mánudagur, 14. mars 2016

Sigmundur Davíð í uppnámi

Æðsti valdamaður þjóðarinnar er snillingur að setja allt í háa loft.  Hann er með heimsmet í því. Hann safnar heimsmetum.
Nú er Landspítalinn floginn á Vífilsstaði.  Það liggur ekkert á að fá nýjan spítala, 83.000 manns skipta engu máli.  Hvað heldur hann að það taki langan tíma að hanna annað sjúkrahús? Það skiptir engu máli.  Hann er með hugmyndir, við erum líka með hugmyndir, en við þörfnumst sjúkrahúss sem fyrst. Við þurfum ekki fleiri hugmyndir. Við þurfum framkvæmdir.





Háskólinn titrar af seinustu útspilum meistarans. Sjálfstæði Háskólans einskis virt. Ráðherrann ætlar að taka yfir friðlýsingar landsins. Hann veit ýmislegt um skipulagsmál það gera líka fleiri.  En við viljum hafa lýðræði.  Við horfum á of marga valdamenn sem framkvæma og vita allt betur.  Þeir hafa komið heiminum á heljarþröm, við þurfum ekki fleiri. 

Vegna viðbragða rektors og þjóðminjavarðar við yfirlýsingu sem við
undirrituð sendum frá okkur 11. mars síðastliðinn um nýjan
samstarfssamning Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns tökum við eftirfarandi
fram: Fullyrðing þjóðminjavarðar um að samningurinn í núverandi mynd hafi
verið kynntur yfirstjórn Þjóðminjasafns og samþykktur af henni stenst
ekki, eins og mætti sannreyna með því að skoða fundargerðir
framkvæmdaráðsfunda. Samningurinn var vissulega kynntur háskólaráði, sem
þjóðminjavörður situr í, en það breytir því ekki að lokagerð hans var
hvorki kynnt í samstarfsnefnd Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands, þar sem
við sátum, né heldur kynnt yfirstjórn Þjóðminjasafnsins með formlegum
hætti. Við samninginn hefur bæði verið bætt fjölmörgum atriðum og öðrum
breytt sem við höfum aldrei lýst fylgi við og sáum aldrei fyrir undirritun
og fengum ekki tækifæri til að ræða á fundum.
 
Okkur sem vorum fulltrúar Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns Íslands í
samstarfsnefndinni var ætlað að gera hinn nýja samstarfssamning. Við
héldum opinn samráðsfund með starfsmönnum og stúdentum innan Háskóla
Íslands og starfsmönnum Þjóðminjasafns, vel sóttan og vel heppnaðan. Úr
fram komnum hugmyndum og tillögum unnum við á fjölmörgum fundum með
tilstyrk tveggja sviðsforseta og setts þjóðminjavarðar. Við töldum að við
hefðum komist að ásættanlegri niðurstöðu fyrir alla sem málið snertir en
það var þá hrifsað úr höndum okkar og okkur ýtt til hliðar
án nokkurra skýringa. Við fullyrðum að við hefðum kosið að bera lokagerð
samningsins undir samstarfsmenn, og þar með stúdenta, en til þess gat
aldrei komið.
 
12. mars 2016
 
Bryndís Sverrisdóttir
Helgi Þorláksson
Sigurjón Baldur Hafsteinsson
Steinunn Kristjánsdótti
 

 
 

föstudagur, 11. mars 2016

Einkarekstur,Ofurgróði: Almenningur borgar

Hjallastefnan í uppnámi.  Fjöldi lykilstarfsmanna yfirgefur Margréti Pálu.  Vonarstjarna einkareksturs í skólakerfinu missir tökin.  Eða hvað?  Stundin fjallar um þetta í dag. 

Fjöldi fólks hefur sagt upp störfum hjá Hjallastefnunni eftir að Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, ákvað að stíga aftur inn í stjórn félagsins. Auk stjórnar Hjallastefnunnar og framkvæmdastjóra ákváðu fjármálastjóri, starfsmaður á rekstrarsviði,
verkefnastjórar á grunnskóla- og leikskólasviði og nokkrir starfsmenn í skólum að segja upp þegar ákvörðun Margrétar Pálu lá fyrir. Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri, segir að stjórnin hafi ákveðið að stíga til hliðar vegna áherslumuns við aðaleiganda og að hún hafi ákveðið að fylgja stjórninni.

Ríkisstjórnin hefur verið ansi höll undir hugmyndir um einkavæðingu í heilbrigðis og menntakerfinu. Framsóknarflokkurinn hefur gefirð Sjálfstæðisflokknum frjálsar hendar þar.  Útþensla Hjallastefnunnar hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Mikið tap seinasta árið og varla annað fyrirsjáanlegt svo Margrét Pála aðaleigandinn stígur inn sjálf, hættir með miðstig grunnskólans.  Þetta sýnir enn á ný að einkavæðing er erfið í menntakerfinu.  Einu stofnanir sem hafa staðið sig eru Skóli Ísaks Jónssonar og Tjarnarskólinn.  Öllum er í fersku minni örlög og undanskot fjármuna hjá Hraðbrautinni.  Margrét Pála er staðráðin að rétta þetta, hún fær örugglega góða hjálp Menntamálaráðherra. Eða hvað?

Heilbrigðiskerfið virðist bjóða upp á betri tækifæri fyrir ofurgróða.  Eins og dæmin sanna.  Sjúklingarnir borga góða viðbót við það sem kemur frá Sjúkratryggingum, þar er forstjóri góður fylgismaður einkaframtaks Steingrímur Ari, svo fjármunir renna þaðan endalaust án nokkurra óþægilegra spurninga, meðan annars staðar ríkir ofurstjórn.  Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er ekki boðið upp á viðráðanlega þjónustu fyrir meðal Íslending í því kerfi.  Fólk sem lendir í erfiðum og lífshættulegum sjúkdómum þarf að punga út hundruðum þúsunda.  Þetta kerfi er heldur ekki að byrja hjá Kristjáni Þór, vinstri menn hafa algjörlega brugðist í þessum málaflokki og koma alltaf af fjöllum þegar rætt er um þetta þegar óþægileg dæmi koma upp.  Sama hvort Álfheiður, Ögmundur eða Guðbjartur voru ráðherrar.  Við borgum langt umfram það sem tíðkast  í nágrannalöndum okkar.  Svo gróðatíkur íhaldsins fá örugglega að halda áfram að hala inn milljónum.  

Eflaust verður fjárhagskerfinu breytt í menntakerfinu svo arðurinn velti þar inn líka.  Sjáum hvað gerist.  

fimmtudagur, 10. mars 2016

Netheimur klekkir á Krösusarliðinu

Netheimur vinnur fyrstu orustuna,  Hrægammar fjárfestinganna hörfa og sjá sitt óvænna. 
Í morgun hafa þingmenn  barið í bumbur á Alþingi. Hver æsingaræðan á fætum annarri, aldrei þessu vant allir sammála.  Þeir börðu á fjarfestingarliðinu sem hafði uppgötvað að það var gullkista falin í Tryggingarfélögunum. Og það átti að tæma þá kistu á stundinni.  

Þarna fetuðu Alþingismenn  í fótspor ótal bloggara og feisara sem höfðu látið svipuna ríða á jakkafataliðinu. Það er gott hversu almenningsálitið getur sýnt álit sitt betur en áður. Það eru ekki aðrir sem gera það af heilum huga.  Og það má ekki sofna á verðinum.  Sá sem hefur fengið gullglýjuna í augun, hann  á bágt, hans fyrirmynd er Krösus. Því eru hörð átök framundan, um banka og viðhald opinberra stofnana.


Gylfi Gíslason Gullkálfurinn
Krösusarmmyndir af Wikipediu 



  

þriðjudagur, 8. mars 2016

Sigurður Nordal: „Týndi" tíminn í ævi hans

Víða um heim er íslensk menning rædd, kennd, rannsökuð og ýmislegt efni gefið út varðandi hana.  Í Uppsölum í Svíþjóð kemur út tímariti Scripta Islandica.  Í ritinu 2015 kennir ýmissa grasa, en það sem ég hygg að veki mestan áhuga flestra er grein Lars Lönnroths, hins kunna sænska fræðimanns um íslenskar bókmenntir; Sigurður Nordals brev till Nanna, um týnda tímann í ævi Sigurðar Nordal, tímann sem hann dvaldist í Kaupmannahöfn og skrifaði doktorsritgerð sína um Ólafs Helga.  Þar átti hann í stormasömu sambandi við sænska konu, sem var gift og þriggjabarna móðir, Nanna Boëthius, sem skildi við mann sinn út af þessu sambandi. Þau höfðu kynnst á baðströnd á Skáni þar sem kviknaði funheit ást.

Þau giftust síðan í október 1914 í Kaupmannahöfn og skildu ekki fyrr en 1921 en ári seinna kvæntist hann Ólöfu Jónsdóttur. Það merkilega er að Sigurður virðist hafa séð til þess að þetta hjónaband varð aldrei opinbert nema fyrir nokkra hans nánustu vini í Kaupmannahöfn. Sigurður var í bréfaskiptum við Nanna til 1919. Hann húðskammaði hana í bréfi þegar minnst var á hjónaband þeirra í VeckoJournalen. Í æviágripi hans á vefsíðu Stofnunar Sigurðar Nordals er þessa hjónabands ekki getið. 

Þessi tími í ævi Sigurðar, sem að mörgu leyti var mótunartími í ævi hans, hann var í Kaupmannahöfn, ferðaðist til Berlínar í miðju stríði og seinna til Oxford í Englandi, hefur verið okkur hulinn, hann sjálfur skrifaði ekkert um hann, en í bréfskrifum þeirra kemur fram að þessi sænska kona sem var 8 árum eldri en hann og mikið lífsreyndari, hafði djúp áhrif á hugmyndir hans um heiminn.  Þetta var tími frelsis í samskiptum kynjanna, tími þar sem fólk vildi frelsa sig úr viðjum hlekkja og móta líf sitt eftir heimspekilegum hugmyndum.  Allt þetta átti sér stað í skugga Fyrri heimsstyrjaldarinnar. 

Með þessari litlu ritgerð sem byggir á aðgangi að bréfum frá fjölskyldu Nönnu, tekst að bregða nýju ljósi á ævi Sigurðar Nordals, ef til vill gera hana meira spennandi.  Eflaust er hægt að ræða þetta út frá kvennafræðum, og skoða samband þeirra Sigurðar og Nönnu á annan hátt.  En sá sem skrifar Stóru ævisöguna um Sigurð Nordal, um þennan menningarfursta fyrri hluta seinustu aldar fær ýmislegt að moða úr.  Ber að þakka Lars Lönnroth fyrir þessa grein.   Hún er skemmtileg og áhugaverð fyrir okkur sem finnst bókmenntasaga skemmtileg. Alltaf er hægt að draga eitthvað út ur myrkri tímans. Svartholin opnast stundum.   

mánudagur, 7. mars 2016

Tómas R. Einarsson: Þjóðargersemi

Þetta hefur hann gert á Listamannalaunum segja þeir og dæsa ferðalög í útlöndum, skemmtun og fyllirí.  Þeir vita ekki hvers konar perlu þeir hafa, þar sem hann þrammar um götur Reykjavíkur meðan hann glímir við latínhljóma og bassagrátur ásamt strembnum línum úr spænskum 
heimsbókmenntum sem stundum rambla upp á skerið.

Mikið var gaman að horfa á myndina hans Tómasar í sjónvarpinu.  Maður fann hvernig stirðir liðir liðkuðust og urðu sem nýir.  Kötturinn fylgdist með hreyfingum mínum á stofugólfinu.  Mikið eiga þeir gott sem kunna að meta þvílíkan jassunað.  Og hugsa sér að hafa verið festur á filmu að spila með Chet Baker þessum ástmögur trompetsins með sjómannsherndurnar.   Takk fyrir mig.



Paradís
                                til Tómasar R. Einrssonar

er þetta paradís spurði hann og spurningin ómaði
yfir hrafnagarginu og vindgnauðinu  sem dansaði
á snæsléttunni hrímhvítri eyðilegri
er þetta endir veraldar þar sem bláminn á sér
engin takmörk eða viðmið yfir flóanum og
svartstrikuðum fjöllunum spurði hún
er þetta paradís og tónarnir hófu sig út um
gluggann í áttina að fjallinu og himninum
þar sem tunglið og stjörnurnar tindruðu 
 í takamarkalausri firð og forundran 
er þetta paradís og hann breiddi myrkrið
yfir sig eins og hlýtt teppi og kötturinn svarti
lagðist ofan á og dæsti af vellíðan  hann tók
af sér Laxnessgleraugun og hlustaði á vatnið
renna inni heilahvelin
þetta var paradís



 

sunnudagur, 6. mars 2016

Flóttamenn: 540.000 voru það heillin....

Það er sorglegt að heyra marga Íslendinga tala um erlenda flóttamenn.  Þeir eru skepnur ekki fólk. Sumum virðist ekki vera sjálfrátt.  Bunan stendur út úr því, með rangfærslum og rugli. Fólk sem hefur fest augu á okkar góða landi og vill setjast hér að, fær sér vinnu,  vini og fastastað. Sér um heilbrigðiskerfið, okkur gamla fólkið þegar við erum komin á það stig. Lífgar upp á okkar einþátta og sérstaka  þjóðfélag. 

Svo er allt í lagi að kasta þeim út.  Þeir hafa lent á flugvelli í öðru landi, þar hafa verið tekin
fingraför þá eru þeir fastir í því landi.  Hvernig sem komið er fram við það.  Hvort sem það hefur þolað ofbeldi, kúgun og hungur.  Þarna eiga þeir að vera.  Svona er réttlæti Kerfisins. 



Yfirvöldin hafa komið upp kerfi sem er alveg skothelt.  Ekkert getur haggað því.  Ekki veikindi, geðheilsa, börn. Svo er beðið afsökunar öðru hverju þegar kerfið klikkar, sem er ærið oft.  Nú er það Ahmed Aldzasem Ibrahim,  sem þarf að bíða milli vonar og ótta að byrja aftur hringrásina í landi, þar sem hann fær ekki vinnu, mat eða húsaskjól. 

Svo rak mig í rogastans þegar ég las í Fréttatímanum að lögreglan væri að hirða hundruðir þúsunda af fólki sem hefur tekið upp sambúð, ástin lætur ekki að sér hæða, við erlenda ríkisborgara.  Það er ekki nóg að láta það upplifa sálarangist og grátvökunætur.  Ó nei, 540.000 skulu það vera. Engar raðgreiðslur eða víxlar.  Ó nei. 

Getur ekki gott fólk með lögfræðimenntum tekið að sér ráðgjöf fyrir einstaklinga í þessum sporum, svo þvílík óhæfuverk eigi sé ekki stað? Það eru ekki mikil takmörk fyrir mannvonsku skrifræðisins . Hér er næga vinnu að fá, fólk sem sér fyrir sér sjálft, engir þurfalingar eins og kynþáttahatarar halda.  Það er gott að geta látið af sér hamingju leiða. Verum góð við þá sem eiga erfitt.   
Myndir: Greinarhöfndur



+
Joan Baez Imagine


Bob Dylan og fl.: I pity the poor Immogrant

föstudagur, 4. mars 2016

3. mars og framtíðin okkar allra

Nú er afmælisdagurinn orðinn einstaklingshátíðardagur á Fésbókinni.  Í gær var minn dagur, 3. mars. Það var gaman að öllum afmæliskveðjunum í gær. Maður verður bljúgur og þakklátur. Þetta virðist vera siður sem á eftir að vera. Margt verra sem við gerum. Nú eru það
 motturnar, í USA fara þeir eflaust bráðum að sýna mottur á öðrum stöðum líkamans, stjórnmálaforingjarnir.

En það er annað sem er okkur efst í huga, grimmd og sjálfhverfni tegundarinnar Homo Sapiens ........Það er svo stutt í það að stórir hlutar jarðarinnar verði óbyggilegir.  Og við horfum á og hugsum eins og Lúðvík konungur, Apres moi, le Deluge (var það ekki svona). Eftirlifendur okkur, börn, barnabörn skipta þar engu máli.  Allt sem skiptir máli er stundargróði, allt sem skiptir máli er ég, meðan aðrir flýja heimkynni sín í stríðum sem stærstu og ríkustu þjóðir heims komu af stað og geta ekki hætt. Það er of mikið í húfi fyrir svo marga frameiðendur, vopna, flugvéla, eiturs, skipa og svo framvegis.  Svo oft fallast manni hendur, vonleysið tætir mann, þá varð þetta til:   

Á JÖRÐU
okkar stund á jörðu okkar æviskeið
minning : Turner blindsól
Van Gogh himinn Hockney sveit
hlaðinn veggur kýr sem jórtra
einsamall bíll á ferð tré sem
dreymir regn og storm hlaupagarpar
á leið upp í móti hjartað hamast
vöðvarnir stynja æðarnar herpast
unaðsstundir minningar krot krotakrot

okkar stund ævistund það kvöldar
myrkur kvöl kvöldar
kveinraddir blóðgoggar brýndir
en
mig dreymir samt
frið