fimmtudagur, 18. ágúst 2016

Sigmundur Davíð kemur úr skápnum

Nú eru það dauðateygjur spillingarstjórnarinnar.  Við fengum furðulegan trúðleik í RÚV þegar fyrrverandi forsætisráðherra birtist á skjá allra landsmanna.  Þar hafði hann ekki sést lengi taldi eðlilegt að ræða frekar við Útvarp Sögu.  Þar sem allir landsmenn sitja fyrir framan viðtækin. 

Formaður annars stjórnarflokksins vissi ekki hvað var framundan í verðtryggingarmálum stjórnarinnar.  Enginn hafði séð þörf á að ræða við hann.  Hann vissi ekkert hafði ekkert erindi annað en að ráðast á stjórnarandstöðu og níða niður lýðræðið.  Það var engin ástæða að ræða
við minnihlutann.  Hann átti að sitja kyrr og taka við þeim boðskap og tillögum sem hann vissi ekkert um. Það var ekki í hans anda að starfa málefnalega á Alþingi eins og gert var eftir að hann hvarf af sjónarsviðinu.  

Svo virðist allt benda til þess að Framsóknarflokkurinn vilji hafa þennan karl áfram sem formann. Sem laug að þjóðinni, faldi upplýsingar um fjármál fjölskyldu sinnar þar sem fé var falið í aflandsfélögum og fjölskyldan var í málferlum við íslenska banka.  Flokksforystan virðist vilja verða vitni að því þegar allir landsmenn snúa baki við xB.  Frami formannsins skiptir meira máli en framtíð flokksins. Það er erfitt að horfast í augu við það að tími sjálftöku úr eigum allra landsmanna er liðinn.  Flokkurinn sem var talsmaður bænda og dreifbýlis er fyrir bý.  Nú talar hann bara fyrir hönd kaupfélagsstjóra og útgerðarmanna.  Fari hann vel.  Snúi hann aldrei aftur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli