mánudagur, 2. september 2013

Brynjar: Arftaki Vigdísar Hauks?

Við höfum lifað ógnvænlega þögn, þögn sem er svo hávær að hún öskrar.  Þögn Vigdísar Hauksdóttur.  Ef til vill er þessi þögn forsenda fyrir ráðherraembætti.  Hver veit.  En ekki man ég eftir að hafa séð yfirlýsingu eða heyrt frá því fyrir miðjan ágústmánuð.   En við þurfum ekki að örvænta.  Hún hefur fengið verðugan arftaka. Brynjar Níelsson. 

Nú gleður hann okkur oft í viku með lipurleika sínum á bloggsíðu sinni:  Þetta er maður sem kann sína lögfræði.  Lögfræði sem virðist ekkert að hafa að gera með siðfræði, mannlega reisn.  Hrein og bein lögfræði.  Við sem erum ósammála honum leyfum okkur að láta í okkur heyra. Hann hefur illilega misskilið leikritið um brennuvargana.  Brennuvargarnir eru þeir sem hafa gleymt hinum mannlegu vídd sem lyftir okkur yfir hið dýrslega.   Við leyfum okkur að hafa skoðun á því að siðleysingjar sem vaði uppí í samfélagi okkar eigi ekki að hafa allan rétt þar sem þeim er oft hampað af fólki eins og Brynjari sem finnst að markaðurinn og lögfræði tengd honum eigi að stjórna öllu lífi okkar.  

„Lögreglan leysti yfirmann kynferðisbrotadeildarinnar frá störfum vegna þess að brennuvargarnir voru ekki sáttir við varnaðarorð hans sem gætu nýst til að fækka kynferðisbrotum. Rútubílstjóri var hrakinn frá störfum vegna dóms í kynferðisbrotamáli, sem hann þó hafði afplánað. Hótel Saga sýndi af sér fádæma hugleysi þegar fólk frá ameríku var hrakið á brott vegna atvinnu þeirra við gerð kynlífsmynda í heimalandi sínu. Óþarfi er að rifja upp geðveikina kringum mál Egils Einarssonar og allt hugleysið tengt því.“


Ég verð nú að viðurkenna að snaggaraleg viðbrögð Vigdísar eru ansi skemmtilegri en pistlar Brynjars.   Ég vona að hún sé ekki horfin inn í ráðherradrauma.  Við þörfnumst yfirlýsinga hennar, við bíðum spennt eftir gullkornum hennar úr ræðustól Alþingis.  Það er ekki hægt að segja að Sigmundur Davíð og Bjarni fái mann til að grípa andann á lofti.  Það örlar varla á þeim leiftrandi hugmyndum sem koma frá Vigdísi.   Við áttum okkur á því að við söknum hennar. 

Vigdís komdu aftur, við iðrumst!!!










sunnudagur, 1. september 2013

JBH

Ég veit ekki hvort ég eigi að hafa skoðun á JBH.  Og þó. Ekki hef ég séð að hann hafi beðið almennilega afsökunar.  Í dag fer hann fram úr sjálfum sér í grein í Fréttablaðinu, sýnir hroka, sýnir siðleysi .   

Ég fór og rifjaði upp helstu þætti þessa máls sem um ræðir.  Ég hafði verið illa að mér í mörgum þáttum þessarar sorgarsögu fjölskyldunnar.  En um daginn þegar ég var á læknabiðstofu rakst ég á Nýtt líf.  Mér varð eiginlega bumbult. Miður mín.  Það er ekki verið að ofsækja hann.  Orðið dómgreindarleysi á ekki við, það er eitthvað langtum sterkara. 

Þess vegna finnst mér að hann hafi ekki erindi inn um ungt fólk í HÍ.   Mér er sama hvað fólk segir um dómstóla og sakleysi.   Hann er sekur um slæm brot í samskiptum.  Hann skrifaði bréf til ungrar stúlku sem ennþá var barn samkvæmt laganna hljóðan, hann uppgekkst hana á þann hátt sem maður umgengst ekki börn.  Ég styð þessa ungu konu sem lenti í krumlum hans, þótt hún væri mörg ár að uppgötva sárin sem hann olli henni.  Hann brást okkur sem embættismaður, sem ættingi, sem uppalandi.   

Svo hann á ekkert erindi í kennslu í HÍ, jafnvel þótt hann viti margt.  Hann er klár, gáfaður, greindu. Það er ekki nóg.  Ég vona að hann sættist við sína nánustu.   Ég vona að hann sýni iðrun. 

föstudagur, 30. ágúst 2013

ESB : Æ, mér er illt

Enn á ný opinberast hvernig ríkisstjórnin ætlar að hunsa meirihluta þjóðarinnar.  Eftir nokkurra ára ferli finnst fleiri að það eigi að klára viðræðurnar svo við sjáum hvað okkur býðst. Það væri ansi gott að sjá samning þar sem maður getur sagt já eða nei.

Þá getum við séð hvað það er sem fáum eða ekki.  Ég er jákvæður sem Evrópusinni en um leið kýs ég ekki hvaða samning sem er.  Hann verður að vera góður.  EF hann verður góður fáum við jafnari lífskjör og meiri festu í grundvallarmálum okkar.   Þar eigum við að bera okkur saman við Norður og Vestur -Evrópuþjóðir sem hafa líkari þjóðfélagsbyggingu en Suður og Austur- Evrópa.  Við höfum svo margt að vinna  með því að ná meiri tengingu en í dag.  Það er ansi margt sem er í ólagi hjá okkur.  Reglufesta, seinustu daga hafa komið dæmi um það hversu fyrirtækjum finnst allt í lagi að hafa ótryggða bílaleigubíla, ótryggða flutningabíla og rútur, fyrirtæki sem borgar ekki skatta og þykir sjálfsagt og eðlilegt að hafa fólk á svörtu.  Við þurfum betra samfélag.  Ekki þetta þegar smámál verða að risamálum eins og Hofsvallagötuævintýrið.  Ekki flugvallarmálið þegar menn neita að ræða það sem skiptir máli.  Hvað gerist í kringum okkur næstu hundrað árin hækkar sjór fer allt á kafa, þurfum við nokkuð að ræða það? Skipta umhverfismál einhverju?   

Við erum svo ginkeypt fyrir rugli.  Og stjórnmálamenn spila okkur upp í það.  Þeir sem vilja halda loforð og samninga eru fífl eins og dæmin sanna.  Í seinustu ríkisstjórn þá var gerður samningur um ESB viðræður og meiri hluti  VG hélt það sem var skrifað undir, hinn hlutinn reyndi að skemma tefja og eyðileggja.  Þeir fá ekki á baukinn fyri það.  Þeim er hampað af stærsta dagblaði landsins.  Það eru þeir sem efndu heit sín sem eru látnir gjalda fyrir það.  Svona erum við, svo tekur við ný stjórn og strax á að svíkja það sem var lofað.  xD gleymir öllu hinir eru í vanda fyrir loforð.  Niðurstaðan verður líklega gleymska þjóðarinnar. Eða ný hrunbylgja. Við verðum að taka okkur á við gerum það ekki með eylandsmennsku af verstu tegund. 

Æ, mér er illt.  



Og það haustar 

miðvikudagur, 28. ágúst 2013

Stóra Hofsvallagötumálið og skandinavíski umhverfisfasisminn

Óvart fór ég í bæinn um kvöldmatarleytið og ekki vissi ég fyrr en ég var kominn á Hofsvallagötu, svona óvart!!  Og sjá þar sá litfagrar og vel merktar hjólaleiðir þar sem um leið var þrengt að bílaumferð allt gert skrautlega of lifandi.  Auk þess sem þetta dregur úr hraða á þessari götu, þetta er leið í skóla og sund  fyrir fjölmarga og ansi mikill hraði á umferð fyrir breytinguna.    En ekki sá ég neitt sem réttlætti það uppþot  sem hefur átt sér stað í Vesturbænum. Hvað þá andþrengsl sem háir suma.  Ég rakst á íhaldsblogg in extremo í dag.  Það lá við að ég fengi andnauð. Þar fer mikinn Ivar nokkur Pálsson og er fljótlega kominn í flokkspólitískan hráskinnaleik af verstu tegund:

Svona byrjar hann: 

Fundurinn í dag um Hofsvallagötu- ævintýrið tók aðeins í hnakkadrambið á þeim sem ráða borginni núorðið og hafa lýst yfir stríði gegn bílandi þegnum sínum. Íbúarnir hafa strax fengið nóg af þessu tugmilljóna króna tilræði gegn öryggi borgaranna og umferðarflæði sem þessi vanhugsaða tilraun er. Framkvæmdin öll er lýsandi dæmi um það hvernig stjórn borgarmála á ekki að fara fram, allt frá svokölluðu samráði (sem ekkert er) til skortsins á skilvirkni, markmiða og sanngjarns tilgangs í aðgerðunum.

Eflaust hefur skort á samráð en spurningin getur líka verið við hverja á að hafa samráð?  Það væri þá öll borgin ef rétt að þetta er svona mikill búlevarður.  Og svo heldur hann áfram: 


Facebook- lýðræði? 
Á Hofsvallagötunni kristallast baráttan á milli ídealistanna sem ráða en voru aldrei í raunverulegu kjöri eða kosningabaráttu (ss. Páll Hjaltason skipulagsstjóri) og íbúanna hins vegar, sem vilja fá frið fyrir þessum tilraunum Besta flokksins, Samfylkingar og Gísla Marteins & Co. Ráðist er á flest það sem virkar vel, án hugsunar um afleiðingarnar. Hofsvallagatan, bílastæði, bílaflæði, flugvöllur osfrv. Til hvers var þetta fólk (ekki) kosið? Er þetta afleiðing Facebook- lýðræðisins, þar sem hvaða Lúkasar- della sem er getur rokið upp, eignast sjálfstætt líf og jafnvel endað með óhæfri borgarstjórn eins og við sitjum uppi með í dag?


Svo mörg voru þau orð, ekki ætla ég nú að verja allar framkvæmdir og ákvarðanatökur Páls Hjaltasonar og kó, ævintýrið þeirra í Miðborginni er þeim til skammar. Allt í einu er Facebook lýðræðið orðið svo slæmt, er það ekki eitt slíkt ævintýri sem við sjáum í histeríunni um flugvallarsvæðið um þessar mundir.  Ég veit ekki hver á þar verri afleiki, andstæðingar eða meðreiðarsveinar Flugvallarins.  En það sem virðist skipta máli hjá umræddum Ivari er ótakmörkuð bílaumferð sem er nú þegar komin yfir öll mörk í borginni. Hofsvallagatan hefur verið hættuleg og nýja skipulagið lífgar upp á gráan Vesturbæinn.  En hjá mörgum íhaldsjálkinum er það malbikið og steinsteypan sem eru guðirnir. 

Í lokin klikkir hann út með áróðurshrópi þess sem þráir að fá íhaldið aftur til valda.  Ætli hann vilji ekki komast í framboð þessi hugumstóri bílaunnandi.  


En ofangreindir aðilar ætla ekki að sitja auðum höndum við það að tefja borgarbúa til frambúðar, minnka öryggi, auka stress og ala á andúð manna í milli: nei, þessi skandinavíski umhverfis- fasismi á víst að vera varanlegur um alla borg eftir 16. september 2013, þegar fresturinn til andmæla við glataðar aðalskipulags- tillögurnar rennur út.
Komum í veg fyrir að þessi ólög verði staðfest út um alla borg og frestum öllum meiriháttar aðgerðum til kosninganna næsta vor. Það er eina vonin til þess að eitthvað vit verði í breytingum á skipulagi borgarinnar, ef einhverjar ættu að vera.

Já það er líklega mesta hættan sem steðjar að okkur Íslendigum skandinavískur umhverfisfasismi.  Það er margt vitlaust skrifað á bloggi um þessar mundir.  En þetta er eitthvert það versta sem ég hef lesið. EF þessi maður fengi að ráða yrði malbikað yfir landið allt!!! Og túristum boðið að keyra á rennisléttu malbikinu allan ársins hring.   Ég held ég þurfi áfallahjálp!!!




  





þriðjudagur, 27. ágúst 2013

Jón Gnarr: Hrekkjavakan nálgast.....

Jón Gnarr ber af, hann gerir það ekki endasleppt. Hann ætlar að láta okkur vita á Hrekkjavökunni hvað hann ætlar að gera
með sinn pólitíska frama.  Við bíðum spennt, þegar hann stígur fram í sviðsljósið íklæddur alvöru Hrekkjavökubúningi:  Kufl og gríman fræga.  Eins og í góðri hryllingsmynd.   Við bíðum spennt þetta verður uppákoma Haustsins.  Og auðvitað vill hann gleðja okkur áfram.
 „Ég er alvarlega að íhuga málið," sagði Jón í samtali við fréttastofu í dag.
Og borgarbúar munu fagna eins og vera ber. Þeim finnst gott að hafa borgarstjóra sem hugsar alvarlega um málin, ekkert grín.  Og þeir verðlauna með sjóheitum atkvæðum. Vonandi verða örlög hans ekki eins og margra persóna í góðum Hrekkjavökumyndum.  Hann á það nú ekki skilið.   

Við hlökkum til Hrekkjavökunnar.  Við bíðum spennt eftir úrskurði Jóns, eins og skáldið sagði: Each player must accept the cards life deals him or her: but once they are in hand, he or she alone must decide how to play the cards in order to win the game. 

Hver þátttakandi verður að sætta sig við spilin sem lífið veitir honum; en þegar hann hefur þau á hendi þá er það hans að ákveða hvernig hann spilar úr þeim til að vinna.



 


mánudagur, 26. ágúst 2013

Utanríkisráðherra: Vindmyllur og kattarleikir


Það eru skrítnar heilaselluferðir utanríkisráðherra.   Hann hefur aldrei hugsað sér að leggja ekki fyrir Alþingi tillögu um frestun á umsókn en þá er spurningin af hverju þurfti hann lögfræðiálit til að tjá sig um.  
Þetta segir hann í dag:  
Ég hef aldrei mótmælt því að þingið þurfi að taka endanlega ákvörðun. Það sem ég hef hins vegar sagt er að það megi lesa það út úr álitinu að þess þurfi ekki. Ég hef líka sagt að ég muni ekki eiga frumkvæði að því að leggja það til að svo verði gert. Við Bjarni erum algjörlega að tala í takt varðandi þetta mál.
Það að leysa upp samningahópa eða nefndir, þýðir ekki slit á aðildarviðræðum. Það hefur einnig komið fram í máli ESB. Tal um annað er í raun útúrsnúningur.
Gunnar Bragi hefur einnig látið hafa það eftir sér að til stæði að leysa upp samninganefnd Íslands.

Þetta sagði hann í seinustu viku: 
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að taka til skoðunar að leysa upp samninganefnd Íslands í aðildarviðræðunum að Evrópusambandinu.
Hann kynnti á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun lögfræðiálit vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á viðræðunum. Í álitinu komi fram að þingsályktanir sem ekki byggjast á sérstakri lagaheilmild eða stjórnarskrá, bindi ekki stjórnvöld umfram það sem af þingræðisvenjunni leiðir. Ríkisstjórnin sé því ekki talin bundin af fyrri ályktun þingsins um að sækja um aðild að ESB. (RUV)


Hér er bréf ráðherra til utanríkismálanefndar:
  
http://www.mbl.is/media/77/6677.pdf

Það er sjaldgæft að ráðherra fái tiltal bæði frá formanni sínum, forsætisráðherra, og formanni meðflokks í stjórn.  Ég held að það sé mjög einstakt, helst að eini samanburður sé Jón Bjarnason.  Ráðherratíð Skagfirðingsins hugumstóra byrjar ekki vel.  Eins og skáldið sagði sem skrifaði um bardaga við vindmyllur: Þeir sem leika við ketti geta fengið skrámu .....




sunnudagur, 25. ágúst 2013

Sameining vinstri flokka: Vonlaus?

Enn á ný hefst umræða um sameiningu vinstri flokkanna tveggja.  Sem gátu ekki farið í eitt fyrir, hvað voru það tólf árum síðan.  Breyttir tímar krefjast breyttra áherslna. Og aðrir eru nú við stjórnvölinn.  

Árni Þór þingmaður VG lætur hafa eftir sér:

Það sé miklu meira sem þeir eiga sameiginlegt í svona grundvallarsýn á uppbyggingu samfélagsins og að þeir hagsmunir eigi að vera ríkjandi og hinir að víkja,“ segir Árni.


Hann telur möguleika á kosningabandalögum víða í stærri sveitarfélögum og jafnvel sameiginlegum framboðum. „Ég tel sömuleiðis möguleika á að vinna að slíku í stærri sveitarfélögum, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og reyndar víðar um land.“

Hvað er það sem hefur komið í veg fyrir náið samstarf ?  Í upphafi voru það ólíkar áherslur í sambandi við þætti svo sem :  ESB, NATO, þjóðfrelsi, Frjálshyggju; svo hefur eflaust örlað á valdabaráttu einstaklinga sumir voru hræddir um sín vé.  

En hins vegar getur maður hugsað sér að hið nána samstarf flokkanna í ríkisstjórn hafi fært mörgum sanninn um það væri ekki svo margt sem aðskildi og að andstæðingurinn væri svo hatrammur að hætta væri á þjóðarhruni ef auðhyggjustefna hans eigi að ráða ríkjum næstu árin, ef hann fengi að böðlast áfram óáreittur eins og hann gerir núna. 


Ég er einn af þeim sem töldu að sameingin allra vinstri manna ætti að vera möguleg í upphafi, hafði ekki svo ákveðna afstöðu um ESB, vildi bíða eftir að sjá samning til að geta myndað mér endanlega skoðun, þó að í grunninn sé ég Evrópusinni, þar eru okkar hugmyndarætur og markaðir; helst var ég andstæður SF út frá friðarmálum, en vissi samt að NATO hafði aldrei verið bitbein stjórnarmyndunar á lýðveldistímanum; og Hrunið hefur fært flesta vinstrimenn saman í sambandi við efnahagsmál og Frjálshyggju.  Svo hefur þjóðrembustefna framsóknarmanna sýnt hversu slík stefna er vafasöm og ekki hefur umhverfisbarbarismi þeirra hjálpað til.  Svo núna er töluvert meiri grundvöllur fyrir samvinnu og jafnvel sameiningu. Þótt eflaust séu til menn í báðum flokkum sem sjá rautt við þá tilhugsun.   

Svo vonandi verður þetta rætt í rólegheitum í haust því í húfi er þjóðarhagur er í veði að láta ekki xD og xB taka yfir sveitarstjórnarmálin í kosningunum næsta vor.   Ég tel sameiningu ekki vera vonlausa undir stjórn vinsæls leiðtoga Katrínar Jakobsdóttur með Katrínu Júl eða Guðbjart sér við hlið. 

EF vinstri menn bera þá gæfu þá er öruggt að það er land framundan.