fimmtudagur, 10. október 2013

Lífið er ópera, eða ekki!!!!

Það er mikið að gerast í menningarlífinu.  Alice Munro, Kanadakonan, meistari smásögunnar fær bókmenntaverðlaun Nóbels.   Ég hef aldrei verið duglegur í smásögum þarf að taka mér tak þar.  Svo það er best að draga fram Munro. Svo væri ekki úr vegi að minnast á tvo gleymda landa sem voru ansi góðir á þessu sviði, Þóri Bergsson og Halldór Stefánsson, þá las ég forðum.   

Óperan blómstrar sem aldrei fyrr í vetur, það eru afmæli tveggja
stórmeistara, Verdis og Wagners.  Mikið um útgáfur stórsöngvarar gefa út lagadiska, ansi fína, Þrír hafa komist til mín, Placido Domingo, Verdi, þar sem hann syngur með baryton rödd sinni nýju.  Jonas Kaufmann, The Verdi album, Íslandsvinurinn góði, með mörg hittin, La Donna e mobile og Celeste Aida og svo framvegis. Ekki má gleyma Wagner diskinum hans frá því í fyrra, frábær!!! Og rússneska valkyrjan, Anna Netrebko, Verdi, heitir þessi líka.  Kraftur eins og í túrbínu.   Mæli með öllum þessum. Gott að láta drynja í húsinu. Ég veit ekki hvað nágrannarnir hugsa.....

Svo er Carmen að koma í Óperuna, það er spennandi, og Metropolitan byrjað í bíó.  Það ku vera algjör draumur.  

Já, lífið er Ópera.  Ég veit ekki hjá Bjarna Ben, þar er teorían sem ræður ríkjum, skattar eru ekki af hinu góða,  betra að skera, skera af menningu, skera af fræðslumálum, skera af félagskerfinu, skattalækkanir eru nauðsyn, sérstaklega fyrir þá sem hafa hæstu tekjur. Nýfrjálshyggjan ræður ríkjum.    

Nei, lífið er ekki Ópera hjá sumum.      

http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/10/10/bjarni-ekki-horfid-fra-skattalaekkunum-til-ad-auka-fjarveitingar-til-landspitalans/

miðvikudagur, 9. október 2013

Haustblús :Að gleyma Hruninu

Það er alltaf skrítin tilfinning við fyrsta snjó haustsins eða vetrarins.  Oft er það þannig að maður lítur út um gluggann og þá blasir við bylur oft í tiltölulega góðu veðri, þó ekki alltaf. Veröldin breytist í hvitan töfraheim. Sem oft stendur ansi stutt.  Svo er þetta líka ein  þáttaskilin enn í lífi manns.  Enn einn vetur sem stundum er erfiður stundum ekki.  Það fer eftir því hvernig manni líður hið innra.  Þá bætis líka við ástandið í kringum mann. 

Nú rifjar maður upp árið þegar allt gerðist.  Hrunhaustið, þegar við sátum límd klukkan fjögur fyrir framan sjónvarpið í vinnunni, á fullu kaupi.  Og hlustuðum og horfðum á manninn sem heldur að gamla fólkið hafi ekki orðið hrunsins vart.  Ég þekki gamalt fólk sem missti nær allt það hafði lagt fyrir til ellinnar.  Ég þekki marga sem hafa síðan barist við að halda húsi og fasteign.  Ég veit ekki um sjóndeildarhring Geirs Haarde, hann verður aldrei í augum mínum stórmenni.  Hann laug of mikið að okkur þetta árið, 2008.  Þegar hann brunaði um lönd og fullvissaði yfirvöld og fjármálamenn að það væri bara allt fínt með bankana á Íslandi!!! Á meðan samstarfsmaður hans Bjarni Benediktsson var búinn að selja hlutabréfin sín í byrjun ársins. Eflaust hafa það verið margir aðrir.  Ég veit ekki um Geir.  En ég er viss um að hann vissi betur en hann sagði okkur. Og stjórnmálamenn eiga aldrei, ég sagði aldrei að ljúga að okkur. Hvaða flokki eða fylkingu sem þeir tilheyra. 

Þessi vetur 2008-2009 var furðulegur, hann leið eins og draumur, kannski ekki martröð, en furðulegur draumur.  Fjöldafundir, átök, eldar á Austurvelli, steinkast í Aþingishúsrúðurnar,  almenningur að hrista til bíl forsætisráðherra, meðan hann hélt að kannski væri runnið upp sitt síðasta.  Piparúði í loftinu, byltingarræður hjá Herði, 
þetta var tími sem gleymist seint þeim sem upplifðu.  Sumir halda að við getum snúið aftur til lífsins eins og það var.  Þetta hafi bara verið slys.  Ansi dýrt slys.  Margir vilja gleyma því að útlendingar töpuðu hundruðum ef ekki þúsundum milljarða á starfsemi íslensku bankanna. Það er ekki nóg að segja að þeim hafi verið nær.  Okkar fólk hafði ekki þann siðræna grunn að stunda þessa tegund af fjármálum. Það eru margir sem vilja ekki viðurkenna það.  Á meðan er spurning hvort einhverjar breytingar verði.  Sérstaklega þegar sumir þeirra eru í æðstu stöðum samfélags okkar.  

Mér er ekki rótt.  Þess vegna er Haustblús í huga mér.  En eflaust mun þessi vetur ganga yfir hjá flestum. Flestir koma undan snjó heilir.   Ekki allir.  


Myndir :  Fyrsti snjór haustið 2013 EÓ 


















þriðjudagur, 8. október 2013

Landspítali: Er þetta hægt?

Þetta er ótrúlegt að upplifa þetta mánuð eftir mánuð.  Átakalausir og ráðþrota ráðherrar: 


Neyðarástand á Landspítalanum: "Tímaspursmál hvenær einhver deyr“

Öll myndgreiningartæki biluð á spítalanum


Hvernig væri að ríkisstjórnin meinti eitthvað með því sem hún skrifar á blað eða segir, sýnir að stjórnarsáttmáli er ekki bara þerriblað til að nota þið vitið hvar.   Og tekur aftur vonlausa hugmynd um skattalækkun miðstéttarinnar sem er svo lítil að hún skiptir engu máli fyrir einn eða neinn. Ákveður að láta 5 milljarðana í sjúkrahús landsins.   Til að kaupa græjur og sýna einhvern metnað í rekstri.  Það verður enginn minni maður af því að endurskoða ranga ákvörðun, skattalækkanir eiga stundum við en ekki nú.  Ef ekkert er gert þá fer öll tiltrú af liðinu í stjórnarráðinu.  Og heilbrigðisráðherrann heldur áfram að að vera eins og fáráður mánuð eftir mánuð. 

Sýnið djörfung. Ísland ögrum skorið!!! 
 

mánudagur, 7. október 2013

Hrunhátíðarhöld: 30.000 króna kvöldverður og Davíð

Hvað er að ske, sagði skáldið.  Og það er ýmislegt að ske í dag.  Nýfrjálshyggjusamtök halda upp á Hrunið mikla: Þegar rykið er sest.   Bankahrunið að fimm árum liðnum.  Dýpri skilningur, ný sjónarhorn. Auðvitað verður að halda upp á merka atburði, og heldst túlka atburðina á nýtt.  Já þetta verður spennandi að fara ofan í djúpið og virða fyrir sér orsakir hrunsins.   Útvaldir túlkendur nýfrjálshyggjunnar munu leiða okkur í allan sannleik um það sem gerðist.  Það var bóla og ofurfjárfestingar Banka.  Þar komu við sögu engir stjórnmálamenn, engir starfsmenn ríkisstofnana eins og Seðlabankans og FME. Ó nei, Við fáum einn fulltrúa bankakerfisins sem greindi fyrir okkur í nokkur ár hvað væri að gerast.  Ásgeir Jónsson.  Hann greindi svo vel að sannleikurinn var sjaldan þar á ferð.   Við fáum uppáhaldið okkar Stefaníu Óskarsdóttur sem fræðir okkur  stöðugt um gang stjórnmálanna hérlendis. Og Ásta Möller fyrrum alþingiskona, núverandi starfsmaður Háskólans kynnir herlegheitin.   Og svo eru auðvitað erlendir sérfræðingar frá valinkunnum stofnunum.   Svo er þessi dýrðarsamkoma haldin í Háskóla Íslands.  En, lesendur góðir, ekki á vegum háskólans eins og margir kynnu að halda.  

Það er stofnun, RNH, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, sem boðar til veislunnar: 

Tilgangur RNH er að rannsaka, hvað örvi og hindri nýsköpun og hagvöxt. Í rannsóknum stofnunarinnar er sérstaklega beint sjónum að því, hvernig menn geti með sjálfsprottinni samvinnu, viðskiptum í stað valdboðs, fullnægt þörfum sínum og bætt kjörin." Þeir sem skipa trúnaðarstöður hjá þessu merka setri eru: 

Rannsóknarráð: Dr. Ragnar Árnason hagfræðiprófessor, formaður, dr. Hannes H. Gissurarsonstjórnmálafræðiprófessor, dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent. Hannes Hólmsteinn er forstöðumaður rannsókna og ritstjóri rita frá RNH. Hér er ræða, sem hann hélt í febrúar 2012 um verkefnin framundan. Þeir Birgir Þór og Hannes Hólmsteinn blogga báðir reglulega.
Stjórn: Gísli Hauksson, formaður, Jónas Sigurgeirsson, Jónmundur Guðmarsson. Framkvæmdastjóri: Jónas Sigurgeirsson
 Hann er þáttur í samstarfsverkefni viðAECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. 
Svo mörg voru þau orð.  Svo lýkur herleigheitunum auðvitað með góðum málsverði og hátíðargesti. Frelsiskvöldverður RNH, auðvitað hlaut Frelsið eitthvað að koma við sögu, þeir sem eiga frelsið mega nota það og misnota.   Og hver haldið þið að  sé aðalræðumaður?    Getið. Getið aftur. Auðvitað maðurinn sem gaf bönkunum nokkra milljarða eða voru það ekki nokkur hundruð í aðdraganda Hrunsins.  Maðurinn sem hefur stöðugt verið að stunda kattarþvott á síðum Morgunblaðsins.  Með aðstoð síns ágæta samherja og boðbera Hannesar Hólmsteins.  Svo liggur á að lýsa því sem háttvirtur Ritstjóri ætlar að segja frá að í fréttatilkynningu þarf að kynna sakleysi hans:  

„Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis,“ sagði Davíð á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007, ári fyrir bankahrunið. „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess, sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Í frægum sjónvarpsþætti 7. október 2008 varðaði Davíð leiðina út úr ógöngum Íslendinga, sem væri að þjóðnýta og reka áfram hinn innlenda hluta bankakerfisins, en gera upp hinn erlenda hluta, selja eignir og greiða skuldir. Þessum ráðum var fylgt, en hann þó hrakinn úr stöðu seðlabankastjóra. Í ræðu sinni mun Davíð rifja upp hina örlagaríku daga í október 2008, meðal annars boðskap sinn í sjónvarpsþættinum.

Og auðvitað mun fyrrverandi Seðlabankastjórinn segja hnyttnar sögur, hann mun ekkert minnast á ummæli sín frægu um Forsætisráðherrann á ögurstundu, vin sinn, við fáum auðvitað þessu einu sönnu túlkun á þessum atburðum, sem hægt er að lesa í Staksteinum og Reykjavíkurbréfi þar sem siðfræði blaðamennskunnar er löngu horfin út fyrir sjónarrönd. 

Auðvitað er uppselt á þennan dýrlega kvöldverð.  Og allir fara brosandi heim fullir af fullvissu um sannleikann, þennan eina sanna. En ætli þá dreymi ekki búsáhaldahljómsveitina miklu, ætli þá dreymi ekki elda á Austurvelli.  Ætli þá dreymi ekki andlit fólksins í landinu sem færast æ nær þeim.  Ætli þeir vakni nokkuð upp af martröðinni öskrandi???   

  

sunnudagur, 6. október 2013

Reiður ritstjóri: Hvað er að ??????

Af hverju er hann svona reiður? Ritstjórinn í Hádegismóum? Og af hverju er hann svona reiður út í RUV.  Sem hafði hann í vinnu hér um árið í Matthildi, vinsæll þáttur.  Það vantar meira af svona Matthildargaur í honum í dag. 

Ég sé enga ástæðu fyrir hann að vera reiðan: Hann á væna fjölskyldu, hefur komist vel áfram í lífinu: var Borgarstjóri og borgarfulltrúi, var Alþingismaður og Forsætisráðherra, var Aðalbankastjóri Seðlabankans.  Skrifaði alþekkt smásagnasafn og kom við á Bergþórugötu í söngtexta. Margar frægar línur eru hafðar eftir honum.  Nú er hann ritstjóri Morgunblaðsins og heldur í marga þræði svona hér og þar, en gullkornum hans hefur fækkað. Nú er þetta illskustagl.     

Af hverju er hann svona reiður???? Ætti hann ekki að finna leiðir til að njóta lífsins?  Hvað sagði Jón Vídalín forðum? Og Benjamin Franklin? 

Allt það sem byrjar í reiði endar í skömm.

     

miðvikudagur, 2. október 2013

Vangavelturnar hans Bjarna

Það virðast vera ýmsar umræður innan meirihlutans hvað eigi að gera við gullið. Þið vitið hvaða gull.  Eða eru kannski engar umræður?  Tveir forystumennirnir virðast tala út og suður.  Nú heita stórloforð, aðallega xB, Vangaveltur hjá Bjarna, og auðvitað er þetta eitthvað sem Bjarni leikur sér með. Og reynir að prjóna utan um í Kastljósi í gærkvöldi.Í stjórnarsáttmálanum er kaflinn hér að neðan um Heimilin og þar er orðalagið svona: 

Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.


er rétt, að öllum líkindum, til að koma móts við, segir sáttmálinn, smá vafi en ríkisstjórnin samt tilbúin að ganga ansi langt jafnvel að stofna leiðréttingarsjóð ef þrotabúaleiðin gengur ekki. 

Bjarni segir: 

Hvernig það nákvæmlega mun skila sér, það á einfaldlega eftir að koma í ljós og hvaða svigrúm mun þá skapast,“ segir Bjarni og bætti við: „Að því marki sem það mun skapast þá erum við sammála um það að nýta það, meðal annars, í þágu þess að létta skuldastöðu.“

Takið eftir orðalaginu hjá Bjarna, að því marki sem það mun skapast -    erum við sammála, - og svo þetta skrítna - meðal annars, meðal annars í þágu þess að létta skuldastöðu.  Eru hugmyndir um eitthvað annað?  Er það í stjórnarsáttmálanum?  Eflaust á hann við að gerið niður skuldir ríkisins. 

Það sem skín út úr þessu að það er lítið vitað hvað gerist, og ýmsir eru á báðum áttum, leiðirnar eru ekki beinar og breiðar, öngstræti geta leynst á leiðinni og blindgötur.  En hvort það nægi xB að bjóða kjósendum sínum upp á það,þessum 12-14% sem kusu þá núna líklega í fyrsta sinn.  Já, lesendur góðir það er annað mál. 


Þetta var haft eftir Bjarna í dv.is. 


Bjarni segir að það standi í stjórnarsáttmálanum að það skapist vonandi svigrúm. „Það sem ég á við er að þetta er svona opin umræða er að það hafa ekki verið færðir fram mjög nákvæmir útreikningar – er það– einhverjar prósentutölur eða einhver ákveðinn fjöldi milljarða. Við sjáum það á verðlagningu á kröfur á þessi félög í slitameðferð. Við sjáum það á allri umræðu og við sjáum það einfaldlega í hendi okkar að það mun þurfa að koma til þess að kröfur verði afskrifaðar. Ástæðan fyrir því að höftin eru til staðar er sú að kröfur innan þessa félaga verður að færa niður. Hvernig það nákvæmlega mun skila sér, það á einfaldlega eftir að koma í ljós og hvaða svigrúm mun þá skapast,“ segir Bjarni og bætti við: „Að því marki sem það mun skapast þá erum við sammála um það að nýta það, meðal annars, í þágu þess að létta skuldastöðu.“


Þetta stendur í stjórnarsáttmálanum 

Heimilin
Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins.
Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til
kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni
fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010
en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður
að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum
vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.
Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að
öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og
þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust
til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim
möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.

Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem
flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Lækkun höfuðstóls nýtist þá til að koma í veg
fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði aukist verulega, jafnvel þótt lán verði greidd hraðar niður.
Þannig má einnig koma í veg fyrir þensluhvetjandi áhrif leiðréttingarinnar og styrkja grundvöll
peningastefnunnar, en það er mikilvægur liður í afnámi hafta.
Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu
húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir
næstu áramót.
Unnið verður að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál, sem varða skuldir einstaklinga
og fyrirtækja, fái eins hraða meðferð og mögulegt er. Óvissu um stöðu lántakenda gagnvart
lánastofnunum verður að linna.

þriðjudagur, 1. október 2013

Fjárlög: Skrýtið samsafn verð ég að segja ........

Skrýtið frumvarp:  Sumt ekki svo galið, eins og lækkun meðalskattbyrði, líka að skatta fjarmagnsgeymslurnar miklu,  en er þetta ekki fólkið sem á að semja við seinna til að fá milljarðana hans Sigmundar Davíðs?, kannski er sniðugt að hóta þeim svona smá, ef ekkert gerist á næsta ári er hægt að hækka skattinn meir og meir og svo framvegis.  

En svo er eins og slái útí fyrir þeim að öllu leyti. Listir og menning eiga alltaf undir högg að sækja hjá hægriöfgastjórnum,  margt smátt skorið niður. sumt stórt eins og kvikmyndageirinn.  Umhverfið er eitur í beinum íhaldsins, og þar er ýmislegt hressilega skorið niður.  

Svo er ýmsu sleppt eða frestað eða dregið til baka.  Margt í hjúkrunargeiranum,  þar hélt maður að það yrði sett eitthvað inn í samræmi við loforð framsóknar, sérstaklega þegar xD á stóran hóp stuðningsmanna í hópi lækna, kannski fá þeir aftur að hafa stofur út í bæ......  En líklega ætlar framsókn að setja landsmet seinustu 100 ára í kosningaloforðum sem voru svikin. Og 1200 kallinn, þó hann sé ekki mikill í sjálfu sér, þá kemur hann illa við láglaunafólk og langlegusjúklinga í lægsta tekjuhópnum, en versta við þetta er að þarna er sett fordæmi fyrir seinni stjórnir, ný glufa opnuð, sem erfitt er að loka, auðveldara að opna upp á gátt.  Við sjáum til.   

Hér er ýmislegt talið upp í mbl.is til lækkunar: Ég var búinn að nefna Kvikmyndasjóðinn en athygli vekur gríðarmikil lækkun rannsóknarsjóða Rannís, og aldrei dettur íhaldinu að hækka fjármagn til smáfyrirtækja þar sem töluverðar rannsóknir eru líka á borðinu, þar hefur verið burðarás atvinnulífsins seinustu árin. Og þjóðgarðar eru eitur, Vatnajökulsþjóðgarður sem á eftir að verða burðarás ferðaþjónustunnar fær 4 ára seinkun nú. 

Stórframkvæmdir eru varla til,  eitthvað smá talað um álversígildi, hugsið ykkur álversígildi,  sem Árni Finnsson hefur talað um á Fésinu. Hin frægu hjól atvinnulífsins virðast hægja og hægja og hægja á sér. Loks hafa herrarnir áttað sig á því að hvergi í okkar heimshluta er fjármagn sem bíður annarra herra sem geta ávaxtað það í atvinnumennsku.  Það er stöðvun víða, fiskverð getur lækkað enn meira, álverðið hoppar ekki upp í loftið.  

En eitt gott, þróunaraðstoð verður ekki lækkuð, við sjáum nú hvað Vigdís segir....... 

Ég segi nú eins og Elín Björg, formaður BSRB, verra gat það verið:

„Ríkisstjórnin var kosin út á stór og mikil loforð en lítið af þeim sjást í frumvarpinu,“ segir Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB. Hún segir að við fyrsta lestur boði fjárlagafrumvarpið ekki eins miklar breytingar eins og margir áttu ef til vill von á. 

en það er ansi margt smátt sem er mulið niður sem einstakir hópar eiga eftir að verða fyrir. Og þetta er ansi sorglegt að þjóðin kjósi þessa óhamingju yfir sig þegar farið var að birta upp, stjórn sem hugsaði um menningu listir, umhverfi og byggðamál  í samræmi við aðra þætti var hrakin frá til að fá skýjaglópa til valda.

En við ætlum að syngja Sverri Stormsker næstu dagana og kötturinn tekur undir. Horfðu á björtu hliðarnar.