föstudagur, 7. mars 2014

Stefán Thors: Engin spilling á Íslandi???????

Það er engin spilling á Íslandi :  Lesið þessa grein og hugleiðið í hvers konar þjóðfélagi við lifum. 
Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari en guð minn góður hvers konar lið hefur fólk valið yfir okkur. 


Íhugaði að hætta eftir að áminningin var ógilt

Stefáni Thors boðið að hætta í umhverfisráðuneytinu. Fékk ekki skýringar á uppsögn.
Sigurður Ingi Jóhannsson dró til baka áminninguna sem Hrafnhildur Ásta fékk í óþökk Stefáns Thors.
Dró áminninguna til baka Sigurður Ingi Jóhannsson dró til baka áminninguna sem Hrafnhildur Ásta fékk í óþökk Stefáns Thors.
„Hann tilkynnti mér að hann myndi gera það og gerði það svo. Ég var mjög ósáttur við það,“ segir Stefán Thors, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, aðspurður um ástæður þess að áminning sem hann veitti Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur skrifstofustjóra hafi verið dregin til baka af umhverfisráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni. „Ég hugsaði minn gang eftir þetta, hvort ég ætti að hætta og fara að gera eitthvað annað, en ég ákvað að halda áfram þarna.“ Áminningin sem Stefán Thors hafði veitt Hrafnhildi Ástu í starfi var vegna samstarfsörðugleika við annan starfsmann.
Hrafnhildur Ásta, sem er náfrænka Davíðs Oddssonar, var svo ráðin sem forstjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna í lok árs í fyrra. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra og fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs, skipaði Hrafnhildi Ástu í starfið þrátt fyrir að stjórn Lánasjóðsins hefði metið annan umsækjanda hæfari. Hrafnhildur Ásta var einn af þremur umsækjendum sem stjórnin mat hæfasta. Lokaákvörðunin um hvern skyldi ráða var hins vegar hjá Illuga Gunnarssyni og fylgdi hann ekki mati stjórnarinnar.
Ljóst er að Hrafnhildur hefði ekki getað fengið starfið hjá LÍN með áminningu fyrir brot í starfi á bakinu. Í viðtali við DV í lok árs í fyrra sagði Illugi Gunnarsson að hann liti ekki svo á að Hrafnhildur Ásta hefði fengið áminningu í starfi þar sem áminningin var dregin til baka.
„Ég áminnti hana vegna samstarfsörðugleika“

Boðin sérverkefni

Stefán Thors lét af störfum í umhverfisráðuneytinu síðastliðinn föstudag eftir að Sigurður Ingi tilkynnti honum að heppilegast væri að hann hyrfi til annarra starfa á vegum hins opinbera. Að sögn Stefáns kallaði Sigurður Ingi hann á sinn fund eftir að hann kom nýverið aftur til landsins frá Japan og spurði hann hvort hann vildi stíga til hliðar sem ráðuneytisstjóri. „Hann spurði mig hvort ég vildi stíga til hliðar sem ráðuneytisstjóri og fara í sérverkefni. Ég hafnaði því. Ef það var hans vilji að ég myndi stíga til hliðar þá vildi ég frekar fara í námsleyfi því það var greinilega hans vilji að ég myndi hætta.“
Þegar Stefán er spurður hvaða skýringar Sigurður Ingi hafi gefið fyrir því að hann vildi að hann færi í sérverkefni segir hann að engar skýringar hafi verið gefnar sem sneru að honum sjálfum persónulega. „Ég spurði hann að þessu og hann gaf engar skýringar aðrar en að hann væri ekki sáttur við vinnubrögðin í ráðuneytinu. Hann sagði jafnframt að þetta væri ekki mér að kenna.“
Stefán segist því ekki vita af hverju hafi átt að setja hann í sérverkefni.

Rannsókn vinnusálfræðings

Þegar Stefán tók við störfum í ráðuneytinu í apríl í fyrra var hafin rannsókn á máli Hrafnhildar Ástu sem vinnusálfræðingur sá um og ræddi hann meðal annars við fjölmarga starfsmenn ráðuneytisins. Rannsóknin byggði á kvörtun frá starfsmanni samkvæmt heimildum DV. Hrafnhildi Ástu var boðið að hætta í ráðuneytinu eftir að niðurstaða lá fyrir í rannsókninni en hún þáði ekki það boð.
Stefán Thors segist ekki geta rætt um rannsóknina en að hann geti staðfest að hann áminnti Hrafnhildi Ástu í kjölfar hennar. „Það sem ég get staðfest er að já, ég áminnti hana vegna samstarfsörðugleika. Meira get ég ekki sagt.“ Stefán segir að áminningin hafi átt rétt á sér.
Í kjölfar áminningarinnar reyndi Hrafnhildur Ásta að fá hana dregna til baka. Við það naut hún aðstoðar Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögmanns og fyrrverandi hæstaréttardómara. Stefán tók hins vegar ekki gildar athugasemdir Jóns Steinars og Hrafnhildar Ástu. Þegar Stefán lét sér ekki segjast þá var leitað til Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra sem dró áminninguna til baka. Ráðuneytisstjórinn var ósáttur við þá ákvörðun, líkt og áður segir.

Refsing?

Sjaldgæft er að áminningar sem veittar eru af ráðherra eða ráðuneytisstjóra séu dregnar til baka. Katrín Jakobsdóttir dró til baka áminningu sem tiltekinn skólameistari hafði fengið árið 2010 en sú ákvörðun byggði á úrskurði umboðsmanns Alþingis sem taldi að áminningin hefði ekki átt að rétt á sér. Í því tilfelli var afturköllunin því byggð á úrskurði eftirlitsaðila. Einnig er sjaldgæft að ráðuneytisstjórar láti af störfum með svo skömmum fyrirvara og á sambærilegum forsendum.
Þegar Stefán er spurður að því hvort hann telji að verið sé að refsa honum, og hvort sá möguleiki sé ekki fyrir hendi að fyrst hægt sé að fá áminningu í ráðuneyti afturkallaða þá sé einnig hægt að hafa áhrif á mannval í þessu sama ráðuneyti, segir hann: „Ég veit það ekki […] Þetta eru þín orð en það má alveg spyrja.“
Stefán fer nú í námsleyfi í eitt ár. Hann segist ekki íhuga að leita réttar síns í málinu. „Ég er ekki fæddur í gær þannig að ég lifi þetta alveg af.“
DV hafði samband við umhverfisráðuneytið til að spyrjast fyrir um ástæður starfsloka Stefáns Thors í ráðuneytinu. Í svari frá upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur, kemur fram að Stefán hafi óskað eftir námsleyfi sem ráðherra hafi veitt honum: „Ástæðan er sú að Stefán óskaði eftir námsleyfi sem ráðherra veitti honum.“
Miðað við orð Stefáns sjálfs voru ástæður starfsloka hans hins vegar aðeins flóknari en svo.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli