði barist við krabbamein í tæp tvö ár: Var þrútinn af lyfjum þegar ég sá hann í sænska sjónvarpinu í sumar sem leið.  En hann var ennþá á fullu að skrifa, ætlaði að fara að skrifa bókina um Afríku, álfuna sem hann hafði eytt svo miklum tíma í. 

En svo sá ég rétt fyrir hádegið að hann var allur.  Hann var 67 ára gamall. fyrsta bókin hans kom út 1973, ég held að þær hafi orðið rúmlega 40, auk nokkurra tuga leikrita.  Hann var ekki iðjulaus, svo rak hann leikhús niðri í Mosambique,  reyndi af sínum mætti að hjálpa afrískum listamönnum að rísa upp og lýsa veruleika síns heimshluta þar á meðal baráttunni við Aids.  Hann varð heimsfrægur með því að skrifa seríuna um lögreglumanninn Wallander, fyrst með Morðingi án andlits. Varð upphafsmaður hinnar norrænu glæpasögu.  Ég las Wallander frá byrjun, hreifst af þesseum þumbaralega og þunglyndislega manni, sem lifði fyrir starf sitt, allt varð að víkja fyrir því, fjölskylda og samlíf.  

Hann var sjálfur margmilljóner, stofnaði sjóð til að styðja við ýmis verkefni í Afríku.  Var alla tíð róttækur, hafði hrifist með þegar hann bjó í París í stúdentabyltingunni á sjöunda áratugnum.  Honum þótti sjálfsagt að borga skatta og skyldur í sínu heimalandi.  Stundaði ekki það eins og ótal margir að fela peninga sína í skattaskjólum.  Margir gleyma því að hann skrifaði ekki bara glæpasögur, hans glæpasögur voru ekki venjulegar ef maður má segja það, hans fyrirmynd var John Le Carré og Sjöwall og Wahlöö.  Hann skrifað barnabækur, nokkrar hafa verið þýddar á íslensku, hann skrifaði leikrit og ótal skáldsögur.  Uppáhöldin mín eru Comedia infantil, sem er skrítið að hún hafi ekki komið út á íslensku; Sonur Vindsins og Kínverjinn. 

Það var merkilegt hversu hann sá strauma og stefnur í alþjóðastjórnmálum og kom þeim inn í bækur sínar.  Ég man að mér þótti hann vera ansi ýkjukenndur í Kínverjanum þegar hann fjallar um útrás Kína víða um heim.  Tveim þrem árum seinna blasti þetta við sjónum manns.  Sérstaklega í Afríku.  Hann fjallaði um framferði læknaiðnaðarins í þriðja heiminum þar sem fátækt fólk sem notað sem tilraunadýr fyrir okkur Vesturlandabúa.  Hann var ekki hrifinn af Ísraelsríki og framferði þess í MiðAusturlöndum.  Hann var einn af þeim sem fóru með skipalestinni sem reyndu að brjóta niður hafnbannið á Gaza og var handtekinn þar, þegar Ísraelsher réðist um borð í skipin og drap nokkra. 

Nú er hann horfinn, við eigum eftir að sakna hans.  Réttsýni hans og baráttuanda.  Minning hans lifir.   Við eigum eftir að glugga í eldri bókunum hans og njóta.  Þeir sem geta lesið sænsku, hafa möguleika á að kaupa bækur hans í rafbókaútgáfum á bókavefnum dito.se á viðráðanlegu verði.


Myndir: Henning Mankell með Patti Smith, sem var góð kunningjakona hans, og Krister Henriksson sem við þekkjum svo vel frá sjónvarpsmyndunum um Wallander. Patti tók svo nokkur lög á veröndinni hjá Mankell, auðvitað með Lenny Kaye á gítarinn.



laugardagur, 3. október 2015

Varaformennska og drottningarviðtöl

Það þykir merkilegt að bjóða sig fram sem varaformann Sjálfstæðisflokksins. Blaðamannafundur við glæsivillu innanríkisráðherrans, innskot í miðjan útvarpsþátt (þar sem Kári S. talaði um Sflokkinn sem Jaðarflokk sbr. Fræg ummæli Forsætisráðherra fyrir skömmu). Það verður merkilegt að sjá hvernig RUV meðhöndlar jafnræðisreglu, þegar fleiri  flokkar skipt um varaformenn.

Að vísu er drama vel þegið, sjúkdómar eru velkomnir af blöðum eins og dæmin sanna ( svo maður sé kaldhæðinn), og útlit og framsetning skiptir töluverðu máli!  Enþað er merkilegt hversu Sflokkurinn er alltaf fremstur í fjölmiðlum þótt það sé alltaf litið á málin að það sé vinstri elítan sem eigi þar allt.

Ég bíð spenntur eftir drottningarviðtali við Björn Val og útilegumannakynningu á varaformanni Alþýðufylkingarinnar, Tryggva Hansen, það er svo margt gott fjölmiðlaefni sem hægt er að leika sér með.
Við horfum á stjórnmálamenn og aðstoðarmenn þeirra fuðra upp í græðgislogum, en það eru alltaf nýir handan við hornið sem vilja fórna öllu fyrir völd og mátt. Náttúra Íslands hverfur þá í gleymskuhafið. Virkjun er einnar messu virði. Ráðherrastóll fæst ekki ókeypis í Epal.

föstudagur, 2. október 2015

Askhenazy og Þóra æða fram á brún snilldar.

Sinfoníuhljómsveit Íslands spilaði í gærkvöldi.  Einleikari var hunangsblóm okkar allra, Þóra Einarsdóttir, rödd hennar er gull, silfur og brons. Stjórnandinn var engnn annar en Askhenazy sjálfur, snillingurinn ljúfi, sem veitti ómetanlega hjálp við að koma dásamlegu tónlistarhúsi okkar upp úr holunni.  Atburður sem hefur gjörbreytt tónlistarlífi okkar.  Sem aldrei hefði gerst ef hin óvinsæla vinstri stjórn hefði ekki komist til valda.  Þar voru ráðherrar og menntafólk sem sýndu djörfung á erfiðum tímum.  Sem ekki eru í dag við stjórnvöl, þar sem gryfja íslenskrar tungu og menningar mun halda áfram að blasa við augum um endalausa framtíð.  Ríkisstjór til eilífrar skammar.

Dagurinn var sannkallaður menntadagur í gær, eflaust má maður ekki segja það upphátt, þar sem allt á að meta í krónum og aurum.  En við fórum á fyrirlestur í Öskju þar sem 300 manns mættu til að hlusta á Guðna Th. Jóhannesson  flytja fyrsta fyrirlestur í röð sem verður í allan vetur.  Þar sem hann ræddi á skemmtilegan hátt um notkun stjórnmálamanna á efni og orðfæri Sturlungualdar.

 Síðan lá leið okkar í Hörpu á þessa glæsilegu en svólítið misjöfnu tónleika að mínu mati.  Lesendur eru beðnir að taka orð mín með fyrirvara, ég er nú bara amatör á þessu sviði, en leyfi mér samt að hafa skoðanir.  Þar sem við hlustuðum á verk snillinganna Brahms og Síbelíusar.  Askhenazy brunaði léttur á fæti inn í salinn og ýtti úr vör Sinfoníu númer 2 eftir Brahms.  Það eru falleg stef í þessari sinfoníu en einhvern veginn þótti mér hljómsveitin ekki ná hennni nógu vel í gang.  Svo ég var ekkert sérstaklega hrifinn þegar ég gekk út úr salnum í hléi.  Það var eitthvað sem ekki gekk upp. Eins og mér finnst gaman að verkum Brahms.

Í hléinu hittir maður vini og kunningja þar er oft glatt að hjalla.   Engum leiðist þar.

Eftir hléið byrjaði svo alvaran.  Og snilldin.  Allt í einu hófst allt í himinhæðir.   Þóra blómstraði í undurfögru söngverki Síbelíusar við Kalevala, einu af mörgu sem hann samdi, Luonnotar, heitir þetta, fjallar um sköðunarsögun. Ég get ímyndað mér að þetta sé erfitt að syngja þetta, en Þóra lék sér að því, eins og þetta væri Óli skans.  Áhorfendur kunnu svo sannarlega að meta það.  Dásamlegt einu orði.  Mikið er gaman að við skulum eiga svona framúrskarandi listamenn, eins og Þóru, og Kristin. Sem hafa lagt á sig mikla og erfiða menntun til að ná þessu valdi á Sönglistinni!

En svo kom rúsínan í pylusendanum, Sinfonía númer 5, enn var Síbelíus á ferðinni.  Og nú hófu Askhenazy og Hljómsveitin sig í hæstu hæðir.  Þetta magnaða verk varð að tónasnilld í mínum eyrum.   Allt ummyndaðist í fegurð, hljóðfæraleikararnir sýndu hvað í þeim býr. Askhenazy ýtti þeim áfram fram á brúnina þar sem snilldin ein ríkir.  Í mínum eyrum, ég fór glaður og syngjandi  heim. Stefin hljóma enn í eyrum mínum.




miðvikudagur, 30. september 2015

Gyðingar: Rosenstrasse, þá og nú


Í fyrra gisti ég á hóteli í Berlín, Hotel Alexander Plaza.  Ágætu hóteli, alveg miðsvæðis í Berlín. Þessari miklu höfuðborg Þýskalands. 


Í nágrenni við hótelið var minnismerki um einn atburð tengdan sögu Gyðinga í þessari borg. Á hótelinu sjálfu var myndasýning sem sýndi þróun byggðar og sögu umhverfis hótelið.  Fróðleg og merkileg smásýning.  Þarna hafði Gyðingum sem voru giftir „ þýskum" mökum, verið
smalað og undirbúinn brottflutningur á þeim eitthvað í Austur eins og þeir sögðu sjálfir. Þessi söfnun átti eftir að verða harla óvenjuleg í sögu Nazismans. 

Í gær fór ég á viðtal og kynningu í Norræna húsinu á ævi og starfi þýska kvikmyndaleikstjórans Margarethe Von Trotta.  Við höfðum ekki ætlað að fara en sonur okkar Gísli fékk okkur að koma með sér.  Þetta var einstaklega skemmtileg kynning stjórnað af list af einum af okkar kvikmyndagerðarmönum Elísabetu Rónaldsdóttur.  Sem hefur getið sér gott orð sem snilldar klippari (editor) í kvikmyndaheiminum.  

Ég hef séð nokkrar myndir eftir Von Trotta.  Sú áhrifamesta var Die Bleiernde Zeit, sem fjallar um örlög terroristanna þýsku á 8. áratug seinustu aldar.  Svo hafði ég seinna séð í sjónvarpinu Rosenstrasse, sem ég tengdi ekki við þessa litlu götu í Berlín fyrr en núna.  Von Trotta kom inn á þessa mynd í spjallinu í gær, hún er sérfræðingur að stinga á viðkvæmum kýlum þýsku þjóðarinnar, terroristum, nazistum, kommúnistum og konum!  Svo við drifum okkur í Bío Paradís í gærkvöldi þar sem sýnd var einmitt þessi mynd, Rosenstrasse.  Það var merkilegt að sjá hana aftur í kvikmyndahúsi, það er allt annað en að sitja heima í stofu.  Að sjá örlög þessa fólks á stað sem maður hefur dvalið á.  Eftir að hafa komið á söfn og merkisstaði í borginni sem tengjast sögu Gyðinga. Sagan verður svo nær manni, nútíminn býður líka upp á svo fjölbreytilegar hugsanir, á tímum flóttamannabylgju og baráttu Palestínumanna fyrir frelsi undan áþján Ísraelsríkis.  Svo höfum við fengið smjörþefinn af þessum deilum, vegna viðskiptabanns Reykjavíkurborg.  

Svo lesendur góðir, ég hvet ykkur til að sjá þessa mynd og hugleiða þessa atburði sem enn eiga svo djúpan aðgang að hjörtum okkar.  Það er oft svo hættulegt að við tökum svo ógrundaðar skoðanir hér uppi á kalda klakanum í allsnægtunum.  

Ég hef alltaf lesið mikið af bókmenntum Gyðinga, ég rakst á Chaim Potok á unglingsaldri sem höfðaði mikið til mín.  Síðan eru ótal höfundar sem ég hef lesið, Bellow, Auster, Malmud, Roth, Heller, Doctorow og Spiegelman, svo ég nefni nokkra.  Merkastur er nú, Singer, Isak Basevus Singer.  Þegar við bjuggum í Uppsölum fyrir nær 40 árum.  Hittum við Singer í bókabúð þar í borg en hann áritaði bækur þar.  Það var merkilegt að sjá þennan háaldraða mann sem hafði augnaráð sem nam allt í kringum sig.  Hann sá að kona mín var ólétt svo hann óskaði henni heilla í fæðingunni.  Enda gekk allt vel. 

Það er gaman að hitta stór leikstjóra augliti til auglitis, í ár Von Trotta, í fyrra Mike Leigh.  Svo er Cronenberg einhvers staðar út í bæ um þessar mundir.  RIFF hátíðin kemur ýmsu góðu til leiðar.  Takk fyrir mig. 











mánudagur, 28. september 2015

Sjálfstæðiskýrin baular: Einkavæðing, Einkavæðing

Það er margt furðulegt í Sjálfstæðiskúnni.  Það eru trúarbrögð sem læðast framhjá Jesús og Guði.  Trúarbrögð þar sem bara eitt er rétt, kórrétt.  Slík trú heitir Einkavæðing.  

Það var sorglegt að lesa og hlusta á Áslaugu Friðriksdóttur í vikunni sem leið.  Þessi trú á mátt einstaklingsins til að gera allt betra er hjákátleg.  Sérstaklega þegar maður upplifir um leið græðgi og gírugheit vinkvenna hennar í heilbrigðiskerfinu.  Sér hvar er dýrasta heilbrigðis- kerfi í heimi, einkavæðingarkerfið í Bandaríkjunum.  Upplifir baráttuna gegn breytingum í því kerfi. 

Öll vitum við að við hvert skref, nú eru það heilsugæslustöðvar sem eiga að vera svo góðar, einkavæddar heilsugæslustöðvar að sjálfsögðu.  En auðvitað er það bara fyrsta skrefið, þau verða fleiri. Auðvitað eiga þeir sem eru auðugir að sitja fyrir með því að veifa seðlum það er grunn- hugmyndin með einkavæðingu.  Biðlistar eru ekki eðlileg vandamál segir hún, það er

alveg satt, er þeir eru komnir út frá sparnaði í kerfinu, ekki má hækka skatta á hátekjufólk, ríkisstjórnin sem básúnar sig af auknum fjárveitingum er bara að þykjast. Þar sem fagfólk er orðið þreytt á því að vinna vinnuna sína vell frekar fara þar sem metnaður ríkir.  Svo ræðir hún auðvitað um Ferðaþjónustu fatlaðra, sem er dæmi um léleg vinnubrögð.  Þegar vanhæfni ræður ríkjum.  Það hefur ekkert að gera með einkavæðingu eða borgarvæðingu.  

