föstudagur, 28. apríl 2017

Háþrýstingur í heilbrigðiskerfinu: Sérfræðilæknar trumpast!

Það er háþrýstingur í heilbrigðiskerfinu um þessar mundir.  Yfirmenn Landsspítala og Landlæknir reyna að standa vörð um almenna og gjaldfrjálsa heilsugæslu, að mestu leyti.  Íhaldslæknastéttin með sérfræðilækna í fararbroddi æsir sig og vill fá góða þjónustu hjá Ríkisstjórninni.  Þeirra hugmyndir eru auðvitað að fá einkavæðingu á flestum sviðum.   Einn sérfræðilæknir sendir Landlækni aldeilis tóninn í Morgunblaðinu í gær.  Hámarkið er að Landlæknir  sendi Ríkisstjórn tóninn.  Að gagnrýna hið háa vald með snillinginn Óttarr Proppé í fararbroddi.  Þar sem allt sem hugsast getur er í biðstöðu. 

Krabbameinssjúklingar fá ekki lyf,  Sjúklingar þurfa að bíða eftir aðgerð endalaust,  undirritaður þurfti 4 ár til að fá hnjáliðaaðgerð á báðum fótum, ekki er þetta landlækni að kenna, heldur endalausu fjársvelti Ríkisspítalanna og ekki batnar ástandið við að láta Klínikina fá fjármunina sem eru til úthlutunar, þótt að ættingjar ráðherranna og velvildarmenn Sjálfstæðisflokksins eigi hlut að máli. 

Maður heyrir á tali fólks að nú er nóg komið.  Ætli þurfi ekki  risamótmæli í haust til að sýna vilja fólksins í landinu?  Það er komið nóg.  Hálaunafólk og útgerðaaðall vill stjórna, lægri skatta, nýja stjórn í Seðlabanka. .  Þægt fólk í áhrifastöðum í heilbrigðiskerfinu, það er lóðið. Þá verður allt gott.  En, lesendur góðir, er þetta ekki eitthvað sem við viljum stoppa?    


Vant­ar 100 hjúkr­un­ar­fræðinga

 Sjúk­ling­ar hafa ekki efni á að bíða

Hvað er hæft í fullyrðingum landlæknis

Vant­ar 10 millj­arða í rekst­ur­inn

 

þriðjudagur, 25. apríl 2017

Frakkland /Ísland: Spurningar og svör.

Úrslitin í Frakklandi koma svo sem ekki á óvart. Ef maður hefur fylgst með stjórnmálum í heiminum upp á síðkastið. Vantraustið og fyrirlitning á hefðbundnum stjórnmálaöflum er allsráðandi. Í staðinn eiga Öfgaflokkar /Einstaklingar aðgang að atkvæðum fólks sem aldrei fyrr. Fleiri flokkar fleiri framboð, meira lýðræði? Það er spurningin.

Ýmislegt er sameiginlegt með seinustu kosningum hjá okkur og þeim frönsku. Tveir frambjóðendur LePen og Fillon hafa skugga spillingar hangandi yfir sér, en eru kosnir af 40% kjósenda. Hverjum er ekki sama? Myndum við gera það sama í sömu aðstöðu? Bara kjósa þá. Ónei, ekki ég. Ansi er maður orðinn lúinn.  Það á við undirritaðan Eins og mörgum öðrum, finnst mér spillingin umhverfis okkur vera yfirþyrmandi og valdamönnum   spillingar finnst ekki ástæða  til að fela voðaverk sín. Ættarspilling og klíkuskapur ráða ríkjum. Flestir bugta sig og beygja. 

En ..... Hvað getum við gert, kosið fasista og pópúlista? Dansað við Trump og úlfa. Blásið í Trumpeta? Það er eins og allar leiðir séu lokaðar. Orð eins og Friður, Réttlæti, Fegurð eða Manngæska eru gleymd. Græðgin glottir framan í okkur.

Ég er þreyttur og nenni varla að skrifa.  En ....  ætli maður rísi ekki upp aftur? Spurningarnar eru margar og um leið eru svörin fjölmörg. Mér var hugsað um þetta þegar ég horfði og hlustaði á Hin tvö líf Verónikku, meistaraverk Pólverjans Kieslowskí.  https://youtu.be/XlcWrglVZEA





Official first round result

With 106 of 107 departements counted | At 04:49 CEST
Macron 23.75%
Le Pen 21.53%
Fillon 19.91%
Mélenchon 19.64%
Hamon 6.35%
Dupont-Aignan 4.75%
Lassalle 1.22%
Poutou 1.1%
Asselineau 0.92%
Arthaud 0.65%
Cheminade 0.18%

The top two candidates go into a run-off election in two weeks' time, on Sunday 7 May.

fimmtudagur, 13. apríl 2017

Jójó: Forsetinn og Heimsríkið skipta um skoðun

Ben Jennings 08.04.2017
Mynd Ben Jennings

Aftur og aftur verður stefnubreyting á Floridagolfvellinum.  Það er meira sem er ákveðið þar en í Hvíta húsinu. 

