sunnudagur, 1. október 2017

Frú Andersen í fyrsta sæti

Það er merkilegt að setja Sigríði Andersen í efsta sæti í Reykjavík.  Það er eins og að gefa íbúum kjaftshögg eftir framgöngu hennar gagnvart börnum og flóttafólki.  Enn merkilegra er að hún þiggi það sem hún hefur afneitað, að nokkurs staðar eigi að jafna niður körlum og konum til skiptis, eða að láta konur hafa forgang á meðan að barátta fyrir jafnrétti á sér stað.  Jafnréttismálin eiga erfitt uppdráttar  eins og margt annað.   Og ennþá fáránlegra að það skuli vera Brynjar Níelsson stígi fram og fórni sér, hann af öllum, besti vinur eigenda nektarbúllanna.  Og fái hrós kvenþingmanna fyrir bragðið!     

Allt þetta lýsir ástandinu í þessum blessaða flokki. Spillingin lekur niður veggi Valhallar. Við sem  tilheyrum öðrum flokkum þar sem sjálfsagt þykir að kjósa í prófkjörum jafnt karla og konur, eða raða á lista konum og körlum til skiptis eigum erfitt með að skilja þetta.  Svo er alltaf hægt að víkja út af þessu eins og dæmið með Sigríði sýnir og henni finnst allt í lagi að gera það.  Sem er algjörlega á móti jafnræði kynja á listum!  Bara til að geta sýnt að karlar eru ekki alls staðar í efsta sæti hringinn í kringum landið. Þótt öllum í þessum blessaða flokki  finnist að það  sé Náttúrulögmál.  Karlar eru sterkari. En allt er leyfilegt í atkvæðasmölun.  





fimmtudagur, 28. september 2017

Tímamót: Einkavæðing eða félagshyggja

Sjálfstæðisflokkurinn kemur okkur á óvart og þó ekki. 
Flokkurinn sem löngum tókst að koma því inn hjá stórum hópi fólks að hann væri flokkur fólksins. Nú er meira að segja búið að stela nafninu að fyrri flokksmanni.

Nú þegar kynslóð nýfrjálshyggjunnar hefur tekið yfir í Sjálfstæðisflokknum, verða áherslurnar æ skýrari til ofstækishægri.  Formaðurinn mætir galvaskur á fundi repúblikana í vestrinu og virðist vera á svipuðu róli í skattamálum og þeim.  Barist er hatrammt gegn því að hátekjufólk borgi eðlilega í sameiginlegan sjóð ríkisins til þess að við getum haft velferðarkerfi, með góðu heilbrigðiskerfi, trygginga og samhjálpar. Hinir nýju ungu þingmenn sjá engar lausnir nema einkavæðingu þar sem hver getur keypt þjónjustu eftir efnum og ríkisdæmi.

  Öll loforð um betra kerfi aldraðra og öryrkja hafa verið svikin, Mannúð og manngæska er ekki í hávegum höfð undir stjórn Sigríðar Andersen en Bjarni virðist fylgja henni í einu og öllu þar sem Flokkurinn sker sig úr á Alþingi í einstrenginslegri stefnu í flóttamann og útlendingamálum.  Utanríkisráðherra dansar einhvern Brexit dans sem ég efast um að hann hafi eitthvað umboð til. Allt er gert til að stöðva framgang nýrrar stjórnarskrár. 

Nú er komið að tímamótum.  Er þetta framtíðin sem við viljum?  Eða viljum við félagshyggjustjórn og þjóðfélag þar sem vinstri menn starfa saman að breyta áherslum?   Valið er okkar.


mánudagur, 25. september 2017

SDG: Hann er upprisinn

Hann er upprisinn, sögðu þau hann er upprisinn.  Karlinn sem enginn hafði ná sambandi við. 
Svo birtist hann loks á skjánum.  Ábúðarfullur,  fullur af sannleika.  Sex sinnum, ég sagði sex sinnum var reynt að leggja hann í hina pólitísku gröf en þar heyrir enginn í manni, moldin hylur vitin, lokið er vandlega skrúfað ofan á kisuna.Enginn heyrir gullkornin sem streyma frá honum.   Það er allt gert til að stöðva hann, snillinginn, hugsuðinn, karl hreinleikans, fjölskyldumanninn, þann sem gerði ekkert af sér, átti enga fjármuni á suðlægum ströndum og eyjum, Hann sem var hrakinn frá völdum á svo óréttlátan hátt.  Hann gerði ekkert rangt!

Fíllinn í glerbúrinu, hann er búinn að fá einn fyrrverandi þingmann með sér, ein þann versta sem komist hefur á þing.   Kannski koma þeir fleiri, ég bíð spenntur eftir Vigdísi Hauks, ungir drengir og stúlkur vilja vera með hinum þungstíga meistara.  Fólk sem heldur að allt sé leyfilegt, hafa týnt siðferðisrammanum eða eru ekki búin að þróa hann upp með sér.  Það vill fara með honum á sæluslóðir, það vill bjarga okkur hinum úr klóm Íhaldsins eða Öfganna.   Undir leiðsögn hins misskilda stórmennis.   

Ekki er við bætandi að fá einn spillingarflokkinn í viðbót, sem vill að við sjáum hversu flóttamenn eru hættulegir fyrir þjóð okkar og menninguSem vill hreinsa ósómann úr vitum okkar.  Lyktina af fólki sem er að flýja styrjaldir og óstjórn þar sem ekki er líft lengur.  Stríð sem við eigum oftan en ekki þátt í með bandamönnum okkar í hernaðarbandalagi.   

Aldrei þessu vant hefur Morgunblaðið verið með upp á síðkastið viðtöl og kynningar á flóttafólki sem sýnir margbreytileika þess og  lífsvilja við ótrúlega erfiðar aðstæður. Sem vill fórna miklu að koma fjölskyldum sínum í skjól fyrir hörumungum heims.   Getum þess sem vel er gert.  Það er þörf á því í skilningleysi og mannsvonsku margra samlanda okkar.      

Svo vonandi verður endurkoma Sigmundar Davíðs ekki til að auka óró og dapurleika þjóðlífs okkar..  Nóg eru vandamálin fyrir.      





þriðjudagur, 19. september 2017

Smáflokkar SMALL IS BEAUTIFUL

Kaldhæðnislegt, að hlusta á Bjarna Benediktsson, kenna öllum nema sjálfum sér um stjórnmálaástandið á Íslandi. Það eru smáflokkarnir sem eru sökudólgarnir. Það er ekkert sem heitir SMALL IS BEAUTIFUL hjá honum. Þeir litlu eru vafasamir. Þeir eiga helst ekki að vera til. 

Það er sorglegt að sjá blaðamenn éta þetta upp eftir þeim sem mest eiga sök á núverandi stjórnarkreppu. En það er Sjálfstæðisflokkurinn. Það var hann sem misbeitti valdi sínu og áhrifum til að hindra upplýsingaflæði að koma í veg fyrir að samflokkar hans í ríkisstjórn fengju að vita þegar óþægilegar fréttir bönkuðu harkalega Þá var allt gert til þess að að koma í veg fyrir aðvið almenningur, stjórnarandstaða eða samflokksaðilar í ríkisstjórn fengju að vita sannleikann. 

En hvers vegna verða Smáflokkar til? Er það af illsku og skepnuskap íslensku þjóðarinnar?  Misskilur hún stjórnvisku, Davíðs, Geirs og  Bjarna? Gæti ekki þessi blessaða þjóð bara fengið nóg. Af spillingu stóru flokkanna, xD , xB, jafnvel Samfylkingin fékk líka stimpilinn undir forystu Jóhönnu og eftirmanna hennar. Það er spillingareitrið sem skapar nýja flokka sem geta seinna orðið stórir. 

Kaldhæðnislegt, sagði ég og meina. Ætli það verði ekki Flokkur fólksins sem verði sá eini sem vill starfa með Bjarna og klíkunni hans,  en líklega nægir það varla. Þótt maður geri allt fyrir völdin. Jafnvel að vinna með fólkinu sem hefur fengið þá ranghugmynd að öll óhamingja þeirra sé til komin vegna flóttafólks sem hefur orðið að flýja heimkynni sín leggja upp í ferð þar sem fjöldi kemst aldrei á leiðarenda. Það er sorglegt. 




sunnudagur, 17. september 2017

Enn einn heimsfrægur forsætisráðherra

Við erum bezt enn sannast það. Forarpyttur! Það erum við. Forareðja.  En ..... munum hið fornkveðna, skilum skömminni þar sem hún á heima, fyrst og fremst hjá xD, svo hjá xB.

Af hverju þeir og ekki hinir? Þeir sköpuðu kerfi og andblæ spillingar. Einkavæðing banka, gjöf ríkisfyrirtækja. Allt var leyfilegt, er leyfilegt, koma fé undan skatti, Tortólaævintýrið varð til, allir aðrir feluleikir. Sigmundur Davíð varð heimsfrægastur allra. Nú tekur Bjarni við.

Kannski hefur þetta alltaf verið svona, þeir ríku, auðugu hafa alltaf litið á að allt væri leyfilegt. Ég á það ég má það. Síðan breiðist þetta yfir á aðra þætti samskipta og mannlífs.  Mér verður hugsað til kvikmyndar  hins nýlátna sænska meistara Hans Alfredsons ; Den enfaldige mördaren, þar sem Hasse lék óðals eigandann og skepnuna sem gerði allt sem honum sýndist í valdi þjóðfélagsstöðu sinnar. Þar til sá veikasti, sá aumasti, tók til sinna ráða. Skilaði skömminni. 

Gleymum ekki fórnarlömbunum þau eru víða, oftast hafa þau engan að halla sér upp að, engan   Trúnaðarmann. Nú er það okkar að segja :Nú er komið nóg.  Ef ekki.....





föstudagur, 15. september 2017

Eða hvað?

Það er margt að gerast erfitt að fylgjast með og enn mörgu ósvarað. Var Brynjar verjandi Hjalta? Kunningsskapur ýmissra furðulegur. Þögn margra ótrúleg. Hroki og hrun sumra fyrirsjáanleg. Spillingin og siðblindan engu lík. Alltaf á að fela óhæfuverk. Svo kjósa Íslendingar þetta lið í næstu kosningum! Eða hvað? Ísland ögrum skorið.




sunnudagur, 10. september 2017

Hlægileg sorgleg ríkisstjórn

Áður fyrr þurfti skemmtikrafta til að gera grín að pólitíkusum; til þess höfðum við Ómar Ragnarsson eða Jóhannes Kristjánsson, oft voru línurnar stuttar á milli hvað var gaman eða alvara, stundum urðu stjórnmálamennirnir að grínistum dæmi Guðni Ágústsson, eða grínistarnir urðu pólitíkusar dæmi Ómar eða ..... Davíð Oddsson.

Nú er öldin önnur, við höfum ríkisstjórn sem veldur hláturgusum, þegar trúðslætin eru sem mest,  þau vita ekki hvað þau eru fyndin, þótt flyssið breytist oft í andvarp eða örvæntingaróp. Þetta eru þrátt fyrir allt okkar æðstu stjórnvöld.

Fjármálaráðherra vor byrjaði samningaviðræður við launþega með því að boða til fjölmiðla fundar í vikunni.  Og segja um hvað ætti að semja! Ég hélt að þetta væru samningaviðræður.Að semja.  Og öllum finnst þetta vera í lagi.  BHM fagnar þessu. Allir eru ánægðir með þetta. Benedikt hlýtur að vera glaður.

Nema Bjarni Ben júníor. Hann vill hafa þetta allt í rólegheitum. Stjórnarflokkarnir eiga ná saman.Ástandið er svo gott alls staðar nóg af gulli.  Svo það er best að flokkarnir þrír nái saman um stefnu xD.  Ekki nota peningana í sjúkrahús, heilsugæslu, ellilíeyrisþega og öryrkja.  Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt, eins og þeir segja.

Frú Andersen dómsmálaráðherra heldur áfram vélbyssuorða skothríð sinni á landsmenn.  Meðan ráðherrabílllinn bíður.  Hún virðist aldrei hafa heyrt um Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna enda eru þau samtök með öllu óþörf samkvæmt lögmálum Nýfrjálshyggjunnar.  Börn eiga að fara til landa sem þau hafa aldri komið til og kunna jafnvel ekki tungumálið.  Fólk virðist ekki vera annað en tölur eða tákn í hennar augum.  Dublinarreglugerðin er heilög.  Og ber að fara eftir. Ég hugsa að Írar yrðu miður sín ef þeir fréttu hvernig nafn höfuðborgar þeirra er misnotað  á skerinu í norðri.  Tveir stjórnarþingmenn eru óánægðir en hvað þýðir það. Gera þeir eitthvað?    

Óttar heldur áfram að vekja ótta í hugum landa sinna og veldur heilsuleysi.  Hann setur nefndir og ætlar að hugleiða ýmislegt meðan einkavæðingin skellur yfir okkur eins og Irma. Og rústar flokki sínum um leið. Og virðist finna það notalegt.

Já, það haustar á Íslandi.  Laufin falla til jarðar.  Draumarnir eru dapurlegir.