Ég er einn af þeim sem bíða eftir aðgerð, það er ekki skemmtilegt að hugsa á hverjum degi um verk, vakna upp á hverri nóttu með sársauka. Ég á ekki fjármuni til að skreppa til útlanda til að fara í einkareknar aðgerðastöðvar.  Ég hef líka hitt ansi margt gott og skyldurækið starfsfólk á stofnunum.  Margt er þar vel gert.   En maður sér slitin húsakynni , skort og bilanir á tækjum.  Vöntun á rúmum og húsbúnaði.  Endalausa bið á viðgerðum innan og utanhúss. 

En Sjálfstæðiskýrin staulast áfram með hugmyndafræðina á bakinu.  Baul hennar berst um borgina og landið.  Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman ræddi um daginn um frambjóðendur Repúblikana sem allir tístu Einkavæðing Einkavæðing og skattalækkanir, hann benti á hvenær hefðu verið góðæristímar seinustu áratuga í Bandaríkjunum, það var þegar skattahækkanir voru til staðar með stöðugum og góðumrekstri ríkis.  Skuldir ríkis og sveitafélaga eru heldur ekki af hinu illa ef fjármunirnir eru nýttir á vitrænan hátt.  

Svo áfram held ég og ótal margir áfram að bíða og það er meira um að kenna úreltum fræðum Áslaugar og kó en störfum meirihlutans í Reykjavík.  Einkavæðingarkerfið og útboð eru stundum af hinu góða en það á ekki við þegar líf, heilsa og félagsþjónusta á í hlut. Hvað þá að dreifa verkefnum til vina og vandamanna.  Þá er það banabiti margra.  Og þar mun spillingin ein ríkja. 

 

miðvikudagur, 23. september 2015

Sniðganga: Skaði, Afleiðingar

Dagurinn þegar Kapítalistarnir Krúnurökuðu Kratana.  Skaðinn er orð dagsins. Skaðinn.  Hvaða Skaði, Skaði hverra????Hvaða afleiðingar, afleiðingar hverra?  

Er það skaði fjölskyldnanna sem misstu maka, börn, ættingja í seinustu gjöreyðingaárás Ísraelsmanna? Hafa yfirvöld Ísraelsríkis beðist afsökunar á því.  Er það skaði allra þeirra sem hafa horft á húsin sín jöfnuð við jörðu. Skaði barna sem setið hafa í fangelsum í Ísrael?
Eru það afleiðingar þess að Gyðingar koma ekki í heimsókn í borgina litlu norður á hjara
Veraldar?
Það eru til trúaðir Gyðingar, ofsatrúaðir Gyðingar, Gyðingar sem stunda ekki trú sína, Gyðingar sem fyrirlíta yfirgang Ísraelsríkis.  Gleymum ekki að þessi stjórn þessa ríkis hefur brotið ótal reglur hins alþjóðlega samfélags.  Oftast í skjóli heimsveldisins í vestri, en nú er það þannig að Forseti Bandaríkjanna er meira að segja búinn að fá nóg, Obama. 

já líkið af jónasi er sannarlega sjórekið
sjórekið uppá fjörur gullstrandlengjunnar.
sjáðu mamma manninn honum er illt
hann muldrar eitthvað um hrun og grípur um pyngjuna.

Sjaldan hefur maður orðið vitni að málefnahroka og skeytingarleysi stjórnmálamanna gagnvart kjósendum sínum  hér í Reykjavík eins og í gær. 
Meirihlutinn hefur brugðist mörgum kjósendum sínum, maður leggur ekki fram tillögu í jafn alvörumiklu máli til að draga hana fram nokkrum dögum seinna. Maður  lætur ekki peningavaldið kremja allan vind úr manni svo ekkert er eftir nema Afsökunarbeiðnir. Þá er betra að skilja holuna eftir við hliðina á Hörpu, það væri hægt að nota hana í sjávarlaug, þar sem menn geta þvegið af sér syndir sínar.  
Minnihlutinn getur enn komið manni á óvart með groddaskap.  Áslaug þó mest í gær.     

