þriðjudagur, 24. nóvember 2015

Ólafur Ragnar: Konungur Norðurheimskautsins

Þessi frétt fær dreifingu um allan heim.  Fyrrum utanríkisráðherra Noregs kvartar yfir dugleysi norsku ríkisstjórnarinnar í Norðurheimskautsmálum.  Ólafur Ragnar hefur tekið forystu í umræðunni allir sem máli skipta mæta á Arctic Circle Ráðstefnuna.  Reykjavík er orðin höfuðborg Norðurheimskautsins segir Støre. Jafnvel Hollande mætir í Reykjavík! Þar er innsiglað bandalag Ólafs Ragnars og Hollande.  Sem blómstrar í hryðjuverkaógninni.  Honum er margt til lista lagt. Eða hvað?


Jonas Gahr Støre, leader of the Norwegian Labor Party and former foreign minister, complains President Ólafur Ragnar Grímsson is stealing the scene, RÚV reports. He claims Norwegians are losing the initiative in the discussion of the Arctic.
The party leader has recently complained that those most interested in the Arctic have attended the Arctic Circle Conference in Reykjavík, while the Norwegian government did nothing to keep the
initiative.
Last night, in Tromsø, Norway, Støre spoke of this problem, but yesterday marked the tenth anniversary of his introduction of the Arctic policy as the core of Norway’s foreign policy.
Now, he said, the Icelandic president had taken leadership in the discussion by inviting all the major heavy-weights on the subject to a conference in Reykjavík, three years in a row. Even François Hollande attended. Simultaneously, he continued, nothing occurs in Norway and the Barents Euro Arctic Council, which was intended as a platform for discussion, courtesy of Norway, is partly paralyzed and contemned. The world has begun to see Reykjavík as the capital of the Arctic, despite resolutions declaring Tromsø as such. No one comes to Tromsø.

sunnudagur, 22. nóvember 2015

Ólafur Ragnar sér að sér

Gamall samherji minn í pólitík hefur séð að sér. Það er kominn tími til. 
Ólafur Ragnar Grímsson hefur í tvígang í vikunni rætt um ógnina af afskiptum Saudiaraba af trúmálum Islamtrúarmanna á Vesturlöndum og víða um heim. Seinast á Rás 2 í morgun.

Hann bendir á að Sádi-Arabía hafi meðal annars fjármagnað innrætingu öfgafullra íslamista. „Sádi-Arabía hefur styrkt moskur, skóla, þar sem ræktað hefur verið og kennd og ungir karlmenn aldir upp í hinni öfgafullu útgáfu af íslam.“ Ennfremur segir Ólafur Ragnar að skjöl sendiráðs Sádi-Arabíu, sem birt voru á vefsíðu Wikileaks, gefi ekki rétta mynd af fundi hans með sendiherranum. „Svo birti
 sendiráðið einhverja furðufrásögn, sem kom svo á Wikileaks, um þessar samræður mínar, sem eru meira og minna uppspuni og ýkjur,“ segir Ólafur. Hann hafi sjálfur vakið athygli á boði sendiherrans um fjárhagslegan stuðning við trúfélög á Íslandi, og segir mikilvægt að velta fyrir sér hver tilgangur Sádi-Arabíu sé með því að skipta sér af trúmálum hérlendis.

 Það er skrítið að hann skuli ekki nefna aðra valdhafa á Arabíuskaga sem hann hefur sjálfur haft náin samskipti við. Allt að því flaðrað upp um.  Þrátt fyrir það að margir hafi varað við þeim samskiptum.  Þetta eru harðstjórar, einræðisherrar og glæpamenn í okkar skilningi þar við völd.  Auðvitað þurfum við að hafa opinber samskipti við þessar þjóðir eins og margar aðrar einræðisþjóðir eins og hefðbundin utanríkissamskipti bjóða upp á. 

En þetta eru þjóðir sem við eigum ekki að binda trúss við.  Sama á við um stjórþjóðirnar í austri Rússland og Kína.  En hvað um Bandaríkin, Bretland og Frakkland segja sumir eru þetta ekki líka þjóðir sem maður verður að vara sig á?  Á vissan hátt.  Það voru þessar þjóðir sem fóru alranga leið eftir 11. september forðum.  Við létum meira að segja draga okkur inn í þessi stríð illu heilli.  En við getum samt ekki borið saman stjórnskipan þessara landa við fyrrgreind ríki.  

Ýmsir hafa látið ýmislegt hafa eftir sér um aukinn vopnabúnað lögreglu.  Ég er friðarsinni svo ég get tekið undir margt sem þar er sagt. En ......... hvert ríki verður að sjá um sitt innra og ytra eftirlit, þar hugsa ég að við Ólafur Ragnar séum sammála.  Hvað valkosti eru þar í boði?  Við erum í NATO, við getum beðið um varnarlið eða sveit hérlendis.  Annað er að hafa aukinn vopnabúnað tiltækan ef við fengjum árás ISIS hér á landi, þó án þess að sjá vopnaða lögreglu daglega.   Getum við útilokað það með öllu. Þegar við höfum upplifað það seinustu árin að það er komin hreyfing í heiminum þar sem meðlimir hennar eru tilbúnir að fórna lífi sínu til að drepa saklaust fólk sem hefur ekki sömu viðhorf og þau í trúmálum.  Það þriðja er að gera ekki neitt, láta eins og ekkert hafi gerst. 

„Eðli þeirra og umfang að aðferðirnar voru þannig að nú áttuðu menn sig á því að nú var þetta, kannski ekki nýr tími, en það dugðu ekki lengur þær aðferðir og þær umræðuáherslur sem áður höfðu verið ríkjandi,“ segir Ólafur Ragnar. „Og hvort sem að frjálslyndum öflum svokölluðum líkar það betur eða verr, þá er það núna orðið viðfangsefni kjörinna fulltrúa víða í Evrópu, að koma í veg fyrir að venjulegt fólk sé drepið,“ segir hann.

Ekki sé ég ástæðu til að blanda því saman við móttöku flóttafólks, sá hópur sem við tökum á móti verður aldrei það stór að við getum ekki haft eftirlit í okkar litla samfélagi.  Fólk sem er á móti öllu sem útlenskt er er í mínum augum oftast með kynþáttafordóma.  Það er mál allt annars eðlis en hryðuverkastarfsemi. 

Ég vona að umskipti Forsetans hafi ekkert að gera með það að hann ætli aftur í framboð. Því mér finnst nóg komið.  Ólafur er að vísu hamhleypa til verka eins og heimasíða forsetaembættisins sýnir: forseti.is.  Ég held að það sé kominn tími að við fáum sjálfsævisöguna  sem fær marga til að snúa sér við bæði í rúmum og gröfum.  Það er margt til í lífinu utan valdastóla. Margir aðrir góðir stólar. 
 

föstudagur, 20. nóvember 2015

Meistarar: Dagur Kári og Nína Tryggvadóttir

Við sem stundum bloggskrif erum of oft á neikvæða gírnum.  Því miður eru tilefni til þess mörg.
En við megum ekki gleyma því góða, fagra og snilldarlega sem gert er umhverfis okkur.

Ég hafði vanrækt að koma mér á Fúsa, hina undursamlegu mynd Dags Kára,þegar hún var í bíó, en leigði hana svo í gærkvöldi á Símanum.  Ég bjóst við að þetta væri góð mynd, en guð minn góður þvílík snilld. Saga þessa fólks, Fúsa, vinkonu hans, móður, vinnufélaga og kunningja, greip mann heljartökur. Þessi ljóðræni stíll.  Andlit og skrokkur Fúsa, þessarar góðu sálar sem þarf að upplifa og þjást mikið til að rísa upp, hefur tekið sér bólfestu í huga
mínum, það er ótrúlegt hvernig Guðjón Jónsson og Dagur Kári hafa mótað þessa persónu.  Sama má segja um veikluðu vinkonuna í túlkun Ilmar Kristjánsdóttur. Umhverfið, Reykjavík þar sem bíll Fúsa líður um, uppáhaldsstaðurinn, samskiptin við útvarpsmanninn, fullorðnir menn sem eru börn.  Það er engin furða að þessi mynd fékk Norðurlandaverðlaunin og sópar að sér verðlaunum víða um heim.  Mannlegi þátturinn grípur alla. Einu orði Meistaraverk.

Á sunnudaginn var fór ég í Listasafn Íslands.  Seinast þegar ég skrapp þangað í vetur sem leið var fátt um manninn enda einhver Norræn sýning með eftirprentunum. En nú var fullt hús af fólki.  Tvær stórsýningar í gangi. Nínu Tryggvadóttir Ljóðvarp og Nína Sæmundsson Listin á
hvörfum. Sýning Nínu Tryggvadóttur lagði mig kylliflatan.  Ég hafði ekki séð svona mikið af myndum hennar áður.  Þróun hennar yfir í Abstraktið. Að standa í stóra salnum á fyrstu hæð á miðju gólfinu og horfa á þessa lita og formdýrð. Svona gera ekki nema snillingar.  Ég lyftist upp. Þetta var sama tilfinningin sem ég fékk í Berlín fyrir hálfum mánuði, þar var sýning

Von Hockney bis Holbein Die Sammlung Würth in Berlin

400 myndir úr eigu þýsks auðmanns og listaverkasafnara í Martin Gropius Bau safninu.  Þar var heilt herbergi með árstíðamyndum Hockneys úr enskri náttúru.  Tilfinning mín hjá Nínu var ekki síðri.  Upphafning sem bara list getur veitt manni.  Hallelúja!

 Já góðir lesendur það er svo margt gott umhverfis okkur.  Gleymum stjórnmálum og hrepparíg um stund. Njótum listar. Gleðjumst. 

fimmtudagur, 19. nóvember 2015

79 % tilfella: Guðlaugur Þór er sár.

Guðlaugur Þór verður fyrir vonbrigðum.  En enn einu sinni sannast það að vinnavæðing ræður nær alls staðar í ríkisbákninu.  Ráðherra og embættismenn vilja hafa puttana þar sem þeim sýnist. Gaman væri að sjá einstakt ráðuneyti og stofnanir.  Það þarf ekki að ræða þetta nánar, tölurnar tala sínu máli. Sparnaður skipir ekki máli.  Eflaust heyrum við afsakanir, þeir sem viðkomandi treysta og hafa unnið með.  Útboð taka svo mikinn tíma.  Vinna þarf hratt og tíminn kostar fjármundi.  Svo Guðlaugur Þór er sár.  Þetta segir Mogginn, sjaldan lýgur hann.

Ekki boðið út í 79% til­fella

 Hlut­fall stofn­ana sem bjóða út í hverj­um flokki er: Tölvu- og fjar­skipta­búnaður 42,5%, fjar­skiptaþjón­usta og hýs­ing 45,6%, hug­búnaðargerð vegna heimasíðu eða gagn­virks kerf­is 14,4%, raf­orka 7,5%, iðnaðar­menn 18,8%, hug­búnaðarleyfi 18,8% og al­menn rekstr­ar­ráðgjöf 1,3%.

þriðjudagur, 17. nóvember 2015

Forseti vor: Gamlar fréttir og nýjar

Nýjar fréttir af Forseta vorum.  Samt eitthvað gamalt.  Forsetinn tilkynnir með gleði og glaumi að Sádi Arabía styðji byggingu mosku í Reykjavík í marsmánuði síðastliðnum, nú er sú gleði farin : 
Í mars var fréttin svona, 5. 3. 2015:

Sendiherra Sádi Arabíu

Forseti á fund með nýjum sendiherra Sádi Arabíu, Ibrahim S.I. Alibrahim, sem afhenti
trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum og flutti forseta sérstaka kveðju nýs konungs Sádi Arabíu, Salman bin Abdulaziz Al Saud. Rætt var um áhuga íslenskra aðila á að kanna jarðhita í Sádi Arabíu, einkum með tilliti til kælingar húsa. Fjallað var um þróun mála í Mið-Austurlöndum og vaxandi átök á svæðinu. Þá greindi sendiherrann frá því að Sádi Arabía styddi byggingu væntanlegrar mosku í Reykjavík, myndi leggja fram rúmlega eina milljón Bandaríkjadala til byggingar hennar og að hann hefði í gær skoðað lóðina þar sem moskan myndi rísa.


Í dag var fréttin svona, 17.11. 2015: 

Þessi ákvörðun erlends ríkis að fara að skipta sér af trúarbrögðum á Íslandi á sama hátt og það hefur gert vítt og breytt um veröldina, fjármagnað skóla þar sem öfgakennt islam er ræktað, og ungir karlmenn aldir upp í þeim viðhorfum, er það áminning til okkar Íslendinga að við verðum að hefja nýja umræðu. Um leið og við eigum ekki að fara fordæma flóttamenn og hlaupa frá samfélagi fjölmenningar og umburðalyndis eigum við ekki heldur að lifa í barnalegri einfeldni um það að með einhverjum aðgerðum á sviði umburðalyndis og félagslegum umbóta sé hægt að taka á þessum vanda.“

Þetta segir hann á Bylgjunni í dag, forsetinn er ekki daglegur gestur í útvarpi allra landsmanna, nei núna er það Í bítið. Orðalag hans er fjarri orða þingmanna og ráðherra.   Hann er árrisull forseti vor.  Ætli hann hafi fengið samþykki ríkisstjórnar fyrir þessum ummælum? Varla hann veit að hann getur gert það sem honum sýnist.  Guðfaðir ríkisstjórnarinnar.  

Það hentar honum vel að vita sem minnst af nýrri stjórnarskrá.  Og forsætisráðherrann vísar í það í viðtali í gær, forsetinn er óánægður. Um leið geiflar Sigmundur Davíð sig og grettir.  Nú líst Forseta vorum  vel á nýtt bandalag Obamas Pútins og Hollandes.  Þá er gott að gleyma vinum og samstarfsaðilum á Arabíuskaga.   Við hin barnalegu eigum að stíga verlega til jarðar á jarðsprengjusvæðum heimsins. 

„Þetta er gersamlega ný staða sem allir þurfa að ræða á rólegan og yfirvegaðan hátt og átta sig á því að þetta eru þáttaskil og við megum ekki fara að úthrópa hvert annað í þessari umræðu heldur sýna hvert öðru skilning og hlusta á þau sjónarmið sem hver og einn kann að hafa. Þó okkur finnist kannski sumt af því vera frekar öfgakennt.“

Forseti vor hefur fundið nýjan sannleika, ekki í fyrsta sinn.  Þá yfirgefur maður gamlar og úreltar hugmyndir. Gamlir vinir gleymast fljótt.  Friður er úrelt hugtak.  Ætli það sé ekki frekar úrelt.  


Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.

Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
































mánudagur, 16. nóvember 2015

Lögreglan: Botnlaust virðingarleysi?

Ég er nú enginn sérstakur stuðningsmaður lögreglu, kynntist slæmum hliðum hennar í sambandi við baráttu gegn herstöðvum á Íslandi fyrir nokkrum áratugum.  Svo vitum við um eftirlit hennar með vinstrimönnum um áratugaskeið, svo og eyðingu gagna sem varðar slíkar njósnir.   

En ég held samt að flest sem lögreglan gerir í daglegu starfi er faglega unnið, flest okkar þekkja lögreglumenn persónulega og oftast er það vandað fólk.  Þó er ekki alltaf svo, yfirmenn hafa
farið offari í einstöku málum, og yfirlýsing eins og formaður Lögreglufélags gaf nú um helgina er ekki til að skapa traust. 

Þess vegna finnst mér yfirlýsing Kapteinsins góða, Helga Hrafns ansi vafasöm í DV : 

„Ef það liggur á að efla vopnabúnað eða auka valdheimildir lögreglunnar, þá verður fyrst að koma á fót sjálfstæðu eftirliti með lögreglu - og ef það liggur á, drífum þá í því. Lögreglan leyfir sér nú þegar botnlaust virðingarleysi fyrir réttindum borgaranna og við eflum ekki valdheimildir hennar fyrr en við höfum allavega byrjað á að leysa það vandamál.“

Botnlaust virðingarleysi fyrir réttindum borgaranna, er það ekki einum um of?  Auðvitað þarf að vera eftirlit með lögreglunni eins og öllum öðrum stofnunum, það get ég tekið undir.  En þetta orðalag kafteinsins er vafasamt.   Ef slíkt ástand væri til staðar, væri neyðarástand hér á flestum sviðum almennrar löggæslu, ég sé það ekki í mínu nærumhverfi.  En eftirlitið, er ekki eðlilegt að Helgi Hrafn og fleiri góðir alþingismenn berjist fyrir þeim málum á greinargóðan og rökstuddan hátt í sínum vinnustað?

„Þegar yfirvöld öðlast meira vald í hvaða formi sem er, þá verður að vera mótvægi. Eins og staðan er núna er mótvægið lítið sem ekkert og það hreinlega verður að leysa það vandamál fyrst, áður en lengra er haldið í valdeflingu lögreglunnar,“ segir hann.

Það er eðlilegt að umræða og framkvæmdir í framhaldi af henni fari fram þegar við höfum á nokkurra mánaða fresti atburði sem þá í París.  Sumir málsmetandi bloggarar og skoðanamiðlarar dreymir um það að við búum í sérstökum heimi á Íslandi.  Svo er ekki við verðum að vera með ábyrgan undirbúning ef slíkt skyldi gerast.  Til þess höfum við stjórnkerfi. Og kerfinu þurfum við að geta treyst. Sama hverjir sitja í ríkisstjórn. 

laugardagur, 14. nóvember 2015

Hryðjuverk og óhugnaður

Það er óhugnaður í okkur sem búum í Vestur-Evrópu. 
Enn ein hryðjuverkaárásins, gerð til að skapa ótta og örvæntingu. 
Sem virðist takast ágætlega.Stór hópur fólks liggur í valnum.  Myndir af grátandi fólki í öllum fjölmiðlum sem skreið um gólf til að bjarga lífi sínu.  Minniseldar og blóm.

Það hlakkar í rasistum, nazistum og fazistum, víða um heim.  Hvað sögðum við ykkur, básúna þeir á netsíðum. Það eru þeir óvinirnir, sem eru frá öðrum menningarsvæðum sem eiga að vera heima hjá sér. Hvernig svo sem það er hægt.  Þegar vopnin frá vopnaframleiðendum í löndum vina okkar valda þessum hörmungum sem eru rót vandans.  Bush Blair styrjaldirnar sem skiluðu milljónum flóttamanna, höfðu í för með sér uppgang ISIS með bandarískum vopnum.  Hugleysi Obamas að takast á við vandann og efna loforðin sín í upphafi ferils síns.  

Svo hvað getur Vestur-Evrópa gert?  Á að loka álfunni með veggjum eins og Ísraelsmenn gera gagnvart Palestínumönnum.    Á að sökkva skipum og drekkja flóttafólki, á að skjóta alla sem vilja nálgast okkur?  Það er til nóg af vopnum?  Spurningarnar eru fleir en svörin. Hvernig á að ljúka Sýrlandsstyrjöldinni.  Hvenær verður Írak aftur íbúavænt land?  Afghanistan?  Hvernær verðum við samkvæm okkur sjálfum, fyrirlítum harðstjóra hvar sem þeir eru, hættum að dæla vopnum um allan heim.  

Ég var á Þýsklandi og á Spáni í seinasta mánuði.  Alls staðar hefur fjölmenningin tekið yfir.  Með sína kosti og galla.  Kostirnir eru fleiri.  Á meðan óréttlæti og fordómar eru til staðar getum við alltaf átt von á atburðum sem þessum.  Það er engin ofurlausn til.  Þó held ég að manngæskan skili mestu til frambúðar.  Við erum ekkert æðri öðrum. Mál þarf að leysa með samræðum og samningum.  Það er engin betri lausn til.