laugardagur, 17. maí 2014

Hrunadans framsóknar

Framsóknarflokkurinn dansaði í þingsölum, samstjórnarþingmenn létu lítið fara fyrir sér,  forsætisráðherran tók heljarstökk, þegar frumvarpið var í höfn.  Stóru orðin voru ekki spöruð,  eins og Sigmundar er vandinn: 

„En þetta er upphafið að miklum framförum, efnahagslegum framförum, og viðspyrnu fyrir íslensk heimili. Undirstöðu íslensks samfélag og efnahagslífs. Því er þetta gleðiefni fyrir alla hópa samfélagsins og alla þingmenn.“

Það væri gleðileg ef þetta væri satt, ef öll þjóðin hefði sameinast um styðja þá sem mest þurfa á því að halda sem í raun og veru væru á ystu nöf.  En svo er ekki, því miður.  Það verða margir sem sjá fasteignaskuld sína lækka sem hvorki eiga það skilið né þurfa á því að halda.  Það verður líka fróðlegt að sjá hvort margir sækja ekki um þessa lækkun.  

Nei, þetta frumvarp sameinaði ekki þjóðina. 
Veldur ekki þáttaskilum í fjármálum okkar. 
Verður engin kjölfesta þjóðfélags okkar.

Það þarf meira til og markvissara:
  
Ljúka þarf að vinnu við Gjaldeyrishöftin, koma á eðlilegu samfélagi siðaðra manna.    
Koma þarf á vinnubrögðum sem bjóða ekki upp á verkföll mánuðina út.  
Ráðherrar þurfa að fara eftir lögum og vita takmörk sín. 
Við þurfum mynt sem einhver tekur mark á.
Þá verður bjartara yfir okkar landi og upplitsdjarfara fólk. 

Ég sá leikrit Millers Eldraunina í gærkvöldi.  Þar gat maður þekkt margt úr okkar samfélagi seinustu árin og áratugi.  Upphlaup, ýkjur, sorg, græðgi og svik.  Það er merkilegt hversu skáld geta lýst heimi okkar.  Þeir gera það betur en blaðrandi múgæsingapólitíkusar. 


Þingflokkur Framsóknar hoppaði af gleði

„Loksins!“ segir forsætisráðherra eftir að leiðréttingin var samþykkt á Alþingi




  

miðvikudagur, 14. maí 2014

Vilhjálmur Bjarnason: á öðrum fundi, í öðru landi......

á öðrum fundi 

í öðru landi 
með annað siðferði
 Það er gott að búa í Garðabænum ...


Þarf að segja meira? 

Vilhjálmur: „Ég var á öðrum fundi“

Brynjar kom inn fyrir Vilhjálm og sagði já.


„Ég var á öðrum fundi,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var ekki viðstaddur atkvæðagreiðslu á fundi efnahags- og viðskiptanefndar þar sem frumvarp um skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar var afgreitt úr nefndinni. Fundurinn var haldinn þann 9. maí síðastliðinn. Þingmaðurinn Brynjar Níelsson kom inn í nefndina í staðinn. Vilhjálmur vill ekki tilgreina á hvaða fundi hann var sem var mikilvægari en fundurinn þar sem atkvæði voru greidd um stærsta mál ríkisstjórnarinnar.
Naumur meirihluti 5 manna var fyrir því að samþykkja nefndarálit um skuldaniðurfellingarnar og var Brynjar einn þeirra sem greiddi atkvæði með því. Vilhjálmur hefur hins vegar lýst sig andsnúinn skuldaniðurfellingunum, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, og er ljóst að hann hefði ekki greitt atkvæði með álitinu líkt og Brynjar gerði. Í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í fyrra sagði Vilhjálmur meðal annars að hann teldi að ríkisstjórnin myndi ekki vita hvernig hún ætlaði að standa við kosningaloforð Framsóknarflokksins. „Menn taka hér áhættu og menn jafna áhættu og ríkið getur ekki tekið á sig áhættu allra. Enda er það algjör óþarfi, það eru allmargir sem eru í ágætis stöðu til að taka á sig þessa áhættu sem þeir tóku.“
Í byrjun apríl lýstu bæði Vilhjálmur og Pétur Blöndal, annar sjálfstæðismaður í efnahags- og viðskiptanefnd, að þær væru á móti frumvarpinu um skuldaleiðréttingar og myndu ekki styðja það. Þegar andstaða þeirra lá fyrir sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og annar meðlimur í efnahags- og viðskiptanefnd, meðal annars: „Það er sérstakt, það verður bara að segjast eins og er, að af þremur fulltrúum Sjálfstæðisflokks í nefndinni eru tveir á móti frumvarpinu. […] En það verður bara að koma í ljós hvernig við vinnum þetta saman í nefndinni.“
Sökum þess að Brynjar kom inn í nefndina sem varamaður Vilhjálms náðist fimm manna meirihluti fyrir áliti nefndarinnar og eftirfarandi orðum: „Með frumvarpinu er komið til móts við heimilin í landinu með almennum aðgerðum sem ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra lána án þess að fórna sjálfbærni og stöðugleika við stjórnun ríkisfjármála. Það hefur verið forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að finna lausnir á skuldamálum heimilanna. Með frumvarpinu er stigið mikilvægt skref á þeirri braut og því ber að fagna. Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt… “
Vilhjálmur Bjarnason hefði ekki samþykkt þessi orð og ef hann hefði mætt á fundinn þá hefðu einungis fjórir af níu nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd samþykkt álitið. Pétur Blöndal skilaði séráliti, líkt og komið hefur fram. Því hefði minnihluti nefndarmanna samþykkt það og álitið hefði ekki kallast álit meirihlutans heldur álit 1. minnihluta. Slíkt niðurstaða hefði varla verið ásættanleg.(dv.is)

mánudagur, 12. maí 2014

Hvað er að gerast: x-D leggst af !!!!!!!

Hvað er að gerast, x-D leggst af í heilum byggðarlögum!!!! Við erum harmi slegin. 

Vopnafjarðar-sjallar deyja út, 5 mæta á fund.  Ekki hægt að koma saman lista.  Flestir 
Sjálfstæðismenn sem eftir eru, orðnir ellilífeyrisþegar.  Það er nú engin furða var ekki lofað
bullandi gangi á norðausturhluta landsins ef x-D, x-B næður völdum.  Svo, hvað hefur gerst ekkert hreyfist ennþá í stóriðjufléttunni miklu, ekkert á þessu ári. Ragnheiður Elín leitar övæntingarfull 

að erlendu fjármagni, Hanna Birna með stöðu flóttamanns, Bjarni reynir að fela aflandsskattaskýrslur og Illugi spilar á píanó!! Enginn veit hvað Kristján er að gera.   

Yngra fólkið aðhyllist nýju flokkana, Pírata og Bjarta Framtíð.  xS er á uppleið.   Svo kjörkjarni xS er kominn í 10 -15 %.  Nema í auðmannanýlendunum í Garðabæ og Seltjarnarnesi.  

Svo hvað er til ráða, þarf flokkurinn ekki að senda sterkan hugmyndagaur austur sem getur rifið upp fylgið. Þetta er orðið skömm.  Í kjördæmi sem höfuðfyrirtæki flokksins byggði upp blómlegar
 verksmiðjur.  Væri ekki ráð að senda Hannes Hólmstein til að hrista upp í löskuðum heilasellum Vopnafjarðarbúa. Það vantar sterka hugmyndafræði á landsbyggðina.  
_________________________________



Sjálfstæðismenn bjóða ekki fram: „Mættu bara fimm á fundinn“


Þrjú framboð bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum í Vopnafjarðarhreppi. Framboðin eru Framsóknarlokkur, K-listi félagshyggjufólks og Ð-listi Betra Sigtúns. Athygli vekur að Sjálfstæðismenn sem buðu fram árið 2010 bjóða ekki fram í komandi kosningum. 

Björn Hreinsson, oddviti Sjálfstæðismanna í síðustu sveitarstjórnarkosningum sagði í samtali við Vísi að ekki hafi fundist nægilega margir Sjálfstæðismenn til að setjast á lista hjá flokknum í hreppnum. „Við auglýstum fund þar sem átti að fara yfir málið og boðuðum til hans en það mættu bara fimm á fundinn svo við gátum ekki boðið fram að þessu sinni,“ sagði Björn Hreinsson. 

Um ástæður þess sagði Björn: „Stærstur hluti Sjálfstæðismanna í bænum eru ellilífeyrisþegar svo við erum ekki með nægilega marga til að leggja í það að bjóða fram, því miður.“ 

Því er ljóst að þrjú framboð bjóða fram. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem býður fram undir merkjum flokks á Landsvísu. K-listi samanstendur af félagshyggjufólki á vinstri væng stjórnmálanna. Betra Sigtún er nýtt framboð ungs fólks í hreppnum. (visir.is)

laugardagur, 10. maí 2014

Lekamálið: Hanna Birna fórnarlambið eina sanna

Oft hefur maður velt fyrir sér hvað orðið hafi um brottræka flóttamenn.  Ekki er ég  bara að tala um gjörðir í tíð Hönnum Birnu heldur líka frá fyrri ráðherrum bæði á hægri og vinstrikannt stjórnmálanna. Eftir að hafa látið þetta fólk bíða í tvö þrjú ár og þá senda það burt þrátt fyrir að dómsmál sé í gangi. Það væri fróðlegt ef einhver aðili gæti sagt okkur örlög aftursendra flóttamanna. 

 Í frétt DV kemur í ljós að Tony reikar um slóðir Evrópu, Sviss var upprunaland hans sem hann var sendur til, en núna er hann á Ítalíu.  Fjárvana og með engin réttindi nema að senda hann heim í góssenlandið Nígeríu sem hefur aldeilis verið í fréttum seinustu vikurnar. Evelyn er auðvitað í sárum nýbúin að fæða.  Barnsfaðirinn sendur úr landi fyrir fæðinguna.  Athyglisvert er að samkvæmt heimildum blaðsins er flest sem Tony hefur sagt rétt eftir ítarlega rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum.  

Merkilegt er að ráðherrann lítur á sjálfa sig sem aðalfórnarlamb þessa máls.  Það er nú sjálfhverfni af hæstu gráðu.  Það eru sumir sem kunna ekki að skammast sín.  Þegar búið er að sýna fram á að allt þetta málastapp varð til í ráðuneyti innanríkisráðherra.  Það er ekki hægt að halda því fram að siðferði íslenskra stjórnmála sé á háu stigi.  


      











Listir: Öll eigum við Askhenazy


Askhenazy, við eigum hann öll.  Það er að segja við Íslendingar. Það er merkileg, þessi saga um útlendinga sem við eignum okkur, sem tengjast okkur á einhvern hátt og verða okkar.Eins og Vladimir gerði með sambandi sínu við hana Þórunni. Ein af ástarsögum aldarinnar.  Uppgangur nazista ýtti til okkar snillingum tónlistar eins og Urbanitch fjölskyldan sýnir okkur sem hefur verið í fréttum seinustu mánuði.  Róbert Abraham Ottóson ól upp tónlistarkynslóðir.  Flóttamenn frá fátækt og kúgun Austur-Evrópu kenndu ótal nemendum undirstöðu tónlistar um allt land.  Svona mætti lengi telja.  





Hann mætti í Hörpu í gær. Sem hann tók þátt í að reisa.  Léttur á fæti eins og endranær.  Hljóp  inn og út af sviðinu, stormaði meira að segja framhjá stúlkunni með blómavöndinn.  Sneri þó aftur til að taka á móti honum. Hljómsveitin var frábær í flutningi sínum á Rachmaninoff, Mussorgsky og Brahms.  Ólafur Kjartan hans Didda fiðlu brást okkur ekki, hann var svo dásamlega rússneskur í söng sínum.  Hann hefur þroskast í vinnu sinni í útlöndum.  Er öruggur, kraftmikill og frábær í túlkun sinni á Söngvunum og dönsunum um dauðann.  Hljómsveitin leiddi hann áfram undir stjórn meistarans.   Svo var Brahms númer eitt meiri háttar, bæði björt og hrein, svo djúp og sorgmædd. Allir þessir lagbútar, sem tengjast saman af samspili strengja, tréblástursleikara, horna, páku og málmblásara.  Salurinn skildi þessa snilld, allir fóru heim glaði og reifir.  Tón - list gefur manni svo mikið.  Maður hleður batteríin, þótt að það sé erfitt að koma sér upp og niður stiga með veik hné.  Lífið er gott. 

Askhenazy sýnir líka svo vel hvernig við þjóðirnar  í Evrópu tengjumst saman, það er saga seinustu aldar, saga Gyðinga, þjóða, menningar, lista, stjórnmála.  Það er enginn sem getur lifað aleinn, alls staðar eru þræðir sem tengja okkur. Draumurinn um einmanaleika um sérstöðu er svo óraunverulegur.  Við höfum fengið þetta fólk, tengst því, svo er það okkar. 

Askhenazy er okkar.  Það eiga margir fleiri eftir að koma. Sem við eignum okkur.  Listin á sér engin takmörk. Listin er eilíf. 


fimmtudagur, 8. maí 2014

miðvikudagur, 7. maí 2014

deCODE: Lífsýni mitt og þitt ....

Ég var einn af þeim mörgu sem ekki vildu leggja lag mitt við Íslenska erfðagreiningu forðum.  Sem er ein magnaðasta svikamylla sem risið hefur hérlendis. Margir töpuðu ævisparnaði sínum ef græðgin var nógu mikil, því enginn var neyddur að fjárfesta.  Og enn fara þeir af stað. Nú vilja þeir lífsýni Íslendinga.  Gífurleg auglýsingaherferð alþekkt andlit stíga fram á völlinn.  Maður saknar samt ýmissa andlita eins og Davíðs nokkurs sem var guðfaðir þessarar myllu.  Nú er Björgunarsveitunum att fram á fjárvöllinn og hver ætti ekki að leggja lið? 

Það eru mörg ár liðin síðan Kári sá merki gaur eins og nafni hans myndi segja kom, sá og sigraði og loks tapaði.   Hann var gleyptur með húð og hári af amerísku fyrirtæki. Þegar fjármunir ÍE kláruðust.    Og Íslensk erfðagreining/deCode genetics er undirfyrirtæki þessa ameríska lyfjarisa eins og stendur í upplýsingum um fyrirtækið (aðeins á ensku): 

Headquartered in Reykjavik, Iceland, deCODE is a global leader in analyzing and understanding the human genome. Using our unique expertise and population resources, deCODE has discovered key genetic risk factors for dozens of common diseases ranging from cardiovascular disease to cancer.
deCODE genetics is a subsidiary of Amgen.
Sjálfsgagnrýni hefur aldrei verið sterkasta hlið Kára Stefánssonar, deCODE er leiðandi á heimsvísu. Hann er fastur fyrir í viðtölum í fjölmiðlum.  Er sjarmerandi og glæsilegur á velli. En ..... þetta fyrirtæki er bara eitt af mörgum undirfyrirtækjum Amgen.  Og starfar sem slíkt.  Sérstaða þess sem snýr að okkur er að það starfar á Íslandi með hátt hlutfall íslenskra starfsmanna (þó fann ég ekki upplýsingar um hlutfall starfsmanna milli landa) og 140.000 landar okkar hafa tekið þátt í rannsóknarverkefnum af 500.000 manns alls.  Svo það stefnir í áttina að alþjóðlegu fyrirtæki.  The working language at deCODE is English. Allir tala þarna ensku í vinnunni sem auðvitað í samræmi við eignarhaldið.   
Svo hver er afstaða mín í dag 18 árum eftir stofnun fyrirtækisins. Ég held að ég taki ekki þátt í svo óljósu ferli sem er að gefa lífsýni án nokkurra annarra upplýsinga.  Ég gæti hugsað mér að taka þátt í einhverju afmörkuðu og skýru rannsóknarverkefni ef mér stæði það til boða. Ég myndi taka afstöðu til þess ef til kæmi.  En að leggja fram lífsýni án þess að vita nokkuð sem er eingöngu til að auka arð þessa ameríska risa  ....... æ nei. Ég held að ég breyti ekki afstöðu minni.  
Hér er skemmtileg saga að lokum:  Ég var einu sinni út í Barcelona, tók kláfferju neðan af hæðinni þar sem Olympíuvangurinn er. Við lentum í klefa með tveim ungum amerískum stúlkum á háskólaaldri. Við tókum tal og þær spurðu hvaðan við kæmum og þegar þær heyrðu að við værum íslensk þá lifnaði yfir þeim.  Like Stefansson.  sögðu þær, ha við veltum því fyrir okkur. Yes Stefansson, we saw him here in Barcelona yesterday.  Þá rann upp fyrir okkur. Stefánsson, auðvitað Kári.  Hann hafði komið með sömu flugvél og við fyrir nokkrum dögum.  Og þær amerísku stúlkurnar sögðu að þær hefðu farið á fyrirlestur í Harvard háskóla í Boston þar sem Kári messaði yfir háskólafólki.  Hann hafði sjarmerað þær upp úr skónum.  Þá list kann hann !!!!!  Já, Kári er víðfrægður maður.