NATO sem ómögulegt fyrir nokkrum vikum er núna í góðu gengi:  Ekki lengur úrelt, allt hefur breyst frá því hann tók við. Það berst gegn Terrorisma.  Stoltenberg fær prýðisviðtökur í Washington. 

Seðlabankastjóri BNA hefur stuðning Trumps.  Janet Yellen er ekki svo slæm. 

Sýrland er allt í einu orðinn miðdepill utanríkisstefnu Trumps á eftir Norður- Kóreu.  Rússland er að verða höfuðandstæðingur.  Utanríkisráðherra Trumps gagnrýnir stefnu Pútins harðlega.  Tillerson sem hefur haft náið samband við rússnesk fyrirtæki þarf að færa þau skilaboð í Moskvu. 

Nú virðist Trump ætla að semja við Kína um viðskiptamálefni og breytir afstöðu sinni svona einn tveir og þrír. 

Samstarfsþjóðir eru órólegar.  Það er erfitt að höndla við Forseta sem hefur engin grundvallarsjónarmið.  Hagar sér eins og Jójó.  Jójó er orð dagsins.  




föstudagur, 7. apríl 2017

Sigurður A. Magnússon

Menningarmaður með stórum staf. Skáld með stórum staf. Baráttumaður engum líkur. Olli  byltingu í blaðaútgáfu fyrst með lista og bókmennta umræðu í Lesbók Morgunblaðsins. Svo með ritstjórn og þjóðmálaumræðunni í Samvinnunni. 
Við lentum hlið við hlið á mótmælafundi gegn Víetnamstyrjöldinni í Tjarnarbúð í desember 1968 frekar en 69., í lok fundarins vildu fundargestir láta fleiri í Miðbænum vita af baráttumálum fundarins og ætluðu að labba út á Austurvöll og út í Austurstræti sem búið var að tilkynna yfirvöldum með góðum fyrirvara.  En lögreglan vildi ekki hafa slíkan ósóma og reyndi að koma í veg fyrir þetta. Nokkrir voru handteknir þará meðal SAM. Það gat kostað ýmislegt að taka þátt í mótmælum jafnvel þótt maður hefði unnið á Mogganum. Við hlupum nokkur út á Austurvöll. Góður vinur minn lenti í hrömmum  lögreglumanns og var keyrður niður, ég bjargaði gleraugum hans, gleraugu voru dýrari í þá daga, en hann lenti í lögreglubílnum með Sigurði og völdum hópi. Ætli þetta hafi ekki verið 21. Desember? Svo var Þorláksmessuslagurinn tveim dögum seinna og Sigtúnsfundurinn.
 Hann var hamhleypa til verka. Þýðingar, margar góðar, Dreggjar Dagsins, Safnarinn, Blindgata í Kaíró; Hemingway, Joyce, Brecht;ljóðaskrif, ævisögur, pistlar, greinar, bókmennta og leikhúsgagnrýni. Leiftrandi í anda,Mannréttindi. Vietnam, Grikkland, Herstöðvar á Íslandi, Friðarberi. 

Blessuð sé minning hans.



miðvikudagur, 5. apríl 2017

Opinber fjármál og Ólafur Ólafsson

Mér var hugsað til ótal þátta í fjármálastefnu ríkis og sveitafélagastarfsmanna þegar ég sá þessa grein í Stundinni  dag.

Þekktur stjórnmálahagfræðingur
segir fjármálareglur
Íslendinga fráleitar

Mark Blyth, prófessor í stjórnmálahagfræði og höfundur bókarinnar Austerity: The History of a Dangerous Idea, segir útgjaldareglu ríkisstjórnarinnar mjög óskynsamlega.

Það er nú svo með okkur leikmenn og áhugamenn um stjórnmál að við höfum ekki alltaf tíma til að grufla í öllu sem Alþingi fæst við. En eitthvað hafði ég þó heyrt um þetta og tengdi það umræðu í breskum fjölmiðlum að breska íhaldsstjórnin væri að koma löggjöf um opinber fjármál sem setti ákveðnar reglur um hallarekstur ríkisins sem myndi hindra að andstæðingar hennar gætu ekki breytt verulega stefnu íhaldsmanna kæmust þeir til valda. Samkvæmt grein Stundarinnar þá er:

Í lögum um opinber fjármál er kveðið á um að hallarekstur ríkisins megi ekki nema meira en 2,5 prósentum af vergri landsframleiðslu. Í ríkisfjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar eru tekjöflun ríkisins settar sérstakar skorður með stefnumiði um að frumtekjur hins opinbera megi ekki aukast umfram hagvöxt en sams konar reglu var að finna í fjármálaáætlun síðustu stjórnar. Í fjármálastefnu núverandi ríkisstjórnar er svo einnig að finna sérstakt útgjaldaþak; þá reglu að heildarútgjöld hins opinbera mega ekki nema meira en 41,5 prósentum af vergri landsframleiðslu næstu árin. 

