miðvikudagur, 6. apríl 2016

Trúðastjórnin: Þau fá ekki frið.

Sjaldan hafa stjórnmál náð eins glæsilegum trúðastatus og í kvöld. Ja, minnsta kosti á Íslandi. Það vantar kannski hrottaleg slagsmál á þinginu í Úkraínu. Það er ekki öll von úti um það. Þetta var bara grín. En þó með vissri alvöru. 

Frammistaða meirihlutans í kvöld, vinnubrögð, framkoma við minnihlutann, sem þeir þykjast ætla að vinna með, virðing gagnvart þjóðinni. Sem hefur sýnt það að það er komið nóg. Mótmæli, umtal í netmiðlum, niðurstaða skoðanakannana. Allt í lágmarki. Þetta er ekkert að marka. Þetta verður öðru vísi í haust.

Aflandseyjaprinsinn Bjarni hefur ekki sýnt iðrun, það er ekki hans sterka hlið. Þetta er allt í fortíðinni. Þetta er annar maður í dag. Eða hvað. Sem segir við minnihlutann, mér er sama um ykkar álit, við erum í meirihluta. Við gerum það sem okkur sýnist. Þroskuð sýn á lýðræði.

Arftakinn Sigurður Ingi hefur varið gjörðir Sigmundar Davíðs, og átti hlut í einu furðulegasta viðtali seinni ára.Með hinni alræmdu málsgrein: Einhvers staðar verða peningarnir að vera. Hafa margir framsóknarþingmanna gagnrýnt gjörðir hjónanna.  Ég hef ekki séð eina grein. Leiðréttið ef ósatt.

Svo ætla þeir að stjórna fram á "haust". Það er ekki ljóst hvenær haustið endar. Fjárlög skipta engu máli.                  "Góðu málin "eru svo mikilvæg: Einkavæðing (sérstaklega í heilbrigðiskerfinu), sala ríkiseigna á góðu verði fyrir vini og ættingja. Öll málin sem fjármálaráðherrann er "sérfræðingur" í.

Já lesendur góðir sporin okkar á Austurvelli verða mörg næstu mánuði. Þau fá ekki frið.














þriðjudagur, 5. apríl 2016

Mótmælin: Virðing fyrir þjóðinni

Við fórum á mótmælin í gær, þvílíkur fjöldi, komumst út úr fjöldanum á korteri. Forsætisráðherrann sýndi loks allri þjóðinni að hann er ekki á réttum stað. Hann á að vera annars staðar með milljónir sínar í fanginu. Þetta er ekki spurning um skatta. Þetta er spurning um virðingu fyrir þjóðini. Þess vegna kom fólk til að tjá sig og sýna.

Var að hlusta á fólk lýsa skoðun sinni í útvarpinu á því hversvegna það hefði mætt á mótmælin í gær á. Það var aðdáunarvert hversu fólk tjáði sig vel, hafði meðvitaða sýn á því hvað væri að gerast. Algengasta orðið var Virðing, valdsmenn eru þjónar fólksins í þeirra umboði.  Þeir eiga að lifa í sama samfélagi og sama landi og við, lykilorðið er virðing. Sigmundur og aðrir Tortólafarar hafa brotið þann hlekk við þjóðina.

Forsætisráðherrann virðist ekki enn hafa skilið það í sínum einkaheimi. 

mánudagur, 4. apríl 2016

Sigmundur Davíð: Skuldadagar



Dagurinn í gær var skrítinn, maður settist niður með doða og drunga, eftir að horfa á Forsætisráðherra koma í viðtal sem hann er „blekktur“ í , æðsti yfirmaður þjóðarinnar missir sig, verður frægur að endemum um allan heim.  Ég sá Sigmund Davíð í Arte, fransk þýskri sjónvarpsstöð í kvöld.  Þetta óraði mann ekki fyrir að sjá Putin, Assad og Sigmund Davíð saman á forsíðublöðum ótal blaða, það var eitthvað sem var óhugsandi, óraunverulegt.

Þegar ég vaknaði í morgun þá var ég sorgbitinn, horfði á forsætisráðherrann bruna á fund sinna manna sem virðast allir líta á hann sem leiðtoga þjóðarinnar eftir þessa útreið, meðvirknin skín af þeim.  Það var sorglegra en tárum taki.  Ætlar að halda áfram að vinna sín „góðu verk“ líklega í samvinnu við Sjálfstæðismenn. Sem þurfa að ræða við sinn formann ekki með hreint mjöl í pokanum.

Sigmundur Davíð, sigurvegari Hrunsins,  sem getur ekki gert grein fyrir sínum málum.  Málflutningurinn byggist á því að búa til möntru:  þetta var gefið upp til skatts.  Endalaust.  Þegar málið snýst ekki bara um það heldur ótal aðra hluti. Meira að segja í skattamálinu er enginn til staðfestingar um heiðarleikann nema þau hjónin sjálf.   Hann er kominn á stað í lífinu þar sem hann ræður ekki við atburðarásina.  Hingað til hefur hann fengið allt upp í hendurnar, hefur getað logið og sagt hálfsannnleik um ótal hluti,  nám, fjárhag, samband og hjónaband við milljarðamæring, faðirinn velefnaður fjármálamaður sem hefur alist upp í skjóli Framsóknarflokksins, fékk fjármuni á vafasaman hátt í skjóli Steingríms Hermannssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar. Dansaði í gegnum Hrunið með milljarða í höndunum.

En nú er komið að skuldadögum, ætlar hann að halda áfram blekkingaleiknum við sjálfan sig og aðra?  Á þjóðin að kveljast, verða að athlægi um allan heim. Ætlast hann til þess að flokkurin hans eigi að halda áfram að vera meðvirkur? Ætlar samverkaflokkurinn að dansa með?

Á þessi sorgarleikur engan endi að taka, því auðvitað er þetta dramatísk atburðarás sem við horfum á: Uppgangur, hrun og fall.  Ungi maðurinn sem kemst til æðstu metorða og sekkur í kviksyndi sjálfsblekkinga og örvæntingar.  En um leið er þetta ævintýrið hans H.C. Andersons um Nýju fötin keisarans.  Nú birtist hann okkur í allri sinni nekt.  Ælultlar hann að þramma áfram, allsnakinn um stræti borgarinnar? Ég vona ekki.

Ég er ekki léttur í lund.  Sorgir mínar eru þungar sem blý.  Mig langar ekkert að lifa með þennan raunveruleika á herðunum.  En .... ég skrölti á fundinn á Austurvelli, aldrei hef ég séð jafnmarga og jafnmikinn troðning.  Það eru ótal margir þúsundir. Tugir þúsunda sem er á sama máli og ég. Mér létti.

Það er komið nóg.  Við neitum að halda áfram að láta leika með okkur.  Við trúum ekki þessum valdamönnum lengur, þótt þeir biðji afsökunar.   Þetta eru ótíndir skálkar. Þeir eiga enga leið aftur í okkar veröld. 



Gullið



ískaldur glampi gullsins

glitfiðrildið  sem dregur okkur að



blindar













sunnudagur, 3. apríl 2016

Aflandseyjar:Kjaftshögg í beinni.

Íslensk stjórnmálamenning fékk mesta kjaftshögg sem hún hefur fengið, verra en Hrunið. 
Maður er lamaður og dofinn. Þvílíkur Forsætisráðherra. Siðleysingi, trúður.
Spurningin er hvað gerist næstu daga, þingið og forsetinn á Bessastöðum hafa mikla ábyrgð.

Og við þjóðin höfum mesta, ég finn fyrir kjaftshögginu, ég hef aldrei upplifað að vera í boxi fyrr en nú, vonandi hefur þjóðin fengið nóg. 

Og þó kannski er okkur ekki viðbjargandi. En við mætum á fundinn á morgun. 



Sannreyna, Æra: Stór orð

Hver er reynslan af því að trúa þeim, ljúga þeir aldrei. Segja alltaf satt? Ef svo er aldrei logið 11 x 11 sinnum. Og hirð þeirra er hún trúverðug, Jóhannes, Ásmundur Einar, Guðlaugur Þór, GunnarBragi. Þorsteinn Sæm. Vigdís H. Hrólfur, Nú er 11 heilög tala. Takk Ásmundur. Hver ætlar að sannreyna þá? Stórt orð . sannreyna. Hver vill leggja æru sína í það? 
Sorglegt að sjá Sigrúnu Magnúsdóttur í þessum hópi.
http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/04/02/segir-enga-leid-ad-sannreyna-yfirlysingar-bjarna-og-sigmundar-davids/


föstudagur, 1. apríl 2016

Hringekja spillingar 3: Mannúð ríka fólksins

Gaman gaman þær skríða fram úr fylgsnum sínum, þið vitð hverjar, verurnar með halann. 
Þessar sem borga alltaf skattana sína og eru heiðarlegar, meira að segja í skattaskjólum eru þær ærlegar og trúar íslenskum yfirvöldum.  Datt nokkrum annað í hug!

Ég las með athygli grein Indriða H. Þorlákssonar um Skattaskjól og aflandsfélög í Kjarnanum.  Þar rekur hann uppruna og tilgang slíkra félaga.  Greinin er bítandi og hæðin á sinn þurra hátt.  Og rekur allt til baka sem íslensk valdastétt hefur látið hafa eftir sér seinustu daga, með rökum og upplýsingum.   Þar sem glæpir verða allt í einu að heiðarleika, gott ef ekki

mannúðarstarfsemi, líklega er íslensk valdastétt sú eina í heiminum sem er að halda uppi atvinnu í skattaskjólum og aflandssvæðum. Ekki gera þeir neitt sem yfirstéttir  gera í  öðrum löndum.  Að koma sér undan lögum og reglum sinna landa. Ó nei. Þeim datt bara öllum í hug að tilkynna eignir sínar núna.  Einmitt núna.  Og við eigum að trúa því.


Sá stóri hópur sem hóf þessa iðju á þessari öld gerði það ekki í góðgerðarskyni, hér var verið að ná sem mestum arði, gróða og sjá til þess að yfirvöld séu ekki að reka puttana niður í hítina þeirra.  Ef einhverjum dettur annað í hug þá er það algjör auli. Eins og ég. 

Hér fyrir neðan eru góðir bitar frá Indriða, þökk sé honum fyrir starf sitt, líklega værum við á öðru flökti ef hans hefði ekki notið við í Hruninu.  Hann þekkti sitt heimafólk af starfi sínu í íslenska embættis- og skattakerfinu.  Lesið grein hans  og berið saman í huganum það sem hefur verið troðið upp í kokið á manni af yfirvöldum, ráðherrum og valdsmönnum okkar seinustu daga.    

__________________________________________

 Úr grein Indriða:

Sterkríkir einstaklingar eru aðrir stórnotendur skattaskjóla. Með því að færa eignir sínar þangað geta þeir gengið svo frá hnútum að þeir komast hjá því að greiða skatta af tekjum af þessum eignum og viðskipti með þær eru huldar leynd. Þrátt fyrir skráninguna fer engin eiginleg starfsemi fram í þessum skattaskjólum. Féð er ekki fjárfest þar heldur í öðrum löndum þar sem meiri feng er að fá. Fjármálastofnanir og svokallaðir umsýslumenn eru ráðnir til að sýsla með fé að fyrirmælum eigenda þess. 

Hagræði af skattaskjólsfélagi felst í því sem aðgreinir það frá félögum utan aflandssvæða en það er eins og áður segir einkum þrennt. Skattleysi, leynd og ógagnsæi. Þar að auki má nefna það hagræði sem felst í því að vera laus undan ýmsum reglum sem gilda myndu um félagið og starfsemi þess væri það í heimalandi eigandans. Eitthvert þessara atriða eða þau öll saman eru eina rökræna skýringin á því að einhver velur það að stofna félag í skattaskjóli. Því fylgja engir aðrir viðskiptalegir kostir enda fer starfsemi félagsins og stjórn þess ekki fram í skattaskjólinu og það hefur í reynd engin raunveruleg tengsl við það.

Að lokum má nefna að eigendur félaga hafa ýmsar leiðir til að ná til sín tekjum úr þeim og ekki alltaf víst að tilgreint sé eða rétt farið með í skattalegu tillliti. Auk þess að greiða eiganda arð er algengt að honum sé greitt fyrir störf eða þjónustu við félagið. Um getur verið að ræða greiðslur fyrir stjórnunarstörf, ráðgjöf og skýrslugerð o.fl. Allur háttur er á hvaða leið slíkar greiðslur fara og hvort þær eru rekjanlegar til eigandans. Ein úttektarleið er að eigandinn hefur kreditkort á félagið undir höndum og notar það til að greiða persónulega neyslu, kaupir með því farmiða, gistingu og veitingar á ferðalögum, notar það til að greiða fyrir stórinnkaup og jafnvel til að greiða með í matvöruversluninni. Fyrir fáum árum komust sænsk skattyfirvöld yfir upplýsingar af þessum toga sem m.a. teygðu sig hingað til lands og sýndu að þetta er útbreitt.

Leynd og ógagnsæi er mikilvægt einkenni skattaskjóla. Leyndin felst í því að skráning félaga er ófullkomin, engar eða litlar kröfur eru gerðar um upplýsingar um eigendur og upplýsingar eru ekki veittar. Hlutabréf eru gefin út á handhafa en ekki nafn og nafnlausir reikningar leyfðir. Litlar eða engar kröfur eru gerðar um ársreikninga og skil á þeim. Afleiðingin er að erfitt eða ómögulegt er fá upplýsingar um eignarhald á félögum og hverjir séu raunverulegir eigendur þeirra, sjá umsvif þeirra og viðskiptatengsl og leggja mat á það sem fram kemur um þau í heimalandi eigandans t.d. ef hann lætur þeirra getið á framtali eða félagið kemir fram fyrir hans hönd í bankaviðskiptum o.fl.
Gerð ársreikninga skil á þeim og opinbert aðgengi að þeim er lögbundin í öllum þróuðum löndum. Hér eins og annars staðar innan EES svæðisins eru reglur um ársreikninga byggðir á tilskipun Evrópusambandsins og verða þeir að fylgja ákveðnum bókhaldsstaðli, vera skoðaðir af óháðum fagaðila og birtir almenningi með tilteknum hætti. Þessu fylgir kostnaður en þetta er talið nauðsynlegt til að tryggja samkeppni og heilbrigða starfsemi fyrirtækja og er skilyrði þess að viðskiptamenn fyrirtækja geti fengið þær upplýsingar sem þeir eiga rétt á og þarfnast. Engar slíkar reglur gilda um aflandsfélög sem staðsett eru í löndum utan EES svæðisins eða hafa sambærilegar reglur.
Leynd og ógsagnsæi er þannig “hagræði” fyrir eigandann umfram það eitt að “vernda” skattalegt hagræði.

Það er ekki bara í skattalegu tillliti sem erlend lögsaga hefur áhrif. Sama á við um gagnvart öðrum lögum. Þegar hefur verið minnst á lög um ársreikninga og á það einnig við um öll önnur lög sem lúta að eða snerta starfsemi félaga hér á landi. Þau lög eiga sér flest samsvörun í löggjöf annarra þróaðra ríkja. Því má segja að aflandsfélögin hafi haslað sér völl utan hins sameiginlega réttarfars sem þróast hefur og er við lýði á Vesturlöndum.
 

fimmtudagur, 31. mars 2016

Hringekja spillingar 2: Vilhjálmur fellur

Sorglegur endir á félagsmálastörfum hjá Vilhjálmi Þorsteinssyni á vinstri væng.  Karl sem hafði allt til að bera til að vera frámámaður í okkar samfélagi.  Gat meira að segja útskýrt efnahagsmál á mannamáli.  En ... hann segir frá því loks núna að hann eigi reikning í Lúxembourg sem var vitað fyrir nokkrum árum  en ..... sleppir því að hann eigi líklega líka
einn á Kýpur, eru þeir kannski fleiri?  Aðalatriði í þessum leik virðist vera  leyndin, spennan; fíknin nær yfirhendinni allt víkur fyrir henni.  Engan varðar um það hvað þessi einstaklingur gerir, skattaskjólið er mitt!

Hvað fær mann sem ég kaus á sínum tíma í stjórnlagaráð, til að verða áhættufíkill fjármála get ég ekki dæmt um.  En þegar upplýsingar komu fram um eignarhald hans í Lúxembourg og að hann hefði tengst fjármálabraski Gunnlaugs Sigmundsson þá sá ég að ég hafði kosið rangt
 ( ingi@dv.is   06:00 › 23. september 2014)
 Enn er eitt dæmið um það hvernig Gullið grefur gat á heila fólks, fólk verður steinrunnið. Mikið er þetta sorglegt. Fyrir hann og jafnaðarstefnuna.