föstudagur, 28. ágúst 2015

Haustkvíði: Valdamenn lesa og skrifa

Sumarið senn á enda, víða merki um haust, haustkvíða. 
Við prufuðum að taka upp fyrstu kartöflugrösin, alltaf verður maður jafnhissa að það skuli koma upp nokkrar fallegar kartöflur.  Eftir bara 2 mánuði.  En samt læðist að manni kvíði, Haustkvíði. 

Stjórnmálalífið fer í gang, kannski fylgist ég of vel með því.  Fyrstu yfirlýsingar  ráðamanna
sem virðast aldrei læra neitt þrátt fyrir margra ára setu á Alþingi. 

Vigdís Hauksdóttir skakkmynnist um Öryrkja. Allt er rekið ofan í hana.  En hún á örugglega ekki eftir að hætta að bulla.  Eflaust blótar hún þessu viðrini sem ég er.  Notar einhvern málshátt svo snilldarlega sem hún ein getur:  Sjaldan launar kálfur ofbeldi.   

Sigmundur Davíð ætlar að taka yfir skipulagsmál í Reykjavík.  Hann hefur sagt ýmislegt viturlegt á því sviði, meira en á flestum öðrum.  En þarna er hann á sama róli og flokksfélagi hans seinasta vetur. Hans er valdið. 

Bjarni Benediktsson ætlar að umbylta stofnanaveldi ríkisins.  Það setur að mér hroll.  Þetta hefur gerst áður.  Sjálfstæðisflokkurinn vill ráða rétta menn á rétta staði. Framsókn er alltaf reiðubúin að vera með í skiptingunni.  Og Píratar sem hafa meira fylgi en xD og xB til samans í skoðanakönnunum það getur enginn treyst þeim, nema þjóðin:  „Er einhver kjölfesta í þeim [Pírötum]? Mér finnst Píratar að stærstum hluta óskrifað blað.“ Já, það hlýtur að vera erfitt að hafa kjölfestu í sjóræningjaskipi og ætlast svo til að allir séu læsir og skrifandi um borð!  Hvað ætli Illugi segi um það eða Rósa Eggerts? 

Núverandi stjórn er um margt stórmerkileg, hverjum nema þeim getur dottið í hug að þeir tekjulægstu, ellilífeyrisþega og öryrkjar þurfi ekki að tekjuhækkun að halda fyrr en um næstu áramót?  Í 8 mánuði fá þeir ekki sömu hækkun og launþegar. Því þeir hafa engan samningsrétt.  Það eru ekki til peningar fyrr en um áramótin sagði Fjármálaráðherrann. Svo gáfulegt sem það er.  

Já lesendur góðir, þessi vetur verður mörgum erfiður.  Ekki þeim sem flatmaga á Flórída, ekki þeim sem læðast úr landi öðru hverju til að hvíla sig.  Heldur þeim sem fara í hundraðasta skipti í gegnum bókhaldið til að athuga hvort ekki sé einhvers staðar króna sem ekki hafi verið notuð um seinustu mánaðarmót.  

    


Engin ummæli:

Skrifa ummæli