Með þessu er verið að binda hendur næstu ríkisstjórna. Koma í veg fyrir og loka á róttækar breytingar flokka sem hafa ef til vill fengið mikinn meirihluta í kosningum. Allt út á að að það sem við eigum að óttast mest eru breytingar í samfélagi okkar. Var ekki þessi löggjöf notuð gegn VG í stjórnar viðræðum um daginn? 

Einhvern veginn kveikti þetta líka í mér í umræðunni um varnarleysi yfirvalda gegn fjárglæframönnum sem þau verða að lúffa gegn þegar þeir eru að stunda atvinnustarfsemi innan veggja fangelsis eða í hlekkjum. Er ekki eðlilegt að þeim sé bönnuð atvinnustarfsemi á meðan þeir sæta refsingu og að dómsvöld fylgi því eftir? Menn sem hafa látið milljarða fara í súginn valdið skaða tuga þúsunda manna. Eiga þeir að standa í rekstri fyrirtækja og byggja heil íbúðahverfi. Og glotta framan í okkur af því þeir eru með einkahlutafélög með aðra kennitölu?
Og opinberir aðilar verða að hneigja sig og beygja fyrir þeim? Eru lögfræðingar á réttri leið sem úrskurða um slíkt? Hafa þessir menn ekki brotið af sér um meðferð fjármála?

Erum við á réttri leið? 
,

miðvikudagur, 29. mars 2017

Minnisleysi: Dekhill Advisors ltd. og Kó

Þetta var svo sem ekkert leyndarmál. Svikabrellan í kringum einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Þetta var umtalað þá, nú er það skjalfest. 
Það sem er dapurlegt að enn eru þessir menn á fullu í gróðabraski. Þrátt fyrir dóma, fangelsun, hroka og siðleysi.

Nú er Ólafur Ólafsson að undirbúa byggingu heils íbúðahverfis í Reykjavík, Suðurlandsbraut 18 á að verða hótel. Eru allir búnir að gleyma hrun og spillingarsögu þessarar miðstöðvar einkahlutafélaga  Samvinnuhreyfingarinnar þar sem til varð stórveldi þessarar klíku og notað var fé sem hluthafar Samvinnutrygginga/Brunabótafélags áttu. Kjörnir fulltrúar Okkar Reykvíkinga rétta upp hönd. Og vilja vera með í þessu kompaníi. Minnisleysið er algjört : Ekki minnist ég þess hljómar úr öllum áttum. Sagan um nýju fötin keisarans er í fullu gildi. Enginn þorir að segja. Keisarinn er nakinn. 

Enginn þorir að segja : Farðu, peningar þínir eru eitraðir!  

mánudagur, 27. mars 2017

Maðurinn með stálhnefana: Óli Björn Kárason

Ein Brekkan á Alþingi heldur áfram að brillera og standa sig:  Eins og maður gat búist við.
Óli nokkur Björn Kárason sem hefur marga fjöruna sopið.  Auðvitað hefur Hannes Hólmsteinn fundið spillingu hjá honum (Not)!   

Honum finnst allt í lagi að hann fjalli um störf konu sinnar í nefnd sinni á Alþingi.  Honum þætti allt í lagi að fjalla um störf Seðlabankans ef hann væri gifur Má Guðmundssyni!  Af því að Már á ekki Seðlabankann.

Þetta hlýtur að vera hið besta mál, úr því að umræddur 10 milljóna króna maðurinn hefur ekkert fundið og mun aldrei finna.  Já, lesendur góðir við lifum furðulega tíma í ríki þar sem allar reglur siðaðra samfélaga eru brotnar.  Þess vegna er maðurinn með stálhnefana á Alþingi. 
Og óhugnanlegasta afkvæmi Spillingarinnar fenginn til að gera skýrslu um spillingu á Íslandi. 

Á meðan Róm brennur.  




Í siðareglum Alþingismanna, sem samþykktar voru í formi þingsályktunar í fyrra, er sérstaklega kveðið á um að þingmenn skuli forðast hagsmunaárekstra. „Þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. Takist þingmanni ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá,“ segir í 8. gr. siðareglanna. Þá segir í 9. gr. að þeir eigi að vekja athygli á tengslum sínum. „Þingmenn skulu, þar sem við á, vekja athygli á persónulegum hagsmunum sínum sem máli skipta við meðferð þingmála.“ (stundin.is)



Ég hef leitað árangurslaust að gögnum, sem styðja fullyrðingar um víðtæka spillingu á Íslandi fyrir bankahrun.

Þetta er forvitnilegt rannsóknarefni. Hvað er spilling, og hvernig verður hún mæld?
pressan.is