þriðjudagur, 4. mars 2014

Ráðherrar: málleysingjar og mannleysur

Maður er orðinn þreyttur á þessum fátæklegu íslenskumönnum sem húka
á valdastólum mállausir og mærðarfullir, snúa tungunni í ótal hringi.

Ómöguleiki framfylgjanlegur og svo framvegis. Ég minnist ekki á Vigdísi H.  

Svo eru vandræðin endalausu, að gefa loforð og ætla að svíkja þau, þeir sem gera slíkt eru mannleysur. 

Þeir vildu fá þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þeim hentaði en nú hentar það þeim ekki. Forsetinn á að leiða þá úr gildrunni. 

En auðvitað blasir við eina leiðin, 50.000 manns vilja þjóðaratkvæðagreiðslu.  Því á hún að fara fram. 

Ef meirihluti þjóðarinnar vill áframhaldandi viðræður þá er að sjálfsögðu auðséð hvað á að gerast. 

Efna á til nýrra kosninga.  Þá kemur í ljós hvað þjóðin vill, krystaltært og skýrt. 


mánudagur, 3. mars 2014

Heimsósómapistill á 67 ára afmælisdegi mínum

það er skrítið að lifa tíma sem gætu leitt til gjöreyðingarstríðs en enginn talar um það í alvöru

enn eru það stríðsherrar sem pungfrekjast og senda tindáta sína af stað á meðan aðrir stríðsherrar hneykslast á því eins og þeir hafi aldrei sjálfir gert slíkt 

allt út af skaga í Svartahafinu þar sem íslenskir stjórnmálamenn fóru í heilsu og sjúkraleyfi í boði 
sovéskrar alþýðu fyrir nokkrum áratugum 

við lifum furðulega tíma Pútín sem mér finnst ansi ógeðfelldur maður telur sig geta gelt og geðvonskast á kostnað nágranna sinna (líklega með stuðningi Kínverja sem vilja líka geta gelt í (Ó)friði á nágranna sína) 

Við boðberar friðar eigum ekki sæla daga SÞ sem áttu að vera talsmenn slíkra hugmynda verða aldrei nema handbendi stórvelda, við þurfum ekki annað en að hugsa til Sýrlands sem eru rústir einar í dag meðan heimurinn hefur allutr fylgst með sjónarspilinu 

svo ég hugsa bara um eigin sársauka í hnjám og baki á afmælisdaginn minn þegar ég er tekinn í tölu aldraðra

nú er ég búinn að bíða í 5 mánuði eftir að komast í hnjáliðaaðgerð og þarf líklega að bíða í 5 mánuði í viðbót 

þannig virkar heilbrigðiskerfi í velferðarríkinu Íslandi

smám saman minnkar hreyfigeta mína sterk verkjalyf gera ekki gagn, allir vinir og kunningjar spyrja um heilsuna og ég reyni að svara kurteislega, ég veit það eru margir sem hafa það verra en ég en einhvernveginn hugsar maður mest um sjálfan sig þegar maður skakklappast um íbúðina og einstaka sinnum í bæ eða út í búð 

á meðan valdamenn brugga göróttar eiturblöndur sem þeir hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif þær geta haft á jörðina og enn eina ferðina er fólkið sem lifir á þessari jörð fórnarlömb lygamarða og svikapunga

og við, ræflarnir, bíðum og sjáum hvað setur, við getum lítið annað gert, stiginn hjá mér upp á þriðju hæð verður alltaf erfiðari og það tekur á taugar að hlusta á valdamenn þessa lands 

Þetta er heimsósómapistill minn á 67. afmælisdaginn

sunnudagur, 2. mars 2014

Austurvöllur: Þjóðhátíðarstemmning í bænum

Það var þjóðhátíðarstemmning í miðbænum í gær. 

Veðrið var svo gott, sólin blindaði, og þjóðin hafði lagt leið sína í bæinn til að lýsa því yfir að það væri hún sem hefði endanlegt ákvarðanavald. 

Sem ýmsir stjórnmálamenn gleyma um  leið og þeir eru komnir til valda. 

Kannski sátu þeir inn á einhverjum hástéttarbörum og horfðu óttslegnir út á milli rimlagardína. Ég veit það ekki. 

Stjórnmálamenn sem dettur í hug að þeir geti lofað svona til vonar og vara ef þeir lenda í samingaviðræðum við ákveðna flokka, þeir skilja ekki eðli og innihald lýðræðis.  

Þess vegna er nauðsynlegt fyrir fólkið til að láta vita af sér. 

Það var gert í gær á Austurvelli.  Það var bjart yfir öllum og allir sögðu: Hér er ég. 

Heilsuðu upp á vini og kunningja.  Kaffihúsið urðu yfirfull eftir fundinn.  

Svo er að sjá hvað gerist.  Maður býst ekki við miklu af þessum herrum.  

Það er ekki víst að við séu að upplifa vor, vor þjóðarinnar.

En í gær var þjóðhátíðarstemmning í bænum!!

laugardagur, 1. mars 2014

Kjarni málsins: Það á ekki að ljúga að fólki

Stundum eigum við Íslendingar erfitt með finna kjarna málsins. 

Var að hlusta á mektarfólk ræða málin á RÚV 1, það komur þar margir punktar til umhugsunar. Í upphafi þáttarins leyfði Hallgrímur Thorsetinsson okkur að heyra öll fræg og alræmd ummæli vikunnar. 

En mér þótti vanta það sem valdið hefur ólgu almennings sem sýnir sig vel í skoðanakönnunum vikunnar.  Vinsældamissir stjórnarflokkanna, mikill meirihluti við umræður við ESB. 

Hvað er það sem hámenntaðir sérfræðingar og pönkari minntust ekki á.  Sem hefur vantað svo í stjórnmálaumræðu á Íslandi??? Það er sá einfaldi sannleikur að stjórnmálamenn eiga ekki að ljúga. Við eigum að krefjast þess að við upplifum ekki svona viku aftur. OG þeir sem eru staðnir að lygum, eiga að segja af sér. 

Siðvæðingar er þörf.  Í nágrannalöndum er slíkt í heiðri haft.  Maður sem staðinn er að lygur og falsi hann segir af sér.  Það er engin undankoma.  

Þetta eigum við svo erfitt með.  Við Íslendingar.  Að hafa skýrar og tærar reglur.   Þess vegna segi ég:  Siðvæðingar er þörf.  Þetta er það sem liggur undir í ólgu landans seinustu vikuna. 

Stjórnmálamenn eiga ekki, mega ekki ljúga.  Þá eru þeir búnir að fyrirgera rétti sínum að vera fulltrúar okkar í fulltrúalýðræði þjóðarinnar.  

föstudagur, 28. febrúar 2014

Netskrímslið étur börnin sín

Dr Jekill og Mr Hyde var mér hugsað í gærkvöldi þegar ég heyrði og las fréttirnar um fall Hildar.

Það voru margir sem fögnuðu þessum tíðindum, sérstaklega þeir sem höfðu orðið fyrir hörðum vinnubrögðum hennar að birta óbilgjarnarskoðanir og málflutning óðamála netverja. En hún leit sér ekki nær.  

En lesendur góðir, netið er harður húsbóndi, eins og brennivín, dóp og svik stjórnmálamanna.

Netnotkun er fíkn það vita þeir sem hafa notað það. Og enn verra virðist það vera þeim sem skrifa undir dulnefni.  Það hef ég aldrei gert.

En, lesendur góðir, vandið ykkur, netið er fíkn og fíknin tekur yfir líkama okkar og sál. Dæmin sem við höfuð séð og heyrt seinasta sólarhringinn sýna að þar fer fólk undir áhrifum, netskrímslið hefur tekið völdin, það étur börnin sín. 

Fórnarlömbin eiga bágt.  Þau eiga að leita sér hjálpar.  Þau eiga að iðrast. 

fimmtudagur, 27. febrúar 2014

Alþingi: Sirkus Simma og Bjarna Smart

Það er margt furðulegt á seiði á æðstu valdastofnun okkar Íslendinga.

Það sást best á þessari snilldarmynd frá því í gær.


Það var mörg snilldin á seinasta þingi en við eigum von á enn betri tíðindum næstu árin. Eða hvað. Vill þjóðin ekki gneistandi fjör og umræður. Á allt að vera leiðinlegt og alvarlegt?  En að gamni slepptu þá þarf að hafa skýrari reglur um ræðustólinn á hann ekki að fá að vera í friði gagnvart rápurum sem eru að trufla ræðumenn?  Nú er ég að tala í alvöru. Hvað ætli átrúnaðargoð Sigmundar hugsi ????   

Sjónvarpið gerir enn betur og sýnir okkur snilldarklipp úr lygadeildinni þar er margt miður fallegt og margt sem veldur klígju og niðurgangi. 

Virðulegur þingmaður segir So What (ætli hann hlusti á Miles Davis?) við lygum.  

Gamlir samherjar láta ekki eftir sér liggja í stuðningi við ríkisstjórnina.


Svo eru vitibornar greinar inn á  milli eins og grein Jóns Sigurðssonar um undanþágur sem eru ekki undanþágur en eru samt ótalmargar. Og hugleiðingar Gunnars Tómassonar hagfræðings.

Greinar Baldurs Þórhallssonar og Össurar í vísir .is í dag.  


þriðjudagur, 25. febrúar 2014

Sviss og Ísland: Einhverjar afleiðingar?

Það setur að manni hroll yfir siðleysi íslenskra valdamanna þessa dagana.  

Þeir snúa heilum sínum ótt og títt inn í höfuðskeljunum, og koma með afbakanir á loforðum sínum. Ætli það nægi ekki til þess að stuðningsmennirnir hrópi húrra og votti:  Þetta er sannleikurinn þetta er málið.  Ég veit það ekki.  Það læðist oft örvænting inn í huga manns þessa dagana. 

En eiga gjörðir þessara manna aldrei að hafa einhverjar afleiðingar?   

Ég rakst á í gærkvöldi grein í International New York Times þar sem fram kemur að þjóðaratkvæðagreiðsla Svisslendinga um nýbúa og stöðu þeirra í landinu er farin að hafa áhrif á menntunar og rannsóknaráætlanir í samskiptum þeirra við ESB. Það er Erasmus + og Horizon 2020 sem er 80 billjón evru rannsóknarverkefni.  Evrópusambandið hætti viðræðum við Sviss eftir að fyrsta framkvæmd nýju þjóðarsamþykktarinnar kom í ljós.  Króatar fá ekki að vinna í Sviss í samræmi við reglur ESB.  

Ætli verði ekki svipað með okkur bráðum,  menningar og menntunarverkefni verða ekki í áskrift.  Við sáum hin yndislegu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fyrstu hreyfingunni á styrkjamálunum í haust.  Við eigum að fá allt en ekki leggja sjálf neitt  til málanna.  Hvað ætli það hafi spilað í brottför Bandaríkjamanna sú vissa þeirra um okurverð á framkvæmdum fyrirtækja okkar á Keflavíkurvelli og víðar, sem heitir á mannamáli Spilling.   Sem oft var rætt í þingnefndum í Washington. En sjaldan á sölum Alþingis á Íslandi. 

Svo, lesendur góðir, kippum okkur ekki upp við ramakvein,  þegar að því kemur.  Þegar stjórnmálamenn siðleysis og spillingar fara að lifa það að gjörðum fylgja afleiðingar.  ESB hefur sjálft hafið umræðu um spillingu í bandalaginu. Við þurfum víst lengi að bíða að Sigmundur Davíð og Bjarni hefji slíka umræður.  Það er gott að hafa í huga að þessir karlar eru auðmenn sem hafa aldrei þurft að takst á við líf venjulegs fólks.

 
Sumargestir

við höfum of lengi verið sumargestir
reikað um blómstrandi engi og syngjandi skóga
nú er vetur í nánd
laufin farin á vit allra veðra
snjórinn felur sig í hótandi skýjum

óvíst um framtíðarstað