fimmtudagur, 18. júlí 2013

Heilbrigðiskerfið: Einkavæðing og jöfnuður?

Maður mátti svo sem búast við þessu.  En ansi er það samt sorglegt.  Um leið og hægri stjórn tekur völdin á Íslandi þá þarf að byrja að ræða um Einkavæðingu heilbrigiðiskerfisins.  Sem á að spara fyrir ríkið.  Kerfis sem flestir eru tiltölulega ánægðir með.   

Ekki að Kerfið sé fullkomið. Ó nei.  Það vitum við öll sem höfum þurft á því að halda.  En samt er það þannig að það er tiltölulega sveigjanlegt.  Maður getur skipt um lækni ef manni líkar ekki. Kerfið bregst fljótt og vel við í neyð. En biðraðir eru víða á aðgerðum.   Kerfið byggist  á mörgum og sterkum einkavæddum læknastofum, og ríkisreknum sjúkrastofnunum. Það er ekki ódýrt, mörg lönd í kringum okkur hafa langtum ódýrara kerfi fyrir almenning.  Ekki hefur gengið vel að semja við ýmsa hópa lækna, svo að við minnumst nú ekki á tannlækna.  Búseta skiptir ansi miklu máli, margir þurfa að fara langt til að leita þjónustu. En vinstri menn hafa verið fylgnir sér að halda upp rödd jafnaðar í þessu kerfi, það eru engar sjúkrastofnanir eða stofur sem eru bara fyrir betur stætt fólk, eins og Árni Páll segir í Fréttablaðinu í dag: 

En sporin hræða. Það tók mig og aðra samningamenn Samfylkingarinnar margar vikur að þvinga orðin „án tillits til efnahags“ inn í lagatextann. Grunnstefna okkar var þá sú sama og nú: Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu á ekki að leiða til aukins kostnaðar fyrir almenning eða að fólki verði mismunað um þjónustu eftir efnahag.

Ögmundur Jónasson er á sömu slóðum: 

Það er hreinlega rangt að bera saman ýmsa þætti opinberrar þjónustu og starfsemi flestra fyrirtækja. Vissulega verða opinberar stofnanir að reyna að laga sig að fjárhagnum. En þær starfa líka samkvæmt lögum og ber lagaleg skylda til að sinna tilteknum verkefnum. Eða hvað gerir bráðamóttakan þegar fjármunir eru uppurnir en jafnframt komið með konu í barnsnauð á bráðamóttöku eða ef fjöldaslys yrði? 

Og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir  bendir enn frekar á þetta  út frá sjónarhorni stjórnsýslusérfræðings: 

Spurningin er þessi, ráðherra: Hvert er markmið þitt með því að fela öðrum en ríkinu rekstur heilbrigðisþjónustu núna? Ef markmiðið er að halda betur utan um kostnaðinn í heilbrigðiskerfinu sýna allar rannsóknir að árangursríkustu kerfin í þessum efnum eru kerfi sem fjármagna þjónustuna með almennum sköttum og hafa starfsemina að mestu í opinberum rekstri. Ef markmiðið er hins vegar að skerpa á gæðum og öryggi þjónustunnar þá fjölga menn valkostum fyrir notendur með því að auka fjölbreytileika í rekstri til að kalla fram ákveðna eiginleika markaðarins. Leiðin að þessu marki leiðir hins vegar til kostnaðar sem erfiðara er að hafa stjórn á, eins og dæmin sanna. Markaður í heilbrigðisþjónustu er því marki brenndur að hann er ekki eins og almennur markaður og því þarf öflugri aðkomu hins opinbera með góðum stjórntækjum og virku eftirliti. Þess vegna, ráðherra, þarf að byrja á réttum enda.

Lagaramminn í kerfi okkar þarf að vera sterkur til að þessi jöfnuður sé til staðar. 

En það eru ýmsir annmarkar á þessu kerfi:   

Tannlæknageirinn hefur algjörlega brugðist. 
Augnaaðgerðir eru ansi dýrar og kostnaður við gleraugu getur verið ansi mikill.  
Heyrnartæki eru ofviða mörgum ellilífeyrisþegum og öryrkjum.   
Nýju lyfjalögin hafa jafnað lyfjakostnað en virðast hafa ýmsa annmarka.

Svo við fylgismenn jafnaðar þurfum að vera vel á verði og í stríði við hina óábyrgu ríkisstjórn sem laug sig inn á fólkið í landinu.
  
  






Engin ummæli:

Skrifa ummæli