Í gær töluðu þeir fjálglega um hvað þeir væru að gera með því að fjölga aðstoðarmönnum. Það væri svo margt sem þyrfti að vinna upp eftir seinustu stjórn. En þeir voru að sjáflsögðu búnir að gleyma öllum ummælum sínum í stjórnarandstöðu um eyðslu fyrrum stjórnar með því að fjölga pólitískum aðstoðarmönnum og það kostaði 120 eða 130 milljónir. Nú ætla þeir sjálfir að eyða 700 milljónum þeir sem ætla að skera niður og spara. Já, lesendur góðir, hræsnin ríður ekki við einteyming.
Enn hamra þeir á því dag eftir dag hvað seinasta stjórn hafi skilið eftir allt í rúst. Þótt að fréttir um ríkisrekstur á þessu ári sýni allt annað. Best er að segja sömu lygina nógu oft þá verður hún sannleikur.
Og iðnaðarráðherra okkar sendir hnútur til undirmanna sinna sem gera ekki nákvæmlega eins og hún vill, það virðist ekki eiga að að skipta máli hvað það kostar okkur það á að semja um Helguvíkurálver hvað sem það kostar:
Hún sagðist vera óþreyjufull: „Ég vil fara að sjá árangur og að verkefnin verði að veruleika. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Ég get nefnt álverið í Helguvík, framkvæmd sem ekki bara mun skipta Suðurnesjamenn máli heldur landsmenn alla og hefur beðið allt of lengi."
Og auðvitað fær hún hjálp frá Fjármálaráðherra okkar. Nú á að skipta um stjórn í Landsvirkjun á stundinni:
Bjarni sagði á Alþingi í morgun að tryggja yrði að Landsvirkjun yrði ekki „hindrun í vegi fyrir iðnaðaruppbyggingu á landinu“.
Svo við vitum hvað er framundan, enn á ný á að gefa rafmagn til fjármálamanna af því það er hagstætt fyrir Sjálfstæðisflokkinn í ákveðnum kjördæmum. Jafnvel þótt fyrir liggi tilboð um álver annars staðar á landinu með rafmagn á langtum betra verði !!!!
Ætli hafi ekki einhver hugsun ráðherra okkar í veislunum í kringum Margréti Danadrottningu hvað þeir væru að gera þarna, uppstríluð og hneigjandi sig, innan um lista og menningarfólk. Meirihluti sem slær út af borðinu smáframkvæmd, Húsi íslenskra fræða, sem hefði þó skapað iðnaðar- og tæknifólki vinnu, þegar lítið er um að vera, þar sem hluti hefði lent í ríkiskassanum og stuðlað að ríkulegra menningar- og ferðaiðnaðarstarfi.
Það er mikið rætt um það að skapa bjartsýni í okkar samfélagi af ráðherrunum okkar. Það gætu þeir gert með því að fara í heiðarlegar framkvæmdir, að taka lán sem skila með tímanum til baka fjármunum. Ekki að fara strax í gömlu kjötkatlavinnubrögðin sem xD og xB eru svo þekkt fyrir þar sem bara þeir útvöldu koma til greina, sem borga í flokkssjóðina og styðja Morgunblaðið.
Nei, lesendur góðir, það er gamla sagan endurtekin aftur og aftur. Það er ekki velferð okkar landsmanna sem er í fyrirrúmi, engin stórvirki í Heilbrigðis og Atvinnumálum sem hleypa bjartsýni og þrótti í þjóðina. Hik og fum, allt í gamla og góða spillingarandanum.
Varð nokkur furða að ég minntist á vetrarkvíða í seinasta
pistli mínum????