Það er merkilegt að hugsa til Hrunsins, þið vitið hins svokallaða Hruns, eins og sumir segja. Fundurinn í Háskólanum í vikunni sýnir það. Þar flutti Guðni Th. sagnfræðingur erindi á sinn vandaða hátt og á eftir honum kom "verndari" Davíðs Oddssonar, Hannes nokkur Hólmsteinn sem kemst alltaf að öðrum niðurstöðum ef His Masters Voice á í hlut. Ég er nú hissa á því að Davíð skuli ekki vera búinn að banna honum að minnast á sig.
Guðni tók fram að hann sæi ekki neitt sem styddi við svonefnda
„umsáturskenningu“, en samkvæmt henni hefðu erlend ríki tekið
höndum saman um að knésetja Íslendinga.
Hannes H. kom svo á eftir og á sinn einstaka fræðimannlega hátt var ýmsilegt sem var á annan hátt:
Hannes velti meðal annars fyrir sér ástæðum þess að sumar erlendar
þjóðir virtust sýna Íslendingum hreinan fjandskap á þessum
dögum. Nefndi hann meðal annars óánægju með þá samkeppni sem
Íslendingar hefðu veitt erlendis. Þá nefndi Hannes einnig sem
möguleika að sjálfstæðismál Skota hefði getað verið þáttur, þar sem
Verkamannaflokkurinn hefði viljað sýna þeim hvað sjálfstæði gæti
kostað þá.
Ja, þetta er ný og góð kenning! Að blanda sjálfstæði Skota inn í þetta mál. Og Royal Bank of Scotland, honum var bjargað af því að á bak við hann stóð Bank of England, Seðlabanki Bretlands sem var þess umkominn að koma til hjálpar. Svo bætti hann um betur í RÚV að ráðast á samstarfsmenn sína í Háskóla Íslands, þeir hefðu tekið málstað Breta þessa höfuðóvinar okkar. Já, ráðherraskipaði prófessorinn sem var dæmdur hefur allt á hreinu í sínum óhreinu höndum.
Já, fólk er fljótt að gleyma, ég birti hér að neðan svona til upprifjunar frásögn Rannsóknarnefndarinnar um fall Landsbankans, það er kjarnyrt og spennandi frásögn sem sýnir írafárið sem ríkti þessa dagana. Þar sem maðurinn sem er búinn að skrifa bók og hreinsa sig í útlöndum er aðalskúrkurinn sjálfur, Höfuðpaurinn Björgólfur Thor, sem virðist hafa verið tekinn í guðatölu. Lesið og njótið.
20.4 Fall Landsbanka Íslands hf.
20.4.1 Almennt
Hinn 1. október 2008 var sagt frá því í hádegisfréttum
Ríkisútvarpsins að Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. hefði keypt
fyrirtæki Landsbanka Íslands hf. á sviði fjárfestingarþjónustu og
verðbréfamiðlunar í Evrópu. Um var að ræða fjögur fyrirtæki, þ.e.
Landsbankinn Kepler, Kepler Services í Sviss, Landsbankinn Securities og
Merrion Landsbanki. Í bókun, sem gerð var á fundi bankaráðs
Landsbankans seint að kvöldi 30. september 2008 þar sem salan var
samþykkt, er lýst því ástandi sem komið var upp hjá bankanum og
viðskiptavinum hans í framhaldi af aðgerðum ríkisins gagnvart Glitni. Í
framhaldi af henni er haft eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjóra, um
söluna: "Vegna þessa er ljóst að nokkuð mun ganga á eigið fé
Landsbankans. Hægt væri að hækka hlutafé en slíkt er tímafrekt og
vandasamt í núverandi umhverfi á fjármálamarkaði.Að mati Landsbankans er
nauðsynlegt að selja dótturfélög til að losa um eigið fé sem og
viðskiptavild af bókum bankans. Bókfært virði þriggja félaga er 380 m.
en 250 milljarða viðskiptavild losnar við sölu félaganna og styrkir
eigið fé. Þessi sala mun því gagnast Landsbankanum ákaflega vel og hafa
svipuð áhrif og hlutafjárhækkun. Kaupverðið verður greitt að hluta með
láni til Straums en að hluta með lánasafni sem Straumur mun framselja
Landsbankanum. Jafnframt er gert ráð fyrir að hluti af viðskiptunum
verði að Landsbankinn láni Straumi skuldabréf sem þeir geta notað til
endurhverfra viðskipta við Seðlabankann."
Í kafla 18 er fjallað um Icesave innlánsreikninga Landsbankans. Þar
er einnig fjallað um atburði tengda Landsbankanum sem áttu sér stað í
lok september og byrjun október 2008. Þar er sérstaklega rakið að
Seðlabanki Evrópu setti fram veðkall sem nam 400 milljónum evra gagnvart
Landsbankanum föstudaginn 3. október.
Í minnisblaði bankastjórnar Landsbankans til ríkisstjórnar Íslands,
Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, dags. laugardaginn 4. október
2008, kemur m.a. fram að lausafjárstaða Landsbankans hafi breyst til
hins verra að undanförnu og að "ef fram [haldi] sem horfi [sé] ljóst að
lausafjárþurrð [geti] myndast hjá Landsbankanum á næstu vikum". Fram
kemur að lausafjárstaða bankans í íslenskum krónum sé mjög sterk en
vegna "gjaldeyrisskorts á gjaldeyrisskiptasamningamarkaði og nú nýlega
gjaldeyrismarkaðnum sjálfum [sé] ekki möguleiki að nýta lausafé
Landsbankans í ISK til að framkvæma greiðslur í erlendum myntum". Einnig
segir að bankinn eigi um 500 milljónir evra í framvirkum samningum hjá
íslenskum lífeyrissjóðum sem komnir séu á gjalddaga. Um þetta segir
síðan: "Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir starfsmanna Landsbankans hafa
lífeyrissjóðir ekki fengist til að gera upp þá samninga." Landsbankinn
nefnir loks þrjú atriði sem hugsanlega gætu "aðstoðað bankann í
núverandi þrengingum". Í fyrsta lagi er rætt um möguleika á sameiningu
Landsbankans og Glitnis banka hf. með aðkomu ríkisins. Um þetta segir í
minnisblaðinu að hlutafjáraukning þyrfti að taka tillit til þarfa
sameinaðs banka. Í öðru lagi er rætt um að ríkið geti hætt við
hlutafjáraukningu í Glitni "en set[t] félagið þess í stað í
skiptameðferð". Síðan verði stærstu eignir Glitnis færðar niður og
seldar Landsbankanum og Kaupþingi banka hf. Um þessa leið segir í
minnisblaðinu að verði hún farin telji Landsbankinn "vel mögulegt að
stærstu hluthafar bankans gætu lagt fram nýtt eigið fé" að verðmæti 600
milljónir evra. Loks er í minnisblaðinu rætt um að "sameiningar
fjármálafyrirtækja yrðu kannaðar að því gefnu að slíkar aðgerðir yrðu
taldar lífvænlegar og til þess fallnar að styrkja fjármálakerfið". Síðan
segir: "Að mati Landsbankans er ljóst að ef ekkert verður að gert til
að auka lausafé og mæta rýrnun eigin fjár blasir aðeins við opinber
skiptameðferð á Landsbankanum."
Samkvæmt handskrifuðu minnisblaði Árna M. Mathiesen,
fjármálaráðherra, funduðu fulltrúar Landsbankans með ráðherrum í
Ráðherrabústaðnum kl. 10:30 að morgni sunnudagsins 5. október 2008.
Samkvæmt minnisblaðinu var rætt um lausafjárvanda Landsbankans, Icesave
innlán og horfur á næstu dögum. Haft er eftir Yngva Erni Kristinssyni,
framkvæmdastjóra verðbréfasviðs Landsbankans, að bankinn geti að
óbreyttu ekki opnað næsta dag.
Um hádegi sama dag fundaði bankastjórn Seðlabankans með fulltrúum
Landsbankans.Af drögum Seðlabankans að fundargerð má ráða að farið hafi
verið yfir stöðu bankans og fjármögnunarþörf næstu daga. Fram kemur að
föstudaginn 3. október hafi breska fjármálaeftirlitið (FSA) lagt fram
auknar kröfur um "cash" og að tilkynnt hafi verið um lækkun
fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Evrópu. Hvort tveggja þurfi að reiða fram
fyrir mánudaginn 6. sama mánaðar. Fram kemur að Sigurjón Þ. Árnason hafi
lagt til að sett verði lög sem setji innlán framar skuldabréfum í
forgangsröð og geri ríkinu kleift að taka eignir út á móti til þess að
standa undir skuldbindingum.
Samkvæmt handskrifuðu minnisblaði Árna M. Mathiesen funduðu fulltrúar
Kaupþings banka hf. og Landsbankans með ráðherrum kl. 17:00 sama dag,
þ.e. 5. október 2008. Á fundinum lögðu fulltrúar bankanna tveggja fram
sérstakt minnisblað. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, lýsti
því við skýrslutöku að hann, Sigurður Einarsson, formaður stjórnar
Kaupþings, og Lýður Guðmundsson, forstjóri Exista, hefðu fundað með
Björgólfi Thor Björgólfssyni nokkrum dögum áður. Hreiðar segir að
Björgólfur Thor hafi þá verið búinn að taka yfir stjórn Landsbankans.
Hreiðar segir að fulltrúar Kaupþings hafi ekki fengið réttar upplýsingar
um stöðu bankans frá Björgólfi Thor. Um þetta segir Hreiðar: "[...] það
var logið að okkur. Og við hringjum í hann [Björgólf Thor Björgólfsson]
fyrir fundinn á sunnudeginum, hvort það sé búið að leysa þessi mál,
augljóslega því vorum að keyra þessa hugmynd að bjarga bæði
Landsbankanum og okkur, og hann staðfesti það við Sigurð og ég hlusta á
það símtal: Það er í lagi, við erum búnir að redda þessu. Svo við förum
aftur með þessa tillögu til ríkisstjórnarinnar og þá er stærri fundur,
þá er kominn Jón Sigurðsson, stjórnarformaður FME, Jón Þór Sturluson er
líka mættur, aðstoðarmaður Björgvins, og svo þessir ráðherrar, eins og
áður, og Baldur og Bolli."
Við skýrslutöku lýsti Sigurður Einarsson því að að kvöldi 3. eða 4.
október 2008 hefði Kjartan Gunnarsson, varaformaður bankaráðs
Landsbankans, haft samband og farið fram á fund með Kaupþingsmönnum.
Sigurður sagði: "Og við hittum hann kl. eitt um nóttina. Og ég man bara
að manni var mjög brugðið, Kjartan greinilega alveg í "sjokki" og spurði
hvort við gætum ekki yfirtekið Landsbankann, þetta væri búið. Við
vissum tæplega náttúrulega hvað karlinn átti við og formaður
Landsbankans var hvergi nærstaddur og hluthafi Landsbankans var hvergi
nærstaddur og þetta var bara eitthvert upplausnarástand. Svo náði ég nú í
Björgólf Thor, sem greinilega – þótt hann þykist ekki með markaskrána
að gera var nú greinilega allt í öllu – og hann sannfærir mig um það að
Landsbankinn sé búinn að leysa úr sínum verstu málum. Og ég verð
náttúrulega mjög glaður við og við förum um morguninn og hittum
ráðherrana og allan þennan flokk þarna í Ráðherrabústaðnum." Fundinum
með ráðherrum að morgni sunnudagsins 5. október 2008 lýsti Sigurður
Einarsson með eftirfarandi orðum: "Og við förum að útlista þessar
hugmyndir um að það væri best að Landsbankinn og Kaupþing geri þetta í
sameiningu, þ.e. taka yfir Glitni og bjarga þessu kerfi. Og við sjáum að
það kemur furðusvipur á ráðherrana. Og þá er okkur ljóst að
Landsbankinn hefur sagt þeim eitthvað annað, þeir höfðu þá sagt okkur
ósatt kvöldið áður. Svo koma þeir inn bankastjórarnir og Björgólfur
Thor. Og ég fer eitthvað að spjalla við þá í anddyrinu, á ganginum. Og
Halldór Jón fer að vera með einhverjar ægilegar vangaveltur um að þetta
sé allt búið o.s.frv. Þá kemur Björgólfur Thor og rífur í hann inn í
herbergi og vill greinilega ekki að við náum að tala saman.Mér fannst
þetta allt mjög undarlegt.Við förum yfir í Tjarnargötu og vorum búnir að
leggja undir okkur húsið sem Exista á í næsta húsi við
Ráðherrabústaðinn.Vorum fljótir til ef einhverjir skyldu vilja tala við
okkur. Þá síðar þann dag, ég held að ég fari rétt með atburðarásina, þá
fréttum við af þessum "margin call-um" í til dæmis í evrópska
seðlabankanum, sem Landsbankinn hafði aldrei sagt okkur af. Og þá gerum
[við] okkur grein fyrir því að Björgólfur Thor hafði verið að segja mér
ósatt. Og veit ekkert hvort það hafði áhrif á það sem gerðist á eftir,
að við vorum ekkert kallaðir aftur inn í Ráðherrabústaðinn.
En í rauninni leið bara restin af helginni að við héngum þarna og
biðum og biðum og biðum, og það næsta sem við vitum er að það er einhver
bein sjónvarpssending frá tröppunum á Ráðherrabústaðnum þar sem
forsætisráðherra segir að allt sé í stakasta lagi og ekki ástæða til að
gera neitt."
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis ræddi Árni M.
Mathiesen um minnisblöð sín af fundum með bankamönnum þessa helgi:
"Þessir hérna punktar hérna hjá mér, þetta eru lýsingar á fundum þar sem
að bankamenn voru að ljúga að okkur." Árni segir: "Og verstur var
Björgólfur [Thor Björgólfsson] [...] og hann var að ljúga að hinum líka
og þeir komu svo bara um kvöldið og sögðu: Það er ekkert að marka það
sem þessi maður segir. Þeir voru að reyna að finna leið til að sameina
Kaupþing og Landsbankann til þess að þeir gætu staðið þetta og
Björgólfur sagði bara:Við reddum þessu og við reddum þessu."
Um kl. 16:00 sunnudaginn 5. október 2008 segist Jón Steinsson,
hagfræðingur, hafa mætt í Ráðherrabústaðinn, en hann hafði einnig fundað
þar fyrr sama dag. Jón segir að hann hafi ásamt Friðriki Má
Baldurssyni, hagfræðingi, beðið eftir því að fundur hæfist með
ráðherrum. Sá fundur hafi hafist um kl. 18:00. Í millitíðinni hafi
bankamenn komið og farið. Jón segir að á meðan biðinni stóð hafi hann
heyrt ýmsar sögur og rakti hann eina sem dæmi: "[...] ein sagan er sú
einmitt að Landsbankamennirnir hafi farið inn og lagt eitthvert plan
fyrir ríkisstjórnina og að það hafi verið augljóst á látbragði Sigurjóns
Árnasonar að hann hafi ekki haft trú á þessu plani og Árni Matt hafi
tekið eftir þessu og eftir að fundurinn var að leysast upp hafi Árni
Matt komið að máli við Sigurjón og spurt hann eitthvað svona: "Hefurðu
trú á þessu?" Og þá hafi Björgólfur Thor tekið utan um Sigurjón og í
rauninni hrint honum út úr heherberginu og lokað á nefið á Árna Matt. Þetta var sagan sem ég heyrði."