fimmtudagur, 16. júlí 2015

Jónas, Einar og Murnau: Verjum helga jörð.

Ég sá í fréttum að hauskúpa eins merkasta kvikmyndaleikstjóra sögunnar hefði horfið úr fjölskyldugrafreit hans í útjaðri Berlínarborgar.  Leikstjórinn er Friedrich Wilhelm Murnau en hann dó í bílslysi fyrir aldur fram í bílslysi árið 1931.  Eftir hann liggja mörg stórvirki kvikmyndasögunnar eins og Nosferatu, Sunrise, Der Letzte Mann og Faust.  Þessar myndir voru sýndar fyrir nokkrum áratugum í Kvikmyndaklúbbi Framhaldsskólanna og eru allar ansi minnisstæðar enn þann dag í dag hjá mér.  Lögreglan í Þýskalandi halda að þarna geti verið á ferðinni eitthvað okkult á ferðinni vegna þess að Murnau gerði áhrifamestu hryllingsmynd sögunnar Nosferatu. 

Á sama tíma berast ógnvænlegar fréttir af atferli útlendinga við leiði helstu höfuðskálda þjóðarinnar á Heiðursgrafreit ríkisins á Þingvöllum.  Sem fullnægja dýrslegustu hvötum sínum á grafreitum Einars Benediktssonar og Jónasar Hallgrímssonar.  Skilja eftir sig saur og þvag og gefa sér ekki tíma að leita uppi hina mörgu Kamra Þingvallanefndar.  Vonandi fara þeir ekki að feta í fótspor grafræningja í Þýskalandi, að birtast með skóflur og haka og fara að ræna okkar ágætu listamenn.  Frakki Einars Benediktssonar  eða hauskúpa Jónasar yrðu fyrir bí.  Það gæti meira að segja komið í ljós að Frakkinn var ekki úr merkilegu efni og að það sannaðist að Jónas væri ekki Jónas eftir allt saman, grafræningjarnir gætu haft áhuga á DNA rannsóknum og þá gæti ýmislegt gerst, við fengum hina einu sönnu vitneskju um Jónas.  Eins og marga grunar.  Lesendur mínir vita auðvitað af ágreiningnum um flutning beina Jónasar frá Kaupmannahöfn til Þingvalla.  Sem Halldór Laxness gerði ódauðlegan í Atómstöðinni.  

Ég vil leggja til að Þingvallanefnd setji vörð um þennan helga stað þjóðar okkar.  Eða setji rafmagnsgirðingu umhverfis hann.  Svo legg ég til að DNA sýni verði tekin af öllum túristum sem koma til landsins svo við getum sektað hvern þann saurista og pissista sem svívirða heilaga jörð vora. 

miðvikudagur, 15. júlí 2015

Grikkland: Bankar skipta meira máli en fólk.

Mér er hugleikin þessa dagana, niðurstaða samninganna við Grikkland (sem eru kannski ekki enn frágengnir). 

Hnefahöggið sem Þjóðverjar veittu smáþjóð í Suður Evrópu á eftir að hafa í för með sér breyttar áherslur margra gagnvart ESB.  Nú kemur í ljós að það eru hinir stóru og sterku
peningaþursar sem ráða förinni og ætla að gera það.  Bankar skipta meira máli en fólk. 

 Hér eru tvær greinar, ólíkar um margt, önnur analýsa frá Stratfor Global Intelligence.  Hin skoðun frá Guardian um viðbrögð vinstri manna sem vildu aðrar áherslur en ráðamenn í Berlín og Brussel.  

Það var augljóst þegar fátækar þjóðir voru teknar inn í ESB að ýmislegt gæti gerst. Við höfum séð fátt af því hér heima á Íslandi í fréttum.   Mikil barátta hefur víða farið fram gegn spillingu og enn lifir spillingin víða.  En með Grikklandssamningunum hefur ýmislegt komið í ljós sem var okkur hulið.

Svo ýmislegt verður endurskoðað og hugsað upp á nýtt. 


þriðjudagur, 14. júlí 2015

Ísland og Grikkland : Tröll og dvergar

Nú höfum við horft á endalok Grikklandsævintýrisisins mikla.  Þar sem risarnir bjástruðu við litlabróður og skelltu honum sannkallaðri bræðrabyltu í forina. Með góðri aðstoð vina okkar Finna sem nú eru orðnir sannheilagir enda komnir með nýja ríkisstjórn þar sem Sannir Finnar
halda fast um pyngju og landamæri. Sænski Evrópusambandsþingmaðurinn Marita Ulvskog koma af stað stormi í vatnsglasi með þessum ummælum á Twitter um fjármálaráðherra Finna: 

Tja, det var killar som Alexander Stubb som mobbade min handikappade syster på skolgården. Eurokrisen avslöjar politik o politiker.
12:44 AM - 14 Jul 2015

Mér sýnist að samningarnir sem undirritaðair voru geri nú varla annað en að fá grísk yfirvöld til að hugsa sín mál. Svo yfirgengilegir eru skilmálarnir.  Og pressan sem sett var á Tsipras forsætisráðherra var ómanneskjuleg, þeir sem ímynda sér að það hefði verið einfalt fyrir grísku þjóðina að ganga út úr ESB vita lítið um fjármál og stjórnmál.  Economist orðaði það svona: 

That it seemed plausible for Mr Tsipras to have pulled a personal Grexit sheds light on the extraordinary pressure the prime minister faced during the all-night talks. At 6am, locked in discussions over a controversial privatisation fund with Angela Merkel, Germany’s chancellor, and François Hollande, the French president, Mr Tsipras did indeed come close to walking out. But spurred by pressure from Donald Tusk, the chair of the summit, the three eventually managed to forge a deal that could form the basis of a multi-billion-euro bail-out, Greece’s third in five years.

Það er ótrúlegt að horfa á þessar tölur sem verið er að ræða um Meira en 80 billjónir Evra, áttatíu þúsund milljarðar!  Hver er talan í íslenskum krónum?  Tólfmilljón milljarðar króna. Og Grikkir eru svipaðir af íbúafjölda og Svíar.  Skilaboðin virðast eiga að vera, fólk á að borga sínar skuldir.  Sem sumum virðist skiljanlegt en þá gleymist að það var ekki alþýðan í landinu sem tók þessi land, heldur kókainbrjálaðir bankamenn með æðisglampa í augum.  Og allir bankar stórveldanna voru nú aldeilis tilbúnir í tuskið. Við vorum líka til í lánaleikinn í Gullæðið, þessir venjulegu Jónar. Og stjórnmálamenn spiluðu með, allt varð brjálað á Íslandi þegar nokkrir stjórnmálamenn áttu að bera sína ábyrgð, og það eru ekki margar Evrópuþjóðir sem hafa dæmt sína bankamenn.  

En hvað kennir þetta okkur?  Íbúunum hér í norðri?  Við verðum að fylgjast með póltíkusum og fjármálamönnum.  Það er aldrei að vita hvenær þeir fara út fyrir rammann.  Gullið blindar margan manninn.  Margur verður af aurum api. Grikkir eru
litlir í þessum leik og þeir eiga að vera víti til varnaðar.  Það hefði aldrei verið ráðist á hina stærri.  Þeir litlu  eru teknir fyrir, það átti að taka okkur fyrir en sambland af heppni og ríkisstjórn  sem gat bitið frá sér þá tókst okkur að halda haus.  Enn eru margir sem verða að gjalda fyrir það sem rangt var gert, þar var erfitt að fóta sig við aðstæður sem aldrei höfðu gerst áður, þeir sem misstu húseignir sínar, hafa minni lífeyri og bætur.  

Það er enginn sem sér um að hugsa fyrir okkur, sú tíð hefur aldrei verið til.  Lýðræði felst í því að taka þátt og vera með.  Annars fáum við yfir okkur kreppur og hrun á nokkurra ára fresti. 

föstudagur, 10. júlí 2015

Glæpagengi Samfylkingarinnar

Nú hafa Íslendingar fundið nýtt fórnarlamb.  Samfylkingin er glæpamaður.  Og Guðfaðir klíkunnar er auðvitað prestssonur af Mýrum. Svo eru það Kratastelpa úr Kópavogi og stjórnmálfræðingur af Nesinu.  Það má ekki gleyma frænda mínum af Vesturgötunni.  Allt er þetta glæpahyski sem enginn vill kjósa á Alþingi.  


Já, lesendur góðir, pólitík er skrítin tík, aldrei að vita á hvern hún geltir né bítur.  Hún hróflar ekki við Ráðherranum sem seldi hlutabréfin sín árið 2008 þegar hann vissi meira en flestir.  Henni er alveg sama um Ráðherra sem úthlutar eiturverksmiðjum til vina sinna og ákveður hvenær rafmagn er til eða ekki.  Hún veit ekkert af Ráðherra sem heldur að allt verði betra í mennta og menningarmálum ef því er handstýrt af þeim sem hafa aldrei komið að slíkum málum. 

Já, lesendur góðir, tíkin atast í Ráðherrum smá sem elska gamalt og gott vasabókhald og sms. En sá Ráðherra virðist ekkert  taka eftir því fyrr en eftir næstu kosningar. Margir samráðherrar hans virðast eiga það sameiginlegt að brjóta niður lagaumhverfi og samþykktir Alþingis og verða alltaf jafn hissa þegar andstæðingar á Alþingi reyna að hindra það.

Já þetta er allt andskotans Samfylkingunni að kenna.  Þeir eyðilögðu Stjórnarskrána (hefði hún einhvern tíma komist í gegn?)  þeir ætluðu auðvitað að koma þjóðinni á vonarvöl af mannvonsku sinni.  Jóhanna Sigurðardóttir var ein versta kona sem alið hefur manninn á Íslandi.  Og með taglhnýtinginn Steingrím á hælum sér.  Sem gerðu allt rangt sem hægt er að hugsa sér.  Stóðu meira að segja fyrir því að fá Hagvöxt sem Sigmundur og Bjarni hafa hrósað sér af!  Ekki er hægt að hugsa sér ógeðlegra. 

Svo í næstu kosningum verðum við öll Píratar með hatt, sverð og lepp fyrir öðru auganu.  Þá verður allt breytt. Ætli við vinnum ekki í næstu ríkisstjórn með þessum glæpamönnum, eins og í Borgarstjórninni í Reykjavík. Ég hlakka svo til. Lífið verður dásamlegt.     





þriðjudagur, 7. júlí 2015

Tsipras, öflugur foringi á ólgutímum

Alexis Tsipras hefur sýnt sig að vera öflugur stjórnmálamaður og foringi.  Hann grípur til óvæntra bragða eins og þjóðaratkvæðagreiðslan var. Slær á ákveðinn hátt vopnin úr höndum ráðamanna í stóru ríkjum Evrópusambandsins.  Fær þjóðina að baki sér.  Engin líkindi að
honum verði sparkað. 

Úrelt hugmyndafræði hagfræðinga og ráðgjafa ríkisstjórna Frakka og Þjóðverja vekur furðu með Breta í fylgd sér, íhaldssömustu ríkisstjórnar Vestur-Evrópu.  Framfarasinnaðir hagfræðingar gefa þeim langt nef, Piketty, Krugman, Amartya Sen.  

Ekki sé ég ástæðu til að bera saman skuldir í lok Fyrri eða Seinni heimsstyrjaldar við ástandið í dag; það eru allt aðrar aðstæður.  En Grikkir eru ásamt mörgum öðrum fórnarlömb kolrangrar fjármálastefnu sem skapaði Hrunið mikla.  Við vorum þar líka, okkur tókst að reisa okkur við með harðri stjórn Jóhönnu og Steingríms, margir vilja ekki skilja hversu það var ótrúlegt starf.  Grikkir og ESB hafa eytt mörgum árum í endalaust þras og karp.  Ríkisstjórnin reisti okkur upp með aðgerðum sem oft voru óvinsælar, sumar rangar en það gerist oft á ólgutímum sem þessum.  En stjórnin kom okkur í hagvöxt sem var meiri en stóru þjóðirnar í Evrópu skáka sér af. 

Því er komin ástæða til að semja og fá hjólin til að rúlla á ný í Evrópu.  Til þess þarf framfarasinnaða hagstefnu og nýja ráðgjafa. 

fimmtudagur, 2. júlí 2015

Guðlast: Spegilmyndin af okkur

Jæja, nú getur maður farið að blóta guði. Ótrúlegasta ákvæði laga hjá okkur, ótrúlegt að einhver skuli hafa verð dæmdur á seinni hluta 20. Aldar og settur í fjárhagslegt tjón fyrir hárfínt og grimmdarlegt Guðlast.

Enn furðulegra að nokkrir Þingmenn skuli ekki hafa getað samþykkt að þurrka út þennan smánarblett  á mannréttindum á Íslandi.   Þetta er ein besta Siðbót seinni ára. Svo getur maður bætt um betur og lesið þetta öndvegisrit Úlfars Þormóðssonar sem tókst oft að vera ægifyndinn með samstarfsmanni sínum, Hjörleifi Sveinbjörnssyni ásamt fjölda leynipenna.

Svo lesendur góðir, þið sem eruð miður ykkar yfir sumarleyfi Alþingis, takið gleði ykkar á ný og lesið Spegilinn 2. Tbl og njótið frétta af stjórnmálamönnum, fermingarbörnum og klerkum, ekki svo slæm blanda, eins og dæmin sanna! Lífið er nú bara ansi gott.


föstudagur, 26. júní 2015

Drónar, tæki fyrir alla?

Ég hjólaði heim til mín úr sundi í vikunni þá var verið að starta hjólreiðakeppninni miklu á Laugardalsvellinum.  Mikil gleði og tónlistasukk, bassadrunur og diskó,  allir glaðir eins og vera ber, Íslendingar eiga að vera ánægði þjóð.  Þegar ég hjólaði suður fyrir Laugardalsvöll og hjólreiðamennirnir skelltu sér af stað það varð ég var við ókennileg hljóð fyrir ofan mig og leit upp.  

Þar var á ferðinni dróni (drónn), einhver að taka mynd af byrjun keppninnar.  Ég er nú ekki mikið á ferðinni nema helst í Laugardalnum svo ég hef ekki orðið var við svona tæki áðan.  En nú er þetta orðið söluvara hér í búðum eins og hver önnur vara.  

Ekki hef ég heyrt af lagasetningu hér á landi um notkun þessara tækja, hvað með ef útbreiðsla þessara tækja verður mikil?  Einhverjar bilanir og óhöpp verði?  Hvað ætli sé búið að selja mörg tæki eða koma með inn í landið?

Fróðleg og greinargóð lýsing er á byrjunarnotkun á þessum tækjum hér.  Þar segir um öryggi:

Gættu vel að þínu eigin öryggi og annarra. Alls ekki fljúga yfir byggð,  mannfjölda eða sjó og vötnum. Mér skilst að nokkrir drónar hafi endað ofan í Jökulsárslóni og þú vilt ekki að tækið þitt og myndavélin fái svipuð örlög. Þú vilt heldur ekki missa drónann þinn í höfuðið á einhverjum úr mikilli hæð. Dæmi eru um dauðsföll af þeim sökum.  Þessi tæki geta nefnilega dottið niður úr loftinu hvenær sem er.  Vertu því á öruggu svæði ekki síst á meðan þú ert að öðlast færni og reynslu.

Ég held að löggjafinn ætti að grípa fyrr en seinna inn í notkun á þessum tækjum.  Ef tæki fellur til jarðar t.d. í fjölmenni, myndi eigandinn gefa sig fram á stundinni, og taka fulla ábyrgð?  Væri ekki eðlilegt að tryggingar kæmu þar að?  Eru þetta tæki fyrir börn sem ég er viss um að gerist hjá efnuðu fólki?  Pössum okkur á að það verði ekki eftir slys og jafnvel dauða að við förum að gera eitthvað. Þetta eru ekki leiktæki í fjölmenni. 

Þetta er eitthvað fyrir innanríkisráðherra.......  

 https://www.youtube.com/watch?v=HlHwhaoUx4g&list=PLnDNI375T6AHU22Q4QpP7Vh9LGmgCVL4_