laugardagur, 22. júlí 2017

Ólafur H. Torfason nokkur orð



1.   
leiðsla
Inn á milli trjánna dökkra
haustsvartra ljós að baki
útlínur húss dimmblás kvöld
himinn sól undir hafsbrún

inn á milli trjánna myrkra
göngum við með ljós leiðarljós
sem leiða okkur lýsa um lauf-
slóð lífsslóð framundan ferð
á enda
                            leiðarenda
            2.
                        Ég kipptist við þegar ég las dánarfregn Ólafs H. Torfasonar, ekki hafði ég fylgst   með sjúkdómasögu hans, hvað þá að hann hefði barist í mörg ár við marga djöfla.
                        Ég hafði verið málkunnugur honum forðum, vegna áhuga á kvikmyndum og listum.   Við heilsuðumst þegar við hittumst á götu, þetta var viðkunnanlegur drengur.
                        En enginn má sköpum renna.  Hann var farinn að lýjast margir sjúkdómar herjuðu á honum, eins og svo margir kunningjar manns seinasta árið.  Átti erfið ár.

2.       
Ég á skemmtilega sögu.  Þegar ég og Vigfús heitinn Geirdal vinur minn fórum í heimsókn til Sveins Rúnars Haukssonar á níunda áratugnum .  Upp  á lofti hjá honum bjó Ólafur H. Torfason.
Það var eflaust margt spjallað þegar við heimsóttum Svein, sjaldan þögn.  En þegar við erum búnir að sitja og spjalla.  Þá sagði Sveinn:  Jæja, eigum við ekki að taka nokkur lög fyrir Óla og settist við píanóið,
lútherska sálma fyrir Ólaf kaþólikkan, við sungum með tilfinningu, þótt við hefðum ekki hugmynd um hvort hann væri heima, jú við heyrðum eitthvað brölt uppi.  Eflaust var þetta hollt fyrir hann, hvort sem hann heyrði eða ekki.  Kristilegu kærleiksblómin hafa ratað til hans.

3.       
Svo merkilegt var að seinasta mánuðinn hef ég verið að (endur)lesa ævisögur Péturs Gunnarsson þar svífur andi Ólafs víða yfir.  Þeir voru miklir vinir og heimili fjölskyldu Ólafs félagsheimili fyrir vini á skóláárum heima á Íslandi.  Þar er merkileg saga þegar Pétur, sem þá bjó í Frakklandi, sendi handrit að fyrstu ljóðabók sinni til Ólafs í Kaupmannahöfn,   og fékk umsögn til baka upp á næstum 200 síður í nokkrum bútum til baka.  Þetta var menntafólk sem tók sig alvarlega og hátíðlega.  Ég held að flestir vinir hans hafi búist við að Ólafur yrði rithöfundur með stórum staf en kvikmyndirnar áttu hans huga með tímanum.  Hann var einn af okkar bestu gagnrýnendum fyrir venjulegt fólk. 
Svona voru ungir andans menn í þá daga.  Og eru kannski enn. 

4.      Þótt maður sé orðinn sjötugur finnst manni að enn eigi maður mikið eftir.  En lífið  segir okkur annað.  Á seinustu mánuðum hafi margir farið yfir móðuna mikla, fólk sem maður ímyndaði sér að ætti mörg góð ár eftir.
Við stjórnum ekki lífinu með góðum hugsunum, það er erfitt að sjá að baki góðu fólki.  Og ég sendi kveðjur til ættingja og vina Ólafs H. Torfasonar. 



5. 
 

Tíminn
tíminn er naumur naumhyggja mín
tíminn og vatnið og vegurinn og leiðin
regnský kemur utan af vatni
inn á veginn yfir holtið fölt ræfilslegt
slóðinn yfir í næsta bæ grænkar
fyrst eins og oft áður
tíminn ég verð á undan honum naumlega en
sigra aldrei  tíminn er naumur nauðhyggja mín
ég tek sprett en sigra aldrei ekkert valfrelsi
ég er
tímalaus vísarnir horfnir tíminn skammtaður
tímabundinn tímareyrður þetta er mín
                                                          naumhyggja

Engin ummæli:

Skrifa ummæli