laugardagur, 24. desember 2016

Stjórnmál; loforð eru loforð

Nú eiga allir að vera í góðu skapi.  Minnsta kosti í stjórnmálum.  Fjárlög afgreidd, aukafjárlög afgreidd, Lífeyrisfrumvarp afgreitt, og sólin skín, myndrænt séð. Kosningloforð þurrkuð út, svikin.  Ekkert mál. Lífeyrismál opinberra embættismanna endurunnin, án útreikninga.  Allir eiga að vera glaðir. 

Og ný Ríkisstjórn mynduð, svona bak við þykk svört gluggatjöld, konjaksglös og vindlareykur.   Flaggað í Engey.  Ham spilar á árshátíð xD.  Svik, harmur og dauði. Segja sumir.  En kemur það á óvart?  Valdaglýjan glitrar í augum. Litla flokka dreymir um að vera stóra. Stóra flokka dreymir
að spila með litla flokka. 

Þetta er nú neikvætt. segja sumir.  Já, segir hann Erling. Engir flokkar eiga að umhverfast við stjórnarmyndun.  Loforð eru loforð.  Ef þau eru ekki efnd verður að koma skýring. Hún verður að vera gild.  Allir flokkar lofuðu skjótri uppbyggingu heilbrigðiskerfis.  Ríkið fær 27 milljarða arð  úr Íslandsbanka. Af hverju er þetta ekki sett í heilbrigðissjóð og aftur næsta ár.  Borga lánin á þar næsta ári  Efna loforð.  Enginn lofaði að borga upp allar skuldir sv0na einn tveir og þrír, auðvitað er gott að borga skuldir.  En betra er að fólk deyi ekki fyrir augum á okkur. Eitt stórt loforð á kjörtímabili, næst að útrýma fátækt á Íslandi.

Þetta er jólakveðjan mín. 




miðvikudagur, 14. desember 2016

Svarta myrkur: Á hvaða leið?

Það er rigning úti.  Ég er dapur.  Það er svo margt svart í veröldinni. Svo lítið sem maður getur gert. 
Margt fer öðruvísi en maður ætlar. Stjórnmálaforingjar ræðast í Sjónvarpi, þeir sem nenna að mæta. Þar er enginn friður í þeim hópi. 

Auðvitað vissum við að Viðreisn ætlaði aldrei í samband við vinstri flokka.  Það er svo hyldjúp gjá þar á milli.  Flest af fólkinu þar er bundið viðskiptum og bónusum og þjónkun við sína herra. Þá sem telja sig eiga okkur.  Eins og Sjálfstæðisflokkurinn.  
Svo var samþykkt á Alþingi um Opinber fjármál mjög vafasöm,um svona hugmyndir var mikil umræða í Bretlandi fyrir skömmu sem gerðu kerfisbreytingar á ýmsu nánast vonlausar. Eins og vitnað var í í gærkvöldi.  Allt stopp vegna laga um Opinber fjármál. Nei það má ekki reisa sjúkrahús.  Það er bannað!
Að finna sökudólg er svo billegt eins og umræðan á netinu seinustu daga sýnir.  

Út í heimi höfum við horft upp eina stærstu borg MiðAusturlands lagða í rúst meðan íbúar læddust þarna um til að reyna að halda lífinu.  Meira að segja börn eru leiksoppar hildarleiksins. Skömm sé þeim sem bera ábyrgð á þessu. 

Hérna er fámennur hópur ofstækisfólks sem sér ofsjónum yfir þeim fámennu sálum sem koma


hingað, sem flóttamenn eða flækingar.  Það er ekki þannig að Ísland sé efst á lista hjá flestum.  En einn og einn hefur heyrt um landið sem hefur engan her og ekkert stríð.  Þar hlýtur gott að vera. Mega þeir ekki vera hérna?   Vinna, stunda nám, ala upp börn, lifa lífinu?
Já lesandi góður.  Ég er dapur. Við erum sjálfum okkur verst.  Kítum innbyrðis meira en þörf er á.  Meðan lífið gengur sinn gang, börn fæðast og gleðja ættingja og vini.  Sjúklingar heyja baráttu við ólæknandi sjúkdóma meðan þeir nánustu þjást að horfa upp á lífsbaráttuna sem er alltaf til staðar sem svo oft er árangurslaus. 

Já, ég er dapur.  Rigningin dansar á malbikinu, vetrarmyrkrið liggur eins og mara yfir okkur. En alltaf hugsum við, það er ekki öll von úti.  Við berjumst um hæl og hnakka. En ef til vill eru of mörg dæmi um að manneskjan á sér ekki viðreisnar von.  Við erum líklega tegund á fallandi fæti.   


  

mánudagur, 12. desember 2016

Stjórnleysi: Einkavæðingarhákarlarnir bíða

Það er engin furða þótt erfitt sé að mynda stjórn.  Hagsmunir fólksins í landinu eru svo ólíkir. Og búið er að hringla í ýmsum þannig að þeir trúa því að það séu ekki til peningar fyrir helstu velferðarnauðsynjum. Spítölum, læknisþjónustu, lágmarksþurftum fólks.

Við höfum aldrei haft það svo gott segir Bjarni, það er auðvitað rétt þegar hann talar fyrir sjálfan sig og sína.  Hann sem komst hjá Hruni af því hann fékk réttar upplýsingar.   Hann hefur það djöfulli gott.  Hann og hans fjölskylda. Hann hefur hjálpað að liðka fyrir því fólki að stofnanir á góðu verði hrjóti í fang þess.  

En hann veit ekki um annað fólk, hann þekkir ekki hlutskipti annars fólks.  Ég hjóla framhjá á miðvikudögum þar sem fólk bíður í röðum eftir matarpokum.  Bjarni myndi ekki þora að láta sjá sig þar.  Þetta er ekki hans veruleiki, þess vegna er hann ekki til.   Ég skaut því fram á Facebook hve oft hann hafi heimsótt Landspítalann en hann úthúðaði forstjóranum í seinustu viku fyrir að segja sannleikann. Líklega hlustar hann ekki á fréttir þegar sagt er frá legu fólks á neyðardeildum sem bíður eftir að komast til sérfræðinga.  Hann hefur líklega ekki flett upp skýrslu Landlæknis um biðlista í aðgerðir.  Það tók mig 4 ár að komast með 2 hné mín í aðgerðir (já Bjarni ég hef 2 hné) .   

Enn hefur hann og Benedikt og Viðreisn þá trú að að það skapi mest að láta hátekjufólk borga sem lægsta skatta til að láta hjólin snúa.  Þótt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi varað mjög gegn því. Að það sé hættulegt að láta almannaþjónustu drabbast niður og bjóða upp á þjónustu fyrir þá sem geta borgað. 

Svo það er engin furða þótt erfitt sé að mynda ríkisstjórn.   Einavæðingahákarlarnir bíða eftir að hægriflokkarnir geti troðið sér í ráðherrastólana.  Svo sjúkrastofnanir bjóðist á góðum prís. 

Svo ætli við höfum ekki framundan 4 ár mótmæla og vonbrigða.   

Ríkisstjórnarviðræðum fimm
flokka undir stjórn Pírata slitið

Birgitta Jónsdóttir staðfestir það í samtali við Stundina. Hún fer á fund forseta í dag.

http://stundin.is/frett/benedikt-fordadi-500-milljonum-ur-glitni-fyrir-thjodnytingu-og-sendi-til-florida

miðvikudagur, 7. desember 2016

Hæstiréttur: Hvaða gildi?

Mál málanna getum við treyst Hæstarétti.  Þetta er stór og mikil spurning.  Þess vegna þarf allt að vera í lagi.  Vinnubrögð, starfsreglur, siðferði.  Ég fór svolítið bratt í pistli mínum í fyrradag.  Það kemur fyrir. 

Auðvitað er það þannig að valdamiklir aðilar vilja ekki að allir dómar Hæstaréttar séu íslenskri yfirstétt til góða.  Þeim sem æddu áfram í Hrunkerfinu.  Þeir hafa aðstöðu til að læða gögnum til fjölmiðla. Sem einhver virðist hafa gert í sambandi við Markúsarmálið.  Svo það verður fjölmiðlamál með tilheyrandi Netumræðu þó töluvert vandaðri en oft.  

Fjölmiðlar hafa þarna mikla ábyrgð.  Eiga þeir að leið svona sendingar hjá sér?  Eða skoða þær og birta að vel yfirveguðu máli.  Sem tveir fjölmiðlar virðast hafa haft í hyggju. Og ef til vill vitað hvor af öðrum.  Svo ýmislegt bendir til að umfjöllun RÚV hafi ekki verið nóg ígrunduð.  Sigurður Tómas Magnússon prófessor kemur inn á flest sem varðar þetta mál. Margt sem flestir geta verið sammála um, annað ekki.  

Markús fjárfestir í gríðarhlutabréfum Glitnis og selur, eftir dönsku skýrsluna? Eins og margir virðast hafa gert. Með ofsahagnaði.
Svo kaupir hann í sjóðum Glitnis.  Og leysir út rétt fyrir Hrun.  Og tapar milljónum.   
Semsagt hann græðir meiru en hann tapar.  Tapar samt. Eins og fjöldi Íslendinga.  Hvernig líður honum, fer hann til sálfræðings eða geðlæknis eins og Woody Allen, og úttalar sig. VIð vitum það ekki.  

En hann er ekki venjulegur Íslendingur.  Hann er Hæstaréttardómari.  Þar er munurinn.  Svo  spurningin er getur hann tekið þátt í dómum um málefni Glitnis nokkrum árum seinna.  Siðfræði mín segir að svo sé ekki, alveg sama þótt íslensk lögfræðivenja og dómar segi annað.   Við höfum dóm um annað mál, auðvitað segir prófessorinn að það sé allt annað. En nú blasir við að einhver sakborninganna getur leitað réttar síns.  Hæstiréttur stendur veikar en áður.  Mann grunar að það sé verið að drepa málum á dreif.   Þess vegna er svo nauðsynlegt að Hæstaréttardómarar íhugi vel gjörðir sínar.  Þeir eru með fríðindi umfram aðra.  Þau kosta hófsemi og hógværð.  Manngildi frekar en auðgildi.  

Hjördísarnefnd verður að taka upp betri vinnubrögð ef hún hefur ekki gert það.  Lög og reglur um fjármál dómara þarf að taka alvarlega.  Þetta er ekki í þykjustu. Ríkið þarf að búa þessari nefnd starfsaðstöðu.  Eftirlit hefur fengið illt orð á sig í þjóðfélagi okkar. 

Við þurfum að breyta því.  



  Rýrir svona mál traust á íslenskum dómstólum?
„Það fer eftir því hvernig umfjöllunin er. Ef þetta er sanngjörn og heiðarleg umfjöllun, þá á þetta að verða til þess að upplýsa fólk. Þetta hins vegar brýnir fyrir dómurum að þeir eru ekki hafnir yfir lög. Þeir verða að fylgja sömu lögum og aðrir. Í þessu tilviki verða þeir auðvitað að tilkynna eignir sínar. Það má ekkert slaka á slíkum kröfum. Jafnvel ætti að efla þetta eftirlit. Ég sé fyrir mér að það væri bara sent bréf til dómara árlega og þeir beðnir um að uppfæra upplýsingar um bæði atvinnuþátttöku sína og hugsanlega eign í atvinnurekstri.“

þriðjudagur, 6. desember 2016

Maddama Spilling og Frú Græðgi,í Hæstarétti

Alls staðar er hún Maddama Spilling.  Nú ryðst hún inn í Hæstarétt.  Og tekur með sér vinkonu sína Frú Græðgi ehf.   Þar eru margir að sögn rannsóknardeildar Kastjljóss.  Þar er nefndur forseti réttarins sem fremstur meðal jafningja.  Besti vinur Jóns Steinars (not!).  Tóngefandi í dómum gegn spillingargossum.  Svo margir munu fagna (mögulegu) falli hans.  Heimta að fá mál tekin upp. 

Hvað sem því líður, þá er hann vart hafinn yfir lög og reglur.  Reglur um meðferð eiginfjár eiga við hann eins og aðra í  Hæstarétti. Einhvern veginn er maður svo barnalegur um íslenska spillingu að maður heldur að hún sé ekki í Hæstarétti.  Fólk sem fær hæsta launþegakaup ríkisins út á það að það sé ekki hægt að nálgast það með fjárfúlgum.  Mikið væri land okkar ömurlegra ef við hefðum ekki Kastjljós til að henda fýlubombu inn í spillingarbúrin.  En spurningin er hvort þetta hrófli við Eigendafélagi Íslands.  Auðvitað er spilling í Hæstarétti!  Það getur ekki verið annað þegar Jón Steinar fær að læðast þar inn.  Og kvartar svo og kveinar af því að hinir  vilja ekki hafa hann með.  Það væri gaman að vita um lekann í þetta skipti.  Það eru margir sem vilja ýmislegt ljótt þar á ferð. Hvaðan kemur hann?

En við þessi saklausu börn þjóðarinnar viljum alla burt úr Hæstarétti Íslands sem dansa spilingardansinn þar, jafnvel þótt þeir séu þokkalegustu dómarar og fræðimenn.  Eða hvað.  Greinarhöfundur er huxi yfir þessum tíðindum.  Ekki get ég lesið sálarlíf dómaranna, ég væri sjálfur mjög fúll ef ég hefði tapað milljónum í Glitni og ætti svo að dæma þessa dela!  Svo töluverður efi hlýtur nú að vera til staðar um hæfi eða vanhæfi slíkra dómara.  Hvað sem Skúli Magnússon formaður Dómarafélagsins segir.   Það verður nóg að gera hjá Mannréttindadómstól Evrópu á næstunni!


 




Hæstaréttardómari átti hlutabréf fyrir tugi milljóna fyrir hrun 

Í kynn­ingu á umfjöll­un­inni segir að dóm­arar við Hæsta­rétt séu ævi­ráðnir og laun þeirra með því hæsta sem ger­ist hjá hinu opin­bera til að tryggja sjálf­stæði þeirra. „Eign­ist dóm­arar hluta­bréf, ber þeim að til­kynna Nefnd um dóm­ara­störf það - og séu þau meira en þriggja millj­óna króna virði, verður dóm­ar­inn að fá heim­ild fyrir þeirri eign frá nefnd­inn­i. Engin gögn finn­ast hjá nefnd­inni um að Markús hafi til­kynnt um sölu hluta­bréf­anna árið 2007. Þá seldi hann þau fyrir 44 millj­ónir króna. Í kjöl­farið fjár­festi hann í gegnum einka­banka­þjón­ustu Íslands­banka fyrir tæpar 60 millj­ónir króna. Engin til­kynn­ing finnst um það heldur hjá nefnd­inn­i.“ (kjarni síterar Kastjljós)

Segja Markús ekki hafa farið að regl­um

 

Ekkert bendi til vanhæfis Markúsar

 

 




sunnudagur, 4. desember 2016

Ný velferðarstjórn: Nú skelfist íhaldið.

Þeir skelfast núna íhaldsmennirnir. Því í ljós kemur að þeir sem héldu að væru óábyrgari en þeir sjálfir eru ábyrgir stjórnmálamenn.  Sem meta hag fólksins í landinu meira en sérhagsmuni. Þeir vilja huga að mikilvægustu málum þjóðarinnar, heibrigðismálum, og athuga um leið hvaðan peningarnri eiga að koma.  Úr fórum ríka fólksins.  Útgerðarmönnum og bröskurum.  Ekki úr vösum þeirra sem eiga minnst.  

Því skelfast hagsmunapotarar Yfirstéttarinnar á Íslandi.  Birgitta hefur skákað þeim við.  Það er hættulegt.   Nú verður fjölmiðlaflóran sett af stað.  Það er mikilvægt að vera á verði. Því einskis er svifið, standast Benediktog kó þrýstinginn og forðast að reisa við flokk Sjálfstæðisins með Panama liðið innanborðs?  Verður Óttarr of óttasleginn?    Við sjáum hvað setur. Greinarhöfundur er hugsi.  Hvaða bellibrögðum verðum beitt?  Mun Davíð segja frá hrósi Pútíns á Birgittu?  Mun Birgitta koma samskiptum Íslands og Rússlands í eðlilegt horf?  Hvað mun Sigmundur taka til bragðs. Er það furða þótt hann sé hugsi, ég meina greinarhöfundurinn. Vonandi fær engin aðsvif.  


Þingmenn Pírata hittast í dag


Fékk aðsvif undir stýri


Vladimír Pútín hrósar Donald Trump

Þeir Vladimír Pútín og Donald Trump ræddust við í síma fljótlega eftir að úrslit í forsetakosningunum í Bandaríkjunum lágu fyrir. Þeir voru að sögn sammála um að koma yrði samskiptum Rússlands og Bandaríkjanna í eðlilegt horf.

þriðjudagur, 29. nóvember 2016

Gaggalagú: Brún egg og Sjúklingar

Nú titrar þjóðin út af eggjum, hænum og eftirliti. Enginn vil vera maður með mönnum nema taka þátt í eggjakastinu á Brúnegg.  Aldrei hefur komið jafnskemmtilegur maður í fjölmiðla að verja frjálsa samkeppni (eggjafyrirtækin eru mörg).  Eftirlitsfólkið var dásamlegt.  Það var svo sárt að ekki var farið eftir ráðleggingum þeirra.  Og bréfið fræga týndist í ráðuneytinu, auðvitað hjá Gunnari Braga!

Sumir vinir hugsuðu það sama og ég.  Það eru til fleiri varðmenn hænunnar en gamla fólksins á Íslandi.  Um leið barst málgagn eldri borgara inn hjá mér þar sem Benedikt Jóhannsson fræðir okkur um það að elli lífeyrisþegar hafi aldrei haft það betra.  Þarf meira til að sannfæra okkur? Svo er þetta góður tími til að ræða egg.  Allir í jólabakstri, nauðsynlegt að hafa góð egg.  Margir eflaust búnir að hamstra strax í dag.  Það er örugglega skortur á hvítum eggjum,  við viljum ekki lituð egg né kynblendinga. 

4 af 6 stjórnmálaflokkum virðast ekki vilja bjóða upp á hærri skatta.  Það eru bara VG og SF sem hafa talað um annað.  Skatta þurfum við til að bjóða upp á betri heilsugæslu.  Vilja ekki allir flokkar betri heilsugæslu.  Eða var það bara fyrir kosningaáróður.  Þannig að gamalt fólk og sjúklingar með ótal sjúkdóma verður að bíða á göngum eftir því að komast í aðgerðir eða að komast í stofnanir þar sem það fær eðlilega þjónustu.   Seinustu 5 árin hefur engin aukning verið á fé í þann málflokk hlutfallslega  (8,6 - 8,9 prósent af GDP samkvæmt OECD :  Healt at Glance.)  

Hvaða samkomulag haldið þið að xD og xV gera til að mynda stjórn????  Við bíðum, varla spennt.   




Hérna eru dæmi um Fésbókarvini míni í gærkvöldi og morgun: 



Ó, þú hneykslunarelska þjóð. Hversu mörg ykkar kaupa mjólkurvörur frá MS nokkrum sinnum í viku? Hversu mörg eru í viðskiptum við Vodafone eftir trúnaðarupplýsingalekann þaðan? Þarf ég nokkuð að halda upptalningunni áfram?

Auðvitað er það tilviljun en eigandinn hefur verið í framboði bæði fyrir Vöku og Sjálfstæðisflokkinn. Gaggalagú

Er það virkilega raunhæft að vonast til að þjóð sem telur hörmungar fólks af öðrum þjóðernum sér að mestu óviðkomandi, og vanrækir sína eigin sjúklinga og gamalmenni, taki skyndilega upp hjá sér að sýna skepnum mannúð?

Horfði seint og um síðir á þetta eggja-Kastljós. Það var illa unnið. Fréttadrengurinn með skeggið eins og krókloppin vannærður hvítur Ítali [sem er hænsnategund þið þarna 101 rottur] og það vantaði líka alveg frambærilega áhrifsmúsík undir dramatískustu skotin; dauða mús og lirfur - berrassaðar hænur og möppurnar hjá MAST. Annars er ég góður. Hef aldrei keypt brún egg, kaupi bara hvít egg úr innrömmuðum búrhænum og ætla að halda því áfram - geðheilsa mín er á því stigi að ég offra henni ekki með byltingarkenndum umsnúningi eins og þeim að fara allt í einu á gamals aldri að éta brún egg - fokdýr. Ekki kalla mig harðbrjósta. Nú sýnist mér hvort eða er allir komnir - 3. klst. síðar - út í hagræna útreikninga og niðurgreiðslueftirsjá á meðan hænan rotnar; lirfan fitnar og músin dansar.

Það verða aldrei oftar keypt brúnegg á þessu heimili en við munum halda áfram að horfa á Tryggva á Rúv. Læt embættismennina eiga sig í bili. Ekki veitir þeim af sparki í rass frá þeim sem hafa umboð til að sparka í rassinn á þeim.

MS, SS, salt, sykurskattur, gosdrykkjaframleiðendahagsmunir, náttúrulaxeldisspilling, lyfsölukerfi, hringamyndun, samkeppniseftirlitið, egg, hænur, lífræn vottun, salat sem ekki er salat, Íslendingar eru eymingjar. Aumingja Ísland.

Þetta er svo kaldrifjað og lýsir einhvers konar ískaldri fyrirlitningu í garð neytenda, sem borga 40% hærra verð fyrir eggin í þeirri trú að sómasamlega sé búið að dýrunum sem eggin eru fengin frá. Þetta snýst ekki bara um þetta tiltekna fyrirtæki heldur sýnir þetta landlægan hugsunarhátt, menningarástand, djúprætta spillingu sem verður til í rekstrarumhverfi þar sem neytandinn á engan rétt en „framleiðandinn“ nýtur verndar út yfir gröf og dauða.

Þjóðinni brá í Brún...

Aldrei hef ég séð umræðuefni leggja undir sig Facebook einsog brúnu eggin.