mánudagur, 16. september 2013

Fjölmiðlar helgarinnar: RÚV sigurvegarinn

Var að fletta fjölmiðlum helgarinnar sem ég hef aðgang að.  Það var ekki jákvæð reynsla.  Yfirgengileg yfirhelling auglýsinga og áróðurs, aðallega á svið heilsuiðnaðar og tísku.   Satt að segja hefur maður á tilfinningunni að það sé verið að kæfa mann í drasli.   

Fréttablaðið reynir að flagga einhverju um helgarnar, pistlahöfundarnir eru ekki fjölbreytt flóra, Steini Páls er stundum með forvitnilega pistla, er líklega fordómalausasti hægrimaður landsins.   En það vantar alla breidd í pistlana.  Sá eini sem mér finnst verulega skemmtilegur er Pavel, maður þarf ekki alltaf að vera sammála til að njóta hugleiftra hans.  

Eina fréttin bitastæð var um sölur Orkuveitu Reykjavíkur, þar kemur mér svo sem ekki á óvart hversu erfitt er að selja stór fyrirtæki og eignir,  fjármagn er erfitt að fá alls staðar,  þetta sagði seinasta ríkisstjórn landsmönnum en þeir trúðu þessu aldrei og urðu því auðvelt fórnarlamb óábyrgra stjórnmálaafla xB og xD.  

En minnumst á það sem er gott, það var einstaklega skemmtilegt viðtal við heimsfrægan íslenskan arkitekt sem ég hef aldrei heyrt minnst á, Jórunni Ragnarsdóttur, það var svona hlýlegt og náttúrulegt.  

Fréttatíminn virðist sérhæfa sig sem  kvennamiðill ég taldi 8 heilsíðuviðtöld og greinar þar sem 7 voru um konur og 1 um kall, ef ég man rétt.  Gunnar Smári er stundum með skemmtilega pistla.  En gagnrýnin blaðamennska?  Nei það var ekki mikið af henni.  Það verður vera meiri fjölbreytni svo ég fletti þessu blaði og lesi. Gunnar Hersveinn var með smápistil góðan  Annað var heilsa, mataræði, prjón og hekl, ennþá vantar helgarblað fyrir fólk sem vill fylgjast með fréttum, menningu, listum á gagnrýninn hátt. 

Það getur maður keypt á netinu frá útlöndum, svo hugurinn leitar æ meira þangað um helgar,  

En það er RÚV, sjónvarpið á sunnudagskvöldum sem ber af fjölmiðlunum um þessa helgi, í gærkvöldi var það skemmtilegt við Ragnhildar Steinunnar við Kára Helgason, doktorsnema í Ameríku, gaman líka að sjá gamalt kunningjafólk úr Borgarnesi, foreldra hans;    og þáttur Víkings Heiðars, Höllu Oddnýjar og Viðars Víkings um klassíska tónlist. Loks norska framhaldsmyndin Halvbroren, hún hefur gripið mig, og sjónvarpið er meira  að segja farið að auglýsa sérstaklega norræna þætti og myndir sem eitthvað sérstakt, það er nýtt.  Svona á dagskrá að vera, ég missti að vísu af myndinni um fyrri heimsstyrjöldina seinustu tvo sunnudaga eftir sögu Sebastians Faulks.  Svo er Broen II að koma ég bíð spenntur. 

Já lesendur góðir það haustar, stormurinn æðir um landið, það er eins og allt gerist fyrr núna, ég man þegar ég bjó í Borgarnesi þá tók maður upp kartöflurnar í byrjun október. En morgnarnir eru nú fallegir.  Þessir myndir eru teknar um sexleytið að morgni í seinustu viku.   




Engin ummæli:

Skrifa ummæli