föstudagur, 27. desember 2013

Biskup: Þakklæti og mannkostir

Á þessum jólum skulum við því minnast þakklætisins. Þakklætis fyrir að fá að lifa í landi sem lýtur stjórn þeirra sem gert hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, landi lýðræðisins. Því þó margt megi betur fara erum við þó hamingjubörn miðað við margar aðrar þjóðir. Við getum líka þakkað fyrir líf okkar og þeirra sem á undan eru gengin og beðið Guð að líkna þeim sem þjást og stríða og stefna í faðm hans að leiðarlokum.

Þetta sagði biskupinn okkar á aðfangadagskvöld, góð ræða að mörgu leyti,og víða komið vð,  en þessi orð hennar sem ég vitna hér í  eru ansi óljós að mínu mati.  Vist erum við hamingjubörn að mörgu leyti, en hamingja felst ekki aðeins í því að hafa það gott.  Það felst líka í því að taka ábyrgð á sjálfum sér og öðrum, hugsa um aðra og láta af hendi rakna það sem við getum, sýna rausn og átta sig á því að við getum gert mun meira en við gerum í dag.  Margir þeir sem hafa gerti Jesúm Krist að leiðtoga lífsins eru því miður oft fullir af hræsni og fordómum í garð þeirra sem minna mega sín eða tilheyra öðrum hópum en þeir. .  Það eru ekki trúarbrögð sem skera úr um mannkosti og siðprýði.



Það er fjöldi þátta í fari hvers manns sem skapar heilsteypta og  góða manneskju. Oft eru það ólíklegustu menn sem sýna þá eðliskosti þegar á reynir. Í Njálu var Bergþóra kölluð drengur góður.  Ætli höfundur Njálu  hafi ekki verið að hugleiða slíkt, og eflaust var ýmislegt í fari Bergþóru sem við mundum ekki samþykkja í dag.  Hver tími býður upp á ný sjónarmið.  



miðvikudagur, 25. desember 2013

John Grant: Okkur til sóma

Íslandsvinurinn góði, John Grant, er okkur aldeilis til sóma. Diskur hans Pale Green Ghost er víða í tölu bestu diska ársins hjá ekki ómerkilegri tímaritum en Mojo, Guardian og Uncut.  Með honum eru líka íslenskir tónlistarmenn, snillingurinn Guðmundur Pétursson. Jakob Smári bassaleikari, Arnar Ómarsson og Sigurður Bjarki sellóleikari  og  hljóðblandarinn góði, Biggi Veira!!

Já, lesendur góðir, þessir nýbúar koma mörgu góðu til leiðar, sumir halda að þetta séu bara óalandi sílepjandi sníkjudýr  Það er öðru nær.  Atvinnuhlutfall þeirra er yfirleitt hærra en landanna í löndum umhverfis okkur. Þar sem fólk hittist af ótal þjóðum þar er bjart og hlýtt !!!! Fjölmenningin blívur.

Það er gaman að lesa jákvæðar og lífgandi fréttir, listageiri okkar er lifandi sem aldrei fyrr.  Hvað sem yfirvöld gerar!!!  

þriðjudagur, 24. desember 2013

Jólakveðja

Kolniðamyrkur, vindurinn hvín, ljósin í blokkinni fyrir norðan húsið okkar lýsa upp, Aðfangadagur, skrítið að minnast fæðingar barns fyrir rúmlega 2000 árum.  

Við fáum enn eina vissu um smæð okkar í heiminum. Lægðir hamast í kringum okkur, margir verða lítið á ferðinni í dag.  Lengra í burtu ganga menn með byssur og drepa. Risastór vatnstankur safnast upp undir Grænlandsjökli.  Lífið er tilviljunum háð. 

Á svona degi er gott að hugsa til þess að eiga vini og ættingja.  Án þess erum við litil og hrædd. Á degi sem þessum er maður væminn og meir.  Ég óska öllum Gleðilegra jóla, etið ekki yfir ykkur, gætið hófs, njótið lífsins eins og hægt er.  


mánudagur, 23. desember 2013

Kjarasátt og Gylfinn er reiður. Skál !!!!

Það birtir af degi, 2. dagur hækkandi sólar, við gleðjumst. Eins og vera ber.  Nýir kjarasamningar líta dagsins ljós og Gylfinn er reiður, þvílíkt vanþakklæti.  Hann skilur ekki að ef menn semja um 2,8% eða 5% fyrir þá verst settu, verður eitthvað feitara að vera á beininu.  Það er varla núna.  Það þýðir ekki að semja um 10% það hefur eingöngu í för með sér grimma verðbólgu þar sem lánin okkar bólgna út.  Það verður að gera eitthvað annað og meira.

Fólkið vill eitthvað meira, sérstaklega þegar útgerðarmenn fitna og fitna, fá hálfan milljarð til að leika með.  Kaupa sumarbústaði og snekkjur handa börnunum.  Skilanefndir fá þrjátíu og eitthvað þúsundir á tímann.  Allir eiga að vera glaðir.  Það birtir af degi, Gylfinn er reiður, við eigum að taka SDG og BB í guða tölu. Olafur forseti mátar kórónu.  

Það verður að fyrirgefa þótt ég spili bara Nick Drake og sökkvi í depurð.  En það eru jól næstu daga, hangikjöt, kalkún og hryggur með öllu.  Bráður kemur  betri tíð, með hreindýrakjöti og skoskri rjúpu, og góðu rauðvíni sem sérfræðingarar fjölmiðlanna mæla með enda eru þeir sérfræðingar ríkisstjórnarinnar. .  

Gleymum því samt ekki að xD var með 50% í skoðanakannanafylgi árið 2000 nú er það 25%, breytingar geta gerst.  Það birtir af degi, mesta lægð aldarinnar er framundan. 

Skál landar skál.




sunnudagur, 22. desember 2013

Gylfi, Sigmundur og Bjarni dansa valdadansinn


Menn, misvitrir, keppast við að hrósa ríkisstjórninni að hafa náð samningi.  Það má segja það að það er gott ef samningur næst.  Það losar ýmsa við brjóstsviða og magabólgur.  En auðvitað er það Gylfi sem er Il Maestro.  Hann gat aldrei samið af viti við Jóhönnu og Steingrím, hann hafði sjúklegt hatur í þá átt. Ristilbólgur þjáðu hann á þeim árum. 

En það er allt í lagi að semja við íhaldið í landinu.  Það sem skiptir mestu máli að Lífeyrissjóðirnir komist sæmilega úr út þessum samningum.  Þess vegna eru engar kröfur um verðtrygginguna, Lífeyrissjóðir elska verðtryggingu.  Verkalýðshreyfingin þarf ekki að minnast á útgerðarmenn, nei, þeir eru góðir eins og Samherjamenn kasta hálfri milljón í liðið.  Þá er allt í lagi.  Og að semja fyrir flesta undir verðbólgu, það er flott. 

Svo Gylfi hjálpar xD og xB að dansa áfram valdadansinn,  Gylfi er svo góður, þjóðin elskar Gylfa.  Og kýs Sigmund Davíð mann ársins. 

Eða hvað????

laugardagur, 21. desember 2013

Pistlar, blogg og tónlist

Ég held að ég verði að segja eitthvað skemmtilegt í dag, Þótt mörgum sé ekki gaman í huga.  Að fá aftur íhaldsstjórn af gamla nýfrjálshyggjuskólanum, sem vill færa ótal hluti aftúr á bak í tímanum.  Þar sem hugmyndafræði Chicago skólans ræður ríkjum.  Sem stefnir að því að hinir ríku verði ríkari og aðrir fátækari. Það þýðir samt ekki að sökkva í kviksyndi depurðinnar þá verður fljótlega allt búið.  Það verður að takast á við þess djöfla!!! 

En, hlustendur góðir ég ætla að ræða um pistlahöfunda og bloggara sem ég hef gaman að.  Lokst svolítið um tónlist sem gleður mig. Í morgun las ég pistil Pavels í Fréttablaðinu um Útkastarann en þeir halda sig á fleiri stöðum en á börunum. Sérstaklega fá útkastararnir í Útlendingastofnuninni sinn skammt, ef  það er satt sem hann segir um stjórnsýsluna þar þá er kominn tími til að gera eitthvað.  Varla verður það í ráðherratíð Hönnu Birnu.   Pavel er dæmi um pistlahöfund sem er skemmtilegur og fær mann til að pæla í vanahugsunum manns, samt er ég ekki sammála um dýpstu gildi samfélagsins. En það er allt í lagi, maður tekst á við hann í huganum um leið og maður les hann.  Þeir eru fáir orðnir góðir pistlahöfundar í Fréttablaðinu, þeir þurftu að losa sig við ein skemmtilegasta sem kom manni oft á óvart, Einar Má Jónsson, bróður Megasar. Gunnar Smári er oft góður í Fréttatímanum og sumir fréttamenn DV eru ígildi góðra pistlahöfunda.  Það er eini fjölmiðillinn sem er beittur í gagnrýni á spillingu og sora íslensks þjóðfélags.Ég vona að þeir fái tækifæri til að halda því áfram. Kastljósið beinir birtunni að mörgu óhugnanlegu en auðvitað er reynt að kippa tönnunum úr því og Fréttir og Spegillinn eru allt í einu 30 mínútur búið að skera niður 20 mínútur. Það verður að skera niður til að borga 15 milljónirnar hans Páls M.      

Bloggflóran er æði misjöfn og höfundarnir ætla sér ýmislegt með skrifum sínum.  Sumir vilja bara vekja athygli á sjálfum sér, aðrir á einhverjum málstað, þriðju vilja spúa sorpi yfir landsmenn.  Maður nær svona einhverri leikni að fletta þessu án þess að bíða tjón á sálu sinni.  Svo er alltaf eitt og eitt gullkorn inn á milli.  

Jónasi Kristjáns tekst alltaf að æsa einhverja landsmenn svo er hann sérfræðingu í ýmsum eins og Vigdísi Hauks.  En honum tekst aðdáanlega misseri eftir misseri að vera FÚLL Á MÓTI. Svo er það Egill sem ætlar alltaf að vera með sömu skoðun og margir aðrir og við vitum hvernig þá fer.  Svo er það hópur af skoðanamyndurum, Illugi J., Karl Th., Teitur A., og svo framvegis, æ ekkert sérstakir en með einn og einn góðan. Og Eva Hauks og Einar S. sem elska að vera með öðru vísi skoðanir en þau eru orðin ansi þreytandi.  Björn Valur fer oft í spor Jónasar enda víða illa liðinn en samt vinsæll með hnútukastið.  Loks vil ég nefna Ingimar K.H. sem er sannur og eflaust oft með svipaðar skoðanir og ég, það er ekki svo slæmt!!!   

Loks lofaði ég einhverju um tónlist á árinu.  Bestu tónleikar sem ég var á var flutningur á Goldberg tilbrigðunum í strengja útsetningu í Reykholti, þar sem svitinn lak af spilurunum á heitasta degi ársins, það var ógleymanleg stund.  Svo kom snillingurinn rússneski Rozhdestvensky 
og stjórnaði Sinfó einu sinni enn líklega í 3 skiptið eða 4.   Og kona hans spilaði píanókonsert Rimsky- Korsakoff.  Hann stjórnaði 10. Shostakovitsch ef ég man rétt. Það var líka magnað.   Svo man ég eftir flutningi á 2. strengjakvartett Bela Bartoks í flutningi Camerarctica sveitarinnar, það snart mig ansi mikið, svo og J. Brahms:          Strengjakvartett nr. 1 í c-moll op. 51,1, í kvartett Sigrúnar Eðvaldsdóttur, þar var frábær spilamennska með líklega okkar besta fólki.  Kammermúsíkklúbburinn skilar góðu starfi í Hörpunni í vetur, og í Janúar ætlar Bryndís Halla Gylfadóttir að spila Cellósónötur Bachs, það verður spennandi. Úr því að ég minnist á Bryndísi tengdadóttur mína verð ég að minnast á disk stjúpsonar míns Þórðar Magnússonar La Poesie sem inniheldur fjögur verk, Kvartett fyrir klarinett, fiðlu, selló og píanó.Það mótlæti þankinn ber, sem er umritun á sinfoníu fyrir 2 píanó,  
 Rapsódía fyrir kontrabassa og píanó svo og Saxófónkvartett. Þetta er yndislegur diskur sem verður betri við hverja hlustun. Það var geðvonskulegur dómur um þennan disk í Fréttablaðinu sem lítið er að marka.  Tryggið ykkur eintak og hlustið og sannfærist um gæðin!!! 
Í rokk tónlist hefur ýmislegt gott verið á ferðinni, ég hef lært að meta Hjaltalín sem er magnað band, svo hreif Emiliana Torrini mig með nýja diskinum.  Tónvefurinn Spotify gerir mann mögulegt að hlusta endalaust á góða tónlist, fyrir lítinn pening, og rifja upp gamlar perlur.  Ég hef kynnst á árinu Kurt Vile, Magnolia Electrical Co., Vampire Weekend og Grizzly Bear. Af eldri meisturum var nýi diskur David Bowies góður og endurútgáfa Bob Dylans á Self portrait, Another Selfportrait var besti diskur ársins hjá mér.  

Svo óska ég ykkur gleðilegra jóla, lesendur góðir, etið og drekkið í hófi og komið endurnærð til lífsins á ný...... það ætla ég að gera!!! 


  

fimmtudagur, 19. desember 2013

Meirihluti: Sjálfshól og drýldni

Nú færist friður jólanna yfir alla.  Jafnvel ráðherra og þingmenn.  Alltaf næst á seinustu stundu samkomulag um 
nokkur atriði ekki öll. Og allir hrósa sér.  
Forsætisráðherra stígur fram á seinustu stundu og bjargar desemberuppbót, þingmenn meirihlutans sem þorðu ekki að segja múkk eru allt í einu glaðir og fegnir yfir að geta hjálpað þeim atvinnuleitandi, þeir vildu þetta alltaf. 

Heilbrigðisráðherrann lúffar smá með komugjöldin. Lofað er að ræða um nýjar gjaldtökur af nýjum fiskitegundum.   Rannsóknarsjóður fær smá í sinn hlut. 

Hönnunar og myndlistarsjóður fær smá,  og allir gleyma grátlega skemmtilegri uppákomu þegar ráðherra menntamála mætti til að fagna Hönnunarsjóðinum nýja þegar auglýstar voru fyrstu umsóknir úr honum, en daginn eftir var búið að leggja hann af í fjárlögum.  

Það skiptir kannski engu máli þó nokkrir ráðherrar sýnsi sig minni menn en maður hélt.  Auðvitað gat maður búist við því.  Hugmyndafræði xD og xB er nú um stundir ansi lík. Þó batt Framsókn sig í það að fá niðurstöður í skuldalækkunarmálinu og beygði þar Sjálfstæðisflokkinn og koma með hana hvað sem menn segja um hana og hvaðan féð á að koma. Það er vandamál fjárlaga næstu ára.  En ...... þeir stóðu við áætlun sína, sem á kannski eftir að skipta máli hjá kjósendum. Ef framkvæmdin fer ekki í tætlur. 

Svo verður  gaman að sjá hvernig útkoman verður næsta árið, enn eru engar stórar framkvæmdir í augsýn, þrátt stór orð seinustu árin.  Vístölulöggjöf og Gjaldeyrishöft ráða enn ríkjum.  Verðbólgan getur enn farið á kreik.  En nú um stundir eru þingmenn stjórnarflokkanna ánægðir með sig.  Sjálfsánægja og drýldni ráða ríkjum með smáskynsemi inn á milli.  Ennþá minnnsta kosti.
Eins og dæmin hér að neðan sýna.  

Gleymum samt ekki aðförinni að útvarpinu, gjafmildinni við kvótaeigendur, niðurlagningu Náttúrulaganna og ótal mörgu öðru.  Sem of langt yrði að telja hér. 
  



 Vigdís Hauksdóttir veit það sem allir vissu að forsætisráðherra myndi koma á seinustu stundu og bjarga málinu :
Virðulegi forseti. Því ber að fagna að hér hefur náðst samkomulag um þinglok og því er 2. umr. fjárlaga að ljúka. Það er fagnaðarefni. Ég bað um það sjálf í framsöguræðu minni í þessu máli að frumvarpið kæmi til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. og óska ég eftir því hér á ný. Ég þakka nefndarmönnum fyrir gott starf og þeim þingmönnum sem hafa talað í þessu máli.
Umræðan hefur farið út um víðan völl en það virðist hafa farið fram hjá þeim þingmönnum sem hér hafa talað síðast að hæstv. forsætisráðherra kynnti það í tíufréttum sjónvarpsins að fundist hafi svigrúm til að greiða atvinnuleitendum desemberuppbót, þannig að það skal sagt hér.
Ég þakka umræðuna og hlakka til að starfa með nefndinni á milli umræðna.

Sigrún Magnúsdóttirm hefur farið greitt að lýsa yfir gríðarlegum framförum í nýju fjárlögunum: 

Virðulegi forseti. Mikill áfangi er að verða að veruleika, atkvæðagreiðsla um fjölmargar breytingartillögur við fjárlög brátt að ganga í garð. Ég hef talað hér um að ytri rammi fjárlaganna sé traustur og gríðarlegar framfarir þar á mörgum sviðum. Það sannast enn og aftur að við getum haldið okkur við hallalaus fjárlög þrátt fyrir þessar umbætur og við höldum meginstefinu hvað varðar heimili og velferð.
Undanfarna daga hafa átt sér stað ágætar umræður á köflum og málefni hafa verið reifuð en ég hef furðað mig á einu. Öryggisnet hverrar velferðarþjóðar sem er almannnatryggingar hefur lítið sem ekkert verið til umræðu. Almannnatryggingakerfi er meðal annars til þess að koma til stuðnings fólki sem veikist, slasast eða eldist. Frá árinu 2006 hafa framlög til almannatrygginga tvöfaldast úr 40 milljörðum í 80 milljarða fyrir árið 2014. Aukningin er rúmir 8 milljarðar núna bara á milli ára, 11–12%.
Virðulegi forseti. Þetta er velferð. Fyrrverandi ríkisstjórn óf vissulega líka í þetta öryggisnet, en núverandi ríkisstjórn með félagsmálaráðherra í broddi fylkingar ásamt öflugum stuðningi hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að þétta möskvana svo færri detti á milli. Aldraðir urðu til dæmis einmitt fyrir því árið 2009 að falla. Þessa aðgerð, þessa aukningu kalla ég miklu frekar umbyltingu en hækkun á fjárlögum. Þá er ég afar ánægð með tilboðin sem formenn stjórnarflokkanna spiluðu út í gær og sýna vilja ríkisstjórnar í verki til góðra hluta fyrir land og þjóð.

Ásmundur Friðriksson vill að við höldum áfram að gefa rafmagnið okkar, það er víst ekki nýtt hjá honum.  Rekstur hefur ekki verið hans sterka hlið. 
Virðulegi forseti. Ég fagna því að náðst hefur samkomulag um þinglok. Ég held að mikilvægasta verkefni okkar þingmanna sé að fækka þeim sem þurfa á jólabónus að halda, eru atvinnulausir og í atvinnuleit. Ég held að okkar mikilvægasta verkefni að ári verði færri atvinnulausir sem þurfa á því að halda að fá uppbætur í desember. En til þess þarf að virkja þau tækifæri sem bíða í atvinnulífinu, þau stóru tækifæri, og þar þurfum við fyrst og fremst að virkja Landsvirkjun til að leggja sitt af mörkum til að skapa á Íslandi fleiri betur launuð störf. Það er verkefni næstu mánaða.
Á síðustu árum, frá 2007 til 2012, lækkuðu skuldir Landsvirkjunar um 50 milljarða, u.þ.b. 10 milljarða á ári. Það eru þær tekjur sem Landsvirkjun hefur haft af stóriðjunni og auðvitað allri orkusölu í landinu. Það hefur verið talað um að verð á orkunni hafi verið mjög lágt en samt sem áður greiðir Landsvirkjun skuldir sínar niður um 50 milljarða. Það er mjög gott.
Álframleiðsla skapar 23% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar, u.þ.b. 226 milljarða. Hún skapar 5 þús. störf þar sem meðallaunin eru yfir 450 þús. kr. á mánuði. Þetta er það sem þetta þjóðfélag þarf á að halda núna í staðinn fyrir að rífast um desemberuppbætur handa þeim sem eru að leita sér að atvinnu. Við þurfum að skapa þeim atvinnu og það er verkefni framtíðarinnar.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir er alltaf skynsömust íhaldsmanna: 
Virðulegur forseti. Hér náðist í gær samkomulag um þinglok og þau mál sem þingheimur ætlar að afgreiða fyrir jólaleyfi. Ég ætla ekki að segja hér að það samkomulag hafi glatt mig neitt sérstaklega vegna þess að mér finnst ekki, þegar við erum á síðustu metrum í vinnu eins og fjárlagavinnu, að við eigum að vera að semja um krónur og aura til að geta lokið þingstörfum á réttum tíma. Mér finnst þetta eiga að kenna okkur í fyrsta lagi að aðkoma að fjárlagafrumvarpi þarf kannski að vera með öðrum hætti en hún hefur verið, við ættum kannski í upphafi að vera meira sammála um ákveðnar línur og við ættum kannski í vinnunni að byrja fyrr að velta fyrir okkur þeim áherslum sem við viljum hafa hér, hvort heldur er meiri hluti eða minni hluti.
Það að komast að samkomulagi um þinglok fyrir jól í krónutölum, fyrirgefið, virðulegur forseti, hugnast mér einhverra hluta vegna ekki. Ég kýs að við lærum af þessari vinnu og gerum þetta öðruvísi þegar kemur að vordögum og þegar kemur að fjárlögum næsta árs.