laugardagur, 19. mars 2016

Traust: Siðleysið er herra svo margra

Góður pistill sem ég skammast mín ekki að vitna í. Hringbraut er oft beittur frétta miðill. 
Við lifum furðulega tíma á Íslandi. Það er því gott að vitna í gott efni og halda valdamönnum við efnið. 
Siðleysið er herra svo margra, þýlyndi ræður ríkjum.

-----------

Stundum hef ég rifjað það upp þegar afi minn, sællar minningar, sagði við mig að þrennt væri mikilvægast í lífinu; að vera bjartsýnun, ná sér í góða konu og kjósa Framsóknarflokkinn. Þar væri komin sannkölluð uppskrift að lífinu.
Því er á þetta minnst að næstum tveimur kjörtímabilum eftir allt heila efnahagshrunið á Íslandi sem rakið er til ofsafenginnar græðgisvæðingar og arðgreiðslu-bónusa-bakherbergisbix, eru stjórnmálamenn farnir að sverja af sér skattaskjólin ... nefnilega, ekki bankamenn lengur, heldur stjórnmálamenn, já æðstu stjórnendur landsins.




-----------

Farsi? Nei, raunveruleiki.
Suður-Ameríka? Nei, Ísland.
Og á meðan annar sver fyrir að kona hans sé ekki hrægammur, segir hinn að vel megi vera að fleiri ráðherrar hafi leitað á náðir þessara skjóla úti í heimi sem eru þeirrar náttúru að hámarka arð og lágmarka skatt til samhjálparinnar heima fyrir.
Næstum tveimur kjörtímabilum eftir hrunið sitja Íslendingar sumsé uppi með stjórnmálamenn sem vilja að almenningur ávaxti sitt pund á heimaslóðum með einangruðum og ósjálfstæðum gjaldmiðli sem hefur rýrnað um 99,95% á fullveldistímanum á meðan þeir sjálfir vilja ekki sjá það að hafa allan fjölskylduauðinn á sama stað, en velja honum fremur skjól í annarri mynt og minni sköttum. 
Og þessum sömu mönnum finnst það ósköp eðlilegt að halda svona mikilvægum upplýsingum leyndum fyrir þjóð sinni í meira en heilt kjörtímabil, upplýsingum sem varpa alveg nýju ljósi á þátttöku þeirra í helsta pólitíska úrlausnarefni síðustu ára.
Traust!
Það er jafn stutt orð og það er innihaldsríkt.
Merking þess er auðsæ.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli