miðvikudagur, 5. febrúar 2014

Woody Allen: Glæpir og refsingar

Í seinustu viku horfði ég á nýjustu mynd Woody Allens, Blue Jasmine, myndin fjallar um konu í taugaáfalli, ekki á barmi, heldur í.  Fjölskylda hennar hefur gengið í gegnum miklar hörmungar, maður hennar sem var fjármálamaður setti allt á hausinn, var fjárglæframaður, það tætir fjölskylduna í sundur og hún Jasmine heitir hún leitar á náðir systur sinnar sem
tilheyrir annarri stétt, hún er ekki rík, er á öðru menningarsviði ef maður segir svo, býr í fátækrahverfi að mati systurinnar.  Svo heldur harmleikurinn áfram í nýrri borg á nýjum stað, meira vil ég ekki segja.  Nema að þessi mynd var afargóð og leikur Cate Blanchett, áströlsku leikkonunnar víðfrægu, var þvílíkur að annað eins hef ég ekki séð lengi. Það er merkilegt að Woody Allen geti gert mynd sem hefur svo mikla stéttarlega og samfélagslega tilvísun.  

Svo komu nýju fréttirnar um samskipti Woodys og fyrrverandi uppeldisdóttur hans.  Einu sinni enn.   Við Íslendingar erum svosum orðin hagvön fréttum af kynferðisglæpum gegn börnum og unglingum. Það er meira að segja dæmt í þessum málum núorðið.  Lýsingarnar á framferði barnaníðinga eru ekki óþekkt fyrirbrigði en málið er ennþá hvort hægt sé að sanna á þá glæpinn. Oft koma glæpirnir upp úr sálartetrinu eftir mörg ár. Við viljum ekki að saklaust fólk lendi í fangelsi.  Ekki einu sinni þótt sumt geti bent til sektar.  Þannig er með Woody Allen.  Það er kjarngott að hafa hann á milli tannanna, selur vel í fjölmiðlum, þótt hann hafi ekki verið ákærður eða dæmdur.  Við höfðum nýlega dæmi í okkar litla þjóðfélagi í okkar litlu yfirstétt. Þar sem svipað gerðist, ákæra löngu eftir að atburðir gerðust, safamiklar lýsingar í slúðurblöðum, fjölskyldur í sárum.

 Og hvað eigum við að gera, fólkið úti í bæ?   Við sem höfum verið aðdáendur listamannsins eða stjórnmálamannsins?  Ég verð að viðurkenna að þetta hefur áhrif á mann þessar lýsingar, ég man að ég horfði öðrum augum á Íslendinginn sem fékk á sig árásirnar á eftir.  En ég var ekki tilbúinn að dæma hann samt endanlega.  Sama er um Woody ég hef verið aðdáandi kvikmyndalistar hans og orðsnilldar. Hann er einn af þessum snillingum af guðs náð, stundum pirrandi úr hófi, oftar gleðigjafi á erfiðum stundum í lífinu. En getum við dæmt hann, svona einn tveir og þrír án ákæru án dóms?   Gatan er búin að dæma hann, hvernig getur hann varið sig?  Það hafa ekki fleiri stigið fram og bent á hann. Á hann sér uppreisnar von? Eigum við að trúa því að heilt heilbrigðis og dómskerfi taki mál hans silkihöndum þar sem um er að ræða alkunnan einstakling  og er það sama hjá okkur?  

Ég veit það ekki, ég hef ekki spádómsgáfu.  Það er gott að hafa í huga glerhúsið og steinana. 

sunnudagur, 2. febrúar 2014

Hanna Birna: Í umboði hverra????

Sorglegt, að sjá hvernig, við, við, stór hópur Íslendinga halda að flestir þeir sem leita hælis hér séu glæpamenn og hyski.  Enn sorglegra að starfsmenn ráðherra skuli brjóta lög til að viðhalda
hugmyndum um þetta viðhorf.  Sem virðist vera orðið óyggjandi.  Það setur að manni hroll.  Að tilgangurinn helgi meðalið hjá þessu fólki. Svo talaði ráðherrann um það væri svo mikill ágreiningur um stefnu. 
 , það snúist um að koma í veg fyrir það að ráðuneytið geti með trúverðugum hætti unnið að þessum mikilvægu málefnum og að það snúist um það að koma í veg fyrir að sá ráðherra sem hér stendur geti innleitt breytingar sem sannarlega er ágreiningur um. 

Það væri gaman að vita um ágreining þennan. Er það að engir útlendingar eigi að saurga land okkar og mið? Er það að við eigum að láta starfsmenn vafasamra stofnana í friði þeir séu að starfa í samræmi við þjóðarsálina sem þeir eru í beinu sambandi við?  

Svo sér maður þetta aumingja fólk á skjánum sem margt hefur flækst á milli landa hefur ekki komið til heimalands síns í áratugi.  Það er látið bíða sem lengst að fá kennitölu og atvinnuleyfi, það er brotið niður í aðgerðarleysi.  Svo á bara að senda það heim, af því að það er friður og ró í Afganistan!!! 

Mikið þakkar maður fagfólki sem tekur máli þessa fólks þegar á við að hetja heilt embættismannakerfi sem sýnir allar verstu hliðar embættismanna, maður veit ekki í umboði hverra???? Það virðist ekki skipta máli hver sé í stjórn. 

Aðalatriði að ekkert á að koma upp á yfirborðið, fólk flutt út á flugvelli í skjóli nætur, fólk flutt að geðdeildir þegjandi og hljóðalaust. OG við eigum auðvitað að þegja. 


laugardagur, 1. febrúar 2014

Misgóður Hamlet: Ólafur Darri meistari

Sá Hamlet í gærkvöldi í Borgarleikhúsinu.  Misgóð sýning, eins og stjórnendur leikstjóri, dramatúrg hafi aldrei getað ákveðið hvort þeir ætluðu að fylgja hefðinni eða feta inn á
póstmódernistiskar brautir.  Texti WS með nútímabröndurum tölvumáls ekki svo skemmtilegt til lengdar.  Herbúr úr Íraksstríðinu ekki heldur.  Af hverju ekki að fara þá alla leið?  Nútímalíf og stríð?   Kirkjugarðssenan var vandræðaleg, jarðaför Ófelíu gerð að einhverjum kjánaskap.Vantar einhverja heildarsýn stjórnenda, sýningin mun lakari eftir hlé. 

  En það var ýmislegt gott. 

Ólafur Darri, það er ekki amalegt að hafa leikara sem getur fyllt út í stórt og djúpt sviðið og salinn.  Bráðskemmtilegur í brjálsemi sinni. Tragískur í sorg sinni.  Ég gæti hugsað mér að fara aftur til að fylgjast með honum.  Horfa á listir hans og fimleika. Stórleikari, einu orði sagt. 

Aðrir leikarar bara góðir þótt ekki stórbrotnir, mér þótti Ófelía leikkonan ágæt, Hildur Berglind Arndal, Jóhann Sigurðarson,  jú þau skiluðu öll sínu.  

Tónlist Úlfs Eldjárn stjórbrotin ansi góð.  Sviðið stórt og djúpt og skilað sínu, þessar járngrindur eru samt orðnar þreytandi.  

Mér virtust áhorfendur skemmta sér, sýningin oft spennandi, oft fyndin, oft sorgleg, stundum vandræðaleg. 

Svo farið og skoðið sjálf, það er gaman að fara í leikhús.  Þetta er þriðja Hamlet sýningin sem ég sé, Gunnar Eyjólfsson, Þröstur Leó og Ólafur Darri.  Í hugarminningunni er Þröstur bestur.  Sú sýning, var það ekki Kjartan Ragnarsson?, var skemmtileg í spillingarsvip sínum, En það var ansi langt síðan. Ég hugsa að ég hafi breyst síðan.  

Svo sá ég tvær kvikmyndaútgáfur, rússneska myndin í leikstjórn Kozintsev með Innokenty Smoktunovsky í hlutverki Hamlets hafði mikil áhrif á mig á sjöunda áratugnum.




föstudagur, 31. janúar 2014

Bókmenntaverðlaun: Listamenn sem þora og geta

Satt að segja var ég hreykinn af því fólki sem stóð með verðlaunagripi í höndunum í gær á Bessastöðum.  Andri Snær Magnason, Sjón og Guðbjörg Kristjánsdóttir. Þessi þrjú mynda eina heild. Við höfum umhverfissinna og baráttumann sem hefur náð til breiðs hóps lesenda á
öllum aldri, svo er það Sjón, mannréttindafrömuður og talsmaður utangarðsmanna. Svo er Guðbjörg, fulltrúi þess fólks sem vinnur að viðhalda og auka lendur og víðerni  íslenskrar menningar fyrri alda.  

Ræðurnar þeirra sýndu þessa stöðu þeirra, það hefði verið gaman að hafa ræður þeirra til að vitna í en ekki hef ég fundið þær á netinu.  Andri Snær talaði um þá þversögn að þurfa að vinna að ritstörfum á tímum þegar þeirra hlutverk er frekar að vera í baráttu fyrir umhverfi og betra mannlífi. Hann tók meira að segja dæmi vorra daga, Þjórsárver, Gálgahraun og pólitíska ráðningu í útvarpsráð þar sem einum helsta menningarfrömuði landsins er sparkað út til að koma flokksgæðingi framsóknarflokksins inn.  Það var gott að hann gerði það á þessum stað á Bessastöðum, staðnum þar sem æðsti fulltrúi kosinn af þjóðarinnar ætti að sitja og hlúa að menningu og betra mannlífi.  Sjón talaði um stöðu utangarðsmanna, samkynhneigðs fólks sem oft þurfti að lifa við aðstæður sem hlutu með tímanum að naga í sundur hjartaræturnar, nefndi þá sem höfðu gert þessa bók mögulega, Elías Mar og Alfreð Flóka og tileinkaði hana frænda sínum Sævari Geirdal sem dó úr alnæmi.  .  Guðbjörg ræddi um þetta einstaka verk sem við eigum, Teiknibókina, þetta verk sem ég heyrði aldrei minnst á í háskólanámi í íslensku. Sem á fyllilega að verða þekkt um okkar menningarsvæði þar sem það er eina sinnar tegundar á Norðurlöndum.  

Satt að segja varð ég hugsi eftir að hafa hlustað á þessa athöfn.  Hvað þetta fólk okkar er sterkt. Það lifir í samfélagi þar  sem það sætir stöðugt gagnrýni að stunda sína köllun. Þar sem fólk heldur að listamenn séu afætur á þjóðfélaginu sem murka peninga af okkur hinum launafólkinu.  Þótt maður viti annað, vonandi boða okkar tímar að listamenn taki kraftmeiri þátt í þjóðmálaumræðu.  Það hefur heldur hallað á það seinni árin, þótt ég sé ekki að tala um alla. Við eigum svo kraftmikla sveit lista, vísinda og menningarfólks.  Gott væri ef við gætum sagt það sama um ráðamenn sem nú sitja við völd.




fimmtudagur, 30. janúar 2014

Sotji: Olympíuleikar í skugga spillingar og harðræðis

Það er erfitt að horfa upp á Olympíuleika í skugga einræðis og kúgunar.  Það er ekki í fyrsta sinn sem það gerist núna í Sotji í Rússlandi. En við höfum aðgang að betri upplýsingum í dag
en áður, við fáum fréttir um framferði spillingargossa sem hirða til sín milljarða í skjóli Pútins forseta.  Ég horfði á rannsóknarblaða- mennskuþáttinn Uppdrag Granskning í sænska sjónvarpinu í gærkvöldi.  Tveir sænskir fréttamenn fóru til Sotji, fóru í opinberar sýningar Rússa þar sem sýndar voru glæsibyggingarnar, vegir og járnbrautir sem komið hefur verið upp fyrir meira fé en allir aðrir Vetrarolympíuleikarar hafa kostað frá 1980. En þeir gerðu meira, þeir náðu sambandi bæði við Rússa og Farandverkamenn sem hafa þrælað 12 tíma í dag við að byggja upp þessi mannvirki.  

En sjá hvað gerist, þeir fengu fyrstu launagreiðslu og síðan ekki söguna meir.  Þá virðast undirverktakar nota sér það 
með stuðningi yfirvalda að sleppa við launagreiðslur og hirða þær í eigin vasa.  Rússi sem gekk lengst í því að heimta launin sín var tekinn í yfirheyrslu og pyndingar, ásakaður um að hafa stolið rafmagnsgræjum, honum var misþyrmt á alla vegur og meira að segja var stungið járnröri upp í rassboruna á honum.  Hann hefur síðan verið miður sín, andlega og líkamlega, og þótt þingmenn í rússneska þinginu hafi tekið hans mál upp hefur það ekkert dugað.   Farandverkamenn frá nágrannaríkjum Rússlands í suðri og austri hafa fjölmennt í tugum þúsunda til að fá sér vinnu þarna, þeir fengu ekki launin sín og voru síðan sendir heim, án launa og Borgarstjórinn í Sotji flutti ræðu í sjónvarpinu þar sem hann sagði að þetta fólk væri að misnota sér aðstöðu sína og ætluðu að trufla leikana þess vegna hefur þeim verið smalað upp í flugvélar og sendir úr landi. 

Rætt var við æðsta forystumann Svía í Olympíusambandinu. Hún var á móti því upphaflega að halda leikana í Rússlandi og Olympíusambandið hefur gert kröfur á hendur rússneskum yfirvöldum að greiða launin en lítið virðist verða úr efndum.Enda verkamennirnir farnir heim til sín þar sem þeir búa við fátækt og eymd.

Erlendir fjölmiðlar hafa sagt frá því hvernig karlar, gamlir vinir og kunningjar Pútíns hafa fengið stærstu verkefnin í Sotji, öll verkefni hafa farið fram úr áætlun fyrir milljarða. Kostnaðurinn er óheyrilegur. En allt á að vera hið glæsilegast til að dásama hinn nýja alræðisherra, Pútin. 

Íþróttaráðherra Svía ætlar ekki að mæta við setningarathöfnina en ætlar að fylgjast með sínu fólki í keppninni.  Mér skilst að slíkt komi ekki til greina hjá íslenska ráðherranum, enda virðist það vera stefna stjórnarinnar að hafa sem mest og bezt samskipti við harðræðisstjórnir eins og í Rússlandi.   



miðvikudagur, 29. janúar 2014

Philip Glass: Hálffullt eða hálftómt ???

Það var gaman að fara á tónleikana í gærkvöldi í Hörpunni.  Það var svo annað públikum en venjulega er á klassískum tónleikum.  Ungt fólk, boðsgestir, maður sá einn og einn fastagest sinfoníunnar. Þeir voru ekki margir.  En fólk skemmti sér vel, þrátt fyrir að erfitt sé að hlusta á 20 etýður í stíl sem oft virðist vera svo keimlíkur.  En býr yfir ýmsu þegar nánar er hlustað á. Er oft í hugleiðslustíl, austurlensk áhrif, Búddismi. 

Eflaust komu margir vegna góðrar auglýsingamennsku og viðtölum við Glass í fjölmiðlum.  Hann virðist vera ansi geðþekkur maður.  Engir stórstjörnustælar. Þótt líklega sé hann einn mest seldi lifandi tónlistarmaður nútímatónlistar.  Hann hefur auðþekkjanlegan stíl, alla vega heyri ég alltaf hver það er þegar hans tónlist er spiluð í fjölmiðlum.  Ef þið viljið hlusta á hann þá eru verk eins og The Hours (kvikmyndatónlistin), Fiðlukonsert, Book of Longing, með söng og taltextum Leonards Cohen, Einstein on the Beach, ópera, Kundun, kvikmyndatónlist við mynd Martin Scorseces, Heroes sinfonía byggð á stefjum Bowies og Enos við samnefndan disk, Metamorphosis, píanótónlist, svo ég nefni eitthvað sem ég hef heyrt og séð.  

Hann, Víkingur Heiðar okkar og Maki, bráðmyndarleg japönsk kona,  skiptust á að spila etýður, tvö píanó voru á sviðinu, Glass spilaði alltaf á það sama, hin skiptust á.  Glass var auðsjáanlega lakastur þeirra í spilamennskunni, enda 78 ára gamall, hinu voru afbragðsgóð, og margar etýðurnar voru hugljúfar stundum, svo voru óvenjukraftmiklir kaflar á milli.  Svo fjölbreytnin var meiri en ég bjóst við. Seinasta etýðan var gríðarfalleg þar sem hann fetar nýjar slóðir, miðað við hinar. 

Svo ég skemmti mér vel, áhorfendum virtist ekki leiðast, fögnuður mikill í lokin.  Og nú hefur maður séð Philip Glass lifandi.  Svo er spurningin hvort glasið var hálffullt eða hálftómt.  Hver dæmir fyrir sig.  Og sýpur á. 

þriðjudagur, 28. janúar 2014

Pete Seeger: Baráttumaður kveður

Einn af mestu áhrifavöldum alþýðutónlistar 20. aldarer látinn. Pete Seeger dó í gær 94 ára gamall.  Ég myndi nefna hann, Woody Guthrie og Alan Lomax sem þeir sem höfðu mest áhrif
og komu þjóðlagabyltingunni af stað á 6. áratugnum.  Seeger sem andi sem hafði áhrif á aðra og var síungur í anda allt fram á seinusta áratug. Guthrie sem lagasmiður og Alan Lomax sem safnari, Pete vann fyrir hann á unga aldri í söfnun, þar sem faðir hans og Lomax voru vinir.  Hann var sístarfandi í mannréttindamálum, friðarmálum og umhverfismálum.  Margir þekkja lög sem hann er höfundur eða meðhöfundur að: 
Dylan kynslóðin og Greenwich Village hópurinn sungu þessi lög og önnur. sem dregin voru fram í söfnun Lomax. Peter, Paul and Mary og Kingston tríóið komu þeim til almennings.  Leadbelly kom þar við sögu, lagið hans Goodnight Irene, var sungið af Weavers þjóðlagagrúppunni frægu sem Seeger starfaði í.  Þetta lag komst meira segja til Íslands í byrjun 6. áratugs.  Pabbi minn söng það oft þegar hann dró gítarinn fram yfir glasi.   Svo var annað frægt (alræmt) lag sem kom við sögu Petes: Wimoweh , The lions sleeps tonight. Sem var kynnt fyrst sem þjóðlag frá Suður-Afríku þótt það væri frumsamið af fátækum söngvara þaðan. Það er bara seinustu árin sem fjölskylda hans hefur fengið eitthvað úr milljóna stefgjöldum lagsins.  

Pete Seeger var sístarfandi að baráttumálum sínum, hann lenti að sjálfsögðu í Maccarthyismanum, Weavers var bannað að koma fram í nokkur ár.  En hann lét aldrei bugast, brátt var hann kominn aftur í upprisu blökkumanna á 7.. áratugnum og umhverfismálin urðu honum æ meira brennandi og seinast var mynd af honum á  Ocuppy Wall street mótmælunum. 



Þetta er mín mynd af Seeger, með banjóið sitt, og baráttuandann í hvunndagsfötunum!! 


Þarna tekur hann lagið með Bruce Springsteen við innsetningu Obamas, þá höfu menn einhverja von um merkan leiðtoga í Hvíta húsið  ..... 


Þessi mynd er af konsert á 90 ára afmælis hans.  þarna er Springsteen og spúsa, Joan Baes og lengst til vinstri er Arlo Guthrie sem við á sjöunda áratugnum þekkjum svo vel, Woodstock, Alices Restaurant. .  
 Mótmæli gegn Wall Strreet og fjármálaspillingu