mánudagur, 7. október 2013

Hrunhátíðarhöld: 30.000 króna kvöldverður og Davíð

Hvað er að ske, sagði skáldið.  Og það er ýmislegt að ske í dag.  Nýfrjálshyggjusamtök halda upp á Hrunið mikla: Þegar rykið er sest.   Bankahrunið að fimm árum liðnum.  Dýpri skilningur, ný sjónarhorn. Auðvitað verður að halda upp á merka atburði, og heldst túlka atburðina á nýtt.  Já þetta verður spennandi að fara ofan í djúpið og virða fyrir sér orsakir hrunsins.   Útvaldir túlkendur nýfrjálshyggjunnar munu leiða okkur í allan sannleik um það sem gerðist.  Það var bóla og ofurfjárfestingar Banka.  Þar komu við sögu engir stjórnmálamenn, engir starfsmenn ríkisstofnana eins og Seðlabankans og FME. Ó nei, Við fáum einn fulltrúa bankakerfisins sem greindi fyrir okkur í nokkur ár hvað væri að gerast.  Ásgeir Jónsson.  Hann greindi svo vel að sannleikurinn var sjaldan þar á ferð.   Við fáum uppáhaldið okkar Stefaníu Óskarsdóttur sem fræðir okkur  stöðugt um gang stjórnmálanna hérlendis. Og Ásta Möller fyrrum alþingiskona, núverandi starfsmaður Háskólans kynnir herlegheitin.   Og svo eru auðvitað erlendir sérfræðingar frá valinkunnum stofnunum.   Svo er þessi dýrðarsamkoma haldin í Háskóla Íslands.  En, lesendur góðir, ekki á vegum háskólans eins og margir kynnu að halda.  

Það er stofnun, RNH, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, sem boðar til veislunnar: 

Tilgangur RNH er að rannsaka, hvað örvi og hindri nýsköpun og hagvöxt. Í rannsóknum stofnunarinnar er sérstaklega beint sjónum að því, hvernig menn geti með sjálfsprottinni samvinnu, viðskiptum í stað valdboðs, fullnægt þörfum sínum og bætt kjörin." Þeir sem skipa trúnaðarstöður hjá þessu merka setri eru: 

Rannsóknarráð: Dr. Ragnar Árnason hagfræðiprófessor, formaður, dr. Hannes H. Gissurarsonstjórnmálafræðiprófessor, dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent. Hannes Hólmsteinn er forstöðumaður rannsókna og ritstjóri rita frá RNH. Hér er ræða, sem hann hélt í febrúar 2012 um verkefnin framundan. Þeir Birgir Þór og Hannes Hólmsteinn blogga báðir reglulega.
Stjórn: Gísli Hauksson, formaður, Jónas Sigurgeirsson, Jónmundur Guðmarsson. Framkvæmdastjóri: Jónas Sigurgeirsson
 Hann er þáttur í samstarfsverkefni viðAECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. 
Svo mörg voru þau orð.  Svo lýkur herleigheitunum auðvitað með góðum málsverði og hátíðargesti. Frelsiskvöldverður RNH, auðvitað hlaut Frelsið eitthvað að koma við sögu, þeir sem eiga frelsið mega nota það og misnota.   Og hver haldið þið að  sé aðalræðumaður?    Getið. Getið aftur. Auðvitað maðurinn sem gaf bönkunum nokkra milljarða eða voru það ekki nokkur hundruð í aðdraganda Hrunsins.  Maðurinn sem hefur stöðugt verið að stunda kattarþvott á síðum Morgunblaðsins.  Með aðstoð síns ágæta samherja og boðbera Hannesar Hólmsteins.  Svo liggur á að lýsa því sem háttvirtur Ritstjóri ætlar að segja frá að í fréttatilkynningu þarf að kynna sakleysi hans:  

„Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis,“ sagði Davíð á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007, ári fyrir bankahrunið. „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess, sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Í frægum sjónvarpsþætti 7. október 2008 varðaði Davíð leiðina út úr ógöngum Íslendinga, sem væri að þjóðnýta og reka áfram hinn innlenda hluta bankakerfisins, en gera upp hinn erlenda hluta, selja eignir og greiða skuldir. Þessum ráðum var fylgt, en hann þó hrakinn úr stöðu seðlabankastjóra. Í ræðu sinni mun Davíð rifja upp hina örlagaríku daga í október 2008, meðal annars boðskap sinn í sjónvarpsþættinum.

Og auðvitað mun fyrrverandi Seðlabankastjórinn segja hnyttnar sögur, hann mun ekkert minnast á ummæli sín frægu um Forsætisráðherrann á ögurstundu, vin sinn, við fáum auðvitað þessu einu sönnu túlkun á þessum atburðum, sem hægt er að lesa í Staksteinum og Reykjavíkurbréfi þar sem siðfræði blaðamennskunnar er löngu horfin út fyrir sjónarrönd. 

Auðvitað er uppselt á þennan dýrlega kvöldverð.  Og allir fara brosandi heim fullir af fullvissu um sannleikann, þennan eina sanna. En ætli þá dreymi ekki búsáhaldahljómsveitina miklu, ætli þá dreymi ekki elda á Austurvelli.  Ætli þá dreymi ekki andlit fólksins í landinu sem færast æ nær þeim.  Ætli þeir vakni nokkuð upp af martröðinni öskrandi???   

  

sunnudagur, 6. október 2013

Reiður ritstjóri: Hvað er að ??????

Af hverju er hann svona reiður? Ritstjórinn í Hádegismóum? Og af hverju er hann svona reiður út í RUV.  Sem hafði hann í vinnu hér um árið í Matthildi, vinsæll þáttur.  Það vantar meira af svona Matthildargaur í honum í dag. 

Ég sé enga ástæðu fyrir hann að vera reiðan: Hann á væna fjölskyldu, hefur komist vel áfram í lífinu: var Borgarstjóri og borgarfulltrúi, var Alþingismaður og Forsætisráðherra, var Aðalbankastjóri Seðlabankans.  Skrifaði alþekkt smásagnasafn og kom við á Bergþórugötu í söngtexta. Margar frægar línur eru hafðar eftir honum.  Nú er hann ritstjóri Morgunblaðsins og heldur í marga þræði svona hér og þar, en gullkornum hans hefur fækkað. Nú er þetta illskustagl.     

Af hverju er hann svona reiður???? Ætti hann ekki að finna leiðir til að njóta lífsins?  Hvað sagði Jón Vídalín forðum? Og Benjamin Franklin? 

Allt það sem byrjar í reiði endar í skömm.

     

miðvikudagur, 2. október 2013

Vangavelturnar hans Bjarna

Það virðast vera ýmsar umræður innan meirihlutans hvað eigi að gera við gullið. Þið vitið hvaða gull.  Eða eru kannski engar umræður?  Tveir forystumennirnir virðast tala út og suður.  Nú heita stórloforð, aðallega xB, Vangaveltur hjá Bjarna, og auðvitað er þetta eitthvað sem Bjarni leikur sér með. Og reynir að prjóna utan um í Kastljósi í gærkvöldi.Í stjórnarsáttmálanum er kaflinn hér að neðan um Heimilin og þar er orðalagið svona: 

Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.


er rétt, að öllum líkindum, til að koma móts við, segir sáttmálinn, smá vafi en ríkisstjórnin samt tilbúin að ganga ansi langt jafnvel að stofna leiðréttingarsjóð ef þrotabúaleiðin gengur ekki. 

Bjarni segir: 

Hvernig það nákvæmlega mun skila sér, það á einfaldlega eftir að koma í ljós og hvaða svigrúm mun þá skapast,“ segir Bjarni og bætti við: „Að því marki sem það mun skapast þá erum við sammála um það að nýta það, meðal annars, í þágu þess að létta skuldastöðu.“

Takið eftir orðalaginu hjá Bjarna, að því marki sem það mun skapast -    erum við sammála, - og svo þetta skrítna - meðal annars, meðal annars í þágu þess að létta skuldastöðu.  Eru hugmyndir um eitthvað annað?  Er það í stjórnarsáttmálanum?  Eflaust á hann við að gerið niður skuldir ríkisins. 

Það sem skín út úr þessu að það er lítið vitað hvað gerist, og ýmsir eru á báðum áttum, leiðirnar eru ekki beinar og breiðar, öngstræti geta leynst á leiðinni og blindgötur.  En hvort það nægi xB að bjóða kjósendum sínum upp á það,þessum 12-14% sem kusu þá núna líklega í fyrsta sinn.  Já, lesendur góðir það er annað mál. 


Þetta var haft eftir Bjarna í dv.is. 


Bjarni segir að það standi í stjórnarsáttmálanum að það skapist vonandi svigrúm. „Það sem ég á við er að þetta er svona opin umræða er að það hafa ekki verið færðir fram mjög nákvæmir útreikningar – er það– einhverjar prósentutölur eða einhver ákveðinn fjöldi milljarða. Við sjáum það á verðlagningu á kröfur á þessi félög í slitameðferð. Við sjáum það á allri umræðu og við sjáum það einfaldlega í hendi okkar að það mun þurfa að koma til þess að kröfur verði afskrifaðar. Ástæðan fyrir því að höftin eru til staðar er sú að kröfur innan þessa félaga verður að færa niður. Hvernig það nákvæmlega mun skila sér, það á einfaldlega eftir að koma í ljós og hvaða svigrúm mun þá skapast,“ segir Bjarni og bætti við: „Að því marki sem það mun skapast þá erum við sammála um það að nýta það, meðal annars, í þágu þess að létta skuldastöðu.“


Þetta stendur í stjórnarsáttmálanum 

Heimilin
Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins.
Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til
kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni
fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010
en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður
að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum
vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.
Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að
öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og
þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust
til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim
möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.

Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem
flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Lækkun höfuðstóls nýtist þá til að koma í veg
fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði aukist verulega, jafnvel þótt lán verði greidd hraðar niður.
Þannig má einnig koma í veg fyrir þensluhvetjandi áhrif leiðréttingarinnar og styrkja grundvöll
peningastefnunnar, en það er mikilvægur liður í afnámi hafta.
Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu
húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir
næstu áramót.
Unnið verður að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál, sem varða skuldir einstaklinga
og fyrirtækja, fái eins hraða meðferð og mögulegt er. Óvissu um stöðu lántakenda gagnvart
lánastofnunum verður að linna.

þriðjudagur, 1. október 2013

Fjárlög: Skrýtið samsafn verð ég að segja ........

Skrýtið frumvarp:  Sumt ekki svo galið, eins og lækkun meðalskattbyrði, líka að skatta fjarmagnsgeymslurnar miklu,  en er þetta ekki fólkið sem á að semja við seinna til að fá milljarðana hans Sigmundar Davíðs?, kannski er sniðugt að hóta þeim svona smá, ef ekkert gerist á næsta ári er hægt að hækka skattinn meir og meir og svo framvegis.  

En svo er eins og slái útí fyrir þeim að öllu leyti. Listir og menning eiga alltaf undir högg að sækja hjá hægriöfgastjórnum,  margt smátt skorið niður. sumt stórt eins og kvikmyndageirinn.  Umhverfið er eitur í beinum íhaldsins, og þar er ýmislegt hressilega skorið niður.  

Svo er ýmsu sleppt eða frestað eða dregið til baka.  Margt í hjúkrunargeiranum,  þar hélt maður að það yrði sett eitthvað inn í samræmi við loforð framsóknar, sérstaklega þegar xD á stóran hóp stuðningsmanna í hópi lækna, kannski fá þeir aftur að hafa stofur út í bæ......  En líklega ætlar framsókn að setja landsmet seinustu 100 ára í kosningaloforðum sem voru svikin. Og 1200 kallinn, þó hann sé ekki mikill í sjálfu sér, þá kemur hann illa við láglaunafólk og langlegusjúklinga í lægsta tekjuhópnum, en versta við þetta er að þarna er sett fordæmi fyrir seinni stjórnir, ný glufa opnuð, sem erfitt er að loka, auðveldara að opna upp á gátt.  Við sjáum til.   

Hér er ýmislegt talið upp í mbl.is til lækkunar: Ég var búinn að nefna Kvikmyndasjóðinn en athygli vekur gríðarmikil lækkun rannsóknarsjóða Rannís, og aldrei dettur íhaldinu að hækka fjármagn til smáfyrirtækja þar sem töluverðar rannsóknir eru líka á borðinu, þar hefur verið burðarás atvinnulífsins seinustu árin. Og þjóðgarðar eru eitur, Vatnajökulsþjóðgarður sem á eftir að verða burðarás ferðaþjónustunnar fær 4 ára seinkun nú. 

Stórframkvæmdir eru varla til,  eitthvað smá talað um álversígildi, hugsið ykkur álversígildi,  sem Árni Finnsson hefur talað um á Fésinu. Hin frægu hjól atvinnulífsins virðast hægja og hægja og hægja á sér. Loks hafa herrarnir áttað sig á því að hvergi í okkar heimshluta er fjármagn sem bíður annarra herra sem geta ávaxtað það í atvinnumennsku.  Það er stöðvun víða, fiskverð getur lækkað enn meira, álverðið hoppar ekki upp í loftið.  

En eitt gott, þróunaraðstoð verður ekki lækkuð, við sjáum nú hvað Vigdís segir....... 

Ég segi nú eins og Elín Björg, formaður BSRB, verra gat það verið:

„Ríkisstjórnin var kosin út á stór og mikil loforð en lítið af þeim sjást í frumvarpinu,“ segir Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB. Hún segir að við fyrsta lestur boði fjárlagafrumvarpið ekki eins miklar breytingar eins og margir áttu ef til vill von á. 

en það er ansi margt smátt sem er mulið niður sem einstakir hópar eiga eftir að verða fyrir. Og þetta er ansi sorglegt að þjóðin kjósi þessa óhamingju yfir sig þegar farið var að birta upp, stjórn sem hugsaði um menningu listir, umhverfi og byggðamál  í samræmi við aðra þætti var hrakin frá til að fá skýjaglópa til valda.

En við ætlum að syngja Sverri Stormsker næstu dagana og kötturinn tekur undir. Horfðu á björtu hliðarnar. 
    



mánudagur, 30. september 2013

Kammermúsík: Guðdómur og loddaraskapur

Það eru sumir sem halda að það þurfi lítið til að ná valdi á því að spila klassíska tónlist, jazz eða verða meistarar í samningu góðra dægurlaga eða ná valdi að meistaraspilamennsku í rokktónlist. 

Í allt þetta þarf endalausa æfingu og lærdóm út ævina.  Samt halda margir eða segja það þótt þeir viti betur að þetta fólk eigi að stunda þessar listir í frístundum og vera í almennilegri vinnu á daginn.  Oft er þetta sagt í pólitískum loddaraskap til að koma með billegar lausnir á erfiðum efnahagslegum og fjármálalegum vandamálum.  Eða þetta er sagt af kjánaskap og heimsku. 

Ég var að hugsa þetta þegar ég kom heim af tónleikum Kammermúsíkklubbsins í Hörpunni í gærkvöldi.  Kammermúsíkklúbburinn er klúbbur áhugamanna um stofutónlist og var stofnaður fyrir nokkrum áratugum af þeim sem þóttu þeir heyra of sjaldan hágæðaflutning af slíkri tónlist hér á landi.  Það gera þeir sem stýra þessu af áhuganum einum og þiggja engin laun.  En þeir þurfa flytjendur sem ráða við þessa oft á tíðum erfiðu tónlist, það getur verið ótrúlega erfitt að spila þetta.  

Við sáum það í gærkvöldi að svo er.  Við heyrðum verk eftir Spánverja sem lifði og dó (allt of fljótt) á fyrri hluta 19. aldar.  Arriaga heitir hann og samdi kvartetta sína 16 ára gamall, ofsafín verk, leiftrandi eins og Mozart og leikandi.  Það er eitt hlutverk klúbbsins að vekja athygli á tónskáldum sem sjaldan eða aldrei hafa verið spiluð á Íslandi.  Á eftir Arriaga voru svo spilaðir stórmeistarar kammermúsíkurinnar, Beethoven og Brahms.  Og ekki það sísta, fyrir hlé var fluttur kvartett ópus 132.  Sem ég held ég geti fullyrt sé ein af erfiðustu og mögnuðustu tónsmíðum sögunnar.  Að eiga listamenn sem geta spilað þetta í heimsklassa eins og við heyrðum í gærkvöldi, sunnudag, er nokkuð sem smáþjóð getur verið stolt af.  Allir meðlimir kvartettsins, Sigrún Eðvaldsdóttir, Zibignew  Dubik,  Ásdís Valdimarsdóttir og Bryndís Halla Gylfadóttir eru meistarar á sín hljóðfæri.   Í svona spilamennsku þarf áratuga þjálfun og vinnu, þetta er ekkert til að skvera svona út úr erminni eins og sumir halda.  Það er ekki hægt að koma nær guðdóminum heldur en að hlusta á svona verk og túlkun.  Meira að segja Brahms, Strengjakvartett númer 1, sem ég kann vel að meta, hljómaði fölur eftir Beethoven keyrsluna (konan mín var nú ekki sammála um það), en hann á eftir að hljóma vel í annað sinn.

Já lesendur góðir, það er ýmislegt heilarót sem fer af stað eftir að hafa verið í Hörpunni sem sumir vilja bara rífa svona einn tveir og þrír, þannig var í þetta sinn.  Það kostar peninga að halda uppi tónlistarskólum, listaháskólum og húsakynnum til að flytja þessi verk.  En það gefur í staðinn svo ótrúlega mikið.  Þetta er líka einn af þáttunum sem útlendingar tala um í sambandi við landkynningu, það er tónlist myndlist og bókmenntir. Það er skrítið að upplifa það að íslenskur rithöfundur sem hefur lítið selst heima á Íslandi en selst allt í einu í tugum og jafnvel hundruðum þúsunda eintaka í Frakklandi.  Björk, Emilíana Monsters of Men og Sigurrós fara víða um heim,  við eigum ótrúlegan hóp tónlistarmanna, í klassík, jazz, dægurlagatónlist. Myndlistarmenn okkar vekja víða athygli fyrir frumleik og sköpunargáfu.  Handiðnaðarfólk skín.  Kvikmyndafólk okkar er meira að segja komið til Hollywood (ef það er það sem skiptir mestu máli)  !!!!! Þeir sem horfa á þetta að utan furða sig á þessum 350000 manna eyjarskeggjum sem virðist ekkert vera ómögulegt.  

Mikið væri skemmtilegra að heyra frá valdamönnum og almenningi ánægjuorð og gleði yfir því sem listamenn okkar gera. Láta það hljóma hátt.   Þrasið og kveinið verður oft svo slítandi.  Það myndi gera heiminn bjartari og sólríkari.  





sunnudagur, 29. september 2013

Misnotkun: Bragi skákar og mátar

Það er svo að stundum eru listaverk grimm og koma verulega við mann.  Jafnvel er hægt að gera það með gríni og ærslum.  Þannig er það með leikrit Braga Ólafssonar, Maður að mínu skapi.   Það er erfitt að standa frammi fyrir því að fólk hegði sér ekki eins og maður vill, við óskum þess að fólk sé gott innan gæsalappa.  Noti ekki gáfur sínar, völd og auð til að misnota aðra.  Í þessu verki er því þannig hagað,  misnotkun er aðalþema þessa leikrits.  Manni verður oft hálfómótt yfir því hversu langt það getur gengið.   Sá ríki og sá sem hefur valdið treður á öðrum. Ég held að áhorfendur í Þjóðleikhúsinu eiga erfitt að horfast í augu við það. Því hafa móttökurnar verið misjafnar. 

Þetta verk er í anda fyrri verka Braga, bæði skáldsagna og leikrita.  En hér bregður hann meira á leik í ýmsar áttir, þetta er stofuleikur eins og við höfum séð mikið af í gegnum árin úr breskum leikritaheimi,  svo verður heimurinn á sviðinu absúrd, við fáum ekki að gleyma því að við erum í leikhúsi, og við okkur blasir grátt gaman. Sem umbreytist í ærsli og loks ......... ?  

Gagnrýnt hefur verið að stældar séu lifandi persónur, úr Háskólaheiminum og stjórnmálalífi.  Auðvitað sér maður líkindi en þannig er það nú,  skáldskapur er ekki svo langt frá veruleikanum.  Og það særir okkur.  Sérstaklega þegar hann er svo listilega á svið settur.  

Leikhústöfrarnir skína út frá leikurunum, Ólafía Hrönn leikur Berthu, brussa og alþýðustúlka, sem er kannski ekki öll sem hún er séð.  Minnir á stúlkurnar hjá Laxness.  Dóróthea, saklaus yfirstéttarkona, sem á góðar senur eins og þegar hún tekur dansspor á sviðinu, hún minnir okkur á að konur hátt á áttræðisaldri geta verið kynþokkafullar!!!!  Kristbjörg Kjeld er enn í fullu fjöri.  Ungi maðurinn sem er leikinn af Þorleifi Einarssyni,  er leiksoppur valdamannanna en reynir að bíta frá sér, en á auðvitað ekki roð í stórbokkana þegar upp er staðið.  En hann sér heiminn í öðru ljósi eftir þessa atburðarás.  Bróðir Berthu, Agnar, sem Þorsteinn Bachmann gerir góð skil, sem hefur alla ævi orðið að fylgjast með þeim sem valdið hafa, í skóla og í starfi sem lögfræðingur.  Auðvitað verður hann líka fórnarlamb enn einu sinni.  

Svo eru það stórauðmennirnir, borgarastéttin holdi klædd.  Sem hafa alltaf komist áfram í sínum heimi.  Þótt ólíkir séu.  

Lífsnautnamaðurinn Guðgeir, enn ein furðupersóna í höndum Eggerts Þorleifssonar, sem getur alltaf hagrætt og stjórnað öllu í sínu umhverfi þar sem allt er svo fullkomið, alltaf óaðfinnanlegur, vel klæddur, drekkur bara það bezta, reynir að útbreiða rauðu sloppatískuna,  en bak við þetta mjúka yfirborð er skrímsli sem fyrirlítur þá sem minna mega sín og kann á þetta fyrirbæri sem einkenni svo þessa sýningu það er MISNOTKUN. 

Seinastur en ekki síztur er Klemens, sem hefur komist allra sinna leiða með frekju og yfirgangi, hann svífst einskis til að fullnægja löstum og hvötum sínum.  Sjaldan hef ég séð ógeðslegri persónu á sviði.  Pálmi Gestsson er alltaf að verða betri og betri, hann er ekki beint meðmæli með áfengisdrykkju í þetta sinn, þvílíkur tuddi!!! 

Ég fór í Þjóðleikhúsið á föstudagskvöldið með óróa í huga eftir að hafa lesið frekar dræmar útleggingar sérfræðinga leikhúslífsins. En mér þótti allar efasemdir feykjast í burtu.  Mér finnst Bragi hafa bætt við sig einni „rós í hnappagatið", sem passar svo sem vel við yfirborð þessarar sýningar.  En við upplifum óréttlæti þjóðfélagsins sem við lifum í þar sem þeir sem eiga auð og völd geta traðkað á smælingjunum.  Þótt þeir hafi spilað illa úr spilunum sem þeir hafa á hendi fá þeir alltaf alslemmu, allt kerfið byggist upp á því.  Við höfum séð það seinustu árin.   Við tökum við pústrunum með bros á vör. Eða hvað??   


  








miðvikudagur, 25. september 2013

Ríkisstjórnin: Nýr áróðursmeistari

Ég sé að ríkisstjórnin er búin að ráða nýjan upplýsingafulltrúa.  Sigurð Má Jónsson. Vanan blaðahauk, af Morgunblaði og Viðskiptablaði, og varaformaður Blaðamannafélagsins.  Sannur fulltrúi þess sem núverandi ríkisstjórn stendur fyrir.  Það fyndna séð út frá mínum sjónarhóli er það að ég skrifaði blogg um hann út frá pistli sem hann skrifaði fyrir nokkrum vikum síðan.  Svo lokaorðin í þeim pistli eiga vel við í dag.   Langtum meira en þá.  Þetta eru lokaorðin:

Já það er erfitt að sjá allt fyrir á þessum óróatímum.  En að fara að kenna seinustu ríkisstjórn um alla óáran í heiminum er fáránlegt ef ekki heimskulegt. Hún reyndi sitt bezta við erfiðar aðstæður og náði ótrúlegum árangri  að mörgu leyti.  Sigmundur Davíð og Bjarni héldu sínar ræður í gríð og erg á seinasta þingtímabili um það hve auðvelt væri að gera betur.  Nú gefst þeim tækifæri á að sýna það, byrjunin lofar ekki góðu.  Hvað sem Sigurður Már Jónsson segir.  Vonandi segir Sigurður Már okkur raunsannar fréttir af þeim félögum næstu árin.  En ég efa það.  Hann hlustar of mikið á rödd Meistarans. Og Meistarinn er Frjálshyggja á hverfanda hveli.

Ætli við óskum ekki ríkisstjórninni til hamingju með þennan nýja áróðursmeistara, hann mun segja okkur fréttir af afrekum meirihlutans. Sem ég er hræddur um að verði ekki þjóðinni til heilla. Því mörg okkar trúa því sem stendur á vegg Tukthússins á Skólavörðustig.  Öðruvísi veröld er möguleg.