Það er meira gaman að horfa á fallegar myndir úr Húnavatnssýslu og Borgarfirði en að hugsa um furðulegasta afsprengi íslenskra stjórnmála sem ég man eftir. Þar á ég við utanríkisráðherra stjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Í dag lét hann sér ekki nægja að tilkynna að nú yrði allt starf í sambandi við ESB umsókn lagt í rúst, heldur ætlar hann þar að auki að ganga fram hjá Alþingi í þeim vinnubrögðum. Alþingi samþykkti þessa tilhögun mála og það er Alþingis að ljúka því ferli. Það er ekki hlutverk vankunnandi karls að norðan að ákveða það. Þess vegna vona ég að fólkið í hans kjördæmi sjái með tímanum hverju þeir hafa útungað inn á Alþingi og í ríkisstjórn. Og iðrist. Vinnubrögðin eru þvílík að manni verður orða vant og það þarf mikið til þess hjá mér.
Svo lesendur góðir njótum fegurðar landsins umhverfisins á Norðvesturlandi og gleðjumst yfir því sem við sjáum. Víða er augnayndi, víða er gott fólk, en við þurfum ekki þingmenn sem utanríkisráðherrann. Megi hann hverfa sem fyrst af vettvangi stjórnmálanna. Gleymum honum. Njótum lífsins.
Það er þröng sýn ýmissa fjármála- efnahagsskríbenta, þeir halda að við lifum einöngruð í okkar eigin heimi sem við getum stjórnað, við ein, að öllu leyti. Gott dæmi er Sigurður Már Jónsson, han fer mikinn í pistli um misheppnun fyrri ríkisstjórnar í ríkisfjármálum. Hann segir : Allt er þetta heldur grátlegt þegar horft er til þess að í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í október 2008 var reiknað með að Ísland gæti rétt tiltölulega fljótt úr kútnum, væri rétt að verki staðið. Talið var raunhæft að hagvöxtur yrði 4,5% árin 2011 og 2012 og um 4,2% á þessu ári. Ef reyndin er sú að við megum þakka fyrir 1% hagvöxt hlýtur það að teljast áfall fyrir efnahagsstefnu síðustu ríkisstjórnar og ráðgjöf og áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nú er búinn að pakka saman hér á landi. Er vonandi að fleiri þurfi ekki að pakka saman og hverfa af landi brott.
Ef þetta væri nú andans maður með víðan sjóndeildarhring myndi hann skoða þetta út frá ástandinu í hinum alþjóðlega fjármálaheimi um þessar mundir. Hvað er að gerast þar og hvernig speglast það við íslenskan fjármálaheim. Hvernig gengur öðrum löndum í þessum fjármálakreppubarningi? Ég benti á fyrir nokkrum dögum hvernig Hagvöxtur væri í nokkrum löndum nálægt okkur. Og það kemur í ljós að jafnvel á Norðurlöndum er bullandi óáran, enda þeir sem sitja við völd ekki vinsælir hjá kjósendum. Hér eru seinustu spár um Hagvöxt fyrir 2012 og 2013 frá OECD:
Ísland 1.6 1.9
Austurríki 0.8 0.5
Þýskaland 0.9 0.4
Danmörk -0.5 0.4
Noregur 3.2 1.3
Finnland -0.2 0.0
Bretland 0.3 0.8
Frakkland 0.0 -0.3
Lúxemborg 0.3 0.8
Þýskaland höfuðríki Vesturlanda á í bullandi erfiðleikum, vinaþjóðir okkar Noregur, Danmörk og Svíþjóð eru í erfiðleikum með útflutning sinn og framleiðslu. Svo á Ísland bara að vera í einhverjum öðrum heimi!!!!
Stofnanir okkar reyna að greina og skoða framtíðina það gengur á ýmsu eins og hjá Seðlabankanum, eins og Sigurður Már bendir á:
Auk þess sögðu Seðlabankamenn að vöxtur efnahagslífsins 2012 hafi aðeins verði 2,2%, sem er 0,3 prósentustigum minna en þeir reiknuðu með síðast. Nú hálfu ári seinna blasir við að þetta voru rangar tölur. Á síðasta ári var hagvöxtur 1,6% og horfurnar daprar fyrir þetta ár eins og áður sagði. Þetta hljóta að vera þær tölur sem horft er til þegar kjarasamningaviðræður hefjast.
Við ættum að vita núorðið að Hagfræði er ekki mjög nákvæm né spádómsrík vísindagrein. Seinustu ár ættu að hafa kennt okkur það. Þrátt fyrir alla tölfræðitækni og tölvuútreikninga risastofnanana og banka. Hvorki þjóðlegar né alþjóðlegar stofnanir skora hátt um þessar mundir að skyggnast fram í tímann.
Já það er erfitt að sjá allt fyrir á þessum óróatímum. En að fara að kenna seinustu ríkisstjórn um alla óáran í heiminum er fáránlegt ef ekki heimskulegt. Hún reyndi sitt bezta við erfiðar aðstæður og náði ótrúlegum árangri að mörgu leyti. Sigmundur Davíð og Bjarni héldu sínar ræður í gríð og erg á seinasta þingtímabili um það hve auðvelt væri að gera betur. Nú gefst þeim tækifæri á að sýna það, byrjunin lofar ekki góðu. Hvað sem Sigurður Már Jónsson segir. Vonandi segir Sigmurður Már okkur raunsannar fréttir af þeim félögum næstu árin. En ég efa það. Hann hlustar of mikið á rödd Meistarans. Og Meistarinn er Frjálshyggja á hverfanda hveli.
Já, svona eru stjórnmál á Íslandi. Bjarni Benediktsson:
í kosningastefnuskrá :
Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan- þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu
í dag: Það er hins vegar mín skoðun, og ég ræddi það fyrir kosningar að það gæti farið vel á því að við efndum einhvern tímann á fyrri hluta kjörtímabils, eða þá að það gæti orðið á seinni hlutanum, til þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsmálin. Hugsið ykkur orðalagið „það gæti farið vel á því" og „ eða þá að það gæti orðið á seinni hlutanum". Svona talar hjartahreinn og einlægur foringi sema allir eiga að treysta. Svei attan.
Þetta er allt að verða svo skemmtilegt, dásamlegur
utanríkisráðherra sem heldur það að vera ráðherra sé að geta sagt ÉG, flokkur sem treystir á minnisleysi þjóðarinnar, flokkar sem talast ekki við, ráðherrunum finnst svo gaman að stjórna. Þetta er að verða alvörustjórn. Formennirnir þekkja ekki hvor annan í sjón !!!!! Maður þarf bara að vitna í til að koma með prýðisgrein!!!!! En auðvitað kunna allir landsmenn
stjórnarsáttmálann utanað. Og ég skil ekki í þessum 3200 sem vilja að Vigdís H. segi af sér, þá yrði ekkert gaman á Alþingi.
...... Einn heimildarmaður fréttastofu orðaði það þannig að utanríkisráðherrann væri að „fljúga sóló með ummælum sínum og óvíst hvernig sú flugferð endar." Stjórnarþingmaður sagði að stefna ríkisstjórnarinnar í málinu væri í raun „glundroðakennd.“ Þetta væri heimatilbúinn vandi sem ætti rætur að rekja til þess að stjórnarsáttmáli væri ekki skýr um þetta atriði. Það er athyglisvert að slík skoðun komi fram hjá stuðningsmanni ríkisstjórnarinnar.
Það liggur fyrir núna að stefna ríkisstjórnarinnar í málinu er óviss þar sem hún hefur ekki verið mótuð. Alþingi mun vinna úttekt á stöðunni innan ESB og í kjölfarið verður tekin ákvörðun í ríkisstjórn um hvort eða hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin.
...... Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. (Stjórnarsáttmáli)
Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan - þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðargreiðslu á kjörtímabilinu
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum 2013
Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins myndi ekki styðja þingsályktunartillögu um að slíta viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún vill að slík atkvæðagreiðsla fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum næsta vor.
Kosningar 2013 Um 3.200 manns hafa nú skráð sig á undirskriftarlista þar sem skorað er á Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins og formann fjárlaganefndar, að segja af sér formennsku í fjárlaganefnd Alþingis og víkja úr hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar Þeir sem þekkja ekki padödö þurfa að lesa greinar Flosa heitins Ólafssonar en þar fjallar hann um fyrirbærið Padödö
Ég var að hugsa um hamingju í gær. Það er svo sjaldan að fólk gerir það svona yfirleitt. Og flestir skammast sína að nefna slíkt á nafn opinberlega. Ég var á gangi í Laugardalnum eins og oft áður, ég bý svo vel að búa við hliðina að þeim sælureit. Þar sem gróður og mannlíf hefur stöðugt meira vaxið og þróast frá því að ég flutti í bæinn aftur fyrir 11 árum. Ég var líka með eitt barnabarnið með mér en þau eru 7, varla er nokkurt meira verðmæti en þau. Í fjarska drundi í áhorfendum á bikarúrslitaleiknum í knattspyrnu. Það komu hávaðadrunur frá æstum og glöðum áhorfendum öðru hverju. Ég hugsaði með sjálfum mér að voðaleg truflun þetta væri. En svo fór ég á hug í dýpri hugsanir. Þess vegna fór ég að hugsa um hamingju. Hversu oft þarf lítið til að gleðjast í lífinu. Keppni tveggja liða veitir ómælda gleði og um leið jafnvel sársauka. Að þramma út í garð í góðu veðri með barnabarni er sæla. Á einhvern óljósan hátt sem erfitt er skilgreina nema með orði eins og hamingja. Þetta er svo sem ekki djúp speki. En þetta er nokkuð að hafa í huga þessa dagana. Það er vert að velta fyri sér hvað gefur lífinu gildi. Eflaust hefur maður gert mistök í því. Hver gerir það ekki? En hvað er það sem vekur slíkar kenndir í dag. Þegar maður lítum um öxl. Á maður að spyrja svona? Hjá mér er það fjölskyldan, listir, tónlist og bókmenntir hafa alltaf haft djúpstæð áhrif á mig. Líka myndlist þótt ég hafi vanrækt oft að fylgjast með sem skyldi. Seinustu dagar hafa verið sæludagar hjá mér. Heimsmeistaramót í Frjálsum íþróttum hefur verið í gangi og ég hef setið rígnegldur yfir sjónvarpinu. Algjör sæluhrollur oft í vikunni. Hlaup, köst, stökk. Litlar þjóðir geta orðið að stórveldum þar. Eins og Jamaica. Ótrúlegt er hversu hreyfingar líkamans geta komið af stað spennu og róti á hugann. En það er margt sem veldur óró. Hjá mér eru það oft og tíðum stjórnmál og opinber mál. Mér finnst ótrúlegt hvaða menn fólk kýs yfir sig. Hversu vanhæft fólk velst til þessara starfa. Því þetta fólk á að ráða skipan okkar samfélags um margra ára skeið. En um leið er ég kominn á þá skoðun að maður eigi ekki að látta þetta setja líf manns úr skorðun. Lífið er of mikilvægt til þess. Eitt er það sem skiptir líklega mestu máli, það er heilsa og heilbrigði. Þegar fólk er komið á sama aldur og ég þá er það lykilatriði lífsins. Það þarf ekki mikið að bregða út af til að kollvarpa lífi manns. Í hverri fjölskyldu þarf fólk oft og mörgum sinnum að horfast í augum við sláttumanninn. Því er þýðingarmikið að halda jafnvægi og sjá það sem gefur lífinu mest gildi. Ekki ný vísindi en þó sem alltaf er vert að skoða. Jafnvel í slæmu skyggni og við erfiðar aðstæður. Og auðvitað á ég ekki að vera að ræða þetta. Maður gerir það ekki í bloggi.
Við eigum von á gesti, einn af ótal prédikurum vestursins, Bandaríkjanna Norður-Ameríku, Franklin Graham, ætla heiðra okkur, í boði svokallaðs Friðrikskappelluhóps. Ekki efast ég um að í útlöndum séu til margir andans menn sem tilheyri kirkjunni. Þar væri hægt að nefna mörg nöfn en varla er Franklin Graham í þeim flokki. Helst er það að hann er sonur Billys Graham. Líklega frægasta prédikara seinustu aldar.
Faðir hans var þekktur fyrir að umgangast valdsmenn beggja flokka í Bandarikjunum. Hann kunni líka að maka krókinn svo Franklin tók við góðu búi. GBEA en svo er skammstöfun stofnunarinnar, hefur 16 manna stjórn, 15 karla og eina konu (dóttur Billy Graham) og heiðursmeðlimir eru 11, 10 karlar og 1 konu. Billy forðaðist að láta kenna sig við stjórnmál eða blanda sér í flokkaþrætur. Sonur hans er aftur á móti þekktur fyrir glannalegar yfirlýsingar sem hljóta að túlkast sem pólitísk afstaða; um islam, um Obama forseta og kristna trú, um samkynhneigð. Svo hafa fjármál hans verið í sviðsljósinu eins og annarra stórprédikara vestra. Hann var tvöföldum launum framan af bæði yfir Billy Graham stofnuninni og Pyngju Samverjans. Það var mikil gagnrýni á hann hvernig hann gat sinnt þessum tveimur störfum auk þess sem launin voru há. Hann hefur verið nátengdur Teboðshreyfingunni og Repúblikanaflokknum og stutt þann flokk, er þar á ysta hægri væng.
Lífsgildi hans og afla sem hann styður eru ansi fjarlæg flestum Íslendingum. Þar sem trúarbrögð og stjórnmál tengjast á ógeðfelldan hátt. Því er það ansi skrítið að bjóða Graham að koma hingað og halda hátíð eins og hann kallar það þegar hann heldur sefjunarræður sínar. Ég þekki nú ekki mikið til Friðrikskapelluhópsins en samkvæmt netsíðu kapellunnar er margt skondið í mínum augum hvernig hann varð til. Þótt allt sé gert af góðum hug. Lesið þetta:
Dökkt ský yfir Íslandi: Biðjið
Bænasamfélagið í Friðrikskapellu varð til árið 2008 eftir mjög sérstakan aðdraganda. Tildrög þess voru þau að Ómar Kristjánsson, trúaður athafnamaður í Reykjavík, var í viðskiptaferð í Þýskalandi einu sinni sem oftar um vorið þetta ár og heimsótti þá Maríusystur í Darmstadt sem er lúthersk nunnuhreyfing er leggur mikla áherslu á bæn. Honum er mjög hlýtt til Maríusystranna og heimsækir þær oft á ferðum sínum.
Þegar hann var hjá systrunum í þetta sinn tjáði ein þeirra honum að Svissneskur maður sem var staddur hjá þeim vildi tala við hann. Ómar hafði aldrei séð manninn áður og vissi engin deili á honum. Hann reyndist vera athafnamaður eins og Ómar að nafni Willie Oehninger, mikill bænamaður með spádómsnáðargáfu sem fyrir löngu hafði sýnt sig að vera af Guði gefin enda naut hann mikils trausts hjá nunnunum. Þegar fundum þeirra bar saman sagðist Willie hafa mjög alvarlegan boðskap til hans og íslensku þjóðarinnar. Guð hafði sýnt honum að mjög dökk ský væru yfir Íslandi. Þau táknuðu að miklir erfiðleikar vofðu yfir þjóðinni vegna hroka hennar og sjálfsupphafningar sem myndu leiða til mikilla efnahagsþrenginga. Hann sagði Ómari að fara heim til Íslands og kalla saman leiðtoga í kirkjum landsins til að koma saman og biðja fyrir þjóðinni og ákalla Guð að hann sneri við hag hennar.
Síðar þegar Willie kom í heimsókn til Íslands sagðist hann að hann hafi átt mjög erfitt með að ganga til Ómars og segja honum þessar fréttir. Fyrst þegar honum fannst Guð minna sig á þetta reyndi hann að bægja því frá sem ómerkri hugdettu en hann fékk ekki frið fyrir því. Hann þekkti Ísland ekki neitt og hafði aldrei komið þangað. Til að gera þetta auðveldara bað hann Maríusystur um að hafa milligöngu um að hafa samband við Ómar.
Bænastundir hefjast
Mikilvægt er að hafa í huga að þetta samtal átti sér stað vorið 2008, áður en bólaði á efnahagsþrengingum á opinberum vettvangi á Íslandi og hagur þjóðarinnar virtist standa í miklum blóma. Ómar varð undrandi á boðskapnum en skynjaði strax alvöru hans af því hvernig Willie talaði við hann og skynjaði að honum var mikið niðri fyrir. Ómar einsetti sér strax að hlýðnast því boði að kalla saman leiðtoga kirkjunnar þegar heim kæmi og hafði samband við yfir tuttugu manns og bauð þeim á skrifstofuna sína til að segja þeim frá boðskap Willies og öllum málsatvikum. Sat hann með hverjum og einum í meira en klukkutíma og spurði þá hvort þeir vildu taka þátt í að koma saman sex sinnum og biðja fyrir þjóðinni og enda á því að koma fram á sjónvarpsstöðinni Ómega þar sem beðið yrði fyrir þjóðinni í beinni útsendingu. Allir brugðust vel við þessari málaleitan. Ákveðið var að bænastundirnar færu fram í Friðrikskapellu við Hlíðarenda því að hún var talin mjög hlutlaus staður.
Fyrsta bænastundin fór fram þriðjudaginn 14. ágúst. Fyrstu samverurnar hófst með dýrindis hádegisverði frá veitingahúsi úti í bæ sem Ómar bauð upp á.
Vel var mætt á bænastundirnar sem voru alvöruþrungnar. Flestir voru undrandi á boðskap Ohningers og sennilega voru sumir í vafa hvort hann væri örugglega ekta. En fólk tók ekki áhættuna á að hann væri ósannur og skella skollaeyrum við honum. Það kom saman og bað af hjartans einlægni fyrir þjóðinni. Og svo kom hrunið! Ég held að enginn hafi átt von á því að spádómurinn myndi rætast svo bókstaflega og að afleiðingarnar yrðu svo miklar sem raun bar vitni. Mikil eining myndaðist fljótt í hópnum og bræðralag og þegar sá tími var liðinn sem samið var um í upphafi vildi fólk halda áfram að hittast og biðja fyrir þjóðinni og sumarið 2011 átti samfélagið þriggja ára afmæli. Já, lesendur góðir, það er ýmislegt sem maður skilur ekki í störfum kirkjunnar, eins og dæmin sanna seinasta áratuginn. Hvort þessi hópur sem stendur að þessu boði til Bill Graham stofnunarinnar tilheyrir einhverjum öfgahópi innan kirkjunnar veit ég ekki. En það að velja svo umdeildan prédikara til að koma hingað sýnir ákveðna þröngsýni eða vankunáttu. Það þarf nú ekki nema að blogga í klukkutíma til að sjá að meginþorri kristinna manna hérlendis getur ekki fallist á skoðanir þessa manns. Harða bókstafstrú þar sem Biblían er tekin sem heilagur sannleikur í einu og öllu þar sem ekki er viðurkennd nútíma túlkun á þeim atburðum og hugmyndum sem þar er sagt frá. Það eru líka til aðrir heimshlutar þar sem trúin er ekki gerð að skemmtiatriðum og fjárplógsstarfsemi. Væri ekki eðlilegra að sækja erlenda fyrirlesara og prédikara þangað? Mér finnst að frjálslyndir trúaðir kristnir menn eigi ekki að láta valta yfir sig með þessum hætti. Eða eru þeir kannski ekki til?
Ég sá að forsetinn okkar mætti á frumsýninguna hjá Balthasar Kormáki á Tvo Guns, nú verða flestar myndir að heita amerískum nöfnum í hinum alþjóðlega heimi . Ég er nú hissa á Forsetanum að láta sjá sig á svona B-mynd. Allir alvöruforsetar horfa bara á svona myndir í kvikmyndasalnum sínum heima í bústaðnum eins og í Hvita húsinu eða Bessastöðum. Það er helst breska konungafólkið sem fær að fara á svona sýningar, sem eru sagðar þá vera í góðgerðarskyni, en svo finnst því ekki gaman að neinu öðru en hasar eða billegum gamanmyndum. Ekki má gleyma Stalín sem var með eigin sýningarmann sem varð að vera tilbúinn allan sólarhringinn alla daga allt árið til að skoða myndir. Það má heldur ekki gleyma að uppáhaldsmyndir hans voru amerískar söngva og dansmyndir með yfirgengilegum hópatriðum. Og um örlög kvikmyndasýningarmannsins var gerð ágæt mynd fyrir mörgum árum The Inner Circle, með Tom Hulce þeim sem lék Mozart um árið í Amadeus. Ég veit nú ekki hvort Sigmundur Davíð hafði tíma til að láta sjá sig á þessari frumsýningu ársins. Enda í mörgu að snúast, menn verða að njóta þess að vera forsætisráðherra, ferðalög, skrúðgöngur, skrautbílar, gamalt wiskí, kampavín og ostrur. Svo tekur alvaran við, ég sá í Fréttablaðinu í morgun að enn er ekki búið skipa nefndina sem á að ráða úrslitum þessarar stjórnar. Nefndir um almenna skuldaniðurfellingu. Það er merkilegt að það er ekki búið að fá það úrvalslið til starfa. Sem átti að vera höfuðverkefni stjórnarinnar en er nú höfuðverkur hennar. En kannski hefur ekki verið svo auðvelt að skipa þá nefnd. Flestir sérfræðingar landsins hafa tjáð sig um erfiðleikana í sambandi við leysa úr þessari fléttu óðaverðbólgu, verðtryggingar og ofurfasteignaskulda. Aðrir hafa verið að vinna að því svo sem starfsfólk Seðlabankans og hafa ekki traust forráðamanna stjórnarinnar. Ekki er heldur auðvelt að stíga þarna inn í ormagryfju meirihlutans þar sem aðaltalsmaður stjórnarinnar um efnahagsmál er hin alræmda og vanhæfa Vigdís Hauksdóttir. Einn er sá maður sem hefur lagt mikið undir með því að skipa þessa stjórn. Það er forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson. Hann er Guðfaðirinn og vill varla sjá allt leysast upp og verða að hjómi einu. Ég hugsa að það fari oft um hann óhugur þegar hann sér og hlustar á fréttir, yfirlýsingar og glópaspjall talsmanna stjórnarinnar. Ég vona að hann hafi hringt í Sigmund vin sinn og beðið hann að sussa á suma. Því það er þessar tvær byssur sem eiga mest undir. Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð. Og væntanlega vilja þeir halda áfram að munda byssurnar galvaskir frekar en að ríða og hverfa inn í blóðrautt sólarlag öllum gleymdir eins og Davíð Oddsson.