sunnudagur, 22. september 2013

Haustak: Forsetinn enn einn á ferð

Enn er forseti vor á ferð, hitti hann Ban Ki-moon í New York.  Hvað var forsetinn að ræða við framkvæmdastjóra SÞ?   Framkvæmdastjórinn styður alþjóðlegt samstarfsverkefni um þurrkun matvæla.  Ekki er tekið fram hvernig, fjárhagslega eða málefnalega? Í fréttatilkynningunni segir þetta:   


Samtvinnun hreinnar orku og eflingar fæðuöryggis í veröldinni er eitt af meginviðfangsefnum Sameinuðu þjóðanna á nýrri öld. Íslendingar hafa í áratugi þurrkað þorskhausa, beinagarða og annað sjávarfang, sem áður var hent, og flutt út til Afríku þar sem þær afurðir nýtast almenningi. Að undanförnu hefur fyrirtækið Haustak á Reykjanesi einnig þurrkað kjöt, ávexti og grænmeti í tilraunaskyni og sýnir sú reynsla að þurrkunaraðferðum Íslendinga má beita á margvíslegar afurðir.

Já lesendur góðir það er fyrirtækið Haustak sem vinnur að þessu hjá okkur, hvorki meira né  minna. Það eru margir starfsmenn SÞ sem taka þátt í þessum umræðum.  En enginn fulltrúi fagráðuneyta íslenskra, enginn fulltrúi Umhverfis og auðlindaráðuneytis, enginn fulltrúi  atvinnumálaráðuneyta íslenskra.  Enda sér Forsetinn um þetta fyrir okkur. Hver er færari? 

   
Síðan var rætt um aukið samstarf á Norðurslóðum. Þar sem forsetinn ætlar að standa fyrir Hringborði Norðurslóða (Arctic Circle) í næsta mánuðu (október) í Hörpu að sjálfsögðu. Ekki hafði ég heyrt minnst á það áður.  En það sem er merkilegt að hvergi er að finna orð um þetta þing, á forsetaskrifstofusíðunum, ráðuneytissíðum, en loksins fann ég á google upplýsingar.  og þetta.  Þetta virðist ætla að vera mikið húllumhæ.  

Það er ýmislegt sem forsetinn brallar. Auðvitað allt fyrir okkur.Það er spurningin á hverjum hann hafi Haustak.  


Svo fræddi Framkvæmdarstjórinn Forseta okkar um Sýrland og samninga þar af lútandi.  Það er gott að hann hafi sem mesta vitneskju um það. Kannski hann skili kveðju til utanríkis eða forsætisráðherra???? 

Hér er fréttatilkynningin í heilu lagi: 

Fréttatilkynning
frá
skrifstofu forseta Íslands
FUNDUR FORSETA OG BAN KI-MOON
FÆÐUÖRYGGI FÁTÆKRA ÞJÓÐA
REYNSLA ÍSLENDINGA AF ÞURRKUN MATVÆLA
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti síðdegis í gær, 20. september, fund með Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í höfuðstöðvum samtakanna í New York. Á fundinum kom fram eindreginn stuðningur Ban Ki-moon við alþjóðlegt samstarfsverkefni um þurrkun matvæla sem byggt yrði á reynslu Íslendinga af þurrkun sjávarafurða. Fyrr um daginn átti forseti fund um þetta verkefni með nokkrum æðstu yfirmönnum Sameinuðu þjóðanna.
Samtvinnun hreinnar orku og eflingar fæðuöryggis í veröldinni er eitt af meginviðfangsefnum Sameinuðu þjóðanna á nýrri öld. Íslendingar hafa í áratugi þurrkað þorskhausa, beinagarða og annað sjávarfang, sem áður var hent, og flutt út til Afríku þar sem þær afurðir nýtast almenningi. Að undanförnu hefur fyrirtækið Haustak á Reykjanesi einnig þurrkað kjöt, ávexti og grænmeti í tilraunaskyni og sýnir sú reynsla að þurrkunaraðferðum Íslendinga má beita á margvíslegar afurðir.
Í heimsókn Ban Ki-moon til Íslands kynnti forseti framkvæmdastjóran-um hugmyndir um alþjóðlegt samvinnuátak á þessu sviði og voru fundirnir í New York framhald af þeim viðræðum.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti einnig miklum áhuga á auknu samstarfi á Norðurslóðum og kynnti forseti honum alþjóðlegt þing, Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle, sem haldið verður á Íslandi 12.-14. október, en þar verða þátttakendur frá ríkjum Norðurslóða, Asíu og Evrópu.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna gerði einnig grein fyrir stöðu mála í Sýrlandi og tilraunum sínum og Sameinuðu þjóðanna til að treysta þá samninga sem unnið hefur verið að undanfarið.
Fundinn með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sátu einnig Gréta Gunnarsdóttir, sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Jón Erling Jónasson varafastafulltrúi og Örnólfur Thorsson forsetaritari.
Fundinn um fæðuöryggi og þurrkun matvæla sátu Robert Orr, aðstoðarframkvæmdastjóri á sviði stefnumótunar, Kandeh Yumkella, sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í málefnum hreinnar orku, Sigrid Kaag, aðstoðarframkvæmdastjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNDP, David Nabarro, sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á sviði fæðuöryggis, og Anthea Webb, stjórnandi á sviði fæðu- og næringarmála.
Mynd frá fundi forseta með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna má nálgast á heimasíðu embættisins.
21. september 2013
Nánari upplýsingar veita skrifstofa forseta Íslands (540 4400), Örnólfur Thorsson forsetaritari (896 3028) og Árni Sigurjónsson skrifstofustjóri (820 4946). 



Svo er gott að glugga í hvað segir um embætti og stöðu Forseta Íslands í stjórnarskránni.... 

12. gr. Forseti lýðveldisins hefur aðsetur í Reykjavík eða nágrenni. 13. gr. Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
 Ráðuneytið hefur aðsetur í Reykjavík. 14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál. 15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim. 16. gr. Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
 Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði. 17. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra. 18. gr. Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta. 19. gr. Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum. 20. gr. Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla.
 Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni.
 Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það.
 Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.
 Með lögum má undanskilja ákveðna embættismannaflokka auk embættismanna þeirra, sem taldir eru í 61. gr. 21. gr. Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til. 22. gr. [Forseti lýðveldisins stefnir saman Alþingi eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar. Forsetinn setur reglulegt Alþingi ár hvert.]1)
   1)
L. 56/1991, 3. gr. 
 23. gr. Forseti lýðveldisins getur frestað fundum Alþingis tiltekinn tíma, þó ekki lengur en tvær vikur og ekki nema einu sinni á ári. Alþingi getur þó veitt forseta samþykki til afbrigða frá þessum ákvæðum.
 [Hafi Alþingi verið frestað getur forseti lýðveldisins eigi að síður kvatt Alþingi saman til funda ef nauðsyn ber til. Forseta er það og skylt ef ósk berst um það frá meiri hluta alþingismanna.]1)
   1)
L. 56/1991, 4. gr. 
 24. gr. Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, [áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið],1) enda komi Alþingi saman eigi síðar en [tíu vikum]1) eftir, að það var rofið. [Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.]1)
   1)
L. 56/1991, 5. gr. 
 25. gr. Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta. 26. gr. Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu. 27. gr. Birta skal lög. Um birtingarháttu og framkvæmd laga fer að landslögum. 28. gr. Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög [er Alþingi er ekki að störfum].1) Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð [fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný].1)
 [Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna frá því að þingið kom saman, falla þau úr gildi.]1)
 Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþykkt fjárlög fyrir fjárhagstímabilið.
   1)
L. 56/1991, 6. gr. 
 29. gr. Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis. 30. gr. Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.





föstudagur, 20. september 2013

Atvinnuvegir: Hönnuð atburðarás??

Nú rís hver topphatturinn upp af öðrum og jarmar um útflutning atvinnuveganna.  Öll fyrirtæki verði flutt úr landi eftir smátíma.  Gjaldeyrisumhverfið er ómögulegt,  fjármálageirinn er ómögulegur, skattarnir of háir.  Allt er undirbúningur.  Að leysa gjaldeyrishöftin úr viðjum stjórnmálanna.   Gera það með sprengingu og hvelli, Gengislækkun upp á nokkra tugi prósenta,  engin veðigjöld,lágir fyrirtækjaskattar.  Já, það verða allir glaðir, nema launamenn, öryrkja og ellilífeyrisþegar.  Hverjum er ekki sama um þá.   

Svo hittast valdamennirnir á barnum á 101, hlæja hátt, og reikna úr arðinn sem framundan er.  Já, það eru gósentímar í nánd.  Hver ætli fái svo Landsbankann á spottprís???  Já, lífið er ekki sem verst söng Svante.  Kannski fara fjárgreifarnir á Karokí stað og syngja Abba og Megas. Moní moní moní. Og spáðu í mig.   Auðvitað viljum við öll spá í þá í næstu kosningum. Þegar Hádegismóaliðið er búið að dæla, dæla í landslýðinn rugli.  Enginn kippist við þótt atkvæðagreiðslu um flugvöllinn sé stjórnað þaðan.  Ó nei.  Þeir eiga móana, landið og miðin, herrarnir þar. 

Já, lesendur góðir, Livet er ikke det værste man har, om lidt er kaffen klar. Ekkert Latte rusl fyrir mig. 

fimmtudagur, 19. september 2013

Æsing: Samræmd/könnunarpróf á villigötum?

Nú er fólk farið að æsa sig út í Samræmd próf aftur, þau eru bara svínafóður, er verið að ala svínin á einhverju vafasömu. Auðvitað ere það próf 10. bekkur sem rætt er um, eins og hann skipti enn öllu máli um inntöku í framhaldsskóla.  Enn eru gagnrýndar spurningar við ljóðum.  Spurningarnar eiga að vera svo innihaldsríkar fyrir nemendurna að hálfa væri nóg.  Það væri gaman að vita um hvað umrætt ljóð fjallaði að mati bloggritara.  

Það er sorglegt að kennari skuli ekki hafa orðið var við breytingar á stöðu samræmdra/könnunarprófa, þar sem þau eru haldin að hausti núna til þess að nemendur sem eru flestir orðnir 15 ára gamlir geti hugað að stöðu sinni þennan seinasta vetur í Grunnskóla.  Það er enginn felldur á þessum prófum, kennarar hafa líka tækifæri að fjalla um hina ýmsu þætti námskránna, sem erfitt er að fella inn í próf, 8-9 mánuði fram á vor, þar sem könnunarprófin  byggjast að mestu leyti upp á krossaspurningum.  Það eru ýmsir sem vilja fá gömlu, góðu samræmdu prófin, þeir skynja breytingar sem bloggskrifari virðist ekki átta sig á.  Samanborið landsfundur Sjálfstæðisflokksins:

 Í ályktun allsherjarnefndar- og menntamálanefndar landsfundar Sjálfstæðisflokksins er sömuleiðis lagt til að samræmd próf við lok grunnskóla verði tekin upp á ný, „til að framhaldsskólar geti metið nemendur á jafnréttisgrundvelli við ákvörðun um inntöku“.
Samræmd próf í 10. bekk voru lögð niður með nýjum grunnskólalögum sem tóku gildi árið 2008 en í stað þeirra tekin upp könnunarpróf að hausti, með svipuðu sniði og í 4. bekk og 7. bekk. Þess breyting hefur verið umdeild og halda sumir því fram að hún sé orsakavaldur n.k. einkunnaverðbólgu í grunnskólum þar sem kennarar vilja tryggja að nemendur þeirra komist inn í framhaldsskóla

Það eru líka könnunarpróf í 4. og 7. bekk sem sjaldan eru rædd, þar eru líka umdeilanleg atriði, enginn er fullkominn ekki einu sinni starfsmenn Námsmatsstofnunar.  En mér finnst að sú umræða, um þessi próf í  4., 7., og 10. bekk eigi að vera til þess að gera þau betri meðan þau eru við lýði.   Starfsmenn Námsmatsstofnunar eru ekki að semja próf af illgirni einni heldur eru þeir að reyna að semja þau með hliðsjón af Námskrám fyrir grunnskóla sem ráðherra og ráðnuneyti hafa skrifað undir, stundum í miklu samráði við kennara og samtök þeirra, stundum í litlu samráði, það fer hvers konar ríkisstjórn situr við völd. Farið er með spurningar út í skóla landsins og þau prófuð á stórum hópi af nemendum.  Útkoman þar er meira í samræmi við lokaniðurstöður sem nemendur fá í hendur en skoðanir nokkurra   kennara og sérfræðinga sem telja sig vera í heilögu stríði við yfirvöld og vita flest betur. Það er hægt að færa ágæt rök fyrir því að próf eigi ekki að vera í skólum.  En það hafa ekki foreldrar, kennarar eða yfirvöld fallist á og hafa önnur rök.  

Blogghöfundur segir : Matsaðferðirnar eiga bara, að mínu mati, að vera allt aðrar og mæla fjölbreyttari þætti.  

Matsaðferðirnar eru fjölbreyttar ef kennarinn og skólinn sem hann starfar við vilja, Það er skólinn sem sendir frá sér einkunnir nemenda í lok 10. bekkjar Grunnskóla og námskrár ætlast til fjölbreytni í mati. Samræmd próf hafa ekki það gildi sem blogghöfundur segir. Það er kennaranna og skólann að vinna námsmat úr hinum fjölmörgu þáttum allra greina skólakerfisins.  Sem betur fer eru gerðar kröfur um það víða.  

PS.   

Þessa efnisgrein skil ég ekki: 
Og það skyldi enginn halda að það sé nauðsynlegt að hanna prófið þannig að meirihluti þess sé ekki á valdi þriðjungs nemenda. Niðurbrot nemenda skrifast algjörlega á sparnað og gamaldags matsaðferðir. 




þriðjudagur, 17. september 2013

Páll á Húsafelli



Það er gaman að koma við hjá Páli listamanni á Húsafelli. 

Hann er galdramaður eins og Snorri! 

Sannir listamenn eru göldróttir!










mánudagur, 16. september 2013

Vetur á Sýrlandi

Ég hef aldrei komið til Sýrlands aldrei til Mið-Austurlanda.  Þar hefur ansi margt gerst seinustu árin.  Ágætir kunningjar mínir fóru fyrir nokkrum árum til Sýrlands með henni Jóhönnu Kristjóns.  Það var merkileg ferð sögðu þau.   

Nú eru ekki margir ferðamenn þar.  Landið hefur verið lagt í rústir einar.  Sem sér ekki fyrir endann á.  Nú hafa stórveldin samþykkt að ekki eigi að vera efnavopn þar.  Það má nota hvað sem er annað.  Mig skortir þekkingu að telja upp þau vopn sem þar eru notuð til að drepa fólkið í landinu og einn og einn sjálfboðaliða sem hefur tekið þá afstöðu að berjast með öðrum hvorum stríðsaðilanum.  

Það sem ég hef fengið að vita með því að reyna að fylgjast með gangi stríðsins er: 

á annað hundrað þúsund manns hafa verið drepnir
her landsins bombarderar landa sína með stórskotaliði og flugvélum
allir sem geta dæla vopnum í stríðsaðila 
stríðið hefur skapað gífurlegt flóttamannavandamál fyrir löndin í kring
verið er að leggja allar stoðir þessa samfélags í tætlur, afmá menningu, fornleifar, byggingar, vegi og borgir.
börn og ungmenn missa af menntun sinni og uppeldi 
allt snýst um stríðsrekstur 

Á meðan horfum við á, sameiginleg stofnun okkar Sameinuðu þjóðirnar er lömuð vegna átaka stór- og heimsvelda.  Svo á herinn að afhenda efnavopn sín, hvað sem á svo að gera við þau, það er erfitt að eyða efnavopnum.  En svo á að halda áfram að drepa, drepa og drepa.  En bara ekki með eiturvopnum.  Öllu öðru.   Þetta er sárara en orð geta tjáð.  

þetta getur leitt til átaka í fleiri löndum 
vanhæfir harðstjórar þar og annars staðar halda áfram að ríghalda í völd sín þetta lengir valdatíma þeirra
við höldum áfram að fá olíu frá þessum heimshluta 


Við getum með sanni sagt að það er Vetur á Sýrlandi ekki sumar. Orðið FRIÐUR er sjaldan notað.  Það er Vetur á Sýrlandi, vetur í hugsunum okkar.  

Fjölmiðlar helgarinnar: RÚV sigurvegarinn

Var að fletta fjölmiðlum helgarinnar sem ég hef aðgang að.  Það var ekki jákvæð reynsla.  Yfirgengileg yfirhelling auglýsinga og áróðurs, aðallega á svið heilsuiðnaðar og tísku.   Satt að segja hefur maður á tilfinningunni að það sé verið að kæfa mann í drasli.   

Fréttablaðið reynir að flagga einhverju um helgarnar, pistlahöfundarnir eru ekki fjölbreytt flóra, Steini Páls er stundum með forvitnilega pistla, er líklega fordómalausasti hægrimaður landsins.   En það vantar alla breidd í pistlana.  Sá eini sem mér finnst verulega skemmtilegur er Pavel, maður þarf ekki alltaf að vera sammála til að njóta hugleiftra hans.  

Eina fréttin bitastæð var um sölur Orkuveitu Reykjavíkur, þar kemur mér svo sem ekki á óvart hversu erfitt er að selja stór fyrirtæki og eignir,  fjármagn er erfitt að fá alls staðar,  þetta sagði seinasta ríkisstjórn landsmönnum en þeir trúðu þessu aldrei og urðu því auðvelt fórnarlamb óábyrgra stjórnmálaafla xB og xD.  

En minnumst á það sem er gott, það var einstaklega skemmtilegt viðtal við heimsfrægan íslenskan arkitekt sem ég hef aldrei heyrt minnst á, Jórunni Ragnarsdóttur, það var svona hlýlegt og náttúrulegt.  

Fréttatíminn virðist sérhæfa sig sem  kvennamiðill ég taldi 8 heilsíðuviðtöld og greinar þar sem 7 voru um konur og 1 um kall, ef ég man rétt.  Gunnar Smári er stundum með skemmtilega pistla.  En gagnrýnin blaðamennska?  Nei það var ekki mikið af henni.  Það verður vera meiri fjölbreytni svo ég fletti þessu blaði og lesi. Gunnar Hersveinn var með smápistil góðan  Annað var heilsa, mataræði, prjón og hekl, ennþá vantar helgarblað fyrir fólk sem vill fylgjast með fréttum, menningu, listum á gagnrýninn hátt. 

Það getur maður keypt á netinu frá útlöndum, svo hugurinn leitar æ meira þangað um helgar,  

En það er RÚV, sjónvarpið á sunnudagskvöldum sem ber af fjölmiðlunum um þessa helgi, í gærkvöldi var það skemmtilegt við Ragnhildar Steinunnar við Kára Helgason, doktorsnema í Ameríku, gaman líka að sjá gamalt kunningjafólk úr Borgarnesi, foreldra hans;    og þáttur Víkings Heiðars, Höllu Oddnýjar og Viðars Víkings um klassíska tónlist. Loks norska framhaldsmyndin Halvbroren, hún hefur gripið mig, og sjónvarpið er meira  að segja farið að auglýsa sérstaklega norræna þætti og myndir sem eitthvað sérstakt, það er nýtt.  Svona á dagskrá að vera, ég missti að vísu af myndinni um fyrri heimsstyrjöldina seinustu tvo sunnudaga eftir sögu Sebastians Faulks.  Svo er Broen II að koma ég bíð spenntur. 

Já lesendur góðir það haustar, stormurinn æðir um landið, það er eins og allt gerist fyrr núna, ég man þegar ég bjó í Borgarnesi þá tók maður upp kartöflurnar í byrjun október. En morgnarnir eru nú fallegir.  Þessir myndir eru teknar um sexleytið að morgni í seinustu viku.   




laugardagur, 14. september 2013

Verðlaun: Arnaldur, okkar maður í útlöndum.

Arnaldur er okkar maður, við gleðjumst með sigrum hans.  Nú eru það spænsk verðlaun fyrir ótútgefna bók. Og hann sigrar.  Við ljómum, við glitrum af gleði.  Bókin heitir Skuggasund ,  mbl.is ýsir söguþráæðinum: Skuggasund gerist í stríðinu. Árið 1944 finnst stúlka kyrkt á bak við Þjóðleikhúsið sem þá var birgðastöð fyrir herinn. Sagan gerist síðan í samtímanum þar sem lögreglumaður sem kominn er á eftirlaun kannast við þetta gamla mál og byrjar að garfa í því þar sem það virðist aldrei hafa verið leyst.“  

Það verður gaman að lesa bókina.  Allar bækur hans hafa ekki verið góðar, en margar.  Heilsteiptur stíll, persónur sem maður lærir að meta.   Sem lifa með manni.  

Mýrin var góð á filmu,  ég hef séð hana á íslensku, þýskur og frönsku.  Döbbingin á þýsku var mjög góð.  Samt er Ingvar ekki minn Erlendur, maður býr sér til ímynd af persónunni, og Ingvar er ekki hún hjá mér. Samt er hann góður.  Enn er enginn sem hefur leikið Wallander minn Wallander.  Svona starfar hugurinn. 

Arnaldur er líka eini höfundur okkar sem er víðfrægur.  Maður sér það í Svíþjóð, Þýskalandi, Frakklandi, alls staðar er hann áberandi.  Við gleðjumst með okkar manni. Við lesum hann, hann hefur tekið við Alistair Mc Lean sem ótrúlegur fjöldið las á jólanóttina fyrir nokkrum áratugum.   Það er gott að hafa svona höfund til að halda forlagi gangandi.  

Svo er hann svo íslenskur,  genin hans eru mynduð úr mold, grjóti og grasi.  Svo auðvitað elskum við hann öll .  Ef einhver segir eitthvað annað þá er hann að ljúga.  

Ég er viss um að Sigmundur Davíð og Vigdís Hauks hafa stafla af bókum hans á náttborðinu.