Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega áhugasamur um einkalíf annars fólks en þegar annað fólk fera að kvarta yfir því að það sé verið að ræða um það út í bæ, þá vil ég fá að vera með. Hvað er fólkið að segja út í bæ? Ég er orðinn spenntur. Svo ég varð að vita meira og fletti blöðum.
Ég sé að þessi kona hefur geymt eignir sínar á Bresku Jómfrúareyjum, og þær virðast töluverðar. Ég sé líka að hún hefur ekki svarað fjölmiðlum sem hafa spurt um eignir hennar í útlöndum. Vefmiðillinn
Kjarninn upplýsti í dag að hann hefði ítrekað óskað eftir upplýsingum um
hvort ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eða fjölskyldu þeirra, ættu
eignir erlendis.
Af hverju ætli hún sjái þörf á því að birta upplýsingarnar núna? Ætli sé eitthvert samband milli afstöðu ríkistjórnarinnar í kaupum á skattaupplýsingum erlendis frá, furðulegra yfirlýsinga fjármálaráðherrans og þessara eigna forsætisráðherrahjónanna. Á aðstoðarmaður forsætisráðherra að svara fyrir hönd konu forsætisráðherrans?
Nú veit ég ýmislegt um ástir samlyndra hjóna út í bæ. Þar sefur ýmislegt í djúpinu. En oft er það þannig að það rís úr djúpinu. Músin sem læðist er oft fönguð á endanum. Þetta kallast víst ekki spilling. Ó nei.
Hérna er bréf konunnar sem vill ekki vera í sviðsljósinu.
Ég hef aldrei haft áhuga á að vera í sviðsljósinu á neinn hátt. En ef
fólk vill endilega tala um mig þá er bara best að það hafi
staðreyndirnar réttar.
Ég á erlent félag sem ég nota til að halda utan um fjölskylduarfinn
minn. Það heitir Wintris Inc. og er skráð erlendis því þegar það var
stofnað höfðum við búið í Bretlandi og óljóst hvort við myndum búa þar
áfram eða flytja til Danmerkur.
Félagið var stofnað til að halda utan um afrakstur sölu á hlut mínum í
fjölskyldufyrirtækinu og bankinn sem ég leitaði til taldi einfaldast að
stofna erlent félag um eignirnar svo þær væru vistaðar í alþjóðlegu
umhverfi og að auðvelt yrði að nálgast þær hvar svo sem búseta okkar
yrði. Ég lét bankanum eftir framkvæmdina en gerði það að skilyrði að
allir skattar væru greiddir strax á Íslandi.
Það var því strax gerð grein fyrir öllum tekjum af sölunni og félagið
hefur því frá upphafi verið skráð 100% í eigu minni á Íslandi, verið
talið fram á skattframtölunum okkar Sigmundar hér heima og allir skattar
verið greiddir samkvæmt því. Tilvist félagsins hefur því aldrei verið
leynt. Auk þess hafa skattgreiðslurnar komið fram reglulega í blöðunum
þegar álagningarskrárnar eru birtar. En þó við séum samsköttuð eru
eignirnar samt sem áður mínar og eru skráðar í samræmi við það.
KPMG hefur haldið utan um skattamálin fyrir mig og mér hefur frá
upphafi verið mjög mikilvægt að þau séu í fullkomnu lagi. Það var því
aldrei frestað neinum skattgreiðslum eða neitt þess háttar þó að
möguleikar væru til þess samkvæmt lögum.
Þegar við Sigmundur ákváðum að gifta okkur fygldi því að fara yfir
ýmis mál, þar á meðal fjárhagsleg. Bankinn minn úti hafði gengið út frá
því að við værum hjón og ættum félagið til helminga. Það leiðréttum við á
einfaldan hátt árið 2009 um leið og við gengum frá því að allt væri í
lagi varðandi skiptingu fjármála okkar fyrir brúðkaupið. Félagið var því
frá upphafi rétt skráð á Íslandi og hélt utan um séreign mína.
Skráningin úti og leiðrétting hennar hafði því engin eiginleg áhrif.
Ef þetta er ekki nóg fyrir einhverja þá er ég líka undir sérstöku
eftirliti skv. EES reglum til að tryggja rétt skattskil þar sem gilda
sérstaklega strangar reglur um þá sem tengjast stjórnmálamönnum. Þar sem
ég er ekki sérfræðingur í viðskiptum þá hef ég áfram haft
fjölskylduarfinn í fjárstýringu hjá viðskiptabanka mínum í Bretlandi og
þar eru gerðar sérstakar kröfur til mín og þeirra sem mér tengjast vegna
þessara reglna. Frá því að Sigmundur byrjaði í stjórnmálum hef ég beðið
um að ekki sé fjárfest í íslenskum fyrirtækjum til að forðast árekstra
vegna þess.
Ég treysti á ráðgjöf fjármálamanna á árunum fyrir hrunið og eins og
margir aðrir þá tapaði ég töluverðu fé á bönkunum, meðal annars vegna
þess að þeir fjármögnuðu sig með eignum viðskiptavina sinna. Þar er ég í
sömu stöðu og fjöldi annarra Íslendinga. Það er alveg ljóst að ég sit
uppi með það tap og hef aldrei gert ráð fyrir að fá það bætt. Ég er engu
að síður vel stæð fjárhagslega og hef því enga ástæðu til að kvarta í
samfélagi þar sem við höfum horft upp á marga takast á við mikla
erfiðleika.
Ég vinn ekki við pólitík og Sigmundur ekki við fjárfestingar. Við
höfum haft mjög skýra reglu á því hvernig við aðskiljum þessa hluti,
bæði gagnvart stjórnmálastarfinu og gagnvart okkar einkalífi. En
augljóslega styðjum við hvort annað eins og hjón gera.
Ég
veit að í pólitíkinni og umræðunni í kringum hana er allt gert
tortryggilegt og í því andrúmslofti sem er í dag er það mjög auðvelt,
ekki síst þegar kemur að fjármálum. Þess vegna er bara ágætt að þetta sé
allt skýrt.
Endurskoðandi hennar er fenginn til að gefa út yfirlýsingu um skattframtöl hennar, við landar hennar treystum endurskoðendum svo vel og höfum góða reynslu af þeim.
„Verðbréf, skráð í eigu Wintris Inc. á hverjum tíma, hafa
verið færð til eignar á skattframtölum þínum frá og með tekjuárinu
2009. Á skattframtali vegna tekjuársins 2008 var færð til eignar krafa á
Wintris Inc. sem nam framlögðu fé þínu til félagsins.
Allan
eignarhaldstíma þinn á Wintris Inc. hafa skattskyldar tekjur af
verðbréfum, skráðum í eigu félagsins, verið færðar þér til tekna á
viðkomandi skattframtali eftir því sem tekjurnar hafa fallið til.“