„Við erum í alþjóðlegu samhengi rasistar. Ykkur er sama um það,“ sagði Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í ræðu sinni rétt í þessu, nefndi að íslenskar vörur hefðu verið teknar úr búðum og vitnaði til yfirlýsingar Simon Wiesentahl-stofnunarinnar þar sem gyðingar eru hvattir til að fara ekki til Íslands. „Það skiptir ekki máli þótt ykkur finnist þið vera ofboðslegir mannréttindafrömuðir,“ sagði hún og fullyrti að samþykkt borgarstjórnarmeirihlutans hefði verið andstæð lögum og haft slæmar afleiðingar. „Ykkur er í raun og veru alveg nákvæmlega sama, þið takið þetta ekki alvarlega og þið eruð meira að segja farin að fabúlera um það að skaðinn sé nánast enginn. Algjörlega óskiljanlegt og mér finnst þetta bara ekki siðað.“
„Segjum að nasistar kæmust hér við völd og ákvæðu að setja einhvers konar bann á hluti, fara í gegnum innkaupastefnuna og segja: 'þetta hérna, þetta er einhvern veginn þannig að við teljum að hér sé verið að brjóta á fólki og lalala'... þið eruð í rauninni að gera þetta nema að þið teljið að þið séuð ekki nasistar af því þið eruð góða fólkið“.

Sveinbjörg kemur manni ekki á óvart, þó að neita að tjá sig um afstöðu sína til sjálfstæðis Palestínu er ansi sérstakt, þegar maður lítur til baka til frumkvæðis Framsóknarflokksins á sínum tíma undir stjórn Steingríms Hermannssonar í þeim málum. En þetta er annar flokkur í dag.  Sem tekur alltaf á sig sterkari myndi öfgahægriflokks.  
 

Magnús Már Guðmundsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, spurði Sveinbjörg Birnu hvort hún styddi að mannréttindasjónarmiðum væri fylgt í innkaupastefnu borgarinnar og hvort hún styddi Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Sveinbjörg svaraði fyrri spurningunni játandi en vildi ekki svara þeirri síðari. „Ég ætla aftur á móti ekki að fara út í það að láta stilla mér hérna upp við vegg að láta mig svara einhverjum spurningum sem mér finnst ekki eiga heima í borgarstjórnarsal,“ sagði hún.
Píratar og Vinstri grænir koma ansi veiklundaðir út úr þessari umræðu. Þeir ganga ansi mikið fram af flestum kjósendum sínum og eru veikari fyrir bragðið.  Svo er að sjá hvort að
aframhald þessa máls sé bara hjóm eitt í augum meirihlutans.  Það hlakkar í mörgum íhaldsjálkinum.   

Að þekkja og virða sín valdamörk eru eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnmálanna,“ segir Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í borgarstjórn. „Við hugsuðum ekki nógu vel um afleiðingarnar.“ Halldór segir drög að tillögu Bjarkar hafa legið fyrir í borginni í nokkurn tíma en tillagan þó verið lögð fram með of skömmum fyrirvara. „Þannig að ég tel fulla ástæðu til að biðjast afsökunar á því að hafa farið fram úr sjálfum mér og beitt valdi mínu á óábyrgan hátt. Ég geri það hér með,“ sagði Halldór og bætti við: „Vegurinn til heljar er því miður oft varðaður góðum áformum. Áformin voru nefnilega ekki vond - þau snerust um að vekja athygli á hernámi Ísraelsmanna á landsvæðum Palestínumanna og þrýsta á um að látið yrði af því. Mér finnst þessi málstaður hafa dálítið gleymst í umræðunni um tillöguna og afleiðingar hennar og vonandi gefast færi á að ræða áfram hvernig halda má honum og öðrum góðum og mikilvægum málstöðum á lofti.

jón er dauður en sjálfstæðisbaráttan blívur.
við berjumst til þrautar fyrir tungu & frelsi.
&gefum af bókum út eitthvert firnafár 
&förgum stundarhagsmunum fyrir nýtt helsi.