föstudagur, 10. júlí 2015

Glæpagengi Samfylkingarinnar

Nú hafa Íslendingar fundið nýtt fórnarlamb.  Samfylkingin er glæpamaður.  Og Guðfaðir klíkunnar er auðvitað prestssonur af Mýrum. Svo eru það Kratastelpa úr Kópavogi og stjórnmálfræðingur af Nesinu.  Það má ekki gleyma frænda mínum af Vesturgötunni.  Allt er þetta glæpahyski sem enginn vill kjósa á Alþingi.  


Já, lesendur góðir, pólitík er skrítin tík, aldrei að vita á hvern hún geltir né bítur.  Hún hróflar ekki við Ráðherranum sem seldi hlutabréfin sín árið 2008 þegar hann vissi meira en flestir.  Henni er alveg sama um Ráðherra sem úthlutar eiturverksmiðjum til vina sinna og ákveður hvenær rafmagn er til eða ekki.  Hún veit ekkert af Ráðherra sem heldur að allt verði betra í mennta og menningarmálum ef því er handstýrt af þeim sem hafa aldrei komið að slíkum málum. 

Já, lesendur góðir, tíkin atast í Ráðherrum smá sem elska gamalt og gott vasabókhald og sms. En sá Ráðherra virðist ekkert  taka eftir því fyrr en eftir næstu kosningar. Margir samráðherrar hans virðast eiga það sameiginlegt að brjóta niður lagaumhverfi og samþykktir Alþingis og verða alltaf jafn hissa þegar andstæðingar á Alþingi reyna að hindra það.

Já þetta er allt andskotans Samfylkingunni að kenna.  Þeir eyðilögðu Stjórnarskrána (hefði hún einhvern tíma komist í gegn?)  þeir ætluðu auðvitað að koma þjóðinni á vonarvöl af mannvonsku sinni.  Jóhanna Sigurðardóttir var ein versta kona sem alið hefur manninn á Íslandi.  Og með taglhnýtinginn Steingrím á hælum sér.  Sem gerðu allt rangt sem hægt er að hugsa sér.  Stóðu meira að segja fyrir því að fá Hagvöxt sem Sigmundur og Bjarni hafa hrósað sér af!  Ekki er hægt að hugsa sér ógeðlegra. 

Svo í næstu kosningum verðum við öll Píratar með hatt, sverð og lepp fyrir öðru auganu.  Þá verður allt breytt. Ætli við vinnum ekki í næstu ríkisstjórn með þessum glæpamönnum, eins og í Borgarstjórninni í Reykjavík. Ég hlakka svo til. Lífið verður dásamlegt.     





Engin ummæli:

Skrifa ummæli