sunnudagur, 15. desember 2013

Egill og Stefán: Húsbóndahollir

Sumir eru húsbóndahollari en aðrir, svo er um Egil Helga og Stefán Ólafs.  Báðir sæmilega greindir karlar en þeir vilja alltaf vera með lappirnar bæði á bryggjunni og í skipinu.  Og passa með því störf sín og stöðu.  

Auðvitað tekur Egill málstað Páls Magnússonar,  það á að ráðast á ráðherrann en ekki útvarpsstjórann. En karl sem lætur etja sér út í hvað sem er eins og Páll gerir er auðvitað búinn að missa traust flestra. En það er einn og einn eins og Magnús Einars og Egill.  Þeir hlýða á orð  útvarpsstjórans.   
Samanborið Egill hér: 
Sá misskilningur hefur verið uppi að standi til að loka Rás 1 eða eyðileggja hana. Samt hefur ekkert verið sagt í þá veru – ekki nema hvað menn hafa lagt út af orðum útvarpsstjóra um að Ríkisútvarpið þyrfti að hafa víða skírskotun og túlkað þau mjög frjálslega.
Þrátt fyrir niðurskurð heldur Ríkisútvarpið áfram að bjóða upp á menningarefni, fræðslu, fréttir og afþreyingu – því má ekki gleyma að RÚV á líka að skemmta. Landsmenn eru skyldugir til að greiða afnotagjöld – það eru ekki allir sem vilja hámenningu.
Það sjá allir nema þessar raddir meistarans  hvað er að gerast á RÚV. Það er verið að rústa dagskrárgerð, dágskrárgerð er ekki bara að lesa upp hvað eigi að spila eða flytja næst.  Það er að byggja upp þætti með sýn og hugsun, slíkum útvarpsmönnum er mörgum sparkað.   
Stefán Ólafsson hefur verið með sjálfstæðar skoðanir í ýmsu varðandi skuldaniðurfellingu.  Ég hef oft verið honum sammála.  En að geta ekki séð hvert ríkisstjórnin er að leiða okkur það er sorglegt.  Ótrúleg brellubrögð varðandi skuldaniðurfellingu.  Og að hafa sem fæstar skoðanir á fjárlögum.  Það er verið að skera ýmsa málaflokka á háls minnka fjármagn og leyfa auðugustu mönnum landsins að leika með fjármagn sitt, gjöld þeirra og álögur eiga að vera í lágmarki.  Þeir eiga auðmagn sitt. Þeir eiga Ísland. 

Þessi málgrein Félagsfræðingsins er dásamleg: 
Framsókn þarf að vara sig á þessari taktík Sjálfstæðismanna og sækja fram af festu á velferðarvaktinni.
Stefán heldur að Framsóknarflokkurinn sæki fram á þessu sviði, með formann Fjárlaganefndar í broddi fylkingar, hvað 
sagði hún í seinustu viku???? 

„Ég meina það voru kosningar í vor og það er mjög óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu fyrri ríkisstjórnar. Þetta eru ólíkar stefnur sem þessir flokkar standa fyrir. Við vitum það að vinstri menn vilja gjarnan hafa bótakerfið mjög öflugt og svo framvegis.“ 

Þetta er að vera á velferðarvaktinni. 

Hann heldur að hann geti sveigt þennan íslenska öfgaflokk inn á nýjar brautir þótt hann sé formaður Tryggingaráðs. Gagnrýnilaus fær hann að vera það áfram. En betra væri að sjá hann í fararbroddi í harðri og málefnalegri gagnrýni gegn vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.      
Það er sorglegt að sjá þá félaga, Egil og Stefán, í þessu hlutverki sínu.  Að vernda húsbændur sína. 

 

John le Carré í sjónvarpinu: Merkur höfundur og aldafarsrýnir

Góð, dularfull, flókin, það er mynd Tomas Alfredsons um spæjarana í kalda stríðinu, Tinker, taylor, soldier spy.   Þeir
gætu nú fundið skáldlegra nafn á RUV en Kaldastríðsklækir. Þessir rúnum merktu andlit breskra stórleikara með vindlinginn í munnvikinu og viskýglasið í hendinni gera þetta svo trúverðugt og flækjurnar reyna ansi mikið á heilann.  

Það er merkilegt að hafa fylgst með þessum rithöfundi og kvikmyndagerðum hans í hálfa öld.  Allt frá Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum til Tinker Taylor.  Ég hef lesið flestar bækurnar ef ekki allar.  Karla serían er mögnuð og ein og ein eftir það, ekki allar.  Og serían með Alec Guiness er með betri sjónvarpsseríum. 

 Þeir sem upplifðu ekki Kalda stríðið ættu að lesa eitthvað af þessum bókum. 24 árum á eftir því að það og andrúmsloftið sem fylgdi því ansi fjarlægt.  En Le Carré hefur líka gert góðar bækur síðar.  Constant Gardener sem fékk frábæra kvikmynd líka.  Absolute Friends, Our kind of traitor svo einhverjar séu nefndar. Hann er enn að skrifa á níræðisaldri. 

Eflaust hafa einhverjir geispað yfir myndinni í kvöld, en þeir sem sökktu sér í andrúmsloftið og hin mannlegu örlög og furðulega klæki á þessum tíma hafa haft það gott.  Ég gerði það minnsta kosti.  Þetta var ansi góð mynd. 

Fyrir nokkuð mörgum árum gekki ég um svæðið umhverfis Lands End á Cornwall, ég vissi ekki að þar á David Cornwell landsvæði allstórt.  En það er réttnefni le Carrés.  Kannski hef ég labbað á landareign hans.  Svona er lífið skrýtið.   


laugardagur, 14. desember 2013

Fjárlög og séreignasjóður: í boði annarra

Sveitastjórnir kvarta yfir niðurskurði á útsvari í boði ríkisins.  Fyrst Halldór Halldórsson í dag Dagur Eggertsson.

Við mat á útsvarstekjum í fjárhagsáætlun ársins 2014 er gert ráð fyrir að tveggja prósenta framlag launþega í séreignasjóði yrði undanþegið skatti. Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að launþegum verði heimilt að draga allt að fjögur prósent frá skatti til að greiða inn á húsnæðislán. Miðað við forsendur aðgerðaáætlunarinnar má gera ráð fyrir að útsvarstekjur lækki vegna þessa að lágmarki á bilinu 250 - 500 milljónir króna samanborið við samþykkta fjárhagsáætlun borgarinnar.
Þetta kemur fram í minnisblaði fjármálastjóra Reykjavíkurborgar til borgarstjóra sem lagt var fyrir borgarráð í vikunni. Dagur B. Eggertsson segir að ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélögin. „Við erum að reyna að greina þetta eftir þeim upplýsingum sem hafa komið fram í fjölmiðlum því að sannast sagna var ekkert samráð haft við sveitarfélögin við undirbúning þessara hugmynda og hefur reyndar ekki verið rætt við þau ennþá,“ segir Dagur. 

Það er gott að geta gert hlutina í boði annarra, séreignasjóður í
boði sveitastjórna. .  Fengið inn peninga í fjárlög með því að ráðast á þá tekjuminnstu og barnflestu, ennfremur þá fátækustu í heiminum. Á meðan skorin eru gjöld niður af auðkýfingum þessa lands. Afskaplega siðlaust, en það er ekki nema vona þegar saman safnast öfgahægrimenn.  Ég skil ekki í fólki sem býst við einhverju öðru frá framsókn.  

Það hlýtur að vera búið að gleyma sjálftökuliði Framsóknar undir yfirumsjón Halldórs Ásgrímssonar, Finnur, Valgerðar, Alfreð, Björn Ingi, Ólafur Ó., og svo framvegis. Það setur að manni hroll.  Svo vísaði saksóknari öllum kærum frá. 30 milljarðar gufuðu upp í skjóli Framsóknarsís.   

Vigdís Hauksdóttir á einna helst skylt við Danska Þjóðarflokkinn og leiðtoga þess Pia Kjærsgaard og eflaust passar það upp á fleiri þingmenn Framsóknar. Fjandskapur við útlendinga.  Ömurleg voru sms skeyti Gunnars Braga til þingflokkssystkina sinna að hindra framgang Umhverfismálaframvarpa, undir stjórn Steingríms Hermannssonar  var Framsóknarflokkurinn umhverfisvænn og framsækinn flokkur að sumu leyti en það er liðin tíð. Nú stendur ríkisstjórnin saman í því að senda flóttamenn í flugvélaförmum til heimkynna sinna.  Og innanríkisráðherrann beitir andstyggilegum aðferðum til að sverta flóttamenn frá Afríku.      

fimmtudagur, 12. desember 2013

Ráðherrablús: Sigmundur Davíð og Eygló Harðardóttir



Ræður Alþingis eru birtar á vef þess. Hér sjáið þið orðaskiptiSigmundar Davíðs og Katrínar Júlíusdóttur. Sem eru ansi dapurlegar eftir að hafa fylgst með umræðunni seinustu daga: Ég hlustaði á Bjarna Ben. á sunnudag lýsa því yfir að lækkaðar yrðu vaxta- og barnabætur svo og þróunaraðstoð. Hér.  Á mánudegi var sagt frá tillögum um þetta í hádegisútvarpinu í fjárlaganefnd (viðtal við Vigdísi Hauksdóttur í morgunútvarpi): Hér.  Svo segir forsætiráðherra að háttvirtir þingmenn vaða í villu og reyk og notar útúrsnúninga til þess.  Það er því ekki furða þótt fólk beri saman stjórnmálasiðferði í Danmörku þar sem ráðherrar segja af sér ef upp kemst um ósannsögli. Lygi virðist vera sjálfsagður hlutur í íslenskum stjórnmálum. 

Sigmundur sagði á Alþingi.

Virðulegur forseti. Ég hef skilning á því að hæstv. forseti skuli sýna hv. þingmönnum skilning og leyfa þeim að lýsa áhyggjum sínum hér undir liðnum um fundarstjórn forseta, en ég vil þá nota tækifærið undir þeim lið til að láta virðulegan forseta vita af því að áhyggjur þingmanna eru algerlega áhyggjulausar.
Það eina sem hefur gerst hér er að hv. þingmönnum hefur verið bent á að einhverjar getgátur þeirra hafi ekki reynst réttar. Auðvitað hafa menn velt ýmsu fyrir sér undanfarnar vikur og mánuði við fjárlagavinnuna en þegar hv. þingmenn ætla að fara að æsa sig yfir einhverju sem þeir eru að geta sér til um að verði niðurstaðan og þeim hefur verið bent á að sú sé ekki raunin þá eðlilega leiðréttum við það. Ég tala nú ekki um þegar hv. þingmenn fara að halda því fram að breytingar, t.d. breytingar á framlögum til þróunarmála sem núverandi ríkisstjórn mun líklega standa fyrir, þeir gefa sér það, sé eitthvað sem síðasti meiri hluti hafi aldrei gert þrátt fyrir að sá meiri hluti, síðasta ríkisstjórn, hafi gert einmitt það og meira til, skorið miklu meira niður til þróunarmála 2010, 2011 og 2012, þá er eðlilegt að benda mönnum á að þeir fara ekki með rétt mál.  




Katrín Júlíusdóttir svaraði: 
Virðulegi forseti. Hæstv. forseta er nokkur vorkunn vegna þess að það að vera með forsætisráðherra sem stýrir umræðum um stjórnmál eins og hann gerir hér, hefur forgöngu um að gera lítið úr öðrum stjórnmálamönnum og því sem þeir segja í ræðustóli með því að gefa í skyn að þeir fari endalaust aftur með rangt mál er fyrir neðan allar hellur.
Hæstv. fjármálaráðherra kom inn á það í fjölmiðlaviðtali á sunnudaginn að lækka ætti tillögur til vaxtabóta og barnabóta — Hæstv. fjármálaráðherra. — Fer hæstv. fjármálaráðherra með rangt mál?
Virðulegi forseti. Formaður fjárlaganefndar sagði nákvæmlega það sama um þróunaraðstoðina, barnabæturnar og vaxtabæturnar í löngu viðtali sem ég sat með henni í gærmorgun. Hún sagði það stefnu ríkisstjórnarinnar og þetta var rætt á föstudaginn. Og að sitja svo hér undir því aftur og aftur og aftur að við stjórnmálamenn, aðrir en hæstv. forsætisráðherra, förum sýnkt og heilagt með rangt mál er óþolandi. (Forseti hringir.) Ég fer fram á að hæstv. forseti grípi í taumana og kenni mönnum mannasiði og kenni (Forseti hringir.) mönnum umburðarlyndi og þolinmæði fyrir því að mæta gagnrýnum skoðunum.  (feitletranir mínar)

Annar ráðherra sem hefur valdið mér vonbrigðum er Eygló Harðardóttir í framgöngu sinni um desemberuppbót fyrir atvinnulausa (nú er rætt um atvinnuleitendur, ætli verði bannað að tala um atvinnuleysi?).   Ég hef hlustað á hana þrisvar segja það sama, að fyrrverandi ríkisstjórn hafi misreiknað atvinnuleysi og því hafi of litlir fjármunir farið í þennan málaflokk og það séu engir peningar til.  Gott og vel.  Það er aldrei hægt að reikna upp á krónu fjölda atvinnulausra og því hlýtur núverandi ríkisstjórna að verða að taka málið yfir.   En nú hefur ríkisstjórnin setið í hálft ár og því hefur Eygló haft tíma til að velta fyrir sér fjármögnun desemberuppbótarinnar.  

Það er í samræmi við samstarf xD og xB að rífa niður allt sem vinstri stjórnir hafa komið á til bættra kjara fyrir þá sem ekki hafa mikið á milli handanna fyrri ríkisstjórn sá til þess að þessi desemberuppbót var tekin upp.  Það er engin sæla að vera á atvinnuleysisbótum. Þingmenn xD og xB virðast fyrirlíta þá sem eiga í erfiðleikum þeim er gert að lifa á eins erfiðan hátt og hægt er, fátækt er böl og því er í siðaðra manna samfélagi sjálfsagt að reyna að gera þeim lífið léttara, að fjölskyldur og einstaklingar hafi smáuppbót í þessum erfiðasta mánuði ársins, jólamánuðinum. Þetta litla dæmi sýnir það.  Að nota útúrsnúninga til að koma í veg fyrir afgreiðslu þessa máls,  sem ætti að hafa komið í fjáraukalögunum, 240 milljónir, ég hafði búist við öðru frá Eygló Harðardóttur að taka þátt í skollaleik Vigdísar Hauks og annarra Teboðsþingmanna.  Nú verða atvinnulausir að bíða milli vonar og ótta hvort að meirihluti fjárlaganefndar þóknist að setja þennan lið inn fyrir 3. umræðu.

Þetta er sorglegt.  Þetta er mannfjandsamlegt. Að níðast á þeim sem hafa það erfiðast í okkar samfélagi.






miðvikudagur, 11. desember 2013

Ríkisstjórn í vanda

Ríkisstjórnin hörfar. Lætur undan sterkri stjórnarandstöðu og
andstöðu bloggara og fésara. Almennri reiði í samfélaginu.
Þeim tekst ekkert að sundra andstöðunni enda er vafi á því að stjórnin hafi herkænsku til þess.
Það er pínlegt þegar forsætisráðherra breytir stefnunni í ræðustóli  og niðurlægir samherja sína.                       

Málsmetandi álitsgjafar utan stjórnmála láta í sér heyra.  Jón Kalman Stefánsson í morgun sem tjáir sig um Þróunarhjálp okkar í sterkri og tilfinningaríkri grein.
 
Menntamálaráðherra á í ansi miklum erfiðleikum vegna umræðunnar um RUV, útvarpsstjóra er varla stætt að sitja áfram, rúinn trausti samstarfsfólks.  Ráðherrann sem átti að hafa sambönd víða í listageiranum situr uppi sem hlýðinn nýfrjálshyggjusinni sem berst ekki fyrir sínum málaflokkum.

Svo ríkisstjórn með mikinn alþingismeirihluta á í vök að verjast. Eitt er það þó sem ekki á að víkja frá það er algjör eftirgjöf gagnvart útgerðarmönnum, jú og skattalækkanir eru heilög ritning jafnvel á tímum þegar á þarf fjármunum að halda sem aldrei fyrr.

Það vakti athygli mína að Forsetinn mætti ekki við minningaathöfnina stóru í Suður-Afríku. Ætli hann vaki yfir  Ríkisstjórrninni og treysti sér ekki af landi brott???? Hver veit? Er hann ekki Guðfaðirinn?

þriðjudagur, 10. desember 2013

Bjarni Ben og Venjulega fólkið

Það eru skemmtilegar umræðurnar á Alþingi og þar fá húmoristar eins og Bjarni Benediktsson að njóta sín.  VG lagði fram smábreytingar við Fjárlög:  

Tillögurnar ganga út á að falla frá lækkun á miðþrepi tekjuskatts, framlengingu auðlegðarskatts og hækkun á sérstöku veiðileyfagjaldi á útgerðirnar í landinu. 

Bjarni er að vanda  fljótur að finna kjarna málsins enda ofursnjall:  

Bjarni segir VG vilja seilast í „vasa venjulegra Íslendinga“. 

Auðvitað veit Bjarni allt um Venjulega Íslendinga, hann er líka þaulkunnur vösum þeirra, hann hefur alist upp við það eins og margir yfirstéttarburgeisar að nota lögfræðinga eða menntun sína til að forðast skattgreiðslur, svo að lágtekjufólkið fái að borga sem mest. 

Og líklega flokkar Bjarni þá í þennan flokk sem  venjulega Íslendinga vini sína og kunningja  sem þurfa ekki að borga auðlindaskattinn, sem þurfa ekki að borga hækkun á veiðigjaldi. 

Þess vegna getur hann kinnroðalaust komið með þá hugmynd að lækka barnabætur og vaxtabætur til bóta fyrir Sjúkrahúsin, hann þekkir ekki  lífskjör þess fólks sem nýtur þessara hlunninda. Hann hefur aldrei hitt slíkt fólk. 

Ætli ég flokkist ekki undir þá sem fái lækkun á miðþrepi tekjuskatts sem ellilífeyrisþegi.  Ég segi nú bara eins og konan í Fréttablaðinu í dag. Ég kæri mig ekkert um þessa lækkun, ég vil langtum frekar að þessar krónur renni í Heilbrigðis og félagskerfið. Þær nýtast betur þar en hjá mér.

Bjarni þekkir vinnandi fólk landsins, allir vita það, það eru þessir Venjulegu Íslendingar sem Bjarni ætlar að hjálpa að finna fyrir auknum  kaupmætti   fjármagns síns, það verður hrópað húrra fyrir honum í áramótaveislum LÍÚ og ritstjórinn  knái klappar honum á öxlina og skálar við hann, fyrir venjulega fólkinu. 


Stefna stjórnarinnar er skýr að mati Bjarna.„Hún er fyrir vinnandi fólk í landinu sem mun upplifa vöxt í kaupmætti ráðstöfunartekna á næsta ári ólíkt því sem mundi gilda ef við færum eftir nýjum fjárlagatillögum Vinstri grænna sem seilast beint ofan í vasa venjulegra Íslendinga sem eru úti á vinnumarkaðnum vegna þess að falla á frá hugmyndum um að lækka tekjuskattinn,“ sagði hann í umræðum á Alþingi í dag.



mánudagur, 9. desember 2013

Vigdís H.: Maður getur alltaf á sig blómum bætt

Seinustu blóm Vigdísar Hauks, það virðast bara vera fátæklingar hér og í Afríku sem eiga að bera uppi Heilbrigðiskerfið,  Vigdís
passar vel upp á vini sína, þeir eiga að fá að telja sem minnst úr buddunni sinni. Jú, við eigum að finna öll að það sé búið að skipta um ríkisstjórn, þeir best stödd finna seðlabúntin undir koddanum og sofa rótt og þeir verst stöddu standa í Hjálparröðunum og bíða eftir Nauðungarsölunni.  Þannig er Ísland í dag. 

Þessi blóm fengum við í RÚV 2 í morgun:  

„Við vinnum þetta þannig að landsmenn allir finni að það sé búið að skipta um ríkisstjórn. Við tökum við 30 milljarða gati frá síðustu ríkisstjórn. Við ætlum að skila hallalausum fjárlögum upp á 500 milljónir. Þetta er leiðin til þess því skuldasöfnun verður að stöðva og þetta er þáttur í því."   

„Það þarf að finna aukið fé til heilbrigðismála og þetta er sú aðferð sem við ætlum meðal annars að ganga í til þess að forgangsraða í þágu heilbrigðis landsmanna,“ segir Vigdís.
Vigdís var spurð hvort ekki væri verið að höggva þar sem hlífa skyldi, þetta væru þeir sem hefðu minnst á milli handanna og þróunaraðstoð við fátækasta fólk í heimi. „Ég meina það voru kosningar í vor og það er mjög óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu fyrri ríkisstjórnar. Þetta eru ólíkar stefnur sem þessir flokkar standa fyrir. Við vitum það að vinstri menn vilja gjarnan hafa bótakerfið mjög öflugt og svo framvegis.“

Við endum þetta á þessu :  og svo framvegis, endalaust og svo framvegis.  Ég meina það.