Það var gaman að fara á tónleikana í gærkvöldi í Hörpunni. Það var svo annað públikum en venjulega er á klassískum tónleikum. Ungt fólk, boðsgestir, maður sá einn og einn fastagest sinfoníunnar. Þeir voru ekki margir. En fólk skemmti sér vel, þrátt fyrir að erfitt sé að hlusta á 20 etýður í stíl sem oft virðist vera svo keimlíkur. En býr yfir ýmsu þegar nánar er hlustað á. Er oft í hugleiðslustíl, austurlensk áhrif, Búddismi.
Eflaust komu margir vegna góðrar auglýsingamennsku og viðtölum við Glass í fjölmiðlum. Hann virðist vera ansi geðþekkur maður. Engir stórstjörnustælar. Þótt líklega sé hann einn mest seldi lifandi tónlistarmaður nútímatónlistar. Hann hefur auðþekkjanlegan stíl, alla vega heyri ég alltaf hver það er þegar hans tónlist er spiluð í fjölmiðlum. Ef þið viljið hlusta á hann þá eru verk eins og The Hours (kvikmyndatónlistin), Fiðlukonsert, Book of Longing, með söng og taltextum Leonards Cohen, Einstein on the Beach, ópera, Kundun, kvikmyndatónlist við mynd Martin Scorseces, Heroes sinfonía byggð á stefjum Bowies og Enos við samnefndan disk, Metamorphosis, píanótónlist, svo ég nefni eitthvað sem ég hef heyrt og séð.
Hann, Víkingur Heiðar okkar og Maki, bráðmyndarleg japönsk kona, skiptust á að spila etýður, tvö píanó voru á sviðinu, Glass spilaði alltaf á það sama, hin skiptust á. Glass var auðsjáanlega lakastur þeirra í spilamennskunni, enda 78 ára gamall, hinu voru afbragðsgóð, og margar etýðurnar voru hugljúfar stundum, svo voru óvenjukraftmiklir kaflar á milli. Svo fjölbreytnin var meiri en ég bjóst við. Seinasta etýðan var gríðarfalleg þar sem hann fetar nýjar slóðir, miðað við hinar.
Svo ég skemmti mér vel, áhorfendum virtist ekki leiðast, fögnuður mikill í lokin. Og nú hefur maður séð Philip Glass lifandi. Svo er spurningin hvort glasið var hálffullt eða hálftómt. Hver dæmir fyrir sig. Og sýpur á.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli