föstudagur, 16. ágúst 2013

Ameríski draumurinn og íslenska þjóðkirkjan

Við eigum von á gesti,  einn af ótal prédikurum vestursins, Bandaríkjanna Norður-Ameríku, Franklin Graham, ætla heiðra okkur, í boði svokallaðs Friðrikskappelluhóps. Ekki efast ég um að í útlöndum séu til margir andans menn sem tilheyri kirkjunni.  Þar væri hægt að nefna mörg nöfn en varla er Franklin Graham í þeim flokki.  Helst er það að hann er sonur Billys Graham.  Líklega frægasta prédikara seinustu aldar. 

Faðir hans var þekktur fyrir að umgangast valdsmenn beggja flokka í Bandarikjunum.  Hann kunni líka að maka krókinn svo Franklin tók við góðu búi. GBEA en svo er skammstöfun stofnunarinnar, hefur 16 manna stjórn, 15 karla og eina konu (dóttur Billy Graham) og heiðursmeðlimir eru 11, 10 karlar og 1 konu.  Billy forðaðist að láta kenna sig við stjórnmál eða blanda sér í flokkaþrætur.  
Sonur hans er aftur á móti þekktur fyrir glannalegar yfirlýsingar sem hljóta að túlkast sem pólitísk afstaða; um islam, um Obama forseta og kristna trú, um samkynhneigð.  Svo hafa fjármál hans verið í sviðsljósinu eins og annarra stórprédikara vestra.    
Hann var tvöföldum launum framan af bæði yfir Billy Graham stofnuninni og Pyngju Samverjans.  Það var mikil gagnrýni á hann hvernig hann gat sinnt þessum tveimur störfum auk þess sem launin voru há.   Hann hefur verið nátengdur Teboðshreyfingunni og Repúblikanaflokknum og stutt þann flokk, er þar á ysta hægri væng.  



Lífsgildi hans og afla sem hann styður eru ansi fjarlæg flestum Íslendingum. Þar sem trúarbrögð og stjórnmál tengjast á ógeðfelldan hátt. Því er það ansi skrítið að bjóða Graham að koma hingað og halda hátíð eins og hann kallar það þegar hann heldur sefjunarræður sínar. 

Ég þekki nú ekki mikið til Friðrikskapelluhópsins en samkvæmt netsíðu kapellunnar er margt skondið í mínum augum hvernig hann varð til. Þótt allt sé gert af góðum hug.  Lesið þetta: 

Dökkt ský yfir Íslandi: Biðjið







Bænasamfélagið í Friðrikskapellu varð til árið 2008 eftir mjög sérstakan aðdraganda. Tildrög þess voru þau að Ómar Kristjánsson, trúaður athafnamaður í Reykjavík, var í viðskiptaferð í Þýskalandi einu sinni sem oftar um vorið þetta ár og heimsótti þá Maríusystur í Darmstadt sem er lúthersk nunnuhreyfing er leggur mikla áherslu á bæn. Honum er mjög hlýtt til Maríusystranna og heimsækir þær oft á ferðum sínum.
kerti
Þegar hann var hjá systrunum í þetta sinn tjáði ein þeirra honum að Svissneskur maður sem var staddur hjá þeim vildi tala við hann. Ómar hafði aldrei séð manninn áður og vissi engin deili á honum. Hann reyndist vera athafnamaður eins og Ómar að nafni Willie Oehninger, mikill bænamaður með spádómsnáðargáfu sem fyrir löngu hafði sýnt sig að vera af Guði gefin enda naut hann mikils trausts hjá nunnunum. Þegar fundum þeirra bar saman sagðist Willie hafa mjög alvarlegan boðskap til hans og íslensku þjóðarinnar. Guð hafði sýnt honum að mjög dökk ský væru yfir Íslandi. Þau táknuðu að miklir erfiðleikar vofðu yfir þjóðinni vegna hroka hennar og sjálfsupphafningar sem myndu leiða til mikilla efnahagsþrenginga. Hann sagði Ómari að fara heim til Íslands og kalla saman leiðtoga í kirkjum landsins til að koma saman og biðja fyrir þjóðinni og ákalla Guð að hann sneri við hag hennar.
Síðar þegar Willie kom í heimsókn til Íslands sagðist hann að hann hafi átt mjög erfitt með að ganga til Ómars og segja honum þessar fréttir. Fyrst þegar honum fannst Guð minna sig á þetta reyndi hann að bægja því frá sem ómerkri hugdettu en hann fékk ekki frið fyrir því. Hann þekkti Ísland ekki neitt og hafði aldrei komið þangað. Til að gera þetta auðveldara bað hann Maríusystur um að hafa milligöngu um að hafa samband við Ómar.


Bænastundir hefjast


Mikilvægt er að hafa í huga að þetta samtal átti sér stað vorið 2008, áður en bólaði á efnahagsþrengingum á opinberum vettvangi á Íslandi og hagur þjóðarinnar virtist standa í miklum blóma. Ómar varð undrandi á boðskapnum en skynjaði strax alvöru hans af því hvernig Willie talaði við hann og skynjaði að honum var mikið niðri fyrir. Ómar einsetti sér strax að hlýðnast því boði að kalla saman leiðtoga kirkjunnar þegar heim kæmi og hafði samband við yfir tuttugu manns og bauð þeim á skrifstofuna sína til að segja þeim frá boðskap Willies og öllum málsatvikum. Sat hann með hverjum og einum í meira en klukkutíma og spurði þá hvort þeir vildu taka þátt í að koma saman sex sinnum og biðja fyrir þjóðinni og enda á því að koma fram á sjónvarpsstöðinni Ómega þar sem beðið yrði fyrir þjóðinni í beinni útsendingu. Allir brugðust vel við þessari málaleitan. Ákveðið var að bænastundirnar færu fram í Friðrikskapellu við Hlíðarenda því að hún var talin mjög hlutlaus staður.
Friðrikskapella
Fyrsta bænastundin fór fram þriðjudaginn 14. ágúst. Fyrstu samverurnar hófst með dýrindis hádegisverði frá veitingahúsi úti í bæ sem Ómar bauð upp á.
Vel var mætt á bænastundirnar sem voru alvöruþrungnar. Flestir voru undrandi á boðskap Ohningers og sennilega voru sumir í vafa hvort hann væri örugglega ekta. En fólk tók ekki áhættuna á að hann væri ósannur og skella skollaeyrum við honum. Það kom saman og bað af hjartans einlægni fyrir þjóðinni. Og svo kom hrunið! Ég held að enginn hafi átt von á því að spádómurinn myndi rætast svo bókstaflega og að afleiðingarnar yrðu svo miklar sem raun bar vitni. Mikil eining myndaðist fljótt í hópnum og bræðralag og þegar sá tími var liðinn sem samið var um í upphafi vildi fólk halda áfram að hittast og biðja fyrir þjóðinni og sumarið 2011 átti samfélagið þriggja ára afmæli.

Já, lesendur góðir, það er ýmislegt sem maður skilur ekki í störfum kirkjunnar, eins og dæmin sanna seinasta áratuginn.  Hvort þessi hópur sem stendur að þessu boði til Bill Graham stofnunarinnar tilheyrir einhverjum öfgahópi innan kirkjunnar veit ég ekki. En það að velja svo umdeildan prédikara til að koma hingað sýnir ákveðna þröngsýni eða vankunáttu. Það þarf nú ekki nema að blogga í klukkutíma til að sjá að meginþorri kristinna manna hérlendis getur ekki fallist á skoðanir þessa manns.  Harða bókstafstrú þar sem Biblían er tekin sem heilagur sannleikur í einu og öllu þar sem ekki er viðurkennd nútíma túlkun á þeim atburðum og hugmyndum sem þar er sagt frá.   Það eru líka til aðrir heimshlutar þar sem trúin er ekki gerð að skemmtiatriðum og fjárplógsstarfsemi. Væri ekki eðlilegra að sækja erlenda fyrirlesara og prédikara þangað? Mér finnst að frjálslyndir trúaðir kristnir menn eigi ekki að láta valta yfir sig með þessum hætti.  Eða eru þeir kannski ekki til?     

  

miðvikudagur, 14. ágúst 2013

Tvær byssur: Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð

Ég sá að forsetinn okkar mætti á frumsýninguna hjá Balthasar Kormáki á Tvo Guns, nú verða flestar myndir að heita amerískum nöfnum í hinum alþjóðlega heimi .  Ég er nú hissa á Forsetanum að láta sjá sig á svona B-mynd.  Allir alvöruforsetar horfa bara á svona myndir í kvikmyndasalnum sínum heima í bústaðnum eins og í Hvita húsinu eða Bessastöðum. Það er helst breska konungafólkið sem fær að fara á svona sýningar, sem eru sagðar þá vera í góðgerðarskyni, en svo finnst því ekki gaman að neinu öðru en hasar eða billegum gamanmyndum.  Ekki  má gleyma Stalín sem var með eigin sýningarmann sem varð að vera tilbúinn allan sólarhringinn alla daga allt árið til að skoða myndir.  Það má heldur ekki gleyma að uppáhaldsmyndir hans voru amerískar söngva og dansmyndir með yfirgengilegum hópatriðum. Og um örlög kvikmyndasýningarmannsins var gerð ágæt mynd fyrir mörgum árum The Inner Circle, með Tom Hulce þeim sem lék Mozart um árið í Amadeus. 

Ég veit nú ekki hvort Sigmundur Davíð hafði tíma til að láta sjá sig á þessari frumsýningu ársins. Enda í mörgu að snúast,  menn verða að njóta þess að vera forsætisráðherra, ferðalög, skrúðgöngur, skrautbílar, gamalt wiskí, kampavín og ostrur.  Svo tekur alvaran við,  ég sá í Fréttablaðinu í morgun að enn er ekki búið skipa nefndina sem á að ráða úrslitum þessarar stjórnar.  Nefndir um almenna skuldaniðurfellingu.  Það er merkilegt að það er ekki búið að fá það úrvalslið til starfa.  Sem átti að vera höfuðverkefni stjórnarinnar en er nú höfuðverkur hennar.  En kannski hefur ekki verið svo auðvelt að skipa þá nefnd.  Flestir sérfræðingar landsins hafa tjáð sig um erfiðleikana í sambandi við leysa úr þessari fléttu óðaverðbólgu, verðtryggingar og ofurfasteignaskulda.  Aðrir hafa verið að vinna að því svo sem starfsfólk Seðlabankans og hafa ekki traust forráðamanna stjórnarinnar.  Ekki er heldur auðvelt að stíga þarna inn í ormagryfju  meirihlutans þar sem aðaltalsmaður stjórnarinnar um efnahagsmál er hin alræmda og vanhæfa Vigdís Hauksdóttir.  

Einn er sá maður sem hefur lagt mikið undir með því að skipa þessa stjórn.  Það er forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson.  Hann er Guðfaðirinn og vill varla sjá allt leysast upp og verða að hjómi einu.  Ég hugsa að það fari oft um hann óhugur þegar hann sér og hlustar á fréttir, yfirlýsingar og glópaspjall talsmanna stjórnarinnar. Ég vona að hann hafi hringt í Sigmund vin sinn og beðið hann að sussa á suma.  Því það er þessar tvær byssur sem eiga mest undir.  Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð.  Og væntanlega vilja þeir halda áfram að munda byssurnar galvaskir frekar en að ríða og hverfa inn í blóðrautt sólarlag öllum gleymdir eins og Davíð Oddsson.   

þriðjudagur, 13. ágúst 2013

Ísland: Dómdagsspár og veruleiki

Bregst ekki við  dómsdagsspám segir sjálfur Fjármálaráðherrann.  Það eru ekki margir mánuðir síðan hans líf gekk út á að dæla út endalausum dómdagsspám í sama anda og kemur fram í ummælum pistlahöfundar CNN .  Honum tókst meira að segja að fá landsmenn til að trúa að hann hefði lausnirnar sem gerði allt betra og ótrúlega margir ginu við þeim málflutningi.

En nú eru aðrir tímar, erfiðir tímar, segir hann, það sagði hann ekki fyrir skömmu síðan.  Þá var allt seinustu ríkisstjórn að kenna.  En hver er staða okkar?   Hefur eitthvað áunnist?   Er þetta bara allt blekking?  

Við getum borið okkur saman við aðra.  Þar höfum við OECD, hvað segja sú stofnun um okkur?  Hér að neðan eru helstu niðurstöður sem eru teknar beint af vef Fjármálaráðuneytisins.   Þar eru ábendingar og farið yfir stöðuna.  Ýmislegt hefur áunnist en margt eftir að gera.   Ríkisfjármál eru á réttri leiðMikið hefur áunnist í að koma ríkisfjármálum í jafnvægi. Hlutfall ríkisskulda af vergri landsframleiðslu hefur lækkað, en er enn hátt. Segir í skýrslunni.  
Þar er líka talað um  gjaldeyri og fjárhagshömlur, verðbólgu og verðtryggingu. Grænn hagvöxtur hefur verið á réttri leið. 

Svo getum við líka borið okkur saman við helstu viðskiptaþjóðir okkar, hver er aukning eða minnkun Landsframleiðslu okkar miðað við þær.  Það eru margir sem halda að allt sé í blóma í kringum okkur á Norðurlöndum en svo er nú ekki. Við lifum í heimshluta stöðnunar.  Ég tek tölur fyrir 2012 og 2013.

Ísland                         1.6     1.9
Austurríki                  0.8     0.5
Þýskaland                   0.9     0.4 
Danmörk                   -0.5     0.4
Noregur                     3.2      1.3 
Finnland                    -0.2     0.0
Bretland                      0.3     0.8
Frakkland                   0.0    -0.3
Lúxemborg                 0.3      0.8

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig nýju valdamennirnir takast á við þennan veruleika.  Ég er nú ansi smeykur.   

    


Helstu niðurstöður (lausleg þýðing úr skýrslu OECD)


Endurheimt jafnvægis í efnahagslífinu

  • Slaki er viðvarandi í peningastefnunni þótt framleiðsla sé aftur að ná langtímaleitni og verðbólga sé enn yfir markmiði.
  • Innlend eftirspurn hefur dregist saman á aðlögunartímabilinu, sérstaklega fjárfesting fyrirtækja og heimila, á sama tíma og útflutningur hefur stóraukist. Heildareftirspurn er nú í meiri takt við heildarframboð og samsetning hennar er ásættanlegri.
  • Skuldir heimilanna hafa lækkað en eru enn miklar í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir meiriháttar afskriftir. Vanskil hafa minnkað en mörg tekjulág heimili, þ.m.t. þau sem ekki eiga húsnæði sitt, eiga enn í erfiðleikum með að sjá fyrir nauðþurftum og borga af skuldum. Frekari endurútreiknings gengistryggðra lána er að vænta.
  • Bankarnir eru að auka útlán sín til heimila (sem eru að hluta til að endurfjármagna lán frá Íbúðalánasjóði) en fyrirtæki telja sig eiga í erfiðleikum með að fjármagna sig.

Gjaldeyrishömlur, rammi peningamálastefnu og fjárhagsstöðugleiki

  • Þjóðhagsvarúð er ekki beitt nægilega til að tryggja fjármálastöðugleika.
  • Þess eru merki að fjármagnshöft valdi efnahagslegu misvægi.
  • Verðbólgumarkmið hefði skilað betri árangri ef því hefði verið fylgt eftir með skilvirkum varúðarreglum og eftirliti.
  • Ekki er nægileg samræming og samskipti meðal aðila er móta peningamálastefnuna og þeirra er sinna eftirliti með fjármálakerfinu þar sem ábyrgðarhlutverk og umboð eru ekki nægilega vel skilgreind.

Endurheimt á jafnvægi í fjármálum ríkissjóðs

  • Mikið hefur áunnist í að koma ríkisfjármálum í jafnvægi. Hlutfall ríkisskulda af vergri landsframleiðslu hefur lækkað, en er enn hátt.
  • Áhersla hefur til þessa verið á að auka tekjur og skera niður opinberar fjárfestingar í stað almennra rekstrarútgjalda. Slík áhersla eykur hættu á að jafnvægi náist ekki til lengri tíma.
  • Ráðgert er að leggja frumvarp um opinber fjármál fyrir þingið fyrir lok þessa árs en það á að stuðla að auknum aga í ríkisfjármálum og bæta umgjörð fjárlagaferlisins.
    Skilvirkni ríkisútgjalda
  • Ríkið endurskoðar ekki útgjöld sín á kerfisbundinn hátt, þótt slík endurskoðun gæti verið gagnleg við að auka skilvirkni og hagkvæmni í ríkisrekstri.
  • Mest er hægt að auka skilvirkni á sviði menntunar, þar sem uppsöfnuð útgjöld á nemanda eru mjög há en árangur í meðallagi, og í heilbrigðisþjónustu þar sem þjónusta sérfræðinga og notkun greiningartækja er mikil.

Grænn hagvöxtur

  • Ísland er á réttri leið við að ná settum markmiðum varðandi Kyoto-skuldbindingar, en verðmyndun á losunarheimildum er of veikbyggð til að hún nái að mæta framtíðarmarkmiðum.
  • Raforkuframleiðslugeta hefur verið aukin til að mæta þörfum aukins útflutnings (aðallega á áli) en auka þarf arðsemi og tekjur af raforkusölu.

Helstu ábendingar

Endurheimt jafnvægis í efnahagslífinu

  • Auka aðhald í peningastefnu eftir því sem efnahagslífið nær sér til þess að ná verðbólgumarkmiði og til að draga úr verðbólguvæntingum.
  • Beina aðgerðum í skuldamálum heimilanna að heimilum í fjárhagserfiðleikum til að draga úr vanskilaáhættu á sem skilvirkastan hátt. Leggja niður vaxtabætur og taka þess í stað upp niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði fyrir tekjulág heimili til að draga enn frekar úr fjármálastreitu, draga úr mismunun í búsetuúrræðum og hvetja íbúðaeigendur til að auka eiginfé.
  • Afnema ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði þegar fjármál heimilanna eru aftur komin í jafnvægi og draga þannig úr hvata til aukinnar skuldsetningar.
  • Halda hárri eiginfjárkröfu á viðskiptabankana og stuðla þannig að áframhaldandi endurskipulagningu skulda fyrirtækja.

Gjaldeyrishömlur, rammi peningamálastefnu og fjárhagsstöðugleiki

  • Beita þarf þjóðhagsvarúðartækjum, svo sem veðþaki á útlánastarfsemi, til að tryggja fjármálastöðugleika, draga úr útlánasveiflum og styðja við peningastefnuna.
  • Miða áætlun um losun fjármagnshafta við aðstæður.
  • Verðbólgumarkmiði verði fylgt eftir losun hafta með flotgengi. Dregið verði úr sveiflum með inngripi á gjaldeyrismarkaði.
  • Styrkja samstarf og samhæfingu eftirlitsstofnana. Skýra ábyrgð og umboð þeirra til að sinna skyldum sínum að viðhalda fjármálastöðugleika.

Endurheimt á jafnvægi í fjármálum ríkissjóðs

  • Tryggja þarf að jöfnuður náist 2014 eins og áætlanir gerðu ráð fyrir og að 2% afgangur verði árið 2015 til að skapa svigrúm fyrir niðurgreiðslu skulda. Skapa þarf svigrúm til aukinnar fjárfestingar hins opinbera með auknu aðhaldi í rekstri.
  • Gera tímasetta áætlun um niðurgreiðslu skulda til að auka gagnsæi og trúverðugleika.
  • Ný lög um opinber fjárlög verði samþykkt á þingi til að auka aga í ríkisfjármálum.

Skilvirkni ríkisútgjalda

  • Endurskoða útgjöld ríkisins til að ná fram aukinni hagkvæmni og skilvirkni. Tryggja þannig betri nýtingu fjármuna.
  • Stytta skólagöngu á grunnskólastigi og á framhaldsskólastigi, til að auka hagkvæmni og skilvirkni í menntakerfinu.
  • Efla heilsugæslustigið og taka upp tilvísanakerfi til að draga úr sérfræðikostnaði og kostnaði við rannsóknir með dýrum greiningartækjum.

Grænn hagvöxtur

  • Breikka stofninn fyrir kolvetnisskatt og hækka hann til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Auka raforkuvæðingu til útflutningsgreina (sérstaklega til orkufrekra greina) ef viðunandi arðsemi næst. Skattleggja skal auðlindarentu.
  • Draga úr áætlaðri hækkun á sérstöku auðlindagjaldi á sjávarútveginn, sérstaklega botnfiskveiðar, þannig að atvinnugreinin standi undir því.

sunnudagur, 11. ágúst 2013

Gylfi Ægisson og vinir hans

Það eru oft furðulegar yfirlýsingar frá íhaldsmönnum þessa lands, nú er það Gylfi Ægisson landskunnur skemmtikraftur og sötrari.   


„Þegar Borgarstjórinn er farinn að klæðast Íslenska Þjóðbúningnum (Gefa skít í hann) og mála sig, verður manni óglatt. Megas vinur minn spurði mig einu sinni af hverju heitir engin gata Rassgata í Reykjavík? Mæli ég nú með því að laugarvegurinn verði skírður upp á nýtt og Látinn heita Rassgata. Það væri svo við hæfi að Jón Gnarr klipti á borðann,“ skrifar Gylfi og bætir við:
„Börn sem horfa á og alast upp við að þetta sé allt eðlilegt finnst þetta kanski spennandi og skemmast við að sjá þetta seinna meir. Ef svo að þjóðin öll verður orðin öfug eftir nokkur ár, þarf að flytja inn börn frá Rússlandi,“ skrifar Gylfi sem tekur seinna fram í annarri athugasemd að þessi skrif séu hans.

Já, auðvitað verður Gylfi að hafa sínar skoðanir jafnvel þótt þær séu á þessu róli, ef hann heldur að samkynhneigð hafi ekkert með að gera nema rassgöt. Það er ansi sorglegt.  Mér finnst bara skemmtilegt að hafa borgarstjóra sem kann að koma við kaunin á okkur, hvort sem hann ræðir Jesú eða klæðir sig þjóðlega. Mér þótti búningur hans í þetta sínn vera skot á þjóðrembu sem æðstu valdamenn landsins tíðka nú til dags sér til framdráttar á pólitíska pallinum.  

En ég veit ekki hvort það sé bezt að fá yfirlýsingar sem þessar frá textahöfundi sem hefur látið frá sér sullumbull með neðanmitttisórum  eins og þetta: 


                               
Á Flosa Ólafs kokkurinn er kona.                                        
Köllunum þeim finnst það betra svona.
Hún er ofsa sæt og heitir Fríða.
Hún á það til að leyfa' okkur að                  
Sjúddirarerei, sjúddirarira                       
leyfa' okkur að kyssa sig á kinn.
Er ég í koju kominn er á kvöldin
kvensemin strax tekur af mér völdin
og mitt yndi er þá ekki bókin,
aftur á móti strýk ég á mér
Sjúddirarerei, sjúddirarira
strýk ég á mér skallann ótt og títt.
og svo framvegis, ég veit ekki hvort vinir hans dáist að honum í dag. 


laugardagur, 10. ágúst 2013

Úthlíð. Á slóðum forfeðranna

Naut þess að vera boðinn 2 nætur í fallegum sumarbústað í uppsveitum Árnessýslu.  Gaman fyrir mig að líta á  sveitir forfeðra minna. Ég er ekki vel að mér í ættfræði en einhver hefur sagt mér að forfeður mínir hafi búið í Miðdal, Ysta-Dal og á  Álfsstöðum.  Og ég ók fram hjá þessum býlum.  Maður sér það að þeir sem hafa farið í sumarhúsavinnuna að útbúa bústaði leigja þá út hljóta vera vel efnaðir vonandi greiða þeir skatt í samræmi við það.  Það er ekki fátækt ef marka má sumarhús hér og í Borgarfirði.  

En það að eiga bústað og geta skropppið úr amstri borganna og bæjanna hlýtur að vera ómetanlegt.  Samheldni fjölskyldnanna eykst allt verður betra, þetta er ekkert að vanmeta. En um leið sýnir það að við búum í vel efnuðu þjóðfélagi.  Þar sem fólk getur leyft sér ýmsilegt.  Ekki alveg í samræmi við ramakvein um fátækt og eymd eins og við heyrum of oft.  

Við vorum tvær nætur í góðum bústað, grilluðum, vinkona mín sýndi á sér nýjar hliðar, hún er meistaragrillari. Við ræddum málin í gríð og erg og höfðum það bara ansi gott. Fengum okkur rauðvín og bjór.  Horfðum á eina glæpamynd. Og sofnuðum örþreytt. 

Keyrðum um sveitirnar, vorum í Úthlíð, fórum fyrst í smágöngu í skóginum í Haukadal.  Alls staðar hefur skógurinn tekið völdin, kannski of mikil.   Þarna voru fallegar ár og lækir, verkamenn í vinnu þetta var fimmtudagur,  fengum ábendingar frá þeim um gönguleiðir, gengum góðan hring, ég er ekki góður í hægri fæti um þessar mundir svo ég fer ekki svo langt.  Síðan skoðuðum við ný húsakynni við Geysi , gríðarleg húsakynni til að taka á móti ferðamönnum, matur ekki svo dýr miðað við annar staðar sem ég hef komið í sumar.   En annsi ósmekklegt að mínu mati, en það er bara mitt mat.  

Daginn eftir fórum við í ansi góða ferð fyrst niður í Reykholt, þar er alls staðar ótrúleg uppbygging.  Vinkona okkar hafði heyrt um tómataræktunarstað sem bauð upp á frábæta súpa að sjálfsögðu úr túmötum. Og það voru orð að sönnu, frábær súpa með dásamlegu brauði í tómatræktunarumhverfi. Þarna var hópur útlendinga á ferð sem borðaði um leið og við.  Þarna var allt svo hreinlegt og snyrtilegt.  Ef þið eigið leið um á miðjum degi þá eru hádegissúpa þarna frá 12 - 2 á Friðheimum í Reykholt.  Þið verðið ekki svikin.
Svo fórum við niður í Hreppa, ókum í gegnum Flúðir sem höfðu ansi breyst frá því við vorum þar seinast. Alls staðar er uppbygging.  En við ókum niður að Hreppshólum að kirkjunni þar, lítil og falleg krikja skoðuðum hana og kirkjugarðinn alltaf merkilegt að skoða kirkjugarða virða fyrir sér örlög fólks á ýmsum aldri, Spænsku veikina, bílslys, tíma þegar ekki var sjálfsagt að komast á legg, barnasjúkdómar, taugaveiki, berklar.   


Síðan ókum við í áttina að Hreppshólum, þar sem vinnsla fer fram á stuðlabergi þetta er skemmtilegur staður að koma á, Hrepphólarnir eru skemmtilegir og maður sér upp með Stóru-Laxá. Það er hægt að keyra þetta eða ganga létt ganga meira að segja fyrir fótafúa eins og mig. 





Loks lá leið okkar að Hrunakirkju sem er þekkt fyrir merkan atburð þegar prestur og söfnuður gátti ekki hætt að dansa á jólakvöldi þar til kirkjan sökk. Þarn er flott 19. aldarkirkja, gaman að koma í svo vönduð hús.  Svo hafði vinkona okkar frétt af Fjárbaði skammt frá, við fórum þangað þar voru margir útlendingar sem ætluðu í bað, einhvers staðar hlýtur að vera mælt með þessu í ferðabók.  Þarna rennur heitt vatn niður hlíðina og bændur byggðu hús til að baða féð áður fyrr á sóttartímum.  Þarna er gaman að koma.  


Mikið var gaman að ferðast um þessar slóðir ekki svo langt frá Reykjavík og við vorum vel heppin með veður.  Það rigndi mest á kvöldi og nóttum.  En þá sátum við og minntumst ljúfra tíma og nutum lífsins.  Á meðan grillað lambakjöt og bleikja rann ljúffeng niður með góðum veigum. Lífið er ekki svo dapurlegt. 

miðvikudagur, 7. ágúst 2013

Kjaramál: Rekum trúnaðarmennina .....

Ekki í fyrsta sinn sem þetta er gert í miðri kjaradeilu, trúnaðarmaður er rekinn, auðvitað hefur það ekkert að gera með kjaradeiluna.  Einhvern tíma var þetta gert í Straumsvík ef ég man rétt. Nú er það hjá Landspítalanum.  Staðan er bara lögð núna.  Óskyld mál.  Auðvitað er trúnaðarmanni ekki boðin staða sem er laus um leið.   

Hvað er stjórn BHM að gera? Tekur hún undir svona vinnubrögð?  Áður fyrr heyrði maður að þetta væri ólöglegt.   Að trúnaðarmann mætti ekki snerta.  Þetta segir á vef BHM

Opinberir starfsmenn 

Trúnaðarmenn sem starfa hjá opinberum aðilum njóta ákveðinna réttinda og verndar skv. 28.-30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
  • Hann skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til trúnaðarstarfa.
  • Ekki má flytja  trúnaðarmann í lægri launflokk, meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.
  • Trúnaðarmaður situr að öðru jöfnu fyrir um að halda vinnunni ef hann er ráðinn með ótímabundinni ráðningu.
  • Trúnaðarmaður hefur rétt til þess að rækja skyldur sínar á vinnutíma.
  • Trúnaðarmaður á rétt á því að hafa aðstöðu á vinnustað til að rækja skyldur og hlutverk sitt.
  • Trúnaðarmaður á rétt á upplýsingum ef staða losnar á vinnustað hans.

Nánar um vernd trúnaðarmanna 
Vernd trúnaðarmanna gegn uppsögn af hálfu atvinnurekanda er hornsteinn þeirra  reglna sem gilda um trúnaðarmenn. Verndin er til að tryggja það að trúnaðarmaður  geti sinnt skyldum sínum án þess að eiga á hættu að vera sagt upp störfum vegna  þeirra. Verndin nær fyrst og fremst til þeirra starfa sem tengjast  trúnaðarmannsstarfinu en ekki daglegra starfa hans. Brjóti trúnaðarmaður alvarlega af sér í starfi má væntanlega víkja honum úr starfi og það er ekki tilgangur laganna að halda hlífiskildi yfir starfsmönnum vegna  alvarlegra brota í starfi. Það er ljóst samkvæmt þessu að vernd trúnaðarmanns í starfi er ekki alger og að  trúnaðarmaður getur þurft að hlíta uppsögn fyrir misfellur í starfi eða brot á þeim  starfsreglum á vinnustað, sem starfsmönnum er almennt skylt að hlíta.
Félagsdómur hefur fjallað um  vernd trúnaðarmanns í starfi í dómum sínum og  þannig hafa mótast ákveðnar reglur um vernd trúnaðarmanna fyrir uppsögn.


Þessar reglur virðast vera orðnar ansi sveigjanlegar. Að leggja niður stöðuna.  Hvar er verkalýðshreyfingin?  Er þetta eitthvað til að líta framhjá. Svo eru valdamenn hissa þótt illa gangi að semja.    
  

þriðjudagur, 6. ágúst 2013

Guðinn Græðgi

Enn birtast fréttir af  Hrunjöfrum, gamalkunnum nöfnum, enn er Gift i fréttum, sem sýnir hið óhugnalega samspil Framsóknarflokksins og spillingarafla.   Seinustu leifar 30 milljarða almannafjár sem hópur manna stal og notaði til að koma sér til áhrifa í fjármálalífi þjóðarinnar.  Og enn eru þeir margir að, við getum minnst þess þegar við þurfum að eiga viðskipti, þar sem við getum, það er ekki alltaf mögulegt en stundum.  Sumir sluppu furðuvel þótt allir viti að þeir hefðu átt að birtast fyrir dómurum.

En þeir eiga víða fasteignir og fyrirtæki,  og enn tengjast þeir stjórnmálaflokkum.  Enn setur að mann klígju yfir framferði þeirra.  Þegar ákveðin fyrirtæki eru nefnd.  Ákveðin nöfn.   Sumir bjuggu í útlöndum aðrir voru í háum opinberum stöðum.

Skuldabréfin voru með veði í þessum fasteignum Góms. Skuldabréfakaupin voru fjármögnuð með bankaláni samkvæmt fundargerð stjórnar Giftar frá 20. júní 2007 sem DV hefur undir höndum, líklega frá Kaupþingi, viðskiptabanka Giftar. Líkt og DV greindi frá fyrr á árinu átti félag sem var að hluta til í eigu Finns Ingólfssonar, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, hlut í Gómi í gegnum félagið Hólmaslóð ehf. og því var Gift að fjármagna félag sem Finnur átti að hluta. Finnur var jafnframt einn af stjórnendum Giftar í gegnum fulltrúaráð þess. http://www.dv.is/frettir/2013/8/3/arion-tok-fasteignir-giftar-FRP8FJ/ 

Athygli vekur að heimilisfang Feier ehf. er það sama og heimilisfang flutningafyrirtækisins Samskipa, sem Ólafur Ólafsson er kenndur við: Kjalarvogur 7 til 15. Hjörleifur Jakobsson er stjórnarformaður Samskipa og situr í stjórnum fjölda félaga sem Ólafur Ólafsson á, meðal annars í fjárfestingarfélaginu Kjalari. Þá er Hjörleifur skráður eigandi eignarhaldsfélagsins Bingo sem er eigandi iðnfyrirtækisins Límtré Vírnets í Borgarnesi, heimabæ Ólafs Ólafsonar. Þessi umsvif Hjörleifs Jakobssonar í atvinnulífinu eftir hrun eru nokkuð athyglisverð þar sem hann hefur verið samverkamaður Ólafs Ólafssonar til margra ára en ekki komið fram sem sjálfstæður fjárfestir í verðmætum fyrirtækjum eins og Hampiðjunni og Límtré Vírneti. Þá vekja þær fjárhæðir sem Feier hefur komið til landsins mikla athygli – nærri rúmlega 600 milljónir króna – en ekki hefur verið vitað til þess hingað til að Hjörleifur ætti slíka fjármuni. Í viðtali við Viðskiptablaðið í fyrra sagði Hjörleifur hins vegar að hann einbeitti sér að eigin fjárfestingum þessi árin.

http://www.dv.is/frettir/2013/8/2/hjorleifur-flutti-inn-600-milljonir/

Þeir Ármann og Kjartan eru ekki að ganga saman í fyrsta sinn með kaupum á hlutabréfum í Auði Capital en sem kunnugt er keyptu þeir ásamt fleirum hlut í Tryggingamiðstöðinni (TM) nýverið í gegnum fjárfestingafélagið Jöká. Þá gerðust þeir Ármann og Kjartan sömuleiðis hluthafar í BF-útgáfu sem rekur útgáfufélögin Bókafélagið og Almenna bókafélagið. Fyrirtækin hafa gefið út bækur af ýmsum toga, s.s. Undirstöðuna eftir Ayn Rand, Íslenskir kommúnistar eftir Hannes Hólmstein Gissurarson og bókina um Lága kolvetnis lífsstílinn. http://www.vb.is/frettir/85018/

Já, það er gott að fara á hausinn, það virðist ekki hafa mikið að segja fyrir suma: 


Ármann Þorvaldsson ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í febrúar á þessu ári. Skuldaði félagið um 5,5 milljarða króna í lok árs 2009. Var eigið fé félagsins neikvætt um 5.350 milljónir króna. Var félagið skráð til heimilis hjá foreldrum Ármanns Þorvaldssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í London og voru þau bæði skráð í stjórn þess.
Lögmannsstofan Logos stofnaði félagið fyrir Ármann í upphafi árs 2007 en það hélt utan um hlutabréfaeign hans í Kaupþingi. Skiptafundur var haldinn hjá þrotabúinu í lok júní á þessu ári en þó hefur ekki enn verið gengið frá skiptalokum. Því liggur ekki ljóst fyrir hversu háar endanlegar kröfur verða né hversu mikið fæst upp í þær.
DV sagði frá því fyrir stuttu að Ármann hefði gert kaupmála við eiginkonu sína. „Ég er ekki að flýja neinar skuldir eða eitthvað svoleiðis. Er ekki að fara frá neinum persónulegum skuldum. Ég held ég tjái mig þó ekki að öðru leyti um þetta,“ sagði Ármann aðspurður um umræddan kaupmála í samtali við DV.
Lítið hefur hins vegar verið fjallað um umrætt einkahlutafélag Ármanns. Þegar nafni hans er flett upp í fyrirtækjaskrá kemur fram að hann tengist engum félögum. Það virðist hins vegar ekki vera rétt. Sama dag og Ármann og Þórdís Edwald, eiginkona hans, gerðu með sér kaupmála var glæsihýsi þeirra að Dyngjuvegi 2 fært yfir á Þórdísi.
Þrátt fyrir gjaldþrot Ármanns Þorvaldssonar ehf. virðist Ármann sjálfur hafa það gott í London. Þegar DV hafði samband við hann í byrjun ágúst á þessu ári vildi hann ekki upplýsa við hvað hann starfi í dag. Maður sem þekkir vel til í fjármálaheiminum fullyrti hins vegar að Ármann sinni í dag ráðgjafarstörfum fyrir skilanefndir föllnu íslensku bankanna í London. http://www.dv.is/frettir/2011/9/2/armann-thorvaldsson-ehf-gjaldthrota/


http://www.dv.is/frettir/201
1/9/2/armann-thorvaldsson-ehf-gjaldthrota/