fimmtudagur, 31. október 2013

Norðurlönd: Glæsileiki og niðurskurður

Það var merkilegt að sjá ráðherra okkar spegla sig í glæsileik Norrænnar menningar, lista og umhverfismála á miðvikudagskvöld.  Þarna sátu þau prúðbúin og máluð og upplifðu rjóma atvinnustarfsemi sem verður ekki til án menntunar, vinnu og hæfileika. Munum um leið að þetta valdafólk okkar vill samkvæmt fjárlögum eyðileggja margt sem byggt hefur verið upp seinustu árin í þeim málaflokkum.  

Þessi norræni heimur er ansi merkilegt fyrirbrigði og þeir sem hafa aldrei og vilja aldrei horfa út fyrir hinn engilsaxneska fjölmenningarheim missa af miklu.  Það hefur verið tilhneiging seinustu árin að skera niður fjármuni til þessa samstarfs sem er slæmt mál. 

Ráðherrar okkar og þingmenn taka þátt í þessu samstarfi á okkar kostnað.  Það er dýrt.  En það getur skilað miklu,  stór hópur Íslendinga hefur menntað sig þar, stundað atvinnu og leitað til þegar á hefur bjátað heima hjá okkur. En um leið er þessi heimur fjarlægur mörgum okkar,  flestir Íslendingar vita lítið um dægurlagaheim Norðurlanda svo við tökum dæmi.  En þetta er um leið heimur sem við eigum að vera mest tengd við.  Þar sem mestu er eytt til félagsmála, menntamála og menningarmála í heiminum.  En það er samt ekki okkar vilji að toppfígúrur okkar  spegli sig í þessum glæsiheimi á meðan þær ætla að skera niður grunn menningar og lista í landinu. Og rústa umhverfismálum en umhverfisverðlaunin voru líka veitt í kvöld.  


Koma þau heim með breytta sýn, varla.  Oft hefur það verið tilgangur nýrra ríkisstjórna xD og xB að eyðileggja það sem vinstri menn hafa gert á þessum sviðum.  Einhvern veginn elst þetta fólk upp við menningarfjandsamlegan heim.  

Því miður.   

Engin ummæli:

Skrifa ummæli