fimmtudagur, 28. september 2017

Tímamót: Einkavæðing eða félagshyggja

Sjálfstæðisflokkurinn kemur okkur á óvart og þó ekki. 
Flokkurinn sem löngum tókst að koma því inn hjá stórum hópi fólks að hann væri flokkur fólksins. Nú er meira að segja búið að stela nafninu að fyrri flokksmanni.

Nú þegar kynslóð nýfrjálshyggjunnar hefur tekið yfir í Sjálfstæðisflokknum, verða áherslurnar æ skýrari til ofstækishægri.  Formaðurinn mætir galvaskur á fundi repúblikana í vestrinu og virðist vera á svipuðu róli í skattamálum og þeim.  Barist er hatrammt gegn því að hátekjufólk borgi eðlilega í sameiginlegan sjóð ríkisins til þess að við getum haft velferðarkerfi, með góðu heilbrigðiskerfi, trygginga og samhjálpar. Hinir nýju ungu þingmenn sjá engar lausnir nema einkavæðingu þar sem hver getur keypt þjónjustu eftir efnum og ríkisdæmi.

  Öll loforð um betra kerfi aldraðra og öryrkja hafa verið svikin, Mannúð og manngæska er ekki í hávegum höfð undir stjórn Sigríðar Andersen en Bjarni virðist fylgja henni í einu og öllu þar sem Flokkurinn sker sig úr á Alþingi í einstrenginslegri stefnu í flóttamann og útlendingamálum.  Utanríkisráðherra dansar einhvern Brexit dans sem ég efast um að hann hafi eitthvað umboð til. Allt er gert til að stöðva framgang nýrrar stjórnarskrár. 

Nú er komið að tímamótum.  Er þetta framtíðin sem við viljum?  Eða viljum við félagshyggjustjórn og þjóðfélag þar sem vinstri menn starfa saman að breyta áherslum?   Valið er okkar.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli