þriðjudagur, 22. júlí 2014

Ghasamótmæli: Er þetta Gyðingahatur? Nei.

Blóðbað, það er eins og Hamas væri búið að drepa 600 manns og Ísraelar 3. 
Ef marka má ummæli Benjamíns Net­anya­hu.  Ban Ki-Moon tekur ekki undir áróður Ísraelsmanna.  

Hættið að berj­ast og byrjið að tala“ segir Ban Ki-moon. 

Auðséð er að Ísraelsríki ætlar að knésetja Hamas algjörlega.  Það er engin afsökun um þessar aumu heimasmíðuðu eldflaugar.  Maður getur svo sem skilið að til  séu Palestínumenn sem hafa fyllst ofbeldisörvæntingu.  Þeir eru lokaðir inni á Ghasa svæðinu, komast ekkert, eru vanvirtir á hverjum einasta degi.  Standa í endalausum röðum við hlið. Komast ekki til læknis eða á sjúkrahús.  Sjá sífellt tekið meira af yfirráðasvæðum þeirra.Samt gengur Ísraelsher alltaf lengra og lengra.  Eins og dæmin sýna: barnamorð á baðströndum eða sjúkrahússprengingar.  

Það má heldur ekki gleyma að Ísraelsher er 4. stærsti her í heimi.  Að sjálfsögðu með hjálp og stuðningi Bandaríkjanna.  Ég sé að sumir bloggarar tala um Gyðingahatur.  En ruglum því ekki saman við Ísraelsríki. Í Ísraelsríki eru líka til Islamtrúarfólk og kristið.  

Það eru líka til Gyðingar í Ísrael sem eru búnir að fá nóg, samanber fréttina í RÚV í dag.  

Stjórnandi Sinfó leiðir mótmæli í Tel Aviv

Ilan Volkov, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands verður stjórnandi á tónleikum sem haldnir verða í Tel Aviv í Ísrael í dag til að mótmæla átökunum milli Ísraela og Palestínumanna. Vefsíðan slippedisc.com greinir frá þessu.
Volkov hefur verið aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar síðustu þrjú árin, en lætur af því starfi í haust. Volkov er fæddur í Tel Aviv og býr þar með fjölskyldu sinni. Hann var áður aðalstjórnandi útvarpshljómsveitar BBC í Skotlandi.
Volkov segir í samtali við slippedisc.com að fjöldi listamanna komi fram á tónleikunum í kvöld, en þar verður þess krafist að friðarviðræður hefjist og Ísraelsmenn hætti hersetu sinni á landi Palestínumanna.

Já, þau eru ansi grátlega skrítin  öfugmæli ráðamanna Ísraelsríkis.Ég hef ekki verið hrifinn af stjórnmálasambandsslitum.  En líklega er það eina leiðin gagnvart þessu ríki ofbeldis og barnamorða.   


laugardagur, 19. júlí 2014

Svei: Siðblindur heimur

Sorglegt ástand í heiminum.  Flugvél full af saklausum farþegum á leið í sumarleyfi og vinnuna.   Skotin niður.  Margir fremstu sérfræðingar heimsins í alnæmisrannsóknum drepnir.  Niðri á
jörðunni eru karlhormónar í stríðsleik. Í umboði meistarans í Kreml.  Þar sem mannslíf eru einskis metin.  Svo er reynt að breiða yfir skömmina og glæpina.  


Í Palestínu heldur áfram þjóðarmorðið þeir sem einu sinni voru ofsóttir hafa gleymt öllu.  Fortíðin er safngripur sem nýtist ekki í veruleikanum.  Barnungir herermenn leika sér að sprengja í loft upp og skjóta börn á baðströnd. Drónar svífa yfir húsum til að hitta heita punkta þar eru mannverur.  Svo eru eldflaugar sendar. Það eru fáir ungir Ísraelsmenn sem neita að taka þátt.   Þeir vita að þeir þurfa aldrei að standa fyrir dómara með sóðaverk sín.  Þeir halda áfram stríðsleik í umboði valdamannsins í Hvíta húsinu.  Allir hafa rétt á að verja sig.  Þessir allir eru ekki Palestínumenn.  Þeir eru réttdræpir. 

Svei, siðblindur heimur.  Þar sem aldrei við lærum.  Ísjakarnir hrynja ofan í hafdjúpin, freðmýrarnar þiðna upp, jarðarsvæði stikna eða hyljast sjó.  Framtíð barnanna okkar er ekki björt.  Vísindaskáldsögurnar um fáranlegan heim og lífsaðstæður verða allt í einu sannar. 

Svei. 

föstudagur, 18. júlí 2014

Snorri Þorsteinsson: Minningarorð


Það rigndi hressilega þegar við ókum upp í Borgarnes í morgun.  Við vorum viðstödd jarðarför Snorra Þorsteinssonar frá Hvassafelli í Norðurárdal. Með honum er horfinn einn mestir skólafrömuður héraðsins, hann var kennari á Bifröst og fræðslustjóri á Vesturlandi um árabil. Gegndi ótrúlegum fjölda trúnaðarstarfa í sínu héraði og líka í Framsóknarflokknum þegar hann var landsbyggðarflokkur sem hægt var að taka mark á.

Ég var svo heppinn að kynnast Snorra þegar kona mín vann hjá honum sem sérkennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Vesturlands frá 1986-1996.  Ég var líka í stjórn og stjórnarformaður Kennarasambands Vesturlands þegar ég kenndi í Borgarnesi og þurfti oft að hafa samband við hann út af ýmsum málum.  Aldrei fór maður bónleiður til búðar.

Það var skemmtilegt að koma á fræðsluskrifstofuna á þeim árum. Þar vann samhentur hópur, kennara, sálfræðinga og annarra starfsmanna. Það var mikið hlegið og tekist á um hinar ýmsu hliðar skóla og menningarstarfs.  Þó sjaldan þannig að menn færu ósáttir heim á leið.

Snorri var ekki þannig að hann gini yfir öllu, hann var rólegur og hógvær.  En hann vissi hvað hann vildi og hvaða mál skiptu mestu máli.  Hann fór sér hægt en hann stjórnaði sínu skipi.  Maður sá þegar maður sótti hann heim að þar var maður á ferð sem alltaf var að, umsetinn bókum og gögnum.  Ræður sem hann flutti á kennaraþingum vor vel ígrundaðar. Hann var sannkallaður vinnuþjarkur.  Svo var hann fjölskyldumaður og bóndi. Það er ótrúlegt hvað hann gerði og komst yfir. 

Eftir að ríkið lagði frá sér grunnskólakerfið og sveitastjórnir tóku yfir riðlaðist þetta kerfi, starfsmenn hurfu í ýmsar áttir.  En alltaf hittist sá hópur sem hafði unnið þarna, við makarnir fengum að vera með, það voru skemmtilegar stundir. Það verður tómlegt án hans, en hann skilaði góðu verki og andi hans mun svífa yfir vötnunum. Við minnumst hans, andans maður sem gat líka haft spotskan húmor. 

Á leiðinni heim í samfelldri rigningu til höfuðborgarinnar ræddum við hjónin um það hvað það væri skemmtilegt að koma í jarðarfarir þar sem maður sér ótal gamla vini og kunningja, þar sem maður er líka að kveðja mann eins og Snorra sem skilaði dagsverki sem margir fengu að njóta af, kunnu að meta. Það sást af mannfjöldanum í jarðarförinni í dag. Það er engin skömm að nota orðið skemmtilegt í þessu sambandi.  Snorri naut þess að vera innan um fólk í félagsskap margra.  Hann naut lífsins.
(18.7. 2014) 

miðvikudagur, 16. júlí 2014

SDG: Mesti spraðurbassi stjórnmálasögunnar

Það er ekki algengt að skrifstofublók í sendiráði setji ofan í forsætisráðherra en það gerði svokallaður talsmaður bandaríska sendiráðsins við Forsætisráðherra íslenska lýðveldisins.  Vegna glannalegra yfirlýsinga þessa æðsta pólitískt kosna valdamanns þjóðarinnar.  Sums staðar hefði það kostað milliríkjadeilu.  Þessi valdamaður okkar má ekki nú orðið opna kj...... án þess að rugla, það er ekki nóg að hafa 3 aðstoðarmenn, ég hélt að þeir væru til þess að vinna bakvinnuna fyrir ráðherrann svo að hann verði sér ekki til skammar oft í viku hverri.  Ætli hann sé ekki orðinn mesti spraðurbassi íslenskrar stjórnmálasögu?

Svo að vikið sé að öðru hvar er sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi? 
Paul Cunningham, talsmaður sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi, er ósammála fullyrðingum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins á föstudaginn.
Sigmundur sagði á miðstjórnarfundinum að 99 prósent þess kjöts sem framleitt er í verksmiðjubúum í Bandaríkjunum væri sterakjöt. "Þetta ætti nú varla að vekja athygli umfram það að ég er að árétta staðreyndir sem liggja fyrir og leiða meðal annars til þess að Evrópusambandið, og við sem hluti af EES-samningum, leyfum ekki innflutning á svona kjöti vegna þessarar meðferðar," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svo í kvöldfréttum Stöðvar 2 á sunnudag.
Cunningham mótmælir þessu. "Rannsóknir hafa sýnt, oftar en einu sinni, að bandarískt kjöt og unnar vörur eru öruggar," segir hann og bætir því við að Bandaríkjamenn ættu að geta selt Íslendingum kjötvörur. "Við hvetjum Íslendinga til þess að halda mörkuðum opnum fyrir vörur frá Bandaríkjunum," segir hann. Ummæli Cunninghams eru í samræmi við fullyrðingar Charlottu Oddsdóttur, dýralæknis hjá Matvælastofnun, sem sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að það væri alls ekki bannað að flytja inn kjötvörur frá Bandaríkjunum til Evrópusambandsins. Miklar upplýsingar lægju fyrir um kjöt sem framleitt væri í Bandaríkjunum og sjúkdómaeftirlit þar í landi gott.
Bandaríska matvöruverslanakeðjan Costco, sem hefur lýst áhuga á að opna verslanir hér á landi, selur úrval af kjöti sem er að sögn Costco vottað af landbún
aðarráðuneytinu þar í landi. Í lýsingu á kjötinu eru gripirnir sem ræktaðir eru og síðan slátrað við kjötframleiðsluna sagðir vera lífrænt ræktaðir.
Eitt dæmið sem finna má á vef Costco er nautahryggur sem er af nauti sem er alið á grasi. Costco segir að nautið sé laust við hormóna eða önnur aukaefni. Hið sama er að segja um nautahakk sem Costco selur. Fyrirtækið selur líka nautarif frá kjötframleiðandanum Pat Lafrieda þar sem fullyrt er að öll sláturdýr séu alin án þess að notuð séu
vaxtarhormón. Dýrin séu alin mannúðlega. Þau lifi á grasi og heyi mesta ævina en fái korn undir það síðasta.
Þessar upplýsingar á vef Costco benda til þess að fyrirtækið eigi umtalsvert úrval af lífrænt ræktuðu kjöti til þess að flytja til Íslands, ákveði verslanakeðjan að hefja starfsemi hér á landi.

þriðjudagur, 15. júlí 2014

Stiglitz: Niðurskurður og áherslur

Það er furðulegt hve föst þessi hugmynd um niðurskurð hjá ríkinu er í hugum nýfrjálshyggjufólks.  
Hvernig sem litið er á efnahags- og atvinnu ástand þá er alltaf þessi draumsýn til staðar.  

Joseph Stiglitz nóbelsverðlaunahafi í hagfræði fjallar um þennan útflutning á bandarískum hugmyndum og áherslum til annarra landa í nýrri grein.  

Það er svo margt sem skiptir máli að hans áliti heldur en sparnaður: 

What matters more for long-term growth are investments in the future – including crucial public investments in education, technology, and infrastructure. Such investments ensure that all citizens, no matter how poor their parents, can live up to their potential.
There is something deeply ironic about Abbott’s reverence for the American model in defending many of his government’s proposed “reforms.” After all, America’s economic model has not been working for most Americans. Median income in the US is lower today than it was a quarter-century ago – not because productivity has been stagnating, but because wages have.
Fjárfesting í menntun, tækni og grunnþjónustu,til að gera öllum kleift að njóta sín, segir Siglitz, sem skilar meiru en sparnaður og skattalækkanir.  Hérna er ársgamalt viðtal úr Independent, enska dagblaðinu, við Stiglitz um efnahagslega þróun eftir Hrunið.  Það er fróðlegt að sjá áherslurnar hjá einum helsta hugsuði hagfræðanna seinustu áratugina. Það er kominn tími til að breyta áherslum frá Hrunverjum til fólksins sjálfs.  Kerfi sem lækkar  meðaltekjur venjulegs fólks meðan eina prósent auðmanna fær nær allan arð sem skapast. 
  


mánudagur, 14. júlí 2014

Gaza: Hjartahlýjandi baráttufundur

Það er erfitt að gleðjast og vera fullur harms og trega um leið. Heimurinn og mannskepnan eru flókin fyrirbæri.  Við horfum á knattspyrnu vikuna út meðan Ísraelsríki murkar niður varnarlausa Gazabúa.  En samt er það þannig að við getum ekki bara lifað við áhyggjurnar og tregann.  Helstu
valdamenn heimsins láta sig ekki vanta á úrslitaleikina þótt þeir ættu heldur að vera að beita áhrifum sínum og vinna að því að stöðva endalausa stríðsleiki valdamanna.  

Nú er það Gaza, íbúarnir þar eru líklega þeir sem hafa þurft að þola mestu hörmungar nokkurs fólks frá stríðslokum seinni.  Þar áður voru það Úkraínubúar, þar sem þjóðernishyggjan hleður upp líkum.  Sýrland kemst varla í fréttirnar núna, þar sem búið er að rústa stóru ríki í tætlur.  Svo eru það önnur átakasvæði sem fá ekki mikla fjölmiðlaumfjöllun. 

Ég fór á mótmælafund niður á Lækjartorgi núna síðdegis.  Það var gaman og hjartahlýjandi hversu margt fólk mætti þarna.  Fólk á ýmsum aldri, margir kunningjar manns frá liðnum baráttuárum, líka mikið af ungu fólki sem hefur fengið nóg af aumingjaskap leiðtoga heimsins.  Sem hafa lagt Sameinuðu þjóðirnar í svaðið þar sem aldrei er hægt að ná samstöðu um eitt eða neitt.   Þetta var stuttur og áhrifamikill fundur, það er upplyftandi að sjá hversu þessi litlu samtök Palestínuvina hafa fengið áorkað undir  stjórn heimilislæknis míns, Sveins Rúnars Haukssonar.  

Við höldum áfram að lifa í þessum heimi þjáninga en um leið eigum við stundir gleði og ánægju með vinum, ættingjum, fótbolti gleður margar, söngur, listir og bókmenntir aðra.  Við reynum að gera okkar besta að rísa upp gegn ofbeldi og skepnuskap.  Því miður gengur það oft seint.  En heimurinn væri verri ef við gerðum ekkert.   

Ég skora á alla að leggja sitt á vogarskálarnar, við styðjum baráttu Palestínuþjóðarinnar fyrir mannsæmandi lífi og lítum með fyrirlitningu á ríki Gyðinga þetta fólk sem ætti að vita meira um þjáningu lítilmagnans.  Nú eru þeir orðnir að kúgurunum.  Með góðri hjálp stórvelda heimsins.  Svei sé þeim.  



sunnudagur, 13. júlí 2014

Náttúruauðlindin Okkar: Án fíflaskapar og græðgi

Það er gott að taka sér frí fra Fésbókinni og Bloggi.  Að hvíla sig á síbyljunni og vinum og kunningjum sem vilja mynda skoðanir manns.  Meira að segja veðrið fær maður ekki að hafa í friði, ég fór austur á Suðurfirði í viku, svo var ég í uppsveitum Árnessýslu í aðra viku. Ef fjölmiðlarnir hefðu fengið að stjórna mér væri þetta afar erfitt sumarfrí hjá mér.  En þrátt fyrir sólarleysi voru margir dagar góðir það skiptir máli hvert fólki er með manni. Ég vil líka óska öllum vinum mínum til hamingju með afmælisdaga í fríinu.  Ég sé líka að ráðandi öfl hafa ekki tekið sig á seinustu vikurnar.  Við sama heygarðshornið. Meira um það seinna!!!!

Ég var uppi á Héraði í þurrki, einning í Þjórsárdal, Geysi, á StóruBorgi í Grímsnesi fórum við í sund í sól þegar rignt hafði töluvert áður svo byrjaði að rigna aftur um leið og við vorum komin upp úr!!!!

Það er merkilegt að koma á höfuðferðastaðina og sjá þennan ferðamannafjölda frá útlöndum og áhuga þeirra og hrifningu yfir landinu okkar. Það er því mikilvægt að eyða þessari auðlind ekki með fíflaskap og grægði.