Við erum merkilegir einstaklingar, við þessi þrjú hundruð og eitthvað þúsund.
Sem búum hér á eyjunni í norðri. Furðufygli.
Áhugamál okkar eru oft einstök. Eins og spurningin um upprunann. Hver erum við, hvaðan komum við? Í haust og vetur hefur Miðaldastofnun staðið fyrir fyrirlestrum vestur í Háskóla um Landnámið. Þar sem fræðimenn velta fyrir sér ótal hliðum þess hverjir hafi komið hingað fyrir meira en þúsund árum. Og áhugi hefur verið gífurlegur. Troðfullur fyrirlestrarsalur í hvert einasta skipti. Þar mæta bæði fræðimenn, nemendur og áhugamenn utan úr bæ.
Formið er skemmtilegt tveir fyrirlestrar í hvert sinni, með ólíkar áherslur,
Nú í seinustu viku fengum við frásögn af rannsóknarleiðangri Ólínu Þorvarðardóttur þar sem hún fetaði í fótspor Hrafna-Flóka og Gísla sögu. Hún gekk upp á Vestfjarðarhálendið úr Vatnsfirði eins og Flóki gerði forðum daga, að þvi er sagt er, og gaf landinu nafn; Ísland. Svo reyndi hún að fina melinn góða Sem Vésteinn og húskarlar fórust á mis sem gerði það að verkum að Vésteinn hélt áfram til Dýrafjarðar: Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar og svo framvegis. Þetta var líflegur flutningur hjá Ólínu, með myndum og myndböndum okkur til sönnunar.
Svo var Gísli Sigurðsson með fyrirlestur um sannanir Landnámu um landnámsmenn þar sem fram komu nýjustu hugmyndir í fræðunum um allt þetta fólk sem sagt er frá í Landnámu (Sturlubók og Hauksbók), var þetta fólk til, hvers vegna var sagt frá þessu fólki. Getum við ályktað og sannað út frá þessum frásögnum. Gísli var ansi skemmtilegur og sannfærandi. Líklega fáum við aldrei Stóra Sannleikann um það hvaðan við komum, en ansi er þetta viðfangsefni spennandi í okkar augum.
Svo við höldum áfram að mæta eftir áramót. Við fáum einhverja búta í Teppið. Kannski er þetta eitthvað fyrir þig lesandi minn góður. Við sjáumst þá í Odda í áramót.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli