ferðamennsku hjá honum. Ég sem hafði hitt Sissa fyrst árið 1976, um haustið, á Hlíðarenda, síðan nær á hverju ári eftir það fyrir utan 4 ár þegar við Bergþóra dvöldumst í útlöndum.
Ég tengdist Sigurði og Ásdísi konu han í gegnum konu mína, Ásdís er systir hennar. Þau voru með búskap á Hlíðarenda í norðurdalnum í Breiðdal. Þar dvöldust börn okkar mörg sumur, fyrst hjá Gísla föður Bergþóru og Sigurbjörgu móður hennar, en þarna voru tveir bæir, Hlíðarendi og Þrastahlíð, síðan hjá Ásdísi og Sissa. Það var oft mikið um að vera hjá þeim, þau tóku á móti börnum í sumardvöl frá Reykjavík sem urðu fjölskylduvinir alla tíð og sum vinir okkar.
Þegar aðrir fóru að hugsa um starfslok, fóru þau í ævintýri ferðamennskunnar, keyptu þrjá bústaði sem stéttarfélög höfðu átt í Breiðdalnum og komu upp ferðaþjónustu sem stækkaði og blómgaðist, lítið fjölskyldufyrirtæki sem með tímanum stóð ágætlega undir sér. Þau lifðu og hrærðust í þessum heimi, maður fékk oft skemmtilegar sögur og fréttir af kúnnum og atburðum. Síðar kom sonursonur þeirra Siggi Boggi inn í starfið með þeim og hefur meira að segja menntað sig í þessari grein. Svo hófu þau líka sauðfjárbúskap að nýju, og við hjónin voru meira að segja dregin í leitir á gamals aldri!
Sissi var hlýr og einlægur maður, sem alltaf kom manni á óvart. Hann var völundur í ýmis konar tækni, maður fékk fréttir hjá honum árlega um samskipti hans við umheiminn, hann sýndi manni hreykinn samband við tyrkneska sjónvarpsstöð eða pólska handboltasýningu, þegar flestir Íslendingar létu sér næga íslenskar sjónvarpsstöðvar. Hann var hjálplegur nágrönnum sínum við að koma upp slíkri tækni, gervihnattadiskur hans var engin smásmíði. Sissi hafði mikla tónlistargáfu, hafði spilað á orgel og stjórnað kirkjukórnum á Djúpavogi og spilað í danshljómsveit. Brúnin lyftist á honum þegar hann spilaði eitthvað gott frá rokktímabilinu, Elvis, Jerry Lee eða Johnny Cash! Hann var laginn við börn og samband hans við þroskaheftan son sinn var einstakt, sonarsynir hans voru í stöðugu sambandi við hann og ansi er mikill missir þeirra, föður þeirra Arnaldar, Gróu konu hans svo og Ásdísar.
Lífið í Norðurdalnum verður ekki eins og áður þegur Sigurður Vilhelm tekur ekki á móti manni. En svona er lífið, því lýkur og minningarnar eru eftir. Sissi veiktist í haust af krabbameini, hann lá fyrst á Landspítalanum í Reykjavík sem við heimsóttum hann, það var auðséð að hverju stefndi. Hann lá svo seinustu vikurnar á Sjúkraheimilinu á Egilsstöðum til að geta verið nær ættingjum. Nú er hann horfinn og skemmtileg atvik koma upp í hugann. Og lífið heldur áfram fyrir okkur hin.
Við eigum vonandi eftir að koma í þennan fallega dal, það er einstök náttúrufegurð, gönguleiðir og fjallasýn. Við höfum prílað upp um fjöll og firnindi, með og án barna, að sumarlagi. En það getur verið kuldalegt og hryssingslegt veðrið eins og það var á laugardaginn var þegar við kvöddum Sigurð Vilhelm Kristinsson í hinsta sinn, um kvöldin hvessti og rigndi allt að því eldi og brennisteini. Það hrikti í húsunum í dalnum og upp í minnið komu sögur um þök sem lyftust af húsum og hurfu út í buskann um niðdimma nótt en sem betur fer búum við í dag oftast við önnur skilyrði. Þegar við kvöddum Breiðdalinn á sunnudeginum hafði snjórinn og klakinn minnkað, fjöllin voru allt öðru vísi en þegar við komum. Þegar við keyrðum út dalinn, hljóp heil hreindýrahjörð yfir veginn. Börnin sem voru í bílnum með okkur urðu uppnumin. Þau höfðu séð hreindýr í fyrsta skipti!