valdastólum. Enn er heiftin svo mikil við fyrrverandi ríkisstjórn sem tók við erfiðasta búi allra tíma að það er ekki hægt að skoða hlutina í samhengi. Eins og að byrjunin á uppgangi okkar frá Hruninu mikla hefst ekki 2013-2014 eins og forsætisráðherrann segir heldur á árunum 2011-2012 þar sem ýmislegt fór til betri vegar. Ég fjallaði um það í seinasta bloggi að einstaklingar hefður safnast upp lánum upp á tugi milljarða sem allt var afskrifað. Svo er heill banki Norræni fjárfestingarbankinn sem fær sitt mesta tap í íslenska hruninu sbr. þessa fyrirsögn í Viðskiptablaðinu nýverið og mat það þannig að ekkert lán kom fyrr en á seinasta ári til Íslands nema með ríkisábyrgð:
NIB tapaði 12 milljörðum í hruninu
Í góðærisbrjálæðinu fyrir 2007 voru nokkrir tugir einstaklinga að safna skuldum upp a hundruðir milljarða sem þeir voru aldrei borgunarmenn fyrir. Og þeir sem úthlutuðu þessum fjármunum þótti það sjálfsagt og eðilegt. Svo mikið væri það gott ef valdsmenn okkar gætu litið upp úr sínum þrönga polli og séð hlutina af sjónarhorni þar sem við erum ekki einir í heiminum, við lifum erfiða stríðstíma þar sem aldrei er öruggt hvað kemur næst, umhverfismálin verða ef til vill sá Akillesarhæll sem mun valda hruni okkar siðmenningar, stríðsherrar fara víða um völl með grimmd og hatur að leiðarljósi, stórmennskuórar lifa víða.Já lesendur góðir, það er ekkert gefið í þessu lífi, við verðum átta okkur á því að það er með
samráði ríkja og heimshluta sem okkur tekst að tryggja líf á plánetu Jörð. Ekki með sjálfsánægju og sjónarhorni naflaskoðarans.
Hér er áramótaávarp Forsætisráðherra og glefsur úr viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi:
Kæru landsmenn. Gleðilega hátíð.
Við áramót er venjan að fagna, halda hátíð og gleðjast með þeim sem standa manni næst. Inn í gleðina getur blandast söknuður og eftirsjá eftir liðnum tíma eða ástvinum sem fallnir eru frá. En þótt áramót séu í senn tími til að líta yfir farinn veg og horfa fram á við, tími þar sem bæði söknuður og eftirvænting gera vart við sig, eru áramót fyrst og fremst gleðihátíð.Þau eru gleðihátíð vegna þess að það liðna er búið og gert, af sumu getum við verið stolt, annað hefðum við viljað gera öðruvísi en við áramót fellst gildi hins liðna fyrst og fremst í því hvernig það nýtist okkur í framtíðinni, sem góðar minningar eða lærdómur og reynsla sem nýta má til að gera hlutina betur.
Framtíðin er hins vegar óráðin. Með allri sinni óvissu og áskorunum felur hún í sér fyriheit um nýjar upplifanir og möguleika, hún vekur forvitni og þrár, hún er forsenda framfara og nýrra tækifæra.
Það er ríkur þáttur í menningu okkar, og raunar í mannseðlinu, að vilja gera betur, ná lengra, upplifa fleira. Það er stundum sagt, og ekki að ástæðulausu, að við séum bara jafngömul og okkur finnst við vera.
Við hlúum best að æskunni í sálinni með því að viðhalda forvitni og þrá eftir að upplifa nýja hluti. Það þarf ekki að vera ferð til fjarlægra landa eða keppni á Ólympíuleikum, upplifunin getur líka falist í því að lesa nýja bók, fylgjast með barni þroskast eða sjá æskustöðvarnar í nýju ljósi.
Ég minnist þess að hafa heyrt viðtal við mann sem orðinn var 100 ára gamall. Hann sagðist vakna glaður á hverjum einasta morgni því honum þótti í senn merkilegt og skemmtilegt að fá að upplifa einn dag í viðbót og sjá sólina rísa einu sinni enn.
Þess vegna eru áramót tilefni fögnuðar um víða veröld, líka hjá þeim sem ekki búa við sömu gæði og sama öryggi og við Íslendingar. Um þessi áramót eigum við að leyfa okkur að gleðjast. Tækifærin sem bíða okkar hafa aldrei verið jafnmörg og stór og þau eru nú.
Íslendingar hafa náð nánast einstökum árangri við uppbyggingu samfélags á liðnum áratugum.
Sum ár hafa skilað okkur lengra fram á veginn en önnur en á heildina litið er saga íslenska lýðveldisins einstök framfarasaga.
Það er nánast sama hvaða alþjóðlegu samanburðarlistar eru skoðaðir, þar sem lagt er mat á lönd eftir hlutum á borð við jafnrétti, lífsgæði, öryggi, heilbrigðisþjónustu, læsi eða langlífi, alls staðar er Ísland á meðal þeirra efstu.
Fulltrúar þessarar fámennu þjóðar hafa líka unnið ótrúleg afrek, t.d. á sviði lista, vísinda og fræða. Jafnvel í stærstu keppnisíþróttum heims hafa fulltrúar okkar unnið frækna sigra og glatt íslensk hjörtu.
Við eigum að vera stolt af þessum árangri okkar Íslendinga og gleðjast yfir honum, ekki til að setja okkur á háan hest á kostnað annarra eða státa okkur af því sem við höfum áorkað og ímynda okkur að það sé sjálfsagður hlutur. Nei við eigum að vera stolt af því sem við og fyrri kynslóðir höfum áorkað vegna þess að það minnir okkur á að við getum gert enn betur.
Þannig segir sú staðreynd að á Íslandi sé lægst hlutfall fátæktar í Evrópu okkur ekki að við eigum að sætta okkur við það hlutfall, hún segir okkur að fátækt eigi ekki að þurfa að vera til á Íslandi.
Á heildina litið hefur árið 2014 skilað okkur vel fram veginn. Kaupmáttur launa hefur aukist um meira en 5% á einu ári en fá dæmi eru um slíkt hvort sem litið er til sögu Íslands eða til annarra landa. Verðmætasköpun jókst meira á árinu en í flestum ef ekki öllum öðrum Evrópulöndum.
Sjaldan hefur tekist jafnvel til og nú að koma á efnahagslegum stöðugleika sem endurspeglast meðal annars í lágri verðbólgu en hún hefur nú mælst undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í tæpt ár.
Atvinnuleysi er komið niður í 3 prósent, um 6.000 ný heilsársstörf hafa orðið til á einu og hálfu ári. Fjárfesting hefur aukist töluvert og mörg og fjölbreytileg atvinnuskapandi verkefni eru í burðarliðnum.
Á sama tíma er tugum milljarða skilað til heimilanna í landinu með lækkun skatta og gjalda og beinum framlögum þar sem sérstaklega er hugað að því að bæta stöðu lágtekjufólks og fólks með millitekjur.
Skerðingar á örorku- og lífeyrisbótum sem ráðist var í fyrir fimm árum hafa að fullu verið afnumdar og framlög til félagsmála aukin verulega. Þau hafa raunar aldrei í sögu landsins verið meiri en þau verða á nýja árinu.
Á árinu var líka hrint í framkvæmd einstæðri aðgerð til að rétta hlut íslenskra heimila sem tóku á sig umtalsverðar byrðar í kjölfar fjármálaáfallsins. Þessar aðgerðir og önnur úrræði fyrir þá sem vilja eignast heimili eða leigja munu hafa jákvæð áhrif á allt samfélagið. Þær draga úr greiðslubyrði og auka ráðstöfunartekjur og áhrifin koma ekki aðeins fram á árinu 2015, þeirra mun gæta áratugi fram í tímann.
Árið 2014 bætti stöðu okkar til mikilla muna en nú er rétt að líta fram á veginn og minnast þess að árangur ársins 2014 hefur alla burði til að verða traustur grunnur áframhaldandi framfara á árinu 2015.
Árangur ársins sem við kveðjum í kvöld náðist ekki af sjálfum sér. Margir lögðu mikið á sig til að gera hann að veruleika.
Því betur sem við stöndum saman að því að nýta tækifæri nýja ársins, þeim mun meiri verður afraksturinn.
En forsenda þess að ná árangri í framtíðinni verður hér eftir sem hingað til sú að við höfum trú á okkur sjálfum, trú á landinu okkar og trú á getu íslenskrar þjóðar til að byggja upp og sækja fram.
Á nýju ári mun ríkisstjórnin vinna að framþróun alls þess sem er til þess fallið að gera líf sem flestra betra. -Verkefnum sem bæta samfélagið, stuðla að betri heilsu, meira öryggi, betri kjörum, fallegra og heilnæmara umhverfi og meiri gleði.
Að þessu viljum við vinna með hverjum þeim sem vill leggja hönd á plóg með okkur. Við gerum okkur grein fyrir því að mestur árangur næst með samvinnu. Samfélag er samvinnuverkefni.
Takist að ná samstöðu, meðal annars um að huga sérstaklega að því að bæta kjör fólks með lægri- eða millitekjur má í upphafi hins nýja árs leggja grunn að áframhaldandi verðlagsstöðugleika og kaupmáttaraukningu.
Fátt er okkur meira virði en heilsa okkar og okkar nánustu. Þess vegna hefur verið forgangsraðað í þágu heilbrigðisþjónustu en á árinu 2015 verður meira fjármagni varið til Landspítalans en nokkurn tímann áður, auk sjöföldunar árlegs framlags til tækjakaupa á spítalanum.
Áfram verður haldið við að bæta heilbrigðiskerfið með það að markmiði að heilbrigðisþjónusta á Íslandi jafnist á við það sem best gerist í heiminum.
Samhliða því verður ráðist í sérstakt lýðheilsuátak.Það að hver og einn hugi að eigin heilsu er árangursríkasta og hagkvæmasta leiðin til að auka lífsgæði og styrkja heilbrigðiskerfið.
Stóraukin framlög til vísinda- og rannsókna munu þegar á árinu 2015 ýta verulega undir það mikla nýsköpunarstarf sem verið hefur að leysast úr læðingi á Íslandi á síðustu misserum.
Á nýju ári verður hafist handa við eitt stærsta framfaramál sem hægt er að ráðast í til að styrkja innviði og byggðir landsins. Hafin verður vinna við átaksverkefni við að ljósleiðaravæða allt landið, hvern einasta bæ, hvern dal og fjörð og tengja þannig landið allt við hraðbraut upplýsinga og samskipta.
Reynslan sýnir að umhverfi okkar, eins og veðrið, hefur mikil áhrif á lífsgæði, það hvernig okkur líður. Áfram verður allra veðra von á Íslandi en ný lög um verndarsvæði í byggð og önnur mál sem stuðla munu að fegrun borga, bæja og sveita munu færa Ísland í hóp þeirra landa sem mestum árangri hafa náð í fegrun umhverfisins.
Við getum því vonandi litið aftur til áranna 2013 og 2014 sem upphafsára mikils uppbyggingarskeiðs í íslensku samfélagi, sannkallaðs endurreisnartíma.
Þó má ekki gleyma því að enn á eftir að ljúka veigamiklum þætti í uppgjöri fjármálaáfallsins sem Íslendingar upplifðu af fullum þunga, fyrstir þjóða, fyrir rúmum sex árum.
Enn eru í landinu höft á flutningi fjármagns. Stærsta hindrunin í afnámi hafta eru svokölluð slitabú hinna föllnu banka en þau hafa þegar starfað lengur en æskilegt getur talist. Framan af nutu slitabúin skattleysis þrátt fyrir að vera að flestu leyti rekin eins og fyrirtæki. En með skattlagningu búanna er það efnahagslega svigrúm sem er óhjákvæmilegur liður í afnámi hafta nú loks byrjað að myndast.
Það er nauðsynlegt að þessi fyrirtæki leggi sitt af mörkum til samfélagsins.
Víða erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum, hafa fjármálafyrirtæki, sem í flestum tilvikum var haldið gangandi með aðgangi að ríkiskassa landanna verið látin greiða himinháar sektir ofan á endurgreiðslu lána til að bæta samfélögunum það tjón sem hlotist hafði af framgöngu þeirra.
Frá því að ný ríkisstjórn tók við hefur farið fram umfangsmikil vinna við að meta eftirstöðvar fjármálaáfallsins og hvernig best sé að vinna úr þeim. Sú vinna hefur skilað því að stjórnvöld eru nú vel í stakk búin til að ráðast í veigamiklar aðgerðir snemma á nýju ári.
Hvaða leið sem verður farin mun ríkisstjórnin aldrei hvika frá því að standa vörð um hagsmuni almennings í landinu. Íslenska þjóðin hefur þegar tekið á sig allan þann kostnað sem hægt er að ætlast til af henni vegna hins alþjóðlega fjármálaáfalls, kostnað sem hefði hæglega getað orðið enn þá meiri og jafnvel óbærilegur ef Íslendingar hefðu ekki staðið á rétti sínum.
Við lausn þessa verkefnis ríður mikið á að við stöndum öll saman Íslendingar, þá verður þetta mikla hagsmunamál þjóðarinnar, eins og önnur, farsællega til lykta leitt.
Kæru landsmenn.
Grunnstoðir íslensks samfélags eru sterkar og á þeim er gott að byggja. Það er afrakstur þrotlausrar vinnu og framsýni kynslóðanna sem á undan gengu. Við áramót er við hæfi að minnast þess, þakka það og virða. Það er líka við hæfi að færa sérstakar þakkir til þeirra tugþúsunda Íslendinga sem leggja á sig ómælt erfiði í sjálfboðvinnu til að bæta líf í þessu landi og auka velferð og öryggi samborgaranna.
Árið 2014 minnti okkur oft á að þótt náttúra landsins sé gjöful og fögur reynist hún oft viðsjárverð. Fórnfýsi og hugrekki íslenskra björgunarsveita reyndist okkur ómetanleg þetta árið eins og svo oft áður og minnti á að björgunarsveitirnar hljóta að teljast eitt mesta stolt þessarar þjóðar.
Á þessum tímamótum er líka viðeigandi að hugsa með hlýhug til þeirra sem eru að takast á við veikindi eða aðra erfiðleika og þeirra sem rétta þeim hjálparhönd.
Nýtt ár nýrra tækifæra er aðganga í garð. Leyfum okkur að gleðjast, með því sýnum við þakklæti fyrir þá gæfu sem okkur hefur hlotnast sem þjóð en með því að gleðjast verðum við líka betur í stakk búin til að gera lífið á Íslandi enn betra, hjálpa þeim betur sem þurfa hjálpar við hér heima og erlendis og halda áfram hinni miklu framfarasögu þessa góða lands.
Berum virðingu fyrir fortíðinni, trúum á framtíðina og fögnum því að nú hefjist nýtt ár nýrra tækifæra.
Ég óska ykkur öllum gleði og farsældar á nýju ári.
„Segja má að Vesturlönd hafi sloppið fyrir horn á áttunda áratugnum þegar konur fóru í auknum mæli inn á vinnumarkaðinn og það leiddi til hagvaxtar og verðmætasköpunar. Núna eru þjóðir Evrópu að eldast og útgjöld hins opinbera eru að aukast. Það verða því sífellt færri í vinnu við að búa til þau verðmæti sem þurfa að standa undir sameiginlegum kostnaði. Við munum ekki ná að leysa þetta vandamál nema tvennt komi til. Við þurfum að auka verðmætasköpun og framleiðni í hagkerfinu og halda aftur af vexti opinbera kerfisins. Þessu tengt verðum við að auka viðskipti okkar við þá heimshluta þar sem vænta má vaxtar. Við getum ekki reitt okkur á Evrópu í þessum efnum.“
Það er algengt í aðdraganda kjarasamninga að launþegahreyfingar og samtök atvinnurekenda reyni að varpa sem mestri ábyrgð yfir á stjórnvöld. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, en hann var gestur í útvarpsþættinum Sprengisandi í dag. Hann hafnar samráðsleysi og að stjórnvöld hafi slitið samningum við aðila vinnumarkaðarins.
Samtök launþega og atvinnurekenda hafa gagnrýnt núverandi ríkisstjórn að undanförnu, meðal annars vegna skorts á samráði. Til að mynda var haft eftir Þorsteini Víglundssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Fréttablaðinu á föstudaginn að stjórnvöld hefðu rofið sátt við atvinnulífið með því að lækka ekki tryggingagjaldið.
Sigmundur segist skilja áhyggjur atvinnurekenda af tryggingagjaldinu. Það hafi ekki lækkað samhliða minnkandi atvinnuleysi. Hins vegar sé mögulegt, ef vel tekst til í kjarasamningum, að svigrúm skapist í framhaldinu til að lækka tryggingagjaldið. Því sé mjög mikilvægt að launþegahreyfingar, atvinnurekendur og stjórnvöld nái saman um að verja stöðugleikann.
Sigmundur gefur lítið fyrir ásakanir um skort á samráði. Hann bendir á að stjórnvöld séu sífellt í beinu samtali við fulltrúa vinnumarkaðarins og auk þess eigi sér stað samráð við þessa aðila í um 80 nefndum og ráðum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli