Vinsældir Arnaldar Indriðasona sem sakamálarithöfundar eru ótrúlegar. Hann hefur gefið út 18 bækur og náði með tímanum að vera óumdeildur konungur jólabókaflóðanna ár eftir ár. seinni árin er það eingöngu Yrsa sem hefur getað nartað í hælana á honum. Ég veit ekki hvort hún hafi komist yfir hann seinustu árin, þó held ég það ekki.
Það er ekki auðvelt að gefa út bók á hverju ári sem verður að halda í lesendur sem hafa ákveðna formúlu í huganum en samt þjóna því að rithöfundurinn sjálfur hafi gaman að því sem hann er að gera. Bækur Arnaldar eru Aldarspegill sem lýsa veruleika okkar seinustu áratugi. Hann þarf að leita fanga í söguna og það gerir hann oft á skemmtilegan hátt, bakgrunnur aðalpersónu hans Erlends Sveinssonar kemur smátt og smátt fram. Ákveðnir dramatískir og traumatískir atburðir í bernsku sem hafa mótað hann og gert hann að þessum þunga en um leið maníska manni sem fórnar öllu til að leysa þessar morðgátur sem verða á vegi hans í starfi hans sem rannsóknarlögreglumaður og áður sem lögreglumaður. Hann fórnar öllu, fjölskyldu sinni og vinum fyrir vinnuna. Allir eiga sér uppáhaldsbækur, hann náði snemma hápunkti á ferli sínum með Mýrinni og Grafarþögn. Síðan hefur maður verið mishrifinn en síðan kom viss hápunktur með uppgjöri hans við fortíð sína sem nær meistaratökum í Furðustrandir.
Bækurnar sem komu á eftir henni ná henni ekki, þær eru þunglamalegar og uppbyggingin ekki nógu markviss. En þó hafa þær allar einhverja eiginleika sem gera það að verkum að maður les þær allar. Hin pólitíska saga eftirstríðsáranna kemur þar við sögu og við sem höfum búið í Reykjavík eða alist upp þekkjum okkur ansi vel. Staðir og atburðir úr bernsku okkar eiga sér speglun í bókum Arnaldar.
Svo er með nýju bók hans Kamp Knox. Atburðir úr ævi minni hlykkjast í gegnum söguþráð bókarinnar. Ég fæddist og ólst upp fyrstu 5 ár ævi minnar í bragga inn á Teigum. Faðir minn vann um tíma á Keflavíkurflugvelli, ég fór meira að segja með honum í vinnuna tveisvar sem krakki og kynntist þessum nöturlega stað sem Arnaldur lýsir svo vel í Kamp Knox. Ég varð hernstöðvaandstæðingur sem unglingur og tók þátt í Keflavíkurgöngum og varð sem fullorðinn maður þátttakandi að skipuleggja andstöðu við Herinn og NATO og kynntist vel umræðunni um kjarnorkuvopn og átökin í kaldastríðinu.
Keflavíkurflugvöllur og búseta bandarískar hermanna er annað sjónarsvið bókarinnar, íslenskur maður finnst myrtur á slóðum þess sem varð seinna Bláa lónið og dauði hans er rakinn til atburða á Vellinum. Erlendur og samstarfskona hans Marion Brown vinna að lausn málsins með bandarískri lögreglukonu Caroline. Inn í þetta fléttast samskipti bandarískra yfirvalda og íslenskra, leyndarhyggja stórveldisins á þessum tíma, spurningar um kjarnorkuvopn og flutninga milli landa.
Hinn þráðurinn í sögunni er leit Erlends að örlögum stúlku sem hafði horfið 20 árum fyrir tímatal þessarar bókar sem er 77-78 að því er mér sýnist. Erlendur verður gagntekinn af leyndardómi Dagbjartar stúlkunnar sem hvarf. Þar fléttast saman ýmsir þættir, amerísk menning blandast þar inn í, samskipti við Völlinn, tónlist þeirra tíma, og lausnin minnir okkur á ameríska kvikmynd frá því um 1960. Lesendur sjá það þegar þeir lesa bókina.
Kamp Knox er ekki með bestu bókum Arnaldar, hún er lengi að komast í gang, hún er nær hálfnuð þegar verulegur hraði og spenna koma í sögunni. Enn er Marion óljós sem persóna, og Erlendur bætir ekki miklu við sig. Enn er hann við sama heygarðshornið varðandi lífsreynslu og æskuharm. En hamhleypni hans og ákafi við lausn mála sinna er eins og oft áður ótrúleg. Arnaldur hefur þann kost að nota Sögu okkar til að spinna örlagaþráð sem er í senn almennur og um leið einstaklingsbundinn.
Við sem erum eldri getum speglað líf okkar í örlögum persóna Arnalds, umhverfið er okkur kunnuglegt og atburðir eiga samsvörun í okkar lífi. Yngra fólk fræðist um þessa skrítnu tíma og Arnaldur verður að mata lesendur sína svo að sögur hans verði lifandi og spennandi. Honum tekst það í seinni hluta Kamp Knox. Um leið sýnir hann vel þau átök sem einkennt hefur íslensk stjórnmál þegar fjallað var um dvöl bandarísks hers hér á landi.
Arnaldur Indriðason sýnir enn okkur sjálf í spegli bókmenntanna, enn lesum við hann og dáumst að okkur sjálfum eða ekki!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli