mánudagur, 17. febrúar 2014

Íslendingar: að vita allt best

Það er skrítið þetta með að standa sig vel eða illa.  Við Íslendingar erum sérfræðingar að vita það.  Hvað hefur gengið vel hvað hefur gengið illa.  Við vitum allt betur en aðrir. 

Tökum dæmi: 
Nú er byggingariðnaðurinn kominn í gang, meira að segja í Vík í Mýrdal.  Og auðvitað er það stjórninni að kenna.  Alls ekki stjórninni sem fór frá völdum í fyrra.  En hafði lofað því að markaðurinn færi að hreyfast 2014 - 2015.  Og höfðu rétt fyrir sér, enda höfðu þeir barist um hæl og hnakka í 4 ár að koma okkur upp úr HRUNI.  Það er margir sem vilja ekki vita það.  Þeir gerður svo margt vitlaust!!!!!  Auðvitað er ég ekki búinn að gleyma kattarfárinu mikla.  Því er árangurinn ótrúlegri!  Hægt og örugglega gengu hlutirnir betur. Við komust upp í plúss í sem ekki er hægt að segja um margar þjóðir kringum okkur.  Við færðum fórnir launafólkið og skuldafólkið en það skilaði sér.  Við erum virt af öðrum en við virðum ekki okkur sjálf!  Allir sem eru ekki nákvæmlega á sömu skoðun og maður sjálfur eru óvinir andstæðingar, þá þarf stríð.  Sem betur fer orðastríð, en ansi er það subbulegt oft og tíðum.  

Annað dæmi: 
Forval fer fram í stjórnmálaflokkum, Samfylkingarmenn gera það með hægð,  kjósa sinn óumdeilda leiðtoga og félagsmálakonu í efstu sætin Þau hafa starfað vel eru virt.  Samfylkingin  er með nýtískulegt kjör, í samræmi við nútiímann,  rafrænt þar sem flestir geta tekið þátt,  Einfaldasta og besta kerfið sem ég veit af í svona kosningum.  

Hvað gerist hjá VG?   Þar er baráttukona í efsta sætinu, fulltrúi mannrétinnda og feminisma.  Ég get ekki séð annað en hún hafi staðið sig vel.  Dugleg, kemur sér á framfæri, það er ekki alltaf auðvelt að vera í minnihluta.  Það er strögl.  En enn er það svo hjá VG að alltaf eru hópar sem finnst ekki nóg gert.  Vita betur, andstæðingur í ákveðnum málum er óvinur.  Það er miður að sá sem skipar efsta sætið fái ekki það traust sem hún á skilið.  Það veikir flokkinn, veikir baráttuna.  Við þurfum leiðtoga í pólitík, forka, Sóley er slík. Spyrjið samstarfsfólk hennar í borgarstjórn.  Mér þótti líka Þorleifur góður, ég tók eftir því sem maður sem fylgist með fréttum að hann var fulltrúi þeirra sem minna mega sín.   Tók þeirra mál upp jafnt og þétt.  En hann er því miður fulltrúi þeirra sem halda að stjórnmál séu að hafa eina skoðun, eina rétta, sem þolir enga samninga, engar málamiðlanir. Því ákvað hann að fara annað, því miður.

Því gerist það að vinstrisósíalistar fá of lítið fylgi, margir Íslendingar eru praktískir, tíma ekki að nota atkvæðið sitt í óvissu.  Við höfum bara eitt atkvæði. Það er líka kominn tími til að fara inn í nútímann í fyrirkomulagi kosninga.  Flokkur sem hefur 2-3000 innskráða á að fá fleiri til að kjósa í forvali.  Fundur eins og þessi  á laugardaginn er hjárænulegur.   Ég man að við vorum hrifin í gamla daga í háskólapólitíkinn svona skipulagi.  Að kjósa á fundi, þeir komu sem höfðu áhuga og tilheyrðu klíku sem boðaði sína.  Aðrir áttu ekki að kjósa.  Okkar tími krefst annarra vinnubragða.  Vinstri flokkar eiga að vera fjöldaflokkar. 

föstudagur, 14. febrúar 2014

Forsætisráðherra úr jafnvægi

Ræða ársins, tímamótaræða, þar var  forsætisráðherra á ferð sem er ekki í jafnvægi.  Sem á erfitt.  Ef hann á eitthvað órætt
við Seðlabankastjóra, af hverju ræðir hann ekki við hann undir 4 augu í stjórnarráði eða Seðlabanka? Af hverju einangrar hann sig í turni með jáliði?  

Ræður á Viðskiptaþingi fara víða, erlendis vita menn hvað er sagt í ræðum þar. Á þingið mættu útlendingar sem fengu ræðu forsætisráðherra þýdda fyrir sig jafnóðum. Ætli það hafi aukið áhuga þeirra á fjárfestingum?  Er það að selja landið, að stunda heiðarleg viðskipti?   Varla. 

Sigmundur gagnrýndi í ræðu sinni bæði Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins, en hann sagði furðulegt að samtökin væru að styðja við átakið „veljum íslenskt“ og á sama tíma að ráðast í herferð gegn innlendum framleiðendum sem séu að reyna að efla innlenda framleiðslu. Sigmundur svaraði svo yfirskrift fundarins um hvort Ísland væri opið fyrir viðskiptum á þann veg að Ísland væri opið, en ekki til sölu.

Það er ekki að efla innlenda framleiðslu með að loka sig frá alþjóðaviðskiptum.  Segja fólki hvað það á að borða.  Ákveð matseðilinn á hverju heimili. 

„Ég veit að menn töldu rétt að sýna þolinmæði á síðasta kjörtímabili og þorðu jafnvel ekki að gagnrýna stjórnvöld af ótta við að lenda á svörtum lista, en það gagnar ekki að fá útrás fyrir það núna þegar losnar um og komin er ríkisstjórn sem skilur þarfir atvinnulífs og hefur sýnt að hún er tilbúin til að taka slagi og fá yfir sig nokkrar gusur til að rétta stöðu atvinnulífsins,“ sagði Sigmundur og bætti við að það væri ósk ríkisstjórnarinnar að atvinnulífinu vegni sem best.

Jamm, hann hefur líklega kynnst einhverjum sem skilja ekki þarfir atvinnulífsins og vilja að því vegni sem verst.  Þar gengur maður sem aldrei hefur unnið innan þess.   Nema hann hafi unnið fyrir einkahlutafélagið GSSG. 


Sigmundur beindi svo orðum sínum að Samtökum atvinnulífsins og sagði að í kjölfar þess að hann hefði bent á að innlend fjárfesting hefði ákveðna kosti framyfir þá erlendu, þá hefði forstöðumaður úr samtökunum gagnrýnt þá hugmynd og unnið gegn hagsmunum lands og þjóðar. Sagði hann þetta mjög skaðlegt út á við og sagði að samtökin ættu að skoða það að nýta fjármagn sitt betur til uppbyggilegra ábendinga eða spara félagsmönnum sínum fé og setja á fót bloggsíðu í stað þess að halda úti fullu starfi.

Þarna fer maður sem þolir ekki gagnrýni né hreinskiptar umræður.  Allt á að gerast bak við lokaðar dyr með jábræðrum og systrum.  

Í lok erindisins fór Sigmundur yfir stefnu stjórnvalda varðandi Evrópusambandsaðild og sagði að Ísland væri ekki á leið í sambandið og að vonir manna til þess að viðræður ættu sér stað í alvöru meðan utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar væri andsnúin aðild væru ekki raunsæjar.

Svo mörg voru þau orð, lofaði hann ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður, ætlar hann þá ekki koma með tillögu um lok þeirra, eins og Viðskiptaráð hefur bent á.  Eða er það eitthvað sem ríkisstjórnin treystir sér ekki í?   

Yfirskrift Viðskiptaþings þetta árið var opið fyrir viðskipti? (e. Open for business?) og sagði Sigmundur að þeirri spurningu væri auðvelt að svara. Sagði hann að Ísland væri sannarlega opið fyrir viðskipti, en að búðin væri ekki til sölu. (e. Yes, Iceland is open for business, but the store is not for sale.)

Eiginlega man ég ekki heimskulegri lokaorð á ræðu valdamanns.  Karl með lokaða heimssýn, sem hefur aldrei komist út úr framsóknarfjósinu, mokar flórinn daginn út og inn. Hefur dvalist í öðrum löndum og Háskólastofnunum með lokuð augu. Sem vantar
alla yfirsýn, hefur bara upp á að bjóða þröngsýni.  Engin reisn, engin djörfung.  Allt vekur ótta, allir eru óvinir nema jáfólkið.  

miðvikudagur, 12. febrúar 2014

Ráðherrar í vanda

Kristján Þór starir á skrifborðið; Hvað á ég að gera, það er erfitt að taka ákvarðanir, það er erfitt að taka af skarið.  Það er ekki svo auðvelt að vera ráðherra.  Allir reyna að að bögga mann. Ég á
engan pening. Bjarni talar ekki við mig. Ætli Steingrímur Ari gefi skít í samninganefnd sína?   Æ, ég set reglugerð í nokkra mánuði.  Ætli ég megi ekki það?  

Ragnheiður Elín klæðir sig í skrautbúninginn sinn, fjaðrirnar standa í allar áttir, hún blæs hárið og spreyar yfir sig, hún er glæsileg í dag.  Móttaka hjá nýja Framkvæmdastjóra flokksins.  Hún hefur ekki treyst sér austur á Geysi að tala við þessa frekjudalla.  Svo ætla þeir bara að byrja í næsta mánuði. O, þetta veldur mér svo miklum vonbrigðum.  Og ég ekki búin að hugsa.  Það er aldrei tími, ég er alltaf skipta um föt.  

Hanna Birna vaknaði með hnút í maganum.  Í dag voru óundirbúnar fyrirspurnir.  Hann Mörður lætur mig aldrei í friði.  Hvað get ég gert?  Á þetta pakk að komast upp með hvað sem er?   Eignast meira að segja börn til að halda sér hérna.  Ohhhhh, og
glottið á Merði. Ég hélt að þegar maður væri ráðherra mætti allt. Má ekki tala við blaðamenn einu sinni?   Það er best ég læðist til Ísafjarðar.  Ég hleyp blaðamennina bara af mér, ég hef alltaf talað hratt og hlaupið hratt.  Ég er best. Sigmundur og Bjarni gerðu þetta bara verra,   Ætli Davíð hjálpi mér ekki, læt hringja í hann. Ef hann getur ekki hjálpað ..........   


Úr reglugerð sett í morgun:
„Reglugerðin fjallar um þjónustu sjúkraþjálfara sem reka eigin starfsstofur utan sjúkrahúss við einstaklinga sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum. Forsenda fyrir endurgreiðslu sjúkratrygginga vegna þjálfunar er að fyrir liggi skrifleg beiðni frá lækni þar sem sjúkdómsgreining kemur fram. Þó er heimilt að víkja frá kröfu um skriflega beiðni læknis vegna bráðameðferðar sem nemur allt að sex skiptum á einu ári,“ segir í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu.

„Sjúkratryggður sem þarf á þjálfun að halda samkvæmt mati á rétt á allt að 20 skiptum í meðferð á ári en í reglugerðinni er kveðið á um heimildir til að fjölga þeim að tilteknum skilyrðum uppfylltum.“

Sigmundur sagði: 


 „Þá gætu menn bara stundað það, að viðhafa stöðugar rannsóknir og ráðherrar gætu aldrei mætt í vinnuna. Ég minni nú á það að á síðasta kjörtímabili voru ráðherrar dæmdir, oftar en einu sinni, án þess að víkja tímabundið eða varanlega. Þannig að að láta sér detta í hug að innanríkisráðherra eigi að víkja út af þessu er alveg fráleitt.“
Bjarni sagði:   „Ég bendi á það að ef það færi svo að í hvert skipti sem ráðherra dómsmála þyrfti að víkja vegna kæru myndi það kalla á mikla upplausn yfir starfsemi ráðuneytisins,“ sagði Bjarni í samtali við fréttastofu RÚV á föstudaginn
Hjálpræði Davíðs: 


Davíð vill að upplýsingar um hælisleitendur liggi fyrir og að almenningur geti nálgast þær. „Ef umsækjendur eru vafasamir pappírar, á ekki almenningur í landinu rétt að upplýst sé um það? Ef ráðherra veitir slíkum aðila dvalarleyfi eða hæli þrátt fyrir æpandi annmarka, er honum ekki skylt að upplýsa um það og rökstyðja slíka ákvörðun, þótt slíkt gæti verið umsækjandanum örðugt?“ spyr ritstjórinn góðkunni enn fremur. Þess má geta að Tony var vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og því tengdust ávirðingarnar sem birtust í minnisblaðinu ekki brottvísun hans með neinum hætti.


þriðjudagur, 11. febrúar 2014

Matvörur: Viljinn að svindla og græða

Það er merkilegt hversu viljinn til að svindla er útbreiddur í framleiðslulífinu. Hversu það tengist viljanum að græða.  Það skrimti í mér þegar ég las grein í Observer um matvörur  í
einu héraði í Englandi, Jórvíkurskíri.  Af sýnum sem voru tekin voru 38% ekki eins og gefið var upp á umbúðum og það kenndi ýmissa grasa hvað lenti í framleiðslunni!!!! Á sama tíma er verið að skera niður eftirlit alls staðar í samfélaginu okkar við eigum að treysta framleiðendum!!!!  Og það sýnir sig að þeir eru ekki traustsins verðir. 

En, lesendur góðir, nokkur dæmi: 


mozzarellaostur þar sem ostur er helmingu hitt einhvers konar ostlíki 

skinka sem er einhvers konar blanda af aukaefnum  og kjöttætlum sem   myndast þegar kjöt er skrapað frá beini 

skinka er ekki skinka á pizzum annað hvort fuglameti eða kjötskrap 

rækjur með 50% vatnsinnihald 

jurtamegrunarte þar sem ekket te var í eða jurtir, bara glúkósaduft með megrunarlyfi sem var komið langt yfir notkunartíma, skammturinn þrettán sinnum sá boðaði 

ávaxtasafi með ótrúlegustu efnum meðal annars  jurtaolía notuð í sambandi við að draga úr eldhættu einnig  notað á rottur í tilraunum

vodki með ekkert sem skilgreina má sem vodka 




Forstöðumaður rannsóknarstofunarinn sagði að þetta væri örugglega hægt að túlka sem ríkjandi  ástand um allt Bretland.  Ætli vinnubrögðin  séu eins hjá okkur? Brotaviljinn jafn einbeittur????   Niðurskurður ríkjandi hjá eftirlitsstofnunum, allt er leyfilegt, við þurfum ekki að fara eftir reglum.  Við erum Íslendingar. Eða hvað?   


sunnudagur, 9. febrúar 2014

Ísland: Spilling eins og vera ber

Forsætisráðherra neitar að afhenda gögn um fund við Barroso í júlí í fyrra, sem Árni Páll hefur beðið um. 


Innanríkisráðherra hefur óhreint í snyrtiveskinu og harðneitar að segja af sér.  Þótt hún sé æðsti yfirmaður lögregunnar og geti per se haft áhrif á rannsókn á sjálfri sér.  

Forseti landsins heimsækir vin sinn Pútín í Rússlandi.  Vinir hans virðast vera spillingargossar  og harðstjórar víða um heim.  

Allt eins og vera ber í spillingarlýðveldinu Ísland. 

Fiskileitarskipum landsins er lagt og áhöfn sagt upp, það þarf víst ekki lengur að leita fiskjarins í höfunum.  Hann fer bara inn í Kolgrafafjörð og bíður þar skipanna.  Ætli Sigmundur Davíð komi ekki og blessi hann með Frú Agnesi. 

 Útgerðarmenn selja togara sína í gríð og erg, kenna veiðigjöldum og sköttum um, fréttamenn gleyma að spyrja hvers vegna að það sé þá mesti gróði nokkurn tíma í greininni.  Svo á að hverfa aftur til smáskipa í staðinn fyrir tæknisvæddustu skip í heimi.  Já, Guðjón minn, þetta eru asnar.  Þeir eiga það þeir mega það. 

Hvar er endurskoðun þingsins á vðræðuumræðum?   Þetta sagði Barroso eftir að hafa rætt við SDG.  

Let me be clear: The Commission respects the decision of the government regarding the accession process. We look forward to clarity on the validity of Iceland's membership application after the parliamentary assessment on European Union accession, which will take place this autumn. 16/07/2013



Fundir og viðræður í Sochi



Forseti á fund með forseta Finnlands, Sauli Niinistö, í tengslum við Vetrarólympíuleikana í Sochi. Rætt var um vaxandi samvinnu Íslands og Finnlands í málefnum Norðurslóða, mikilvægi þeirra í þróun norrænnar samvinnu, góðan árangur af Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið var í Reykjavík 2013 og undirbúning að þingi Arctic Circle 2014. Þá átti forseti einnig fund með Albert II, fursta í Mónakó, sem á sæti í heiðursráði Hringborðs Norðurslóða. Rætt var um vaxandi alþjóðlegan áhuga á málefnum Norðurslóða sem m.a. birtist í þátttöku um 40 þjóða í þingi Arctic Circle í Reykjavík. Rætt var um þróun Hringborðsins á næstu árum og málefni sem yrðu á dagskrá þess í Reykjavík í haust. Þá átti forseti viðræður við forseta Tékklands, Miloš Zeman, um góða samvinnu ríkjanna í tíð tveggja fyrirrennara hans, Václav Havel og Václav Klaus, og árangur af opinberri heimsókn forseta til Tékklands 2012. Í viðræðum forseta við Xi Jinping, forseta Kína, þakkaði forsetinn Íslendingum fyrir framlag þeirra til þróunar hitaveitna í kínverskum borgum en slíkar framkvæmdir drægju mjög úr loftmengun. Þá lýsti forseti Kína ánægju með fríverslunarsamning landanna og vaxandi samstarf í málefnum Norðurslóða en vísindaferð rannsóknarskipsins Snædrekans um Norðurslóðir og til Íslands hefði skilað miklum árangri. Í viðræðum forstea við Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, kom fram mikil ánægja hans með árangurinn af heimsókn til Íslands nýlega og ósk um að Íslendingar tækju öflugan þátt í loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður árið 2015. Í viðræðum forseta við Friðrik krónprins Danmerkur og erkihertogann af Lúxembúrg, sem báðir sitja í stjórnarnefnd Alþjóðaólympíusambandsins, var og fjallað um hve víðtækur undirbúningurinn að Vetrarólympíuleikunum hefur verið á undanförnum árum. Myndir.

fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Sæmd og Andköf: Ólíkar bækur

Lokið við tvær bækur í vikunni:  Sæmd Guðmundar Andra Thorsson og Andköf Ragnars Jónassonar. 

Sæmd:  Þessi litla bók er svo hlýleg, húmanístisk og hjartahreinsandi (flott orð !). Rithöfundar þurfa ekki að skrifa langar bækur til að skrifa góð verk. Til þess að skapa yl innra með okkur lesendum.  Svo er um Sæmd.  Hugmyndin, sögufrægir einstaklingar berjast um
grundvallarsjónarmið.  Meirihlutinn hefur að sjálfsögðu rangt fyrir sér, og margir eru þrælar síns umhverfis og tíma.  Draumsýn um fullkominn skóla og umhverfi, eina og hún speglast í höfði Björns M. Olsen, hlýtur alltaf að steita á skeri. Sá breiskasti rís upp og hefur sigur.  Fórnarlambið, þjófurinn, lifir áfram lífi sínu, en er hann skaðaður ævilangt?  Er það þessi atburður sem skapar með honum fangavist einsemdarinnar?  Og Harðstjórinn (var hann harðstjóri í raunlífinu?) lifir áfram í skugga þess sem samtímamenn hans töluðu ekki um, vinurinn inn á gafli, presturinn öðru hverju í heimsókn, hin góðborgaralega slikja hvílir yfir öllu. En Harðstjórinn getur kastað steinum í aðra.  

Sumum finnst erfitt að lesa sögulegan róman þar sem tíminn og persónurnar farast á mis. Tíminn vill ei tengja sig við mig. Eflaust passar ekki allt í samskiptum þeirra starfsfélaga.  En það gerir ekki til, finnst, mér, þetta verður nokkurs konar allegoría.  Einfalt brot fær okkur til að hugleiða réttlæti og ranglæti, glæp og refsingu. Allt þetta yrði vafalaust ómerkilegt ef það væri ekki stíll Guðmundar Andra sem lyftir öllu á hærra plan. Fær okkur lesendur til að dilla sér í rúminu.  Þannig var um mig.  Kaflinn um ferð Benedikts Gröndal suður á Álftanes fékk mig til að taka andköf.  Ísþokan fólkið hugleiðingar uppreisnarmannsins, allt varð þetta að töfrum í stílnum.  Stuttar og hnitmiðaðar mannlýsingarnar,lýsingin á Reykjavík,  myndin af kennurunum á kennarastofunni, fólk og umhverfi Fórnarlambsins í sveitinni. Hús Benedikts. Dapurleg örlög og líf Íslendinga á þessum harðindatímum 19. aldar.   Þessi bók snart mig.  

Ég lauk líka við reyfara Ragnars Jónassonar.  Ég hef lesið allar bækur hans, þetta er góð afþreying eins og maður myndi segja um glæpakvikmynd í meðallagi.  Spennandi en vantar meira hold á beinin, staðarvaldið skemmtilegt, þegar ég bjó í Húnavatnssýslu fór ég nokkur skipti norður í Kálfshamarsvík, það er merkilegt að koma þangað sem hundruðir manna sóttu vertíð forðum.  Vitinn er þar og stuðlabergið, ekki eins stórbrotið og lýst er í bókinni.  En fléttan var ágæt og ýmislegt gekk á í vetrarveðri.  En það hefðu getað verið meiri lýsingar á umhverfinu og fólkinu sem gerðu sakamálasöguna stórbrotnari.  En þá er ég líklega að biðja um annars konar bók.  Og þó sumum höfundum tekst að hefja glæpasöguna á hærra plan, Arnaldi tekst það í nýju bókinni sinni.  Hið harmræna verður svo sárt hjá honum.  Hann nær þessum tóni.  Ragnar nær honum ekki.  En bækur hans og persónur bjóða upp á afþreyingu á síðkvöldum, meðan maður sofnar.   Ég les hann áfram örugglega. Hvort það séu meðmæli, ég veit það ekki. 

miðvikudagur, 5. febrúar 2014

Woody Allen: Glæpir og refsingar

Í seinustu viku horfði ég á nýjustu mynd Woody Allens, Blue Jasmine, myndin fjallar um konu í taugaáfalli, ekki á barmi, heldur í.  Fjölskylda hennar hefur gengið í gegnum miklar hörmungar, maður hennar sem var fjármálamaður setti allt á hausinn, var fjárglæframaður, það tætir fjölskylduna í sundur og hún Jasmine heitir hún leitar á náðir systur sinnar sem
tilheyrir annarri stétt, hún er ekki rík, er á öðru menningarsviði ef maður segir svo, býr í fátækrahverfi að mati systurinnar.  Svo heldur harmleikurinn áfram í nýrri borg á nýjum stað, meira vil ég ekki segja.  Nema að þessi mynd var afargóð og leikur Cate Blanchett, áströlsku leikkonunnar víðfrægu, var þvílíkur að annað eins hef ég ekki séð lengi. Það er merkilegt að Woody Allen geti gert mynd sem hefur svo mikla stéttarlega og samfélagslega tilvísun.  

Svo komu nýju fréttirnar um samskipti Woodys og fyrrverandi uppeldisdóttur hans.  Einu sinni enn.   Við Íslendingar erum svosum orðin hagvön fréttum af kynferðisglæpum gegn börnum og unglingum. Það er meira að segja dæmt í þessum málum núorðið.  Lýsingarnar á framferði barnaníðinga eru ekki óþekkt fyrirbrigði en málið er ennþá hvort hægt sé að sanna á þá glæpinn. Oft koma glæpirnir upp úr sálartetrinu eftir mörg ár. Við viljum ekki að saklaust fólk lendi í fangelsi.  Ekki einu sinni þótt sumt geti bent til sektar.  Þannig er með Woody Allen.  Það er kjarngott að hafa hann á milli tannanna, selur vel í fjölmiðlum, þótt hann hafi ekki verið ákærður eða dæmdur.  Við höfðum nýlega dæmi í okkar litla þjóðfélagi í okkar litlu yfirstétt. Þar sem svipað gerðist, ákæra löngu eftir að atburðir gerðust, safamiklar lýsingar í slúðurblöðum, fjölskyldur í sárum.

 Og hvað eigum við að gera, fólkið úti í bæ?   Við sem höfum verið aðdáendur listamannsins eða stjórnmálamannsins?  Ég verð að viðurkenna að þetta hefur áhrif á mann þessar lýsingar, ég man að ég horfði öðrum augum á Íslendinginn sem fékk á sig árásirnar á eftir.  En ég var ekki tilbúinn að dæma hann samt endanlega.  Sama er um Woody ég hef verið aðdáandi kvikmyndalistar hans og orðsnilldar. Hann er einn af þessum snillingum af guðs náð, stundum pirrandi úr hófi, oftar gleðigjafi á erfiðum stundum í lífinu. En getum við dæmt hann, svona einn tveir og þrír án ákæru án dóms?   Gatan er búin að dæma hann, hvernig getur hann varið sig?  Það hafa ekki fleiri stigið fram og bent á hann. Á hann sér uppreisnar von? Eigum við að trúa því að heilt heilbrigðis og dómskerfi taki mál hans silkihöndum þar sem um er að ræða alkunnan einstakling  og er það sama hjá okkur?  

Ég veit það ekki, ég hef ekki spádómsgáfu.  Það er gott að hafa í huga glerhúsið og